Þú ættir að kynnast Skapara þínum
„Ég vil láta allan minn ljóma líða fram hjá þér, og ég vil kalla nafnið [Jehóva] frammi fyrir þér.“ — 1. MÓSEBÓK 33:19.
1. Hvers vegna á skaparinn það skilið að vera heiðraður?
JÓHANNES postuli, sá er skrifaði síðustu biblíubókina, skráði þessa djúphugsuðu yfirlýsingu um skaparann: „Verður ert þú, [Jehóva] vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ (Opinberunarbókin 4:11) Eins og greinin hér á undan leiddi í ljós gefa vísindauppgötvanir nútímans mönnum oft aukna ástæðu til að trúa á skapara allra hluta.
2, 3. (a) Hvað þarf fólk að læra um skaparann? (b) Hvers vegna er það út í hött að ætla sér að hitta skaparann í eigin persónu?
2 Vissulega er þýðingarmikið að viðurkenna að skaparinn sé til en það er ekki síður mikilvægt að kynna sér hvernig hann er — að hann sé raunveruleg og aðlaðandi persóna. Væri ekki gagnlegt að kynnast honum betur, alveg sama í hve miklum mæli þú hefur gert það hingað til? Það krefst þess ekki að þú hittir hann persónulega í sama skilningi og við hittum aðra menn.
3 Við getum meira að segja rakið tilveru stjarnanna til Jehóva og sólin okkar er aðeins meðalstór stjarna. Létir þú þér detta í hug að komast í líkamlegt návígi við sólina? Tæplega? Flestir forðast jafnvel að horfa sem snöggvast á hana eða að láta öfluga geisla hennar skína á húð sína í langan tíma. Hitinn í kjarna hennar er eitthvað um 15.000.000 gráður á Celsíus. Á hverri sekúndu breytir þessi kjarnasamrunaofn um fjórum milljónum tonna af massa í orku. Aðeins brot af því nær til jarðarinnar sem hiti og ljós en það er nóg til að viðhalda öllu lífi hér á jörð. Þessar grundvallarstaðreyndir ættu að láta okkur skiljast hvílíku ógnarafli skaparinn býr yfir. Jesaja gat með réttu skrifað um ‚mikilleik kraftar [skaparans] og að hann væri voldugur að afli.‘ — Jesaja 40:26.
4. Um hvað bað Móse og hver voru viðbrögð Jehóva?
4 Vissir þú að nokkrum mánuðum eftir að Ísraelsmenn fóru út af Egyptalandi árið 1513 f.o.t. bað Móse samt sem áður skaparann: „Lát mig þá sjá dýrð þína!“ (2. Mósebók 33:18) Með það í huga að Guð skapaði jafnvel sólina er skiljanlegt hvers vegna hann svaraði Móse: „Þú getur eigi séð auglit mitt, því að enginn maður fær séð mig og lífi haldið.“ Skaparinn leyfði Móse að fara í felur á Sínaífjalli á meðan hann ‚færi fram hjá.‘ Móse fékk þá að sjá „bak“ Guðs, ef svo má segja, einhvers konar endurskin af dýrð eða nærveru skaparans. — 2. Mósebók 33:20-23; Jóhannes 1:18.
5. Hvernig fór skaparinn að því að verða við bón Móse, og hvað sannaði það?
5 Löngun Móse til að kynnast skaparanum betur var svalað. Guð notaði greinilega engil sem talsmann sinn þegar hann fór fram hjá Móse og kallaði: „[Jehóva], miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur, sem auðsýnir gæsku þúsundum og fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir, en lætur þeirra þó eigi með öllu óhegnt.“ (2. Mósebók 34:6, 7) Þetta sýnir að nánari kynni af skapara okkar felast ekki í því að sjá bókstaflega ásýnd hans heldur skynja í ríkari mæli hvernig hann er, persónuleika hans og einkenni.
