Hvernig bjargar lausnargjaldið okkur?
„Sá sem trúir á soninn hefur eilíft líf en sá sem óhlýðnast syninum mun ekki öðlast líf heldur varir reiði Guðs yfir honum.“ — JÓH. 3:36.
1, 2. Hver var ein af ástæðunum fyrir því að þetta tímarit hóf göngu sína?
„ÞAÐ getur ekki annað en snortið áhugasaman biblíunemanda hvílík áhersla er lögð á dauða Krists.“ Þessi orð er að finna í fjórða tölublaði þessa tímarits, í október 1879. Greininni lauk á alvarlegum nótum: „Gætum þess að gera ekki lítið úr eða hafna því að Kristur hafi fórnað lífi sínu til að friðþægja fyrir syndir.“ — Lestu 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2.
2 Það var meðal annars til að verja kenningu Biblíunnar um lausnargjaldið sem þetta tímarit hóf göngu sína í júlí árið 1879. Það hafði að geyma „mat á réttum tíma“ því að síðla á 19. öld voru margir, sem kölluðu sig kristna, farnir að efast um að dauði Jesú gæti friðþægt fyrir syndir okkar. (Matt. 24:45) Margir höfðu á þeim tíma fallið fyrir þróunarkenningunni, en hún stangast á við þá staðreynd að maðurinn hafi glatað fullkomleika sínum. Þróunarsinnar kenna að manninum fari fram af sjálfsdáðum og að engin þörf sé fyrir lausnargjald. Það átti því vel við að Páll skyldi skrifa Tímóteusi: „Varðveit það sem þér er trúað fyrir og forðast hinar vanheilögu hégómaræður og mótsagnir þeirrar speki sem svo er rangnefnd og nokkrir hafa játast undir og orðið frávillingar frá trúnni.“ — 1. Tím. 6:20, 21.
3. Hvaða spurningar verða skoðaðar í þessari grein?
3 Þú ert eflaust staðráðinn í að verða ekki ,frávillingur frá trúnni‘. Til að láta það ekki gerast er gott að skoða eftirfarandi spurningar: Af hverju þarf ég á lausnargjaldinu að halda? Hvað kostaði það Jehóva og Jesú? Hvernig get ég notið góðs af þessari dýrmætu ráðstöfun Guðs og bjargast frá reiði hans?
Bjargað frá reiði Guðs
4, 5. Hvað sýnir að reiði Guðs hvílir yfir illu heimskerfi nútímans?
4 Af Biblíunni og mannkynssögunni má sjá að reiði Guðs hefur hvílt yfir mannkyninu allt frá syndafalli Adams. (Jóh. 3:36) Það er ljóst af því að enginn maður hefur getað umflúið dauðann. Þótt Satan, keppinautur Jehóva, fari með völd yfir mannkyni hefur honum ekki tekist að hlífa því við sífelldum hörmungum, og engin ríkisstjórn hefur getað fullnægt frumþörfum allra þegna sinna. (1. Jóh. 5:19) Mannkynið er því plagað styrjöldum, glæpum og fátækt.
5 Það er því deginum ljósara að Jehóva veitir ekki núverandi illu heimskerfi blessun sína. Páll sagði að ,reiði Guðs opinberaðist af himni yfir öllu guðleysi‘. (Rómv. 1:18-20) Þeir sem lifa óguðlega og iðrast einskis geta því ekki umflúið afleiðingar gerða sinna. Reiði Guðs kemur fram í dómsboðskap sem er úthellt eins og plágum yfir heim Satans, og þessi boðskapur birtist í mörgum af þeim biblíutengdu ritum sem við gefum út. — Opinb. 16:1.
6, 7. Um hvað hafa hinir andasmurðu forystu og hvað stendur enn til boða þeim sem tilheyra heimi Satans?
6 Er þá um seinan fyrir fólk að brjótast undan valdi Satans og hljóta velþóknun Guðs? Nei, enn er tími til að sættast við Jehóva. Andasmurðir kristnir menn eru ,erindrekar Krists‘ og hafa forystu um að hvetja fólk af öllum þjóðum: „Látið sættast við Guð.“ — 2. Kor. 5:20, 21.
