Verum stolt af því að vera kristin
„Sá, sem hrósar sér, hrósi sér í Drottni.“ — 1. KORINTUBRÉF 1:31.
1. Hvaða viðhorf er algengt að fólk hafi til trúar?
„SINNULEYSISTRÚ.“ Fréttamaður, sem fjallar um trúmál, notaði nýlega þetta orð til að lýsa þeirri afstöðu sem margir hafa til trúar sinnar. Hann sagði: „Athyglisverðasta þróunin í trúmálum nútímans er hreint ekki trú heldur viðhorf sem best er lýst með orðinu ‚sinnuleysistrú‘.“ Hann útskýrði málið nánar og skilgreindi „sinnuleysistrú“ sem „það að vera tómlátur um trú sína“. Hann segir að margir „trúi á Guð . . . en sé bara nokkurn veginn sama um hann“.
2. (a) Hvers vegna kemur það ekki á óvart að fólk skuli vera áhugalaust um trúmál? (b) Hverju stafar kristnum mönnum hætta af?
2 Það kemur biblíunemendum ekki á óvart að sinnuleysi skuli færast í aukana. (Lúkas 18:8) Þegar litið er á trúarbrögð í heild sinni mátti vænta þessa áhugaleysis um trúmál. Fölsk trúarbrögð hafa afvegaleitt mannkynið og valdið mönnum vonbrigðum um mjög langt skeið. (Opinberunarbókin 17:15, 16) En einlægum kristnum mönnum gæti stafað hætta af áhugaleysi og sinnuleysi heimsins. Við megum ekki við því að verða tómlát um trú okkar og glata áhuganum á sannleika Biblíunnar og þjónustunni við Guð. Jesús varaði við slíkri hálfvelgju þegar hann sagði við söfnuð frumkristinna manna í Laódíku: „Þú ert hvorki kaldur né heitur. Betur að þú værir kaldur eða heitur. . . . Þú ert hálfvolgur.“ — Opinberunarbókin 3:15-18.
Að skilja hvað það er að vera kristinn
3. Hvers vegna getum við verið stolt af því að vera kristin?
3 Til að koma í veg fyrir trúarlegt sinnuleysi þurfum við að sjá í skýru ljósi hvað það er að vera kristinn og vera stolt af því. Í Biblíunni finnum við lýsingar á því í hverju það felst að vera þjónar Jehóva og lærisveinar Krists. Við erum „vottar“ Jehóva og „samverkamenn Guðs“ þegar við tökum virkan þátt í að segja öðrum frá ,fagnaðarerindinu‘. (Jesaja 43:10; 1. Korintubréf 3:9; Matteus 24:14) Við erum fólk sem ‚elskar hvert annað‘. (Jóhannes 13:34) Sannkristnir menn „hafa tamið skilningarvitin til að greina gott frá illu“. (Hebreabréfið 5:14) Við erum „eins og ljós í heiminum“. (Filippíbréfið 2:15) Við leggjum okkur einnig fram um að ,hegða okkur vel meðal heiðingjanna‘. — 1. Pétursbréf 2:12; 2. Pétursbréf 3:11, 14.
4. Hvernig getur tilbiðjandi Jehóva komist að raun um hvað hann á ekki að vera?
4 Sannir tilbiðjendur Jehóva vita einnig hvað þeir eru ekki. „Þeir eru ekki af heiminum“ eins og leiðtogi þeirra, Jesús Kristur, var ekki af heiminum. (Jóhannes 17:16) Þeir halda sér aðgreindum frá heiminum en ,skilningur hans er blindaður og hann er fjarlægur lífi Guðs‘. (Efesusbréfið 4:17, 18) Fyrir vikið „afneita [fylgjendur Jesú] óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum“. — Títusarbréfið 2:12.
5. Við hvað er átt með orðunum að ,hrósa sér í Drottni‘?
5 Við ,hrósum okkur í Drottni‘ vegna þess að við sjáum í skýru ljósi hver við erum og eigum samband við Drottin alheimsins. (1. Korintubréf 1:31) Hvernig eigum við að ‚hrósa okkur‘? Sem sannkristnir menn erum við stolt af því að Jehóva skuli vera Guð okkar. Við fylgjum hvatningunni: „Hver sá er vill hrósa sér, hrósi sér af því, að hann sé hygginn og þekki mig, að það er ég, Drottinn, sem auðsýni miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni.“ (Jeremía 9:24) Við erum hreykin af því að fá að þekkja Guð og að hann skuli nota okkur til að hjálpa öðrum.