6. Hvernig er ónæmiskerfið í okkur listasmíð?
6 Ein leið til nánari kynna er að greina eiginleika Guðs út frá því sem hann hefur skapað. Lítum á ónæmiskerfið í okkur. Scientific American sagði í tölublaði um ónæmi: „Allt frá því fyrir fæðingu til dauðadags er ónæmiskerfið sífellt í viðbragðsstöðu. Margvíslegar fylkingar sameinda og fruma . . . verja okkur gegn hvers konar sníklum. Án þessa varnarkerfis gætu menn ekki þrifist.“ Hvernig er þetta kerfi orðið til? Grein í sama tímariti sagði: „Hin stórkostlega fylking frumna, sem orka fimlega hver á aðra og verja líkamann fyrir innrásarliði veira og sýkla, sprettur af nokkrum móðurfrumum sem fyrst koma fram um níu vikum eftir getnað.“ Fóstur, sem er að þroskast í móðurkviði, fær nokkurt ónæmi frá móðurinni. Seinna fær barnið með brjóstamjólkinni ónæmisfrumur og önnur gagnleg efnasambönd frá móður sinni.
7. Hvað gætum við hugleitt í sambandi við ónæmiskerfið og til hvaða niðurstöðu gæti það leitt?
7 Þú hefur góða ástæðu til að draga þá ályktun að ónæmiskerfið í þér skari fram úr hverju því sem læknavísindi nútímans geta boðið upp á. Spyrðu því sjálfan þig: ‚Hvaða vísbending er þetta um þann sem bjó það til og gaf okkur?‘ Þetta kerfi, sem ‚fyrst kemur fram um níu vikum eftir getnað‘ og er tilbúið til varnar nýfæddu barninu, endurspeglar svo sannarlega visku og fyrirhyggju. En getum við greint jafnvel meira um skaparann út frá þessu kerfi? Hvað ályktum við flest um Albert Schweitzer og aðra sem helguðu líf sitt því að veita bágstöddum læknishjálp? Yfirleitt eignum við slíkum hluttekningarsömum mannvinum góða eiginleika. Hvað getum við þá á samsvarandi hátt ályktað um skapara okkar sem gefur jafnt ríkum sem fátækum ónæmiskerfi? Hann er augljóslega kærleiksríkur, óhlutdrægur, hluttekningarsamur og réttlátur. Samræmist það ekki lýsingunni á skaparanum sem Móse fékk að heyra?
Hann sýnir hvernig hann er
8. Á hvaða einstakan hátt opinberar Jehóva sig okkur?
8 Til er þó önnur leið til að kynnast skaparanum betur — athugun á Biblíunni. Þetta er sérstaklega mikilvægt vegna þess að það er ýmislegt, sem vísindin og alheimurinn geta með engu móti leitt í ljós um hann, og auk þess annað sem er miklu skýrara út frá Biblíunni. Dæmi um hið fyrrnefnda er einkanafn skaparans. Biblían ein gefur okkur upp bæði nafn Guðs og þýðingu þess. Í hebreskum handritum af Biblíunni kemur nafn hans fyrir um 7000 sinnum. Það er ritað með fjórum samhljóðum sem umrita má YHWH eða JHVH og eru almennt bornir fram Jahve eða Jehóva. — 2. Mósebók 3:15; 6:3.
9. Hvað þýðir einkanafn skaparans og hvaða ályktun getum við dregið af því?
9 Til þess að við náum að kynnast skaparanum betur þurfum við að gera okkur ljóst að hann er ekki aðeins einhver óhlutbundin „fyrsta orsök“ eða óljóst „Ég er.“ Einkanafn hans sýnir það. Það er mynd hebreskrar sagnar sem þýðir „verða“ eða „reynast vera.“a (Samanber 1. Mósebók 27:29; Prédikarann 11:3.) Nafn Guðs merkir „hann lætur verða“ og undirstrikar að hann bæði áformar og framkvæmir. Ef við þekkjum og notum nafn hans getum við gert okkur betur ljóst að hann efnir fyrirheit og sér um að tilgangur sinn nái fram að ganga.