7 Páll postuli sagði að Jesús myndi „frelsa okkur frá hinni komandi reiði“. (1. Þess. 1:10) Þegar Jehóva gefur reiði sinni útrás verður iðrunarlausum syndurum útrýmt í eitt skipti fyrir öll. (2. Þess. 1:6-9) Hverjir komast undan? Í Biblíunni segir: „Sá sem trúir á soninn hefur eilíft líf en sá sem óhlýðnast syninum mun ekki öðlast líf heldur varir reiði Guðs yfir honum.“ (Jóh. 3:36) Öllum sem eru á lífi og trúa á Jesú og lausnargjaldið verður þyrmt þegar þetta heimskerfi líður undir lok á reiðidegi Guðs.
Hvernig virkar lausnargjaldið?
8. (a) Hvaða framtíð blasti við Adam og Evu? (b) Hvernig reyndist Jehóva fullkomlega réttlátur?
8 Adam og Eva voru sköpuð fullkomin. Ef þau hefðu hlýtt Guði væri jörðina paradís og þau byggju þar núna ásamt hamingjusömum afkomendum sínum. En því miður brutu þau vísvitandi gegn fyrirmælum Guðs. Þar af leiðandi voru þau dæmd til eilífs dauða og voru rekin úr paradís. Þegar að því kom að Adam og Eva eignuðust börn hafði syndin sett mark sitt á mennina og þau hjónin hrörnuðu smám saman og dóu að lokum. Það sannar að Jehóva stendur við orð sín. Og hann er líka fullkomlega réttlátur. Hann hafði varað Adam við því að borða forboðna ávöxtinn, ella myndi hann deyja. Og það fór svo.
9, 10. (a) Af hverju deyja afkomendur Adams? (b) Hvernig getum við losnað undan dauðanum?
9 Við erum afkomendur Adams og höfum fengið í arf ófullkominn líkama sem hættir til að syndga, og að lokum deyjum við. Þegar Adam syndgaði vorum við enn í lendum hans ef svo má að orði komast. Dauðadómurinn yfir honum náði því einnig til okkar. Jehóva gengi á bak orða sinna ef hann sneri við dauðaferlinu án þess að greitt væri lausnargjald. Páll talaði í rauninni fyrir munn okkar allra þegar hann sagði: „Vitað er að lögmálið er andlegt en ég er jarðneskt hold, í greipum syndarinnar. Ég aumur maður! Hver frelsar mig frá þessum dauðans líkama?“ — Rómv. 7:14, 24.
10 Enginn nema Jehóva Guð gat skapað lagalegar forsendur fyrir því að hann gæti með réttu fyrirgefið syndir okkar og frelsað okkur undan eilífum dauðadómi. Það gerði hann með því að senda elskaðan son sinn frá himnum og láta hann fæðast fullkominn svo að hann gæti gefið líf sitt sem lausnargjald fyrir okkur. Jesús varðveitti fullkomleikann, ólíkt Adam. „Hann drýgði ekki synd.“ (1. Pét. 2:22) Jesús var því fær um að geta af sér fullkomið mannkyn. Hann kaus hins vegar að leyfa óvinum Guðs að taka sig af lífi til að hann gæti gengið syndugum afkomendum Adams í föðurstað og gert þeim sem trúa á hann kleift að hljóta eilíft líf. Í Biblíunni segir: „Einn er Guð. Einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús sem gaf sjálfan sig til lausnargjalds fyrir alla.“ — 1. Tím. 2:5, 6.
11. (a) Lýstu með dæmi hvernig við getum notið góðs af lausnargjaldinu. (b) Hve langt nær lausnargjaldið?
11 Lýsum með dæmi hvernig lausnargjaldið virkar. Fjölskyldufaðir hleypst á brott frá konu og börnum og þau sitja uppi með háar skuldir sem hann hefur stofnað til með spilltu líferni sínu. Þau hafa ekkert til saka unnið en sjá enga leið út úr vandanum. Þá lætur afi barnanna til sín taka og greiðir upp skuldirnar svo að fjölskyldan geti hafið nýtt líf. Jehóva Guð og ástkær sonur hans hafa á svipaðan hátt keypt afkomendur Adams og fellt niður syndaskuldina á grundvelli blóðsins sem Jesús úthellti. Það var þess vegna sem Jóhannes skírari gat sagt um Jesú: „Sjá, Guðs lamb sem ber synd heimsins.“ (Jóh. 1:29) Og það eru ekki aðeins syndir hinna lifandi sem Jesús tekur á sig heldur einnig hinna dánu.
