Heiðrum hið mikla nafn Jehóva
„Ég vil . . . tigna nafn þitt að eilífu.“ – SÁLM. 86:12.
1, 2. Hvernig líta vottar Jehóva á nafn Guðs, ólíkt því sem gerist í kirkjufélögum kristna heimsins?
KIRKJUFÉLÖG kristna heimsins hafa að mestu leyti sniðgengið nafn Guðs. Til dæmis segir í formála biblíuþýðingarinnar Revised Standard Version að það sé „algerlega óviðeigandi í almennri trú kristinnar kirkju“ að nefna hinn eina og sanna Guð ákveðnu eiginnafni.
2 Vottar Jehóva eru hins vegar stoltir af því að mega bera nafn Guðs og heiðra það. (Lestu Sálm 86:12; Jesaja 43:10.) Við teljum það líka mikinn heiður að vita hvað nafnið merkir og skilja hve áríðandi það er að það sé helgað. (Matt. 6:9) Við megum aldrei líta á það sem sjálfsagðan hlut að fá að þekkja Jehóva. Við skulum því leita svara við þrem mikilvægum spurningum: Hvað merkir það að þekkja hið mikla nafn Guðs? Hvernig hefur Jehóva staðið undir nafni og upphafið það? Og hvernig getum við lifað í nafni Jehóva?
HVAÐ MERKIR ÞAÐ AÐ ÞEKKJA NAFN GUÐS?
3. Hvað merkir það að þekkja nafn Guðs?
3 Að þekkja nafn Guðs er miklu meira en að vita bara að hann heitir Jehóva. Það felur í sér að þekkja orðspor hans, eiginleika, fyrirætlanir og verk eins og þeim er lýst í Biblíunni, svo og að vera kunnugur samskiptum hans við þjóna sína. Jehóva veitir okkur skilning smám saman eftir því sem hann hrindir vilja sínum í framkvæmd. (Orðskv. 4:18) Hann opinberaði fyrstu hjónunum nafn sitt og Eva nefndi það eftir að hún fæddi Kain. (1. Mós. 4:1, NW) Ættfeðurnir Nói, Abraham, Ísak og Jakob þekktu nafn Guðs. Og þeir lærðu að meta það enn meir þegar hann blessaði þá, annaðist og opinberaði þeim fyrirætlun sína. Hann upplýsti Móse sérstaklega um merkingu nafnsins.
4. Hvers vegna spurði Móse Guð um nafn hans og af hverju er það skiljanlegt?
4 Lestu 2. Mósebók 3:10-15. Þegar Móse var áttræður fékk hann eftirfarandi fyrirmæli frá Guði: „Leiddu þjóð mína, Ísraelsmenn, út úr Egyptalandi.“ Móse sýndi Guði fulla virðingu en spurði spurningar sem hafði djúpstæða merkingu. Hann spurði Guð hvert væri nafn hans. Nú hafði nafn Guðs verið þekkt lengi. Hvers vegna spurði Móse þá um það? Hann langaði greinilega til að vita meira um persónuna að baki nafninu. Hann vildi geta sannfært þjóðina um að Guð ætlaði í alvöru að frelsa hana. Það er skiljanlegt að Móse skyldi spyrja að þessu því að Ísraelsmenn höfðu verið þrælar lengi. Þeim var sennilega spurn hvort Guð feðra þeirra gæti frelsað þá. Sumir þeirra voru meira að segja farnir að tilbiðja egypska guði. – Esek. 20:7, 8.
5. Hvernig varpaði Jehóva ljósi á merkingu nafns síns?
5 Hvernig svaraði Jehóva spurningu Móse? Hann sagði meðal annars: „Svo skaltu segja við Ísraelsmenn: ,Ég er‘ sendi mig til ykkar.“a Hann bætti síðan við: „[Jehóva],b Guð feðra ykkar . . . sendi mig til ykkar.“ Guð opinberaði Móse að hann myndi verða hvaðeina sem þyrfti til að hrinda vilja sínum í framkvæmd og alltaf standa við orð sín. Þess vegna sagði Jehóva um sjálfan sig í 15. versinu: „Þetta er nafn mitt um aldur og ævi, heiti mitt frá kyni til kyns.“ Þessi opinberun hlýtur að hafa styrkt trú Móse og vakið með honum djúpa lotningu.