10. Hvaða mikilvægan skilning getum við öðlast út frá frásögu Fyrstu Mósebókar?
10 Biblían er sú heimild sem veitir okkur þekkingu á fyrirætlunum Guðs og persónuleika. Frásaga Fyrstu Mósebókar leiðir í ljós að eitt sinn hafi menn átt frið við Guð og fyrir þeim legið að lifa langa ævi og innihaldsríka. (1. Mósebók 1:28; 2:7-9) Við getum verið viss um að Jehóva bindi enda á þær þjáningar og vonbrigði sem menn hafa löngum þurft að horfast í augu við, enda er það í fullu samræmi við merkingu nafns hans. Við lesum um það hvernig tilgangur hans nær fram að ganga: „Hinn efnislegi heimur var undirorpinn vonbrigðum, ekki vegna þess að hann óskaði þess sjálfur heldur vegna vilja skaparans, sem með því að gera það gaf honum von um að sá dagur kæmi að . . . hann fengi hlutdeild í dýrðarfrelsi barna Guðs.“ — Rómverjabréfið 8:20, 21, The New Testament Letters, eftir J. W. C. Wand.
11. Hvers vegna ættum við að skoða frásagnir Biblíunnar og hvað kemur fram í einni slíkri frásögu?
11 Frásagnir Biblíunnar af aðgerðum og viðbrögðum skaparans í samskiptum hans við Ísrael til forna geta líka hjálpað okkur að kynnast honum betur. Lítum á dæmi þar sem Elísa og Naaman, hershöfðingi hinna fjandsömu Sýrlendinga, koma við sögu. Þegar þú lest þessa frásögn í 2. Konungabók 5. kafla sérð þú að hernumin ísraelsk stúlka hélt því stíft fram að líkþrá Naamans mætti lækna með hjálp Elísa í Ísrael. Naaman fór þangað og bjóst við að Elísa myndi sveifla höndum í einhverri dulúðugri lækningahelgiathöfn. Elísa gerði ekkert slíkt heldur sagði Sýrlendingnum að lauga sig í Jórdanánni. Þó að fortölur undirmanna Naamans þyrftu til að hann hlýddi þessu boði fékk hann bata þegar hann gerði það. Naaman bauð fram dýrar gjafir sem Elísa afþakkaði. Seinna laumaðist samstarfsmaður Elísa til Naamans og náði sér með lygum í nokkra dýrgripi. Óheiðarleiki hans varð til þess að hann var sleginn holdsveiki. Þessi hrífandi frásaga er afskaplega mannleg og lærdómsrík.
12. Hvaða ályktun um skaparann getum við dregið af frásögunni um Elísa og Naaman?
12 Frásagan sýnir á aðlaðandi hátt að hinn mikli skapari alheimsins er ekki yfir það hafinn að taka með velþóknun eftir lítilli stúlku, og stingur það mjög í stúf við siði margra menningarsamfélaga nú á tímum. Hún sannar líka að skaparinn hefur ekki aðeins velþóknun á einum kynþætti eða þjóð. (Postulasagan 10:34, 35) Í stað þess að ætlast til þess að menn noti einhverja „hókus-pókus“ aðferð, eins og sumir „trúarlæknar“ bæði fyrr og síðar hafa iðulega gert, er athyglisvert hvernig skaparinn sýndi stórkostlega visku. Hann vissi hvernig lækna mætti líkþrá. Hann sýndi líka innsæi og réttlæti með því að láta menn ekki komast upp með svik. Er það ekki enn einu sinni í fullu samræmi við persónuleika Jehóva sem Móse heyrði um? Hve mikið getum við ekki uppgötvað af þessari biblíufrásögn, þótt stutt sé, um eiginleika skapara okkar. — Sálmur 33:5; 37:28.
13. Sýndu með dæmi hvernig við getum dregið verðmætan lærdóm af biblíufrásögnum.
13 Aðrar frásagnir um vanþakklæti Ísraels og viðbrögð Guðs sanna að Jehóva er sannarlega umhyggjusamur. Biblían segir að Ísraelsmenn hafi reynt hann hvað eftir annað, hryggt hann og móðgað eða sært. (Sálmur 78:40, 41) Skaparinn hefur því tilfinningar og honum stendur ekki á sama um hvað menn gera. Mikið má líka læra af frásögnum um þekkta einstaklinga. Þegar Davíð var valinn til að vera Ísraelskonungur sagði Guð við Samúel: „Mennirnir líta á útlitið, en [Jehóva] lítur á hjartað.“ (1. Samúelsbók 16:7) Já, skaparinn lítur á okkar innri mann, ekki aðeins ytra útlit. Það er sannarlega hughreystandi.
