Hefur þú ódauðlega sál?
Erum við aðeins hold og blóð? Eða erum við eitthvað annað og meira en bara frumefnin sem við erum gerð úr? Er þetta líf allt og sumt? Eða heldur einhver ósýnilegur hluti af okkur áfram að lifa eftir dauðann?
TRÚARBRÖGÐ heims halda á lofti ýmsum ólíkum kenningum um framhaldslíf en flest þeirra eru samt sammála um eina meginhugmynd: Eitthvað innra með manninum er ódauðlegt og heldur áfram að lifa eftir dauðann. Margir trúa því að þetta „eitthvað“ sé sál. Hverju trúir þú? Erum við að hluta til hold og að hluta til sál? Hvað er sál? Hafa mennirnir ódauðlega sál? Það er mjög mikilvægt að við vitum sannleikann um það hvað við erum.
„Þannig varð maðurinn lifandi sál“
Er „sálin“ einhver hluti af manninum sem yfirgefur líkamann við dauðann og lifir áfram? Í orðaskýringum í íslensku biblíunni frá 1981 segir um orðið sál: „Merkir persónuna alla, líkama og anda mannsins.“ Í 1. Mósebók 2:7 segir til dæmis: „Þá myndaði Drottinn Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál.“ Fyrsti maðurinn, Adam, var sál.
Fleiri vers í Biblíunni styðja þá hugmynd að orðið „sál“ geti þýtt maðurinn sem heild. Í Biblíunni er til dæmis talað um að sálin geti verið þyrst og svöng. (Jeremía 31:25) Einnig er talað um ráðþrota sál, að sálin örmagnist, eitthvað angri hana, hún tárist af trega og finni til ótta. (5. Mósebók 28:65; 1. Samúelsbók 2:33; Jobsbók 19:2; Sálmur 119:28; Postulasagan 2:43, Biblían 1912) Í Postulasögunni 2:41 er talað um sálina sem manninn sjálfan: „Þeir, sem veittu orði hans viðtöku, voru skírðir, og þann dag bættust við um þrjú þúsund sálir.“ Og í 1. Pétursbréfi 3:20 segir: „Á dögum Nóa . . . frelsuðust fáeinar — það er átta — sálir í vatni.“ Ekkert í þessum ritningarstöðum gefur til kynna að sálin sé einhver óáþreifanleg vera sem lifi áfram eftir dauðann.
En hvað um dýr og plöntur? Eru þau sálir? Taktu eftir hvað segir í 4. Mósebók 31:28: „Þú skalt taka í skattgjald Drottni til handa . . . eina sál af hverjum fimm hundruðum — af mönnum, nautgripum, ösnum og smáfénaði.“ Allar lifandi sköpunarverur, hvort sem þær eru menn eða dýr, eru því sálir. Í Biblíunni er ekki talað um plöntur sem sálir.
Orðið „sál“ er einnig notað í öðrum skilningi. Í Jobsbók 33:22 segir: „Sál hans nálgast gröfina og líf hans engla dauðans.“ Hér eru orðin „sál“ og „líf“ notuð sem samheiti og styðja merkingu hvort annars. „Sál“ getur því líka merkt líf mannsins. Davíð sagði til dæmis í einum af sálmum sínum: „Þú hefir frelsað sál mína frá dauða.“ (Sálmur 56:14) Það var auðvitað líf Davíðs sem Jehóva Guð frelsaði frá dauðanum. Í einni af dæmisögum Jesú kemur svipuð hugmynd fram. „En Guð sagði við [ríka manninn]: ‚Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín [líf þitt] af þér heimtuð.‘ “ — Lúkas 12:20.
Biblían notar orðið „sál“ á einfaldan hátt og er alltaf samkvæm sjálfri sér. Orðið er notað um menn eða dýr og líf manna eða dýra. Eins og við munum sjá kemur þessi skilningur heim og saman við það sem Biblían segir að verði um sálina við dauðann.
„Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja“
Í Biblíunni segir: „Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja.“ (Esekíel 18:4) Rétt áður en Samson dó sagði hann: „Deyi nú sála mín með Filistum!“ (Dómarabókin 16:30) Enn fremur segir í Jakobsbréfinu 5:20: „Hver sem snýr syndara frá villu vegar hans mun frelsa sálu hans frá dauða.“ Já, sálin deyr þegar maðurinn deyr, hún er ekki ódauðleg. Því má segja um mann sem deyr að sál hans deyi.
En hvers vegna er þá komist svo að orði í Biblíunni að sálin fari út og komi til baka? Þegar Rakel eignaðist son segir samkvæmt frummálinu að ‚er sál hennar hafi verið að fara út (því að hún dó) hafi hún nefnt son sinn Benóní, en faðir hans nefndi hann Benjamín‘. (1. Mósebók 35:18) Í 17. kafla 1. Konungabókar er greint frá þeim atburði þegar Elía spámaður reisti upp son ekkju nokkurrar. Þar segir: „Drottinn heyrði bæn Elía, og sál sveinsins kom aftur í hann, svo að hann lifnaði við.“ (1. Konungabók 17:22) Er hægt að draga þá ályktun af þessum ritningarstöðum að eitthvert óljóst fyrirbæri geti farið út af líkamanum eða snúið aftur til hans?
Munum að orðið „sál“ getur þýtt „líf“. Sál Rakelar var því að fara út vegna þess að líf hennar var að fjara út. Í sumum biblíuþýðingum er setningin ‚sál hennar var að fara út‘ einmitt þýdd „líf hennar fjaraði út“ (Knox), „hún dró andann í síðasta sinn“ (Jerusalem Bible) og „hún var í andlátinu“ (Biblían 1981). Hið sama er að segja um son ekkjunnar. Það var líf drengsins sem kom aftur til hans og hann lifnaði við. — 1. Konungabók 17:23.
Eðli mannsins
Það er alveg augljóst af Biblíunni hvað maðurinn er. Hann hefur ekki sál heldur er hann sál. Eina vonin um að hinir dánu fái líf í framtíðinni er því sú að þeir verði reistir upp frá dauðum. Í Biblíunni er okkur lofað: „Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust [Jesú] og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins.“ (Jóhannes 5:28, 29) Eina örugga vonin um að hinir dánu lifni á ný er fólgin í þessu loforði um upprisu — en ekki kenningunni um ódauðleika sálarinnar.
Það er þess vegna mjög mikilvægt að afla sér nákvæmrar þekkingar um upprisuna og þýðingu hennar fyrir mannkynið. Það er líka nauðsynlegt að þekkja Guð og Jesú því að Jesús sagði í bæn til föður síns: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Vottar Jehóva eru fúsir til að hjálpa þér við að fræðast um Biblíuna þannig að þú getir kynnst Guði, syni hans og loforðum enn betur. Þér er velkomið að hafa samband við þá eða skrifa útgefendum þessa blaðs.
[Myndir á blaðsíðu 4]
Þau eru öll sálir.
[Credit line]
Geit: CNPC — Centro Nacional de Pesquisa de Caprinos (Sobral, CE, Brasil)