JEHÓVA STÓÐ UNDIR NAFNI
6, 7. Hvernig stóð Jehóva undir sínu mikla nafni?
6 Jehóva stóð undir nafni og frelsaði Ísraelsmenn skömmu eftir að hann fól Móse þetta verkefni. Hann auðmýkti Egypta þegar hann lét tíu ógurlegar plágur ganga yfir þá. Þær afhjúpuðu guði þeirra, meðal annars faraó, og sýndu fram á að þeir væru máttlausir. (2. Mós. 12:12) Síðan klauf Jehóva Rauðahafið, leiddi Ísraelsmenn yfir á hinn bakkann og drekkti svo faraó og herliði hans. (Sálm. 136:13-15) Jehóva verndaði líf þjóðar sinnar í eyðimörkinni því að hann sá henni fyrir mat og vatni, og þetta voru ef til vill tvær eða þrjár milljónir manna. Hann sá jafnvel til þess að föt þeirra og skór slitnuðu ekki. (5. Mós. 1:19; 29:5) Ekkert getur hindrað Jehóva í að standa undir sínu óviðjafnanlega nafni. Hann sagði við Jesaja löngu síðar: „Ég er [Jehóva], ég einn, og enginn frelsari er til nema ég.“ – Jes. 43:11.
7 Jósúa, arftaki Móse, varð líka vitni að máttarverkum Jehóva í Egyptalandi og eyðimörkinni. Skömmu áður en hann dó gat hann því sagt með óbifanlegri sannfæringu við samlanda sína: „Þið skuluð játa af öllu hjarta og allri sálu að ekkert fyrirheitanna sem voru ykkur í hag og [Jehóva], Guð ykkar, gaf ykkur er óefnt, öll hafa þau ræst, ekkert þeirra hefur brugðist.“ (Jós. 23:14) Jehóva stóð við orð sín í einu og öllu og gerði allt sem hann hafði lofað.
8. Hvernig stendur Jehóva undir nafni á okkar dögum?
8 Hið sama er að segja um okkar daga. Jehóva stendur við allt sem hann hefur lofað. Hann boðaði fyrir milligöngu sonar síns að fagnaðarerindið um ríkið yrði prédikað „um alla heimsbyggðina“ á síðustu dögum. (Matt. 24:14) Enginn nema alvaldur Guð gat sagt fyrir að þetta yrði gert, hrint því í framkvæmd og notað ,óbrotna alþýðumenn‘ til þess. (Post. 4:13) Við eigum því þátt í að uppfylla biblíuspádóm þegar við boðum ríki Guðs. Við heiðrum föðurinn og sýnum að okkur er alvara þegar við biðjum: „Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ – Matt. 6:9, 10.
NAFN HANS ER MIKIÐ
9, 10. Hvernig fáum við skýrari mynd af eiginleikum Jehóva þegar við skoðum samskipti hans við Ísrael?
9 Skömmu eftir burtförina af Egyptalandi tók Jehóva á sig nýtt hlutverk gagnvart þjóð sinni. Fyrir milligöngu lagasáttmálans varð hann eins og eiginmaður hennar og tók fúslega á sig allar þær skyldur sem fylgdu því. Ísraelsmenn urðu eins og eiginkona hans og báru nafn hans. (Jes. 54:5, 6) Ef þeir væru honum undirgefnir og héldu boðorð hans af fúsu geði yrði hann fullkominn ,eiginmaður‘ þeirra. Hann myndi blessa þá, varðveita og veita frið. (4. Mós. 6:22-27) Hið mikla nafn Jehóva yrði hátt upp hafið meðal þjóðanna. (Lestu 5. Mósebók 4:5-8; Sálm 86:7-10.) Margir útlendingar löðuðust að sannri tilbeiðslu meðan Ísraelsmenn voru þjóð Guðs. Þeir sögðu efnislega hið sama og Rut frá Móab þegar hún sagði við Naomí: „Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð.“ – Rut. 1:16.
