-
Spurningar frá lesendumVarðturninn – 2010 | 15. mars
-
-
Í Esekíel 18:20 segir að ,sonur skuli ekki taka á sig sekt föður síns‘. Er þetta vers í mótsögn við það sem stendur í 2. Mósebók 20:5 um að Guð refsi ,niðjum fyrir sekt feðra þeirra‘?
Hér er ekki um neina mótsögn að ræða. Annað versið beinir athyglinni að ábyrgð einstaklingsins en hitt versið viðurkennir að sekt einhvers geti haft afleiðingar fyrir afkomendur hans.
-
-
Spurningar frá lesendumVarðturninn – 2010 | 15. mars
-
-
En hvað um aðvörunina í 2. Mósebók 20:5 sem er hluti af boðorðunum tíu? Lítum aftur á samhengið. Jehóva gerði lagasáttmála við Ísraelsþjóðina. Eftir að hafa hlýtt á skilmála sáttmálans sögðu Ísraelsmenn í allra áheyrn: „Við skulum gera allt sem Drottinn hefur boðið.“ (2. Mós. 19:5-8) Þar með gekk þjóðin í sérstakt sáttmálasamband við Jehóva. Orðunum í 2. Mósebók 20:5 er því í raun beint til þjóðarinnar í heild sinni.
Eins lengi og Ísraelmenn voru trúir Jehóva naut þjóðin góðs af því og uppskar blessun. (3. Mós. 26:3-8) Hið gagnstæða átti sér einnig stað. Þegar Ísraelsþjóðin hafnaði Jehóva og tilbað falska guði hætti hann að blessa þjóðina og vernda með þeim afleiðingum að hörmungar gengu yfir hana. (Dóm. 2:11-18) Vissulega varðveittu sumir ráðvendni sína gagnvart Guði og virtu boðorð hans þrátt fyrir skurðgoðadýrkun þjóðarinnar. (1. Kon. 19:14, 18) Trúfastir menn hafa sennilega þurft að ganga í gegnum erfiðleika vegna syndar þjóðarinnar en Jehóva sýndi þessum mönnum náð og miskunn.
Þegar Ísraelsmenn vanvirtu lögmál Jehóva svo svívirðilega að nafn hans varð fyrir spotti meðal þjóðanna ákvað hann að refsa þeim. Hann leyfði að þjóðin yrði herleidd til Babýlonar. Þetta var auðvitað refsing bæði fyrir einstaklinga og fólk hans í heild. (Jer. 52:3-11, 27) Biblían sýnir að sekt þjóðarinnar var orðin svo mikil að þrjár, fjórar eða jafnvel fleiri kynslóðir urðu fyrir áhrifum af sekt forfeðra sinna, rétt eins og segir í 2. Mósebók 20:5.
Í orði Guðs eru einnig frásögur af því hvernig ósæmileg hegðun foreldra hafði áhrif á fjölskyldur þeirra. Synir æðsta prestsins Elí voru siðlausir þrjótar og það móðgaði Jehóva að Elí skyldi leyfa þeim að halda prestsembættum sínum. (1. Sam. 2:12-16, 22-25) Vegna þess að Elí heiðraði syni sína meira en Jehóva úrskurðaði hann að engum úr fjölskyldu Elí yrði leyft að vera prestur. Það rættist á Abjatar sem var langalangafabarn Elí. (1. Sam. 2:29-36; 1. Kon. 2:27) Meginreglan í 2. Mósebók 20:5 kemur einnig vel fram í frásögunni af Gehasí. Hann misnotaði stöðu sína sem aðstoðarmaður Elísa og reyndi að hagnast þegar sýrlenski hershöfðinginn Naaman hlaut lækningu. Jehóva notaði Elísa til að kveða upp dóm. Elísa sagði: „Holdsveiki Naamans skal loða við þig og niðja þína, ævinlega.“ (2. Kon. 5:20-27) Þannig hafði synd Gehasí áhrif á afkomendur hans.
Sem skapari og uppspretta lífsins hefur Jehóva allan rétt á að ákveða hvaða refsing sé réttlát og við hæfi. Dæmin hér á undan sýna að börn eða afkomendur geta fundið fyrir afleiðingunum af syndum forfeðra sinna. En Jehóva ,heyrir kvein hinna snauðu‘. Þeir sem eru einlægir og snúa sér til hans geta hlotið velþóknun hans og fengið einhverja úrlausn. — Job. 34:28.
-