Það er ekki auðvelt
6. Hvers vegna finnst sumum erfitt að sjá í skýru ljósi hvað það þýðir að vera kristinn?
6 Það er að vísu ekki alltaf auðvelt að sjá í skýru ljósi hvað það þýðir að vera kristinn. Ungur maður, sem var alinn upp sem vottur Jehóva, minnist þess að hafa verið veikburða í trúnni um tíma: „Stundum fannst mér ég ekki vita hvers vegna ég væri vottur Jehóva. Mér hafði verið kenndur sannleikur Biblíunnar frá bernsku. Stundum fannst mér þetta bara vera eins og hver önnur algeng og viðurkennd trúarbrögð.“ Aðrir hafa kannski látið skemmtanaheiminn, fjölmiðla og algeng óguðleg viðhorf til lífsins hafa áhrif á sjálfsmynd sína. (Efesusbréfið 2:2, 3) Sumir kristnir menn hafa einstaka sinnum upplifað tímabil þar sem þeir fylltust efasemdum og þeim fannst þeir þurfa að endurmeta markmið sín og gildismat.
7. (a) Hvers konar sjálfsrannsókn er viðeigandi að þjónar Guðs geri? (b) Hvað gæti verið hættulegt?
7 Er rangt að gera ítarlega sjálfsrannsókn af og til? Nei. Þú manst kannski að Páll postuli hvatti kristna menn til að rannsaka sjálfa sig: „Reynið yður sjálfa, hvort þér eruð í trúnni, prófið yður sjálfa.“ (2. Korintubréf 13:5) Með þessum orðum var hann að hvetja menn til að reyna að koma auga á hugsanlega veikleika í fari sínu með það fyrir augum að leiðrétta þá. Þegar kristinn maður reynir hvort hann er í trúnni verður hann að spyrja sig hvort orð hans og verk samræmist þeirri trú sem hann játar. En sjálfsrannsókn kemur að engu gagni og gæti jafnvel spillt trúnni ef við færum ekki rétt að og færum að „leita að sjálfum okkur“ eða leita svara utan safnaðarins og óháð sambandi okkar við Jehóva.a Við viljum alls ekki bíða „skipbrot á trú“ okkar. — 1. Tímóteusarbréf 1:19.
Við erum ekki ónæm fyrir efasemdum
8, 9. (a) Hvernig lét Móse í ljós að honum fannst hann vera vanhæfur? (b) Hvernig svaraði Jehóva Móse? (c) Hvaða áhrif hefur það á þig að Jehóva skyldi hughreysta Móse á þennan hátt?
8 Ætti kristnum mönnum, sem hafa einstaka sinnum efasemdir um sjálfa sig, að finnast þeir hafa brugðist? Nei, alls ekki. Það er hughreystandi fyrir þá að hugsa til þess að slíkar tilfinningar eru ekki nýjar af nálinni. Trúfastir þjónar Guðs fyrr á tímum fundu fyrir þeim. Tökum Móse sem dæmi en hann sýndi einstaklega mikla trú, tryggð og hollustu. Þegar honum var falið mjög erfitt verkefni spurði hann hikandi: „Hver er ég?“ (2. Mósebók 3:11) Svarið, sem hann hafði í huga, var greinilega: „Ég er ekki meiri maður en hver annar“ eða „ég er ekki hæfur“. Það var ýmislegt sem gæti hafa orðið til þess að honum fannst hann ekki vera hæfur: Hann tilheyrði þjóð sem var í þrælkun, Ísraelsmenn höfðu hafnað honum og hann var ekki málsnjall maður. (2. Mósebók 1:13, 14; 2:11-14; 4:10) Auk þess var hann fjárhirðir og það fyrirlitu Egyptar. (1. Mósebók 46:34) Það kemur því ekki á óvart að honum skyldi finnast hann vera vanhæfur til að leysa þjóð Guðs úr ánauð.
9 Jehóva hughreysti Móse með því að gefa honum tvö mikilvæg loforð: „Sannlega mun ég vera með þér. Og það skalt þú til marks hafa, að ég hefi sent þig, að þá er þú hefir leitt fólkið út af Egyptalandi, munuð þér þjóna Guði á þessu fjalli.“ (2. Mósebók 3:12) Guð fullvissaði Móse þannig um að hann yrði stöðugt með honum. Auk þess var Jehóva að sýna fram á að öruggt væri að hann myndi frelsa þjóð sína. Öld eftir öld lofaði Guð fólki sínu að styðja það á svipaðan hátt. Hann sagði til dæmis við Ísraelsmenn fyrir milligöngu Móse þegar þeir voru í þann mund að fara inn í fyrirheitna landið: „Verið hughraustir og öruggir . . . Drottinn Guð þinn fer sjálfur með þér. Hann mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ (5. Mósebók 31:6) Jehóva lofaði Jósúa: „Enginn mun standast fyrir þér alla ævidaga þína. . . . Mun ég og með þér vera. Ég mun eigi sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ (Jósúabók 1:5) Jehóva lofar einnig kristnum mönnum: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ (Hebreabréfið 13:5) Þar sem við fáum svona öflugan stuðning ættum við að vera stolt af því að vera kristin.
