Hve lengi getum við lifað?
„MARGIR núlifandi menn munu hafa tækifæri til að lifa mun lengri ævi en nú þekkist. Jafnvel ódauðleiki virðist innan seilingar.“
„Milljónir núlifandi manna munu ef til vill aldrei deyja.“
Hvaða munur er á þessum tveim fullyrðingum? Sú fyrri kemur frá dr. Lawrence E. Lamb sem er prófessor og skrifar um læknavísindi, í bók hans Get Ready for Immortality sem gefin var út árið 1975. Sú hin síðari var heiti opinberrar ræðu og síðar bókar J. F. Rutherfords, annars forseta Varðturnsfélagsins. Ræðan var fyrst flutt í Los Angeles í Kaliforníu árið 1918.
Enda þótt fullyrðingarnar tvær virðist líkar er mikill munur á röksemdafærslunni og rannsóknunum sem voru undanfari þeirra. Orð dr. Lambs eru dæmigerð fyrir marga af skoðanabræðrum hans sem álíta að framfarir læknavísindanna, meðal annars á sviði öldrunarrannsókna, muni bráðlega ráða þá gátu hvers vegna við hrörnum með aldrinum, og gera okkur kleift að sigrast á dauðanum. En þótt nútímavísindum hafi orðið vel ágengt við að lengja meðalævi manna og hjálpað mörgum að njóta betri heilsu, þá eru spárnar um ódauðleika enn sem fyrr bjartsýnar spár og ekkert annað.
J. F. Rutherford studdist hins vegar ekki við vísindi eða læknisfræði, heldur byggði ræðu sína og spá á Biblíunni. Með hjálp biblíuspádóma, sem hafa uppfyllst, sýndi hann fram á að runninn væri upp ‚endalokatími‘ mannkynsins. (Daníel 12:4) Síðan benti hann á þá von Biblíunnar að milljónir manna myndu lifa af endalok þessa heims inn í nýjan heim réttlætis og eilífs lífs á jörð sem væri paradís, líkt og Nói og fjölskylda hans lifðu af heimsendi á sínum tíma. — Matteus 24:37-39; Opinberunarbókin 21:3, 4.
Mörgum áheyrendum Rutherfords hnykkti við orð hans. Enn þann dag í dag finnst mörgum allsendis óraunhæft að tala um eilíft líf á jörð undir stjórn Guðsríkis. (Sálmur 37:10, 11, 29) En er skýring Biblíunnar á því hvers vegna við deyjum þegar árin færast yfir okkur svona ótrúleg? Hvað segir hún eiginlega um það mál?
Sköpuð til að lifa, ekki deyja
Eins og rökrétt er hefst Biblían á frásögu af upphafi mannlífsins. Í fyrsta kafla 1. Mósebókar lesum við að Guð hafi, eftir að hann skapaði fyrstu mannlegu hjónin, blessað þau og sagt við þau: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.“ — 1. Mósebók 1:28.
Til að þessi fyrstu hjón, Adam og Eva, gætu lokið þessu verkefni þyrftu þau og afkomendur þeirra að lifa mjög langa ævi. En hversu langa? Sé lesið áfram í 1. Mósebók er hvergi minnst á ákveðna ævilengd sem Adam og Evu væri ætluð. Þó var eitt skilyrði sett fyrir því að þau héldu áfram að lifa. Guð sagði við Adam: „Af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja.“ — 1. Mósebók 2:17.
Adam og Eva myndu því deyja aðeins ef þau óhlýðnuðust boði Guðs. Að öðrum kosti blasti við þeim endalaust líf í jarðneskri paradís sem kölluð var Eden. Maðurinn var greinilega skapaður til að lifa en ekki deyja.
Frásaga 1. Mósebókar segir frá því að þessi fyrstu hjón hafi engu að síður kosið að óhlýðnast skýru boði Guðs og þar með syndgað. Með óhlýðni sinni kölluðu þau dauða yfir sig og síðar afkomendur sína. Öldum síðar sagði Páll postuli: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“ — Rómverjabréfið 5:12.
Erfðalögmálið olli því að Adam og Eva gátu gefið afkomendum sínum það eitt sem þau sjálf höfðu. Við sköpun sína voru þau fær um að gefa ókomnum kynslóðum fullkomleika og óendanlegt líf í arf. Nú voru þau sjálf búin að spilla lífi sínu með synd og dauða og gátu ekki framar gefið afkvæmum sínum þennan mikla arf. Synd, ófullkomleiki og dauði hefur verið hlutskipti mannkyns allar götur síðan, þrátt fyrir tilraunir manna til að lengja ævi sína.
Að vissu leyti mætti líkja þessu ferli við tölvuforrit með villu í. Takist ekki að finna og leiðrétta villuna vinnur forritið ekki rétt og afleiðingarnar geta verið hrikalegar. Maðurinn hefur ekki verið fær um að finna, og þaðan af síður leiðrétta, þann arfgenga galla sem leiðir til þess að mannslíkaminn starfar ekki rétt heldur hrörnar og deyr með tímanum. Skapari mannsins, Jehóva Guð, hefur samt sem áður gert ráðstafanir til að bæta úr þessum galla. Hvernig?
