Drottinvald Jehóva og ríki hans
„Þín, Drottinn, er tignin, mátturinn og dýrðin, vegsemdin og hátignin . . . Þinn er konungdómurinn, Drottinn.“ — 1. KRONÍKUBÓK 29:11.
1. Af hverju er Jehóva réttmætur Drottinn alheims?
„DROTTINN hefir reist hásæti sitt á himnum, og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.“ (Sálmur 103:19) Með þessum orðum bendir sálmaskáldið á grundvallaratriði stjórnar Guðs. Jehóva Guð er réttmætur Drottinn alheims vegna þess að hann er skapari alls.
2. Hvernig lýsti Daníel hinu andlega sviði sem Jehóva stjórnar?
2 Stjórnandi þarf auðvitað að eiga sér þegna. Í byrjun fór Jehóva með yfirráð yfir andaverum sem hann myndaði, fyrst eingetnum syni sínum en síðan miklum sveitum engla. (Kólossubréfið 1:15-17) Löngu síðar fékk Daníel spámaður að sjá í sýn hvernig Jehóva stjórnaði á himnum. Hann skýrir svo frá: „Ég horfði og horfði, þar til er stólar voru settir fram og hinn aldraði settist niður. . . . Þúsundir þúsunda þjónuðu honum og tíþúsundir tíþúsunda stóðu frammi fyrir honum.“ (Daníel 7:9, 10) Frá ómunatíð hafði Jehóva, „hinn aldraði“, farið með æðsta vald yfir gríðarstórum og skipulegum hópi andasona sinna sem þjónuðu honum og framkvæmdu vilja hans. — Sálmur 103:20, 21.
3. Hvernig víkkaði Jehóva út valdsvið sitt?
3 Að síðustu víkkaði Jehóva út valdsvið sitt með því að skapa hinn efnislega alheim í allri sinni víðáttu og fjölbreytni, þar á meðal jörðina. (Jobsbók 38:4, 7) Frá jörðu séð virðast himintunglin hreyfast af svo mikilli reglu og nákvæmni að enginn þurfi að stýra þeim eða stjórna. En sálmaskáldið sagði: „Að hans [Jehóva] boði voru þau sköpuð. Og hann fékk þeim stað um aldur og ævi, hann gaf þeim lög, sem þau mega eigi brjóta.“ (Sálmur 148:5, 6) Jehóva hefur alla tíð beitt drottinvaldi sínu með því að stýra og stjórna bæði hinu andlega tilverusviði og efnisheiminum. — Nehemíabók 9:6.
4. Hvernig beitir Jehóva drottinvaldi sínu yfir mönnunum?
4 Þegar Jehóva skapaði fyrstu mennina beitti hann drottinvaldi sínu á nýjan hátt. Auk þess að sjá fyrstu hjónunum fyrir öllu sem þau þurftu til að þeim liði vel og líf þeirra hefði tilgang fól hann þeim yfirráð yfir hinum óæðri sköpunarverum jarðar. Hann fékk þeim ákveðið vald. (1. Mósebók 1:26-28; 2:8, 9) Ljóst er því að Jehóva stjórnar ekki aðeins með gæsku og góðvild heldur veitir hann þegnum sínum líka virðingu og sæmd. Meðan Adam og Eva voru undirgefin drottinvaldi hans áttu þau fyrir sér að lifa eilíflega í paradís á jörð. — 1. Mósebók 2:15-17.
5. Lýstu stjórnarháttum Jehóva.
5 Hvaða ályktun getum við dregið af þessu? Í fyrsta lagi að Jehóva hefur alltaf farið með æðsta vald yfir öllu sköpunarverki sínu. Í öðru lagi stjórnar hann með gæsku og sýnir þegnum sínum virðingu. Og í þriðja lagi er það okkur til eilífrar blessunar að hlýða Guði og styðja stjórn hans. Það er ekkert undarlegt að Davíð, konungur Ísraels til forna, skyldi segja: „Þín, Drottinn, er tignin, mátturinn og dýrðin, vegsemdin og hátignin, því að allt er þitt, á himni og jörðu. Þinn er konungdómurinn, Drottinn, og sá, er gnæfir yfir alla sem höfðingi.“ — 1. Kroníkubók 29:11.