10, 11. Hvað hjálpaði Asaf að hafa rétt viðhorf til þjónustunnar við Jehóva?
10 Um fimm öldum eftir daga Móse skrifaði dyggur levíti, Asaf að nafni, mjög hreinskilnislega að hann efaðist um hvort það væri þess virði að vera ráðvandur. Á meðan hann streittist við að þjóna Guði þrátt fyrir prófraunir og freistingar sá hann að sumir sem hæddust að Guði urðu efnaðri og valdameiri. Hvaða áhrif hafði þetta á Asaf? „Nærri lá, að fætur mínir hrösuðu,“ viðurkenndi hann. „Lítið vantaði á, að ég skriðnaði í skrefi, því að ég fylltist gremju út af hinum hrokafullu, þegar ég sá gengi hinna guðlausu.“ Hann fór að efast um hvort það væri þess virði að vera tilbiðjandi Jehóva. „Vissulega hefi ég til ónýtis haldið hjarta mínu hreinu og þvegið hendur mínar í sakleysi,“ hugsaði hann. „Ég þjáist allan daginn.“ — Sálmur 73:2, 3, 13, 14.
11 Hvernig tókst Asaf á við þessar óþægilegu tilfinningar? Hunsaði hann þær? Nei, hann tjáði Guði þær í bæn eins og sést á 73. sálminum. Það sem skipti sköpum fyrir Asaf var að hann fór inn í musteri Guðs. Þegar hann var þar gerði hann sér grein fyrir því að þegar allt kemur til alls er best að vera Guði ráðvandur. Eftir að hafa séð málin frá andlegum sjónarhóli skildi hann að Jehóva hatar illsku og mun á sínum tíma refsa hinum óguðlegu. (Sálmur 73:17-19) Þannig sá hann hve mikill heiður það var að vera þjónn Jehóva. Hann sagði við Guð: „Ég er ætíð hjá þér, þú heldur í hægri hönd mína. Þú munt leiða mig eftir ályktun þinni, og síðan munt þú taka við mér í dýrð.“ (Sálmur 73:23, 24) Asaf varð aftur stoltur af því að vera tilbiðjandi Jehóva. — Sálmur 34:2.
Þau voru stolt af því að vera þjónar Jehóva
12, 13. Nefnið dæmi um biblíupersónur sem voru stoltar af því að eiga samband við Guð.
12 Biblían segir frá mörgum dyggum þjónum Guðs sem voru mjög stoltir af því að eiga samband við hann jafnvel þótt á móti blési. Kristnir menn geta styrkt sjálfsmynd sína með því að hugsa um trú þeirra og líkja eftir henni. Tökum Jósef, son Jakobs, sem dæmi. Ungur að aldri var hann seldur sem þræll og fluttur til Egyptalands, hundruð kílómetra frá guðræknum föður sínum, í umhverfi sem var harla ólíkt hlýlegu og kærleiksríku andrúmsloftinu á heimili hans. Í Egyptalandi gat hann ekki leitað til neinna manna til að fá ráð sem samræmdust vilja Guðs og hann þurfti að takast á við erfiðar aðstæður sem reyndu á siðferðisstyrk hans og ráðvendni við Guð. En hann lagði sig greinilega meðvitað fram um að sýna að hann væri þjónn Guðs og hann hélt sig fast við það sem hann vissi að væri rétt. Hann var stoltur af því að vera tilbiðjandi Jehóva jafnvel við erfiðar aðstæður og var óhræddur að segja hvað honum bjó í brjósti. — 1. Mósebók 39:7-10.
13 Átta öldum síðar var ísraelsk stúlka ambátt sýrlenska hershöfðingjans Naamans. Hún sýndi að hún hafði ekki gleymt því að hún væri tilbiðjandi Jehóva. Þegar tækifæri gafst vitnaði hún djarflega um Jehóva með því að benda á að Elísa væri spámaður hins sanna Guðs. (2. Konungabók 5:1-19) Löngu síðar stóð hinn ungi Jósía konungur fyrir langvarandi trúarlegum endurbótum, gerði við musteri Jehóva og endurvakti tilbeiðslu þjóðarinnar á honum þrátt fyrir að vera umkringdur spilltum mönnum. Hann var stoltur af trú sinni og tilbeiðslu. (2. Kroníkubók, kaflar 34 og 35) Daníel og þrír hebreskir félagar hans í Babýlon gleymdu því aldrei að þeir voru þjónar Jehóva og voru ráðvandir jafnvel þegar þeir voru undir álagi og urðu fyrir freistingum. Þeir voru greinilega stoltir af því að vera þjónar Jehóva. — Daníel 1:8-20.
Verum stolt af því að vera kristin
14, 15. Hvað felst í því að ‚hrósa sér‘ af því að vera kristinn?