Guð lét son sinn, Jesú Krist, „hinn síðari Adam,“ fórna fullkomnu mannslífi sínu og koma þannig, ef svo má segja, í stað hins upprunalega Adams sem faðir okkar og lífgjafi. Í stað þess að vera dæmd til að deyja sem börn syndarans Adams geta hlýðnir menn því talist þess verðir að hljóta eilíft líf sem börn ‚eilífðarföður‘ síns, Jesú Krists. Jesús sagði: „Sá er vilji föður míns, að hver sem sér soninn og trúir á hann, hafi eilíft líf.“ — 1. Korintubréf 15:45; Jesaja 9:6; Jóhannes 3:16; 6:40.
Við lok jarðneskrar þjónustu sinnar lýsti Jesús Kristur í bæn til föður síns á himnum hvers sé krafist til að menn geti hlotið þau miklu laun sem eilíft líf eru: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ — Jóhannes 17:3.
„Sem aldur trjánna“
Hugsaðu þér að sá risafurufræi og fylgjast með því vaxa í yfir hundrað metra hæð og fylgjast með vexti þess svo lengi sem það lifir. Hugsaðu þér síðan að þú sáir öðru risafurufræi nokkur þúsund árum síðar og fáir að njóta þess að sjá það vaxa og prýða umhverfi þitt.
Er það raunhæft að sjá slíkt fyrir sér? Já, því að það byggist á fyrirheitum skapara mannkyns, Jehóva Guðs, sem segir: „Aldur fólks míns mun vera sem aldur trjánna.“ (Jesaja 65:22) Þetta loforð svarar að mestu leyti þeirri spurningu hve lengi maðurinn geti lifað. Svarið er: ótakmarkað, að eilífu. — Sálmur 133:3.
Núna gengur eftirfarandi boð út til manna: „‚Kom þú!‘ Og sá sem heyrir segir: ‚Kom þú!‘ Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn.“ (Opinberunarbókin 22:17) Jehóva Guð lætur þetta boð út ganga til allra hjartahreinna manna. Hann býður þeim að notfæra sér þær ráðstafanir, sem hann hefur gert, til að menn geti hlotið eilíft líf á jörð sem verður paradís.
Ætlar þú að þiggja þetta boð? Vonir þínar um lengra líf, eilíft líf, ráðast af því hvað þú velur núna!
[Rammi á blaðsíðu 7]
LÍFSLÍKUR MANNA
Sá sem fæddist undir lok 18. aldar í Norður-Ameríku eða Vestur-Evrópu gat búist við að ná 35 til 40 ára aldri. Núna geta íslenskir karlar reiknað með að ná um 75 ára aldri og konur um 80 ára aldri. Svipaðar breytingar hafa átt sér stað annars staðar. Að því leyti tekst okkur að nýta möguleika okkar betur en áður var, en eru því einhver takmörk sett hve mikið er hægt að lengja ævina?
Saga síðustu alda segir okkur ekki frá nokkrum sem lifði eða bjóst við að lifa í 500, 300 eða jafnvel 200 ár. Þrátt fyrir framfarir læknisfræðinnar geta menn varla búist við að ná meira en 80 ára aldri. Þó eru sagnir um að menn hafi náð um 140 og jafnvel 150 ára aldri, og á tímum Biblíunnar voru þess dæmi að menn næðu mörg hundruð ára aldri. Eru það einungis þjóðsögur og munnmæli?
Athyglisvert er að The New Encyclopædia Britannica segir að „nákvæm ævilengd manna sé óþekkt.“ Þar er bent á að sé gengið út frá því að sumir hafi náð 150 ára aldri sé „engin gild ástæða til að útiloka þann möguleika að einhver annar einstaklingur hafi lifað 150 ár og einni mínútu betur. Og ef hægt er að sætta sig við 150 ár og 1 mínútu, má þá ekki líka gera ráð fyrir 150 árum og 2 mínútum, og svo framvegis?“ Og áfram er haldið: „Núverandi vitneskja um ævilengd manna gefur okkur ekki tilefni til að fullyrða nokkuð um hve löng mannsævin geti verið.“
Hvað getum við ályktað af þessu? Einfaldlega það að vitneskja læknavísindanna um öldrun og dauða er byggð á ástandi mannanna eins og við þekkjum það núna. Spurningin, sem mestu máli skiptir, er sú hvort ástand mannsins hafi alltaf verið það sama og nú og hvort það muni alltaf vera þannig. Guð lofar okkur: „Sjá, ég gjöri alla hluti nýja.“ Í hinum nýja heimi, sem nálgast óðfluga, mun hann „þerra hvert tár af augum þeirra og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:4, 5.
[Mynd á blaðsíðu 8, 9]
‚Móða lífsvatnsins, skínandi sem kristall, rann frá hásæti Guðs.‘ — Opinberunarbókin 22:1.