10 Samskipti Jehóva við Ísraelsmenn um 1.500 ára skeið gáfu enn skýrari mynd af eiginleikum hans. Þjóðin óhlýðnaðist honum æ ofan í æ en hann reyndist „miskunnsamur og . . . seinn til reiði“. Hann sýndi ótrúlega þolinmæði og langlundargeð. (2. Mós. 34:5-7) Þolinmæði Jehóva voru þó takmörk sett og þeim takmörkum var náð þegar þjóðin hafnaði syni hans og fékk hann líflátinn. (Matt. 23:37, 38) Ísraelsmenn fengu ekki lengur að bera nafn Guðs. Upp til hópa voru þeir andlega dauðir. Þeir voru eins og visið tré. (Lúk. 23:31) Hvaða áhrif hafði það á afstöðu þeirra til nafns Guðs?
11. Hvers vegna hættu Gyðingar að nota nafn Guðs?
11 Sagan sýnir að með tíð og tíma varð til sú hjátrú meðal Gyðinga að nafn Guðs væri of heilagt til að nefna það. (2. Mós. 20:7) Gyðingar hættu smám saman að taka sér nafnið í munn. Það hlýtur að hafa sært Jehóva að horfa upp á slíka óvirðingu gagnvart nafni sínu. (Sálm. 78:40, 41) Ljóst er að Guð, sem er nefndur „Hinn vandláti“, ætlaði ekki að leggja nafn sitt endalaust við þjóð sem hafði afneitað honum og hann hafði afneitað. (2. Mós. 34:14) Þetta ætti að vera okkur áminning um að bera alltaf djúpa virðingu fyrir nafni skaparans.
NÝ ÞJÓÐ SEM BER NAFN GUÐS
12. Hvaða nýju þjóð valdi Jehóva til að bera nafn sitt?
12 Jehóva opinberaði fyrir munn Jeremía að hann ætlaði að gera „nýjan sáttmála“ við nýja andlega Ísraelsþjóð. Allir myndu þekkja Jehóva, „bæði stórir og smáir“. (Jer. 31:31, 33, 34) Þessi spádómur byrjaði að rætast á hvítasunnu árið 33 þegar Guð gerði nýja sáttmálann við nýja þjóð sem er nefnd „Ísrael Guðs“. Í henni voru bæði Gyðingar og fólk af öðrum þjóðum. Eins og Jehóva hafði sagt eignaðist hann þjóð sem ,bar nafn hans‘. – Gal. 6:16; lestu Postulasöguna 15:14-17; Matt. 21:43.
13. (a) Notuðu frumkristnir menn nafn Guðs? Skýrðu svarið. (b) Hvernig líturðu á það að mega nota nafn Jehóva í boðunarstarfinu?
13 Þeir sem tilheyrðu þessari andlegu þjóð notuðu nafn Guðs, til dæmis þegar þeir vitnuðu í Hebresku ritningarnar.c Pétur postuli nefndi nafnið nokkrum sinnum á hvítasunnu árið 33 þegar hann ávarpaði hóp Gyðinga og trúskiptinga af mörgum þjóðum. (Post. 2:14, 20, 21, 25, 34) Frumkristnir menn virtu Jehóva og hann blessaði þá þegar þeir boðuðu fagnaðarerindið. Jehóva blessar líka boðunarstarf okkar þegar við segjum stolt frá nafni hans og sýnum það áhugasömum í þeirra eigin biblíu ef kostur er. Þannig komum við þeim í kynni við hinn sanna Guð. Það er mikill heiður fyrir þá – og okkur. Fyrir suma er þetta upphafið að vináttusambandi við Jehóva sem styrkist síðan jafnt og þétt og getur varað að eilífu.
14, 15. Hvernig hefur Jehóva haldið nafni sínu á lofti þrátt fyrir fráhvarfið?
14 Síðar tóku fráhvarfsmenn að spilla kristna söfnuðinum með falskenningum, ekki síst eftir að postularnir voru dánir. (2. Þess. 2:3-7) Falskennarar tóku jafnvel upp þann sið Gyðinga að nota ekki nafn Guðs. En leyfði Jehóva nafni sínu að falla í gleymsku? Síður en svo. Menn vita reyndar ekki með vissu hvernig nafnið var borið fram en það hefur sannarlega ekki fallið í gleymsku. Í aldanna rás hefur það staðið í ýmsum þýðingum Biblíunnar og í ritum biblíufræðinga. Til dæmis skrifaði Charles Peters árið 1757 að nafnið Jehóva „virðist lýsa eðli Guðs betur“ en nokkur titill. Árið 1797 gaf Hopton Haynes út bók um tilbeiðslu á Guði. Sjöundi kaflinn hefst með þessum orðum: „JEHÓVA er nafn GUÐS hjá Gyðingum. Þeir tilbáðu hann einan og hið sama er að segja um Krist og postula hans.“ Henry Grew (1781-1862) notaði nafnið og benti á að það hefði verið svívirt og því þyrfti að helga það. Bæði George Storrs (1796-1879) og Charles T. Russell notuðu nafnið en þeir áttu með sér náið samstarf.
