Hvað þýða boðorðin tíu fyrir þig?
INNAN þriggja mánaða eftir frelsun sína úr Egyptalandi árið 1513 f.o.t. settu Ísraelsmenn upp búðir sínar við rætur Sínaífjalls í eyðimörkinni. Að bendingu Jehóva kleif Móse upp á fjallið og heyrði Guð heita því að hann myndi gera Ísraelsþjóðina ‚eiginlega eign sína umfram allar þjóðir.‘ Móse kom þessum boðum síðan til öldunga þjóðarinnar sem létu þau berast til allra. „Þá svaraði allur lýðurinn einum munni og sagði: ‚Vér viljum gjöra allt það, sem [Jehóva] býður.‘“ — 2. Mósebók 19:1-8.
Því næst las Guð boðorðin tíu upp fyrir Móse með þessum formálsorðum: „Ég er [Jehóva] Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.“ (2. Mósebók 20:2) Boðorðin tíu voru gefin Ísraelsmönnum sem var sagt í fyrsta boðorðinu: „Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.“ — 2. Mósebók 20:3.
Síðan gaf Jehóva Móse fyrirmæli með öðrum boðorðum til Ísraelsmanna. (2. Mósebók 20:4-23:19) Alls var um 600 lagaákvæði að ræða. Það var stórkostlegt fyrir Ísraelsmenn að vita að engill Guðs myndi fara fyrir þjóðinni til að undirbúa göngu hennar inn í fyrirheitna landið! (2. Mósebók 23:20-22) Jehóva lýsti yfir: „Í augsýn alls þíns fólks vil ég gjöra þau undur, að ekki hafa slík verið gjörð í nokkru landi eða hjá nokkurri þjóð, og skal allt fólkið, sem þú ert hjá, sjá verk [Jehóva], því að furðulegt er það, sem ég mun við þig gjöra.“ Hvers krafðist Guð af þjóð sinni á móti? „Gæt þess, sem ég býð þér í dag.“ Já, þeim var skylt að hlýða öllum boðum Jehóva. — 2. Mósebók 34:10, 11.
Það sem boðorðin tíu þýddu fyrir Ísrael
Vegna verndar Guðs á flóttanum úr þrælkuninni í Egyptalandi kynntust Ísraelsmenn nafni Guðs á nýjan hátt. Nú var Jehóva orðinn frelsari þeirra. (2. Mósebók 6:2, 3) Þar af leiðandi tók þriðja boðorðið á sig sérstaka merkingu fyrir þá þar sem þeim var bannað að leggja nafn Guðs við hégóma. — 2. Mósebók 20:7.
En hvað um fjórða boðorðið sem fjallaði um hvíldardaginn? Þetta boðorð lagði áherslu á virðingu fyrir því sem heilagt var, eins og Jehóva hafði áður gefið í skyn er hann tiltók ‚hvíldardag‘ í tengslum við tínslu brauðsins af himnum, manna. (2. Mósebók 16:22-26) Þegar sumir Ísraelsmenn hlýddu ekki strax minnti Jehóva þá með festu á að hann hefði gefið þeim þessi fyrirmæli: „‚[Jehóva] hefir gefið yður hvíldardaginn,‘ . . . og fólkið hvíldist á hinum sjöunda degi.“ (2. Mósebók 16:29, 30) Síðar lét Jehóva í ljós að þessi sáttmáli væri ætlaður Ísraelsmönnum einum og sagði: „Ævinlega skal hann vera teikn milli mín og Ísraelsmanna.“ — 2. Mósebók 31:17.
Lítum síðan á hve einstakt tíunda boðorðið var sem bannaði ágirnd. Enginn maður var fær um að framfylgja slíkri lagagrein. Hver einstakur Ísraelsmaður var ábyrgur gerða sinna frammi fyrir Guði, Jehóva, sem rannsakaði hjörtu hvers manns til að kanna hverjar væru hvatir hans. — 2. Mósebók 20:17; 1. Samúelsbók 16:7; Jeremía 17:10.
Breytt viðhorf
Jesús Kristur, sem fæddist Gyðingur, sagði lærisveinum sínum: „Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla.“ (Matteus 5:17) Páll postuli skrifaði kristnum Hebreum: „Lögmálið geymir aðeins skugga hins góða, sem er í vændum, ekki skýra mynd þess.“ (Hebreabréfið 10:1) Hvernig hefðir þú skilið þessi orð ef þú hefðir verið Hebrei er snúist hefði til kristinnar trúar? Sumir meðlimir frumkristna safnaðarins trúðu að öll hin mörg hundruð lagaákvæði, sem Guð gaf fyrir milligöngu Móse, meðal annars boðorðin tíu, væru enn í fullu gildi. En var það rétt viðhorf?
