Átti Abraham úlfalda?
ÚLFALDAR voru meðal þess búpenings sem Abraham fékk frá faraó, að sögn Biblíunnar. (1. Mós. 12:16) Þegar þjónn Abrahams lagði upp í langferð til Mesópótamíu tók hann með sér „tíu úlfalda af úlföldum húsbónda síns“. Það kemur því greinilega fram í Biblíunni að Abraham hafi átt úlfalda um 2000 árum f.Kr. — 1. Mós. 24:10.
Þetta er ekki viðurkennt af öllum. Í New International Version Archaeological Study Bible stendur: „Fræðimenn hafa deilt um trúverðugleika þessara frásagna um úlfalda vegna þess að flestir álíta að þessi dýr hafi ekki almennt verið tamin fyrr en um það bil 1200 f.Kr., löngu eftir daga Abrahams.“ Allar staðhæfingar í Biblíunni um úlfalda fyrir þann tíma voru því álitnar tímaskekkja.
Aðrir fræðimenn halda því hins vegar fram að jafnvel þótt úlfaldar hafi ekki verið tamdir að marki fyrr en rúmlega 1000 árum f.Kr. þýði það ekki að úlfaldar hafi ekki verið notaðir fyrr. Í bókinni Civilizations of the Ancient Near East segir: „Nýlegar rannsóknir benda til þess að byrjað hafi verið að temja úlfalda í suðausturhluta Arabíu einhvern tíma á þriðju árþúsund f.Kr. Upphaflega hafa úlfaldar sennilega verið aldir vegna mjólkurinnar, hársins, húðarinnar og kjötsins en fljótlega hefur fólk eflaust uppgötvað nytsemi þeirra sem burðardýra.“ Beinabrot og aðrar fornleifar virðast styðja það að úlfaldar hafi verið tamdir fyrir daga Abrahams.
Einnig eru til skriflegar heimildir. Í sömu bók segir: „Á fleygrúnatöflum í Mesópótamíu er minnst á skepnuna [úlfaldann] og til eru innsigli með úlfaldamyndum. Það bendir til þess að úlfaldinn hafi verið kominn til Mesópótamíu fyrir um 2000 árum f.Kr.“, sem sagt þegar Abraham var uppi.
Sumir fræðimenn telja að kaupmenn frá Suður-Arabíu, sem versluðu með reykelsi og fleira, hafi notað úlfalda til að flytja vörur sínar norður yfir eyðimörkina. Fólk hafi því kynnst úlfaldanum þar sem þeir fóru um á leið sinni til svæða eins og Egyptalands og Sýrlands. Slík viðskipti voru sennilega orðin algeng um 2000 f.Kr. Það er athyglisvert að í 1. Mósebók 37:25-28 er talað um Ísmaelíta sem notuðu úlfalda til að flytja reykelsi til Egyptalands. Þetta var um hundrað árum eftir tíma Abrahams.
Kannski voru úlfaldar ekki almennt notaðir um 2000 árum f.Kr. á meðal fornþjóða í Austurlöndum nær en heimildir staðfesta að þeir voru ekki algjörlega óþekktir. Í The International Standard Bible Encyclopedia segir þess vegna: „Það þarf ekki lengur að líta á það sem tímaskekkju að minnst sé á úlfalda í frásögum af ættfeðrunum þar sem nóg er til af fornfræðilegum sönnunum fyrir því að úlfaldinn hafi verið taminn fyrir tíma ættfeðranna.“