15 Árið 1931 markaði tímamót hjá þjónum Guðs. Fram að því höfðu þeir kallað sig Alþjóðlega biblíunemendur en það ár tóku þeir sér nafnið Vottar Jehóva sem þeir sóttu í Biblíuna. (Jes. 43:10-12) Þannig fékk veröldin að vita að þeir væru stoltir af því að þjóna hinum eina sanna Guði, vera ,lýður sem bar nafn hans‘ og mega lofa það. (Post. 15:14) Jehóva hefur greinilega haldið nafni sínu á lofti og það minnir á Malakí 1:11: „Frá sólarupprás til sólarlags er nafn mitt mikilsvirt meðal þjóðanna.“
LIFUM Í NAFNI JEHÓVA
16. Hvers vegna ættum við að telja það mikinn heiður að fá að lifa í nafni Jehóva?
16 Míka spámaður skrifaði: „Aðrar þjóðir munu lifa, hver í nafni síns guðs, en vér munum lifa í nafni [Jehóva], Guðs vors, um aldir alda.“ (Míka 4:5) Að Jehóva skyldi leyfa Biblíunemendunum að kenna sig við nafn hans var ekki aðeins mikill heiður. Það var líka staðfesting á því að hann hefði velþóknun á þeim. (Lestu Malakí 3:16-18.) Hugsarðu þannig? Gerirðu þitt ýtrasta til að lifa í nafni Jehóva? Gerirðu þér grein fyrir hvað það felur í sér?
17. Hvað er fólgið í því að lifa í nafni Guðs?
17 Að lifa í nafni Guðs felur að minnsta kosti þrennt í sér. Í fyrsta lagi þurfum við að boða öðrum nafnið því að enginn verður hólpinn nema hann ákalli nafn Jehóva. (Rómv. 10:13) Í öðru lagi þurfum við að endurspegla eiginleika Jehóva, ekki síst kærleika hans. Og í þriðja lagi lifum við í nafni Guðs þegar við förum fúslega eftir réttlátum lögum hans og gætum þess að kasta ekki rýrð á nafnið. (1. Jóh. 4:8; 5:3) Ertu staðráðinn í að ,lifa í nafni Jehóva, Guðs okkar, um aldir alda‘?
18. Hvers vegna geta allir sem heiðra nafn Jehóva hlakkað til framtíðarinnar?
18 Áður en langt um líður neyðast allir sem bjóða Jehóva byrginn til að viðurkenna að hann sé Guð. (Esek. 38:23) Þeirra á meðal er fólk sem hugsar eins og faraó en hann spurði: „Hver er [Jehóva] sem ég á að hlýða?“ Hann komst fljótlega að raun um það. (2. Mós. 5:1, 2; 9:16; 12:29) Við höfum hins vegar valið að kynnast Jehóva. Við erum stolt af því að bera nafn hans og vera hlýðnir þjónar hans. Við hlökkum til þeirrar stundar þegar loforðið rætist sem skráð er í Sálmi 9:11: „Þeir sem þekkja nafn þitt treysta þér því að þú, [Jehóva], bregst ekki þeim sem til þín leita.“
a Nafn Guðs er ákveðin mynd hebreskrar sagnar sem merkir „að verða“. Nafnið Jehóva merkir því „hann lætur verða“.
b Í þessari grein er nafni Guðs skotið inn í texta Biblíunnar í stað orðsins „Drottinn“ þar sem það er að finna í frumtexanum.
c Nafn Guðs stóð í hebreska textanum sem frumkristnir menn notuðu. Margt bendir til þess að nafnið hafi einnig staðið í elstu útgáfum Sjötíumannaþýðingarinnar sem var grísk þýðing Hebresku ritninganna.