Lítum á orð Páls til Gyðinga í Galatíu sem tekið höfðu kristna trú: „Vér erum fæddir Gyðingar, ekki syndarar af heiðnu bergi brotnir. En vér vitum, að maðurinn réttlætist ekki af lögmálsverkum, heldur fyrir trú á Jesú Krist. Og vér tókum trú á Krist Jesú, til þess að vér réttlætumst af trú á Krist, en ekki af lögmálsverkum. Enda réttlætist enginn lifandi maður af lögmálsverkum.“ (Galatabréfið 2:15, 16) Réttlát staða frammi fyrir Guði byggðist ekki á fullkominni hlýðni við Móselögin því að hún var ófullkomnum mönnum um megn. Páll bætti við: „En bölvun hvílir á öllum þeim, sem byggja á lögmálsverkum, því að ritað er: ‚Bölvaður er sá, sem ekki heldur fast við allt það, sem í lögmálsbókinni er ritað, og breytir eftir því.‘ . . . Kristur keypti oss undan bölvun lögmálsins með því að verða bölvun fyrir oss.“ — Galatabréfið 3:10-13.
Var nokkrum kristnum manni skylt að halda öll þau boðorð sem gefin voru Ísrael, fyrst fylgjendur Jesú úr hópi Gyðinga voru ekki lengur undir bölvun lögmálsins? Páll skrifaði Kólossumönnum: „[Guð] fyrirgaf oss öll afbrotin. Hann afmáði skuldabréfið, sem þjakaði oss með ákvæðum sínum. Hann tók það burt með því að negla það á krossinn [Krists].“ (Kólossubréfið 2:13, 14) Vafalaust þurftu margir frumkristnir menn að leiðrétta hugsun sína og gera sér fyllilega ljóst að þeir voru „leystir undan lögmálinu.“ (Rómverjabréfið 7:6) Með því að iðka trú á fórnardauða Jesú, sem batt enda á lögmálið og opnaði leiðina fyrir staðfestingu hins boðaða ‚nýja sáttmála,‘ þá áttu þeir í vændum að öðlast réttláta stöðu frammi fyrir Jehóva. — Jeremía 31:31-34; Rómverjabréfið 10:4.
Það sem þau þýða fyrir okkur
Merkir þetta að boðorðin tíu, sem teljast til undirstöðuatriða lögmálsins, hafi ekkert gildi fyrir kristna menn? Að sjálfsögðu ekki! Enda þótt boðorðin tíu séu ekki lagalega bindandi fyrir kristna menn innihalda þau heilbrigðar lífsreglur eins og önnur boð Móselaganna. Til dæmis sagði Jesús að tvö mestu boðorð lögmálsins væru þau að elska Guð og náungann. (3. Mósebók 19:18; 5. Mósebók 6:5; Matteus 22:37-40) Í heilræðum sínum til kristinna manna í Róm vitnaði Páll í sjötta, sjöunda, áttunda og tíunda boðorðið og bætti svo við: „Og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: ‚Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘“ — Rómverjabréfið 13:8, 9.
Hvaða tilgangi þjóna þá boðorðin tíu nú á dögum sem hluti af innblásnu orði Guðs? Þau opinbera viðhorf Jehóva til ýmissa mála. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Við skulum athuga hvernig þau gera það.
Fyrstu fjögur boðorðin leggja áherslu á ábyrgð okkar gagnvart Jehóva. (Fyrsta) Hann er Guð er krefst algerrar hollustu. (Matteus 4:10) (Annað) Enginn dýrkenda hans má nota líkneski. (1. Jóhannesarbréf 5:21) (Þriðja) Við ættum að nota nafn Guðs með réttum og virðulegum hætti, aldrei sýna því óvirðingu. (Jóhannes 17:26; Rómverjabréfið 10:13) (Fjórða) Allt líf okkar ætti að hafa heilög málefni sem þungamiðju. Þá getum við ‚haldið hvíldardag‘ eða hvílst frá lífsstefnu sem snýst um eigið réttlæti. — Hebreabréfið 4:9, 10.
(Fimmta) Hlýðni barna við foreldra sína er enn einn af hornsteinum fjölskyldueiningar og hefur blessun Jehóva í för með sér. Og stórfengleg von fylgir þessu ‚fyrsta boðorði með fyrirheiti.‘ — Sú von að „þér vegni vel“ og auk þess að „þú verðir langlífur á jörðinni.“ (Efesusbréfið 6:1-3) Við lifum núna á „síðustu dögum“ hins núverandi illa heimskerfis og hlýðni sem þessi opnar ungu fólki tækifæri til að lifa endalaust. — 2. Tímóteusarbréf 3:1; Jóhannes 11:26.
Kærleikur til náungans kemur í veg fyrir að við vinnum honum tjón með illvirkjum svo sem (sjötta) morði, (sjöunda) hórdómi, (áttunda) þjófnaði og (níunda) ljúgvitni gegn honum. (1. Jóhannesarbréf 3:10-12; Hebreabréfið 13:4; Efesusbréfið 4:28; Matteus 5:37; Orðskviðirnir 6:16-19) En hvað um hvatir okkar og tilefni? Síðasta boðorðið (tíunda) bannar ágirnd og minnir okkur á að Jehóva krefst þess að tilefni okkar séu alltaf hrein í hans augum. — Orðskviðirnir 21:2.
Boðorðin tíu eru sannarlega merkingarþrungin fyrir okkur. Þau byggjast á meginreglum Guðs sem úreldast aldrei og við ættum því að meta þau mikils sem áminningar um þá skyldu okkar að elska Guð og náungann. — Matteus 22:37-39.
[Myndir á blaðsíðu 6]
Dauði Jesú batt enda á lögmálið, meðal annars boðorðin tíu sem Ísraelsmönnum voru gefin á Sínaífjalli.