14. Hvað er meðal annars gagnlegt að gera þegar við lesum Hebresku ritningarnar?
14 Þrjátíu og níu af biblíubókunum voru ritaðar fyrir daga Jesú og okkur ber að lesa þær. Það ættum við ekki að gera aðeins til að læra biblíusögur eða mannkynssögu. Ef okkur langar virkilega til að kynnast skapara okkar ættum við að hugleiða þessar frásögur vandlega, hugsa ef til vill: ‚Hvað leiðir þetta atvik í ljós um persónuleika hans? Hvaða eiginleikar hans skína hér í gegn?‘b Slík aðferð gæti hjálpað jafnvel efasemdamönnum að sjá að Biblían hlýtur að vera frá Guði komin, og þannig lagt grunninn að því að þeir kynnist kærleiksríkum höfundi hennar betur.
Mikill kennari hjálpar okkur að þekkja skaparann
15. Hvers vegna er við því að búast að verk Jesú og kenningar séu mjög fræðandi?
15 Fólk, sem efast um tilvist skaparans eða gerir sér óljósa hugmynd um Guð, þekkir kannski lítið til Biblíunnar. Þú hefur ef til vill hitt fólk sem vissi ekki hvort Móse var uppi á undan eða eftir Matteusi og veit nánast ekkert um verk eða kenningar Jesú. Það er mjög dapurlegt vegna þess að hægt er að læra svo mikið um skaparann af kennaranum mikla, Jesú. Hann hafði haft náið samband við Guð og gat því opinberað mönnum eiginleika skaparans. (Jóhannes 1:18; 2. Korintubréf 4:6; Hebreabréfið 1:3) Og það gerði hann. Hann sagði raunar eitt sinn: „Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn.“ — Jóhannes 14:9.
16. Hvað sýna samskipti Jesú við samverska konu?
16 Skoðum þetta dæmi. Eitt sinn þegar Jesús var vegmóður talaði hann við samverska konu í nánd við Síkar. Hann miðlaði henni djúpum sannindum sem snerust um nauðsyn þess að „tilbiðja föðurinn í anda og sannleika.“ Gyðingar sniðgengu Samverja í þá daga. Jesús endurspeglaði aftur á móti fúsleika Jehóva til að taka við einlægum körlum og konum af öllum þjóðum, eins og við sáum líka af atvikinu þar sem Elísa og Naaman komu við sögu. Það ætti að fullvissa okkur um að Jehóva er hafinn yfir hinn þröngsýna trúarfjandskap sem gagnsýrir heiminn nú á tímum. Tökum líka eftir því að Jesús var fús til að kenna konu og í þessu tilviki konu sem bjó með manni sem var ekki eiginmaður hennar. Í stað þess að fordæma hana kom Jesús virðulega fram við hana á þann hátt sem gat virkilega hjálpað henni. Eftir það hlustuðu aðrir Samverjar á Jesú og ályktuðu: ‚Við vitum, að þessi maður er sannarlega frelsari heimsins.‘ — Jóhannes 4:2-30, 39-42; 1. Konungabók 8:41-43; Matteus 9:10-13.
17. Hvað er eðlilegt að álykta út frá frásögunni af upprisu Lasarusar?
17 Skoðum annað dæmi þess hvernig við getum fræðst um skapara okkar með því að kynna okkur verk Jesú og kenningar. Rifjum upp í huganum hvað gerðist þegar Lasarus, vinur Jesú, dó. Jesús hafði áður sannað mátt sinn til að endurlífga látið fólk. (Lúkas 7:11-17; 8:40-56) Hvernig brást hann þó við þegar hann sá Maríu syrgja bróður sinn, Lasarus? Jesús ‚komst við í anda og varð hrærður mjög.‘ Hann var ekki skeytingarlaus eða fálátur; hann „grét.“ (Jóhannes 11:33-35) Og hér var ekki aðeins verið að sýna tilfinningar. Jesús fann sig knúinn til jákvæðra aðgerða — hann reisti Lasarus upp frá dauðum. Þú getur ímyndað þér hve mjög þetta hjálpaði postulunum að skynja tilfinningar og verk skaparans. Það ætti líka að hjálpa okkur og öðrum að skilja persónuleika og vegu skaparans.