14 Þessum þjónum Guðs vegnaði vel af því að þeir höfðu ræktað með sér heilnæmt stolt yfir því að eiga gott samband við Guð. En hvernig er þessu farið með okkur? Hvað felst í því að ‚hrósa sér‘ af því að vera kristinn?
15 Fyrst og fremst felst það í því að vera innilega þakklátur fyrir að fá að bera nafn Jehóva og njóta blessunar hans og velþóknunar. Guð veit mætavel hverjir tilheyra honum. Páll postuli, sem var uppi á tíma mikillar trúaróreiðu, skrifaði: „Drottinn þekkir sína.“ (2. Tímóteusarbréf 2:19; 4. Mósebók 16:5) Jehóva er stoltur af þjónum sínum. Hann segir: „Hver sá er snertir yður, snertir augastein minn.“ (Sakaría 2:12) Það er deginum ljósara að Jehóva elskar okkur. Samband okkar við hann ætti því einnig að vera byggt á innilegum kærleika til hans. Páll sagði: „Ef einhver elskar Guð, þá er hann þekktur af honum.“ — 1. Korintubréf 8:3.
16, 17. Hvers vegna geta kristnir menn, bæði ungir sem aldnir, verið stoltir af andlegri arfleifð sinn?
16 Unglingar, sem hafa verið aldir upp sem vottar Jehóva, ættu að spyrja sig hvort þeir séu að styrkja samband sitt við Guð og sjálfsmynd sína sem kristnir menn. Þeir geta ekki reitt sig eingöngu á trú foreldra sinna. Páll hafði hvern einasta þjón Guðs í huga þegar hann skrifaði: „Hann stendur og fellur herra sínum.“ Síðan hélt hann áfram: „Því skal þá sérhver af oss lúka Guði reikning fyrir sjálfan sig.“ (Rómverjabréfið 14:4, 12) Til að eiga náið og langvarandi samband við Jehóva er augljóslega ekki nóg að stunda trú sína með hálfum huga eins og hún væri bara hefð fjölskyldunnar.
17 Alla mannkynssöguna hafa verið uppi trúfastir vottar Jehóva. Sagan nær allt frá Abel fyrir um 6000 árum fram til okkar daga þar sem „mikill múgur“ votta Jehóva hefur komið fram á sjónarsviðið og hún mun halda áfram þegar ótal tilbiðjendur Jehóva munu lifa að eilífu. (Opinberunarbókin 7:9; Hebreabréfið 11:4) Við erum hluti af þessari löngu röð trúfastra tilbiðjenda Jehóva. Við eigum svo sannarlega dýrmæta andlega arfleifð!
18. Hvernig aðgreina siðferðisstaðlar okkar og gildismat okkur frá heiminum?
18 Það að vera kristinn maður er einnig fólgið í því að hafa ákveðið gildismat, eiginleika, persónuleika og siðferðisstaðla. Það er eina farsæla lífsbrautin sem gleður Guð. (Efesusbréfið 4:22-24) Kristnir menn ‚prófa allt‘ og ‚halda því sem gott er‘. (1. Þessaloníkubréf 5:21) Við sjáum skýrt muninn á kristnum mönnum og heiminum sem er fjarlægur Guði. Jehóva gerir skýran greinarmun á sannri tilbeiðslu og falskri. Hann sagði fyrir milligöngu spámannsins Malakís: „Þá munuð þér aftur sjá þann mismun, sem er á milli réttláts manns og óguðlegs, á milli þess, sem Guði þjónar, og hins, sem ekki þjónar honum.“ — Malakí 3:18.
19. Hvað mun aldrei koma fyrir sannkristna menn?
19 Það er mikilvægt að ,hrósa sér í Drottni‘ í þessum ráðvillta heimi. Hvað getur hjálpað okkur að vera stolt af því að vera kristin og af því að Jehóva skuli vera Guð okkar? Í næstu grein koma fram gagnlegar ráðleggingar sem við skulum athuga. En því megum við treysta að sannkristnir menn verða aldrei „sinnuleysistrú“ að bráð.
[Neðanmáls]
a Hér er aðeins verið að fjalla um trúarleg mál. Leita getur þurft til sérfræðinga vegna ýmissa geðrænna vandamála.
Manstu?
• Hvernig geta kristnir menn ,hrósað sér í Drottni‘?
• Hvað hefur þú lært af Móse og Asaf?
• Hvaða biblíupersónur voru stoltar af því vera þjónar Guðs?
• Hvað felst í því að ‚hrósa sér‘ af því að vera kristinn?
[Mynd á blaðsíðu 20]
Móse efaðist tímabundið um sjálfan sig.
[Myndir á blaðsíðu 21]
Margir þjónar Jehóva til forna voru stoltir af trú sinni.