Hvers vegna er þörf á ríki Guðs?
6. Lýstu sambandinu milli ríkis Guðs og drottinvalds hans.
6 Af hverju þarf Jehóva að setja á stofn ríki fyrst hann er almáttugur Drottinn alheims og hefur alltaf farið með völdin? Valdhafi veitir oft öðrum aðila umboð til að fara með yfirráð yfir þegnum sínum. Guð notar ríki sitt til að stjórna fyrir sína hönd. Hann birtir sköpunarverum sínum alvald sitt fyrir milligöngu þess.
7. Af hverju birti Jehóva drottinvald sitt með nýjum hætti?
7 Jehóva hefur birt drottinvald sitt á ýmsa vegu á ýmsum tímum og gerði það á nýjan hátt þegar nýjar aðstæður komu upp. Það gerðist þegar Satan, andasonur Guðs, gerði uppreisn og tókst að fá Adam og Evu til að snúast gegn stjórn Guðs. Með þessari uppreisn var gerð atlaga að æðsta valdi Jehóva. Hvernig? Þegar Satan sagði Evu að ,vissulega myndi hún ekki deyja‘ þótt hún æti forboðna ávöxtinn gaf hann í skyn að Jehóva segði ósatt og honum væri því ekki treystandi. Hann sagði Evu enn fremur: „Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills.“ Þannig ýjaði Satan að því að það væri betra fyrir Adam og Evu að hunsa fyrirmæli Guðs og fara sínar eigin leiðir. (1. Mósebók 3:1-6) Hann véfengdi að Guð væri réttmætur stjórnandi og beitti valdi sínu á réttan hátt. Hvernig brást Jehóva við?
8, 9. (a) Hvernig má ætla að mennskur valdhafi taki á uppreisn? (b) Hvernig brást Jehóva við uppreisninni í Eden?
8 Hvað má ætla að valdhafi geri ef uppreisn á sér stað í ríki hans? Þeir sem eru kunnugir mannkynssögunni þekkja eflaust dæmi um þetta. Jafnvel góðviljaður stjórnandi lætur slíkt til sín taka. Yfirleitt dæmir hann uppreisnarseggina seka um landráð. Síðan getur verið að hann feli einhverjum öðrum að kveða niður uppreisnina og koma á friði að nýju. Jehóva sýndi að hann hafði töglin og hagldirnar og felldi tafarlaust dóm yfir uppreisnarseggjunum. Hann dæmdi Adam og Evu óverðug þess að hljóta eilíft líf og rak þau út úr Edengarðinum. — 1. Mósebók 3:16-19, 22-24.
9 Þegar Jehóva felldi dóm yfir Satan opinberaði hann að drottinvald sitt myndi birtast með nýjum hætti til að koma aftur á friði og reglu í öllu ríki hans. Hann sagði við Satan: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ (1. Mósebók 3:15) Þarna opinberaði Jehóva að hann ætlaði að fela ákveðnu ,sæði‘ það verkefni að útrýma Satan og þeim sem fylgdu honum og sýna fram á að hann sjálfur væri réttmætur stjórnandi. — Sálmur 2:7-9; 110:1, 2.
10. (a) Hver reyndist vera ,sæðið‘? (b) Hvað sagði Páll um uppfyllingu fyrsta spádómsins?
10 Þetta ,sæði‘ reyndist vera Jesús Kristur ásamt ákveðnum hópi meðstjórnenda. Í sameiningu mynda þeir Messíasarríki Guðs. (Daníel 7:13, 14, 27; Matteus 19:28; Lúkas 12:32; 22:28-30) En þetta var ekki opinberað allt í einu heldur var uppfylling fyrsta spádómsins ,leyndardómur sem frá eilífum tíðum hafði verið dulinn‘. (Rómverjabréfið 16:25) Öldum saman þráðu trúaðir menn að sjá þennan leyndardóm opinberaðan og sjá fyrsta spádóminn rætast og þar með upphefja drottinvald Jehóva. — Rómverjabréfið 8:19-21.