Hvað kostaði lausnargjaldið Jehóva og Jesú?
12, 13. Hvað má læra af því að Abraham skyldi vera fús til að fórna Ísak?
12 Það er engin leið fyrir okkur að skilja til fullnustu hvað lausnargjaldið kostaði föðurinn á himnum og elskaðan son hans. Hins vegar er að finna frásögur í Biblíunni sem geta auðveldað okkur að skilja það að einhverju leyti. Hugsaðu þér til dæmis hvernig Abraham hlýtur að hafa verið innanbrjósts á þriggja daga ferð sinni til Móría eftir að Guð sagði honum: „Tak þú son þinn, einkason þinn sem þú elskar, hann Ísak, og far þú til Móríalands og fórna honum sem brennifórn á því fjalli sem ég mun vísa þér á.“ — 1. Mós. 22:2-4.
13 Abraham kom loks á áfangastað og reisti þar altari. Hugsaðu þér hve átakanlegt það hlýtur að hafa verið fyrir hann að binda Ísak á höndum og fótum og láta hann leggjast á altarið. Það hlýtur að hafa verið óendanlega erfitt fyrir hann að lyfta hnífnum sem hann ætlaði að nota til að deyða son sinn. Hugsaðu þér hvernig Ísak hefur liðið þar sem hann lá á altarinu og beið eftir stingandi sársaukanum sem yrði undanfari þess að hann dæi. Engill Jehóva stöðvaði Abraham rétt í tæka tíð. Það sem Abraham og Ísak gerðu auðveldar okkur að skilja hvað það hlýtur að hafa kostað Jehóva að leyfa útsendurum Satans að myrða son sinn. Með því að vera föður sínum eftirlátur var Ísak gott dæmi um hvernig Jesús var fús til að þjást og deyja fyrir okkur. — Hebr. 11:17-19.
14. Hvaða atburður í lífi Jakobs getur opnað augu okkar fyrir því hvað lausnargjaldið kostaði Jehóva?
14 Atvik í lífi Jakobs varpar einnig ljósi á hvað lausnargjaldið kostaði Jehóva Guð. Af öllum sonum sínum þótti Jakobi vænst um Jósef. Bræður Jósefs öfunduðu hann hins vegar og hötuðu. Að beiðni föður síns var Jósef þó fús til að fara og kanna hvernig bræðum hans liði. Þegar þetta gerðist gættu þeir hjarða föður síns um 100 kílómetra norður af Hebron þar sem þeir bjuggu. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig Jakobi varð við þegar bræðurnir komu með kyrtil Jósefs alblóðugan. „Þetta er kyrtill sonar míns,“ hrópaði hann upp yfir sig. „Villidýr hefur étið hann. Jósef er sundur rifinn.“ Jakob var harmi sleginn og syrgði Jósef dögum saman. (1. Mós. 37:33, 34) Viðbrögð Jehóva eru ekki alveg eins og viðbrögð ófullkominna manna. Ef við hugleiðum þennan atburð í lífi Jakobs getum við hins vegar áttað okkur á því að einhverju marki hvernig Jehóva hlýtur að hafa verið innanbrjósts þegar ástkærum syni hans var misþyrmt og hann líflátinn með grimmilegum hætti.
Njóttu góðs af lausnargjaldinu
15, 16. (a) Hvernig sýndi Jehóva að hann tók við lausnargjaldinu? (b) Hvernig hefur þú notið góðs af lausnargjaldinu?
15 Jehóva Guð reisti trúan son sinn upp frá dauðum og gaf honum dýrlegan andalíkama. (1. Pét. 3:18) Jesús birtist lærisveinunum í 40 daga eftir upprisu sína. Hann styrkti trú þeirra og bjó þá undir hið mikla trúboð sem var fram undan. Síðan steig hann upp til himna. Þar bar hann fram fyrir Guð andvirði blóðsins sem hann úthellti. Það yrði notað í þágu sannra fylgjenda hans sem tryðu á lausnarfórnina. Jehóva Guð sýndi að hann tók við lausnarfórn Krists með því að fela honum að úthella heilögum anda yfir lærisveinana sem voru saman komnir í Jerúsalem á hvítasunnu árið 33. — Post. 2:33.
