Fóstureyðing – og „uppspretta lífsins“
MEÐ nýjustu tækni er hægur vandi að greina kynferði fósturs í móðurkviði. En hver getur greint hvaða mann það hefur að geyma? Hver getur greint hvaða möguleika það á eftir að hafa sem lifandi sál, maður? (1. Mósebók 2:7) Einungis Jehóva Guð getur það því að hann er „uppspretta lífsins.“ (Sálmur 36:10) Líttu á eftirfarandi dæmi úr Biblíunni.
Erfðalög ættfeðranna til forna veittu frumgetnum syni ýmis réttindi og skyldur. En þegar Rebekka, kona Ísaks, bar tvíbura undir belti, sagði Guð henni: „Hinn eldri mun þjóna hinum yngri.“ Lífsstefna drengjanna tveggja, Jakobs og Esaús, leiddi í ljós að Jehóva kunni skil á persónuleika þeirra löngu fyrir fæðingu. — 1. Mósebók 25:22, 23.
Öldum síðar sagði engill Sakaría presti og Elísabetu konu hans að þau myndu eignast son sem skyldi nefndur Jóhannes. Það voru sérréttindi þessa sonar, síðar þekktur sem Jóhannes skírari, að búa veginn fyrir komu Jesú, Messíasar. Þetta verkefni krafðist manns með auðmjúkt hugarfar, og Guð vissi að hann myndi hafa það til að bera. — Lúkas 1:8-17.
Hve dýrmætt er mannsfóstrið?
Davíð konungur játaði: „Þú [Jehóva] hefir . . . ofið mig í móðurlífi. . . . Augu þín sáu mig er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína.“ Þannig er það í rauninni með alla menn. — Sálmur 139:13-16.
Hvert einasta barn í móðurkviði er dýrmætt í augum ‚uppsprettu lífsins,‘ Jehóva Guðs. Af 2. Mósebók 21:22, 23 má sjá hversu dýrmætt það er: „Ef menn fljúgast á og stjaka við þungaðri konu . . . og . . . ef skaði hlýst af, þá skalt þú láta líf fyrir líf.“
Af sumum biblíuþýðingum má skilja að meginatriði þessa lagaákvæðis sé hvað varð um móðurina, ekki fóstrið. En hebreski frumtextinn vísar til dauðaslyss annaðhvort móður eða barns.
Viðhorf frumkristinna manna
Eftir dauða postula Jesú Krists á fyrstu öld útlistuðu margir kenningar þeirra nánar. Þeir sem það gerðu fengu ekki til þess guðlegan innblástur, eins og biblíuritararnir, en orð þeirra eru eigi að síður athyglisverð því að þau endurspegla trúarlega afstöðu þess tíma í þessu máli. Hér fara á eftir fáein dæmi.
Bréf Barnabasar, kafli 19:5 (um 100-132 e.o.t.)
„Þú skalt ekki drepa barn með því að framkalla fósturlát og ekki heldur fyrirfara því eftir fæðingu.“
Dídache eða Kenningar postulanna tólf (um 150 e.o.t.)
„Þetta er vegur lífsins: . . . Þú skalt ekki drepa barn í móðurkviði eða myrða nýbura.“
Varnarræður Tertúllíanusar, kafli 9:8 (um 197 e.o.t.)
„En hjá okkur er morð bannað í eitt skipti fyrir öll. Okkur leyfist ekki einu sinni að eyða fóstri í móðurlífi, svo lengi sem blóð rennur til að mynda mannveru. Að koma í veg fyrir fæðingu barns er morð framið fyrirfram. Einu gildir hvort eytt er lífi þess sem þegar er fæddur eða komið í veg fyrir fæðinguna. Sá sem verður maður er þegar maður.“
Bréf Basilíusar til Amfílókíusar (347 e.o.t.)
„Sú sem af ásetningi drepur fóstur sitt skal gjalda fyrir sem morð væri. Og hártoganir um það, hvort fóstrið hafi verið myndað eða ómyndað eru ekki teknar til greina hjá okkur.“
Afstaða kristins manns
Mannlegur ófullkomleiki eða slys geta hvenær sem er valdið því að kona missi fóstur. Það að framkalla fósturlát í þeim tilgangi einum að komast hjá því að fæða í heiminn barn, sem ekki er óskað, er allt annað mál. Eins og við höfum séð frá Biblíunni er það morð að yfirlögðu ráði.
Hver er „sá er breiddi út jörðina með öllu því, sem á henni vex, sá er andardrátt gaf mannfólkinu á jörðinni og lífsanda þeim, er á henni ganga“? Það er ekki maðurinn heldur uppspretta alls lífs, Jehóva Guð. (Jesaja 42:5) Sá hæfileiki að eignast afkvæmi, sem Guð hefur gefið okkur, er dýrmæt sérréttindi sem við þurfum að „lúka Guði reikning fyrir“ eins og í öllum öðrum efnum. — Rómverjabréfið 14:12.
[Rammi á blaðsíðu 14]
Ánægjuleg málalok
Árið 1973 birtist í Varðturninum, systurblaði Vaknið!, stutt grein um viðhorf Biblíunnar til fóstureyðinga. Tveir ungir skólanemar lásu hana. Stúlkan var barnshafandi og hún og barnsfaðirinn höfðu orðið ásátt um að láta eyða fóstrinu. En greinin kom þeim til að hugsa sem varð til þess að þau ákváðu að eignast barnið.
Fyrir skömmu hittu vottar Jehóva þennan mann aftur og hann sagði: „Ég ber djúpa virðingu fyrir biblíuritum ykkar. Svo er fyrir að þakka þessari grein, sem hristi okkur óþyrmilega, að við hjónin eigum nú yndislega þrettán ára dóttur sem við erum bæði stolt af!“
Það var þeim greinilega til hamingju að fylgja ráðum Biblíunnar.
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 15]
Ljósmynd: H. Armstrong Roberts