,Leyndardómurinn‘ opinberaður smám saman
11. Hvað kunngerði Jehóva Abraham?
11 Tíminn leið og Jehóva opinberaði smám saman hvað „leyndardómur Guðs ríkis“ fól í sér. (Markús 4:11) Abraham var einn þeirra sem Jehóva upplýsti með þessum hætti en hann var kallaður „Guðs vinur“. (Jakobsbréfið 2:23) Jehóva hét honum að gera hann að „mikilli þjóð“. Síðar sagði hann honum: „Af þér skulu konungar koma“ og „af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta“. — 1. Mósebók 12:2, 3; 17:6; 22:17, 18.
12. Hvernig birtist ,sæði‘ Satans eftir flóðið?
12 Þegar Abraham var uppi voru menn byrjaðir að reyna fyrir sér með stjórnun og yfirráð. Til dæmis segir í Biblíunni um Nimrod sem var langafabarn Nóa: „Hann tók að gjörast voldugur á jörðinni. Hann var mikill veiðimaður fyrir Drottni,“ það er að segja í andstöðu við hann. (1. Mósebók 10:8, 9) Ljóst er að Nimrod og aðrir sjálfskipaðir valdhafar voru strengjabrúður Satans. Þeir og stuðningsmenn þeirra urðu hluti af ,sæði‘ Satans. — 1. Jóhannesarbréf 5:19.
13. Hvað kunngerði Jehóva Jakobi?
13 Jehóva heldur áfram að vinna að fyrirætlun sinni þrátt fyrir tilraunir Satans til að skáka fram mennskum valdhöfum. Hann opinberaði Jakobi, sonarsyni Abrahams: „Ekki mun veldissprotinn víkja frá Júda, né ríkisvöndurinn frá fótum hans, uns sá kemur, er valdið hefur, og þjóðirnar ganga honum á hönd.“ (1. Mósebók 49:10) Þessi spádómlegu orð gefa til kynna að sá myndi koma sem ætti lagalegan rétt til að fá ,veldissprotann og ríkisvöndinn‘ yfir ,þjóðunum‘, það er að segja stjórnvaldið yfir öllu mannkyninu. Hver myndi það vera?
„Uns sá kemur, er valdið hefur“
14. Hvaða sáttmála gerði Jehóva við Davíð?
14 Fjárhirðirinn Davíð Ísaíson var fyrsti afkomandi Júda sem Jehóva skipaði konung yfir þjóð sinni.a (1. Samúelsbók 16:1-13) Davíð studdi drottinvald Jehóva og þess vegna hafði Jehóva velþóknun á honum þrátt fyrir syndir hans og mistök. Jehóva gerði sáttmála við hann sem varpaði ljósi á spádóminn í Eden. Hann sagði: „Ég [mun] hefja son þinn eftir þig, þann er frá þér kemur, og staðfesta konungdóm hans.“ Hér er ekki aðeins átt við Salómon, son Davíðs sem tók við ríkinu af honum, því að í sáttmálanum sagði: „Ég mun staðfesta konungsstól hans að eilífu.“ Ljóst er af sáttmálanum við Davíð að hið fyrirheitna ,sæði‘ eða konungur myndi koma af ætt hans þegar þar að kæmi. — 2. Samúelsbók 7:12, 13.
15. Af hverju var hægt að líta á Júdaríkið sem tákn um ríki Guðs?
15 Með Davíð hófst ætt konunga sem voru smurðir heilagri smurningarolíu. Það var því hægt að kalla hvern og einn þeirra hinn smurða eða messías. (1. Samúelsbók 16:13; 2. Samúelsbók 2:4; 5:3; 1. Konungabók 1:39) Þeir voru sagðir sitja í hásæti Jehóva og ríkja sem konungar hans í Jerúsalem. (2. Kroníkubók 9:8) Í þeim skilningi var Júdaríkið tákn um ríki Guðs og ein birtingarmynd drottinvalds hans.