16 Þessir andasmurðu fylgjendur Krists biðu ekki boðanna að hvetja meðbræður sína til að umflýja reiði Guðs. Þeir hvöttu fólk til að láta skírast í nafni Jesú Krists og hljóta syndafyrirgefningu. (Lestu Postulasöguna 2:38-40.) Allt frá þessum sögulega degi hafa milljónir manna af öllum þjóðum laðast að Guði og eignast samband við hann vegna trúar sinnar á lausnarfórn Jesú. (Jóh. 6:44) Þegar hér er komið sögu þurfum við að líta á tvær spurningar í viðbót: Hefur einhver fengið von um eilíft líf vegna góðra verka sinna? Er hugsanlegt að þeir sem hljóta þessa stórfenglegu von geti glatað henni?
17. Hvernig ættirðu að líta á þá miklu blessun að mega vera vinur Guðs?
17 Lausnargjaldið er að öllu leyti óverðskuldað. Með því að trúa á það hafa milljónir manna hins vegar orðið vinir Guðs og eignast von um eilíft líf í paradís á jörð. En þótt við verðum vinir Jehóva er það ekki trygging fyrir því að við eigum vináttu hans til frambúðar. Til að bjargast á komandi reiðidegi hans þurfum við að viðhalda djúpu þakklæti fyrir ,endurlausnina í Kristi Jesú‘. — Rómv. 3:24; Lestu Filippíbréfið 2:12.
Höldum áfram að trúa á lausnargjaldið
18. Hvað helst í hendur við það að trúa á lausnargjaldið?
18 Í Jóhannesi 3:36, biblíuversinu sem þessi grein er byggð á, kemur fram að trú á Drottin Jesú Krist helst í hendur við það að hlýða honum. Þakklæti fyrir lausnargjaldið ætti að vera okkur hvatning til að lifa í samræmi við það sem Jesús kenndi, meðal annars um siðferðismál. (Mark. 7:21-23) Þeir sem temja sér ósæmandi spaug og stunda saurlifnað og,óhreinleika‘ kalla yfir sig „reiði Guðs“ nema þeir iðrist. Að horfa á klám að staðaldri hlýtur að flokkast undir hið síðastnefnda. — Ef. 5:3-6.
19. Á hvaða jákvæðu vegu getum við sýnt að við trúum á lausnargjaldið?
19 Ef við erum þakklát fyrir lausnargjaldið ættum við að vera önnum kafin í þjónustu Guðs og lifa „guðrækilegu lífi“. (2. Pét. 3:11) Gefum okkur góðan tíma til að biðja reglulega og innilega, stunda sjálfsnám, sækja samkomur, stunda biblíunám með fjölskyldunni og boða fagnaðarerindið af kappi. Og gleymum ekki „velgjörðaseminni og hjálpseminni því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar“. — Hebr. 13:15, 16.
20. Hvaða blessun bíður allra þeirra sem halda áfram að trúa á lausnargjaldið?
20 Þegar Jehóva gefur lausan tauminn reiði sinni gagnvart þessu illa heimskerfi, getum við glaðst yfir því að hafa trúað á lausnargjaldið og sýnt í verki að við kunnum að meta það. Og í nýja heiminum, sem Guð hefur lofað, verðum við eilíflega þakklát fyrir hið stórfenglega lausnargjald sem bjargaði okkur frá reiði Guðs. — Lestu Jóhannes 3:16; Opinberunarbókina 7:9, 10, 13, 14.
Hvert er svarið?
• Af hverju þurfum við á lausnargjaldinu að halda?
• Hvað kostaði lausnargjaldið Jehóva og Jesú?
• Hvernig njótum við góðs af lausnargjaldinu?
• Hvernig sýnum við trú á lausnarfórn Jesú?
[Mynd á bls. 13]
Fólk hefur enn tækifæri til að sættast við Jehóva.
[Myndir á bls. 15]
Frásögurnar af Abraham, Ísak og Jakobi geta auðveldað okkur að skilja hve mikið lausnargjaldið kostaði Jehóva og Jesú.