16. Hvernig reyndist stjórn konunganna í Júda?
16 Jehóva blessaði þjóðina og verndaði hana þegar hún og konungurinn lutu drottinvaldi hans. Stjórnartíð Salómons einkenndist öðrum tímum fremur af friði og velsæld. Hún var því góð spádómleg fyrirmynd um Guðsríki þegar áhrif Satans verða horfin með öllu og drottinvald Guðs hefur verið réttlætt. (1. Konungabók 4:20, 25) Því miður fór svo að fæstir konunganna af ætt Davíðs fylgdu kröfum Jehóva og þjóðin leiddist út í skurðgoðadýrkun og siðleysi. Að síðustu leyfði Jehóva að Babýloníumenn eyddu ríkið árið 607 f.Kr. Það var engu líkara en Satan hefði tekist að koma óorði á Jehóva sem alheimsdrottin.
17. Hvað sýnir að Jehóva fór enn með völdin þó að ríki Davíðs væri fallið?
17 Þótt ríki Davíðs félli og norðurríkið Ísrael væri sömuleiðis fallið var það ekki merki þess að Jehóva hefði ekki rétt til að stjórna eða væri ófær um það. Það sýndi einungis fram á hve dapurlegar afleiðingar það hefur fyrir manninn að vera óháður Guði og vera undir áhrifum Satans. (Orðskviðirnir 16:25; Jeremía 10:23) Jehóva sýndi fram á að hann væri enn þá alheimsdrottinn þegar hann sagði fyrir munn Esekíels spámanns: „Burt með höfuðdjásnið, niður með kórónuna! . . . Að rústum, rústum, rústum vil ég gjöra allt. Þetta ríki skal ekki heldur vera til, uns sá kemur, sem hefir réttinn, er ég hefi gefið honum.“ (Esekíel 21:26, 27) Þessi orð gefa til kynna að fyrirheitna ,sæðið‘ — „sá . . . sem hefir réttinn“ — væri enn ókomið.
18. Hvaða boð flutti Gabríel engill Maríu?
18 Færum okkur nú fram til ársins 2 f.Kr. eða þar um bil. Þá var Gabríel engill sendur til Maríu, ungrar meyjar í Nasaret í Galíleu sem var í norðanverðri Palestínu. Hann sagði henni: „Þú munt þunguð verða og son ala, og þú skalt láta hann heita JESÚ. Hann mun verða mikill og kallaður sonur hins hæsta. Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans, og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu, og á ríki hans mun enginn endir verða.“ — Lúkas 1:31-33.
19. Hvaða hrífandi atburðir voru í nánd?
19 Nú hillti loksins undir það að leyndardómurinn yrði upplýstur. Aðalpersóna hins fyrirheitna ,sæðis‘ var um það bil að koma fram. (Galatabréfið 4:4; 1. Tímóteusarbréf 3:16) Satan myndi merja hæl þessa ,sæðis‘ en það myndi síðan merja höfuð Satans og gera hann og alla fylgjendur hans að engu. Jesús átti einnig að vitna um að ríki Guðs myndi bæta allt það tjón sem Satan hefði valdið og upphefja drottinvald Guðs. (Hebreabréfið 2:14; 1. Jóhannesarbréf 3:8) Hvernig myndi Jesús gera þetta? Hvers konar fyrirmynd gaf hann okkur til að líkja eftir? Því er svarað í næstu grein.
[Neðanmáls]
a Fyrsti konungurinn, sem Jehóva valdi til að ríkja yfir Ísrael, var Sál en hann var af ættkvísl Benjamíns. — 1. Samúelsbók 9:15, 16; 10:1.
Geturðu svarað?
• Af hverju er Jehóva réttmætur alheimsdrottinn?
• Af hverju ákvað Jehóva að setja ríki sitt á stofn?
• Hvernig upplýsti Jehóva leyndardóminn smám saman?
• Hvað sýnir að Jehóva fór enn með völdin þó að ríki Davíðs væri fallið?
[Mynd á bls. 15]
Hvað upplýsti Jehóva á dögum Abrahams?
[Mynd á bls. 17]
Þótt ríki Davíðs félli var það ekki merki þess að Jehóva væri ófær um að stjórna.