18. Hvað ætti mönnum að finnast um það að nema Biblíuna?
18 Það er með öllu ástæðulaust að skammast sín fyrir að nema Biblíuna og læra meira um skapara okkar. Biblían er ekki úrelt bók. Jóhannes var einn þeirra sem kynntu sér hana rækilega og varð náinn samstarfsmaður Jesú. Hann skrifaði síðar: „Vér vitum, að Guðs sonur er kominn og hefur gefið oss skilning [„andlega hæfni,“ NW], til þess að vér þekkjum sannan Guð. Vér erum í hinum sanna Guði fyrir samfélag vort við son hans Jesú Krist. Hann er hinn sanni Guð og eilífa lífið.“ (1. Jóhannesarbréf 5:20) Taktu eftir að beiting ‚andlegrar hæfni‘ til að öðlast þekkingu á ‚sönnum Guði,‘ skaparanum, getur leitt til eilífs lífs.
Hvernig getur þú hjálpað öðrum að fræðast um hann?
19. Hvaða skref hefur verið stigið til að hjálpa efasemdamönnum?
19 Það þarf mikið til að sannfæra suma um að til sé skapari sem lætur sér annt um okkur og til að þeir geri sér grein fyrir hvernig hann er. Þeir skipta milljónum sem enn þá efast um skaparann eða líta hann allt öðrum augum en Biblían gefur tilefni til. Hvernig getur þú hjálpað þeim? Á umdæmis- og alþjóðamótum votta Jehóva 1998/99 var gefið út áhrifaríkt nýtt verkfæri á mörgum tungumálum — bókin Is There a Creator Who Cares About You?
20, 21. Hvernig má nota bókina um skaparann með góðum árangri?
20 Þetta er rit sem mun efla trú þína á skaparann og kenna þér að meta persónuleika hans og vegu enn betur. Af hverju er það svo víst? Af því að bókin Is There a Creator Who Cares About You? var sérstaklega samin með slík markmið í huga. „Hvað getur gert líf þitt innihaldsríkara?“ er þráður sem gengur í gegnum alla bókina. Efnið er sett fram með þeim hætti að jafnvel fólki með töluverða menntun mun finnast það áhugavert. Engu að síður er minnst á langanir sem búa í okkur öllum. Í bókinni er að finna heillandi og sannfærandi efni fyrir lesendur sem efast um tilvist skaparans. Hún gerir ekki ráð fyrir að lesandinn trúi á skapara. Þeir sem eru efagjarnir munu heillast af því hvernig fjallað er um nýlegar uppgötvanir og hugmyndir vísindanna. Staðreyndirnar, sem þannig koma fram, munu jafnvel styrkja trú þeirra sem þegar trúa á Guð.
21 Við lestur þessarar nýju bókar sjá menn að nokkrir kaflar hennar gefa yfirlit yfir biblíusöguna á þann hátt sem beinir athyglinni að ýmsum hliðum á persónuleika Guðs og hjálpar lesandanum að kynnast Guði betur. Margir sem þegar hafa lesið hana hafa sagt hvernig það hefur verið þeirra reynsla. Megi svo reynast einnig um þig þegar þú kynnir þér vel þessa bók og notar hana til að hjálpa öðrum að kynnast skapara sínum betur.
[Neðanmáls]
a Þegar jesúítafræðimaðurinn M. J. Gruenthaner var aðalritstjóri tímaritsins The Catholic Biblical Quarterly, heimfærði hann upp á þessa sögn það sem hann sagði um skylda sögn, að hún „beri aldrei í sér hugmyndina um óhlutbundna tilveru heldur tjái alltaf það að vera eða verða eitthvað sem hægt er að skynja, þ.e.a.s. að koma áþreifanlega í ljós.“
b Þegar foreldrar segja börnum sínum biblíusögur geta þeir hjálpað þeim að koma með slíkar spurningar. Þannig geta börnin kynnst Guði og lært líka að hugleiða orð hans.
Tókstu eftir?
◻ Hvernig kynntist Móse Jehóva nánar á Sínaífjalli?
◻ Hvers vegna hjálpar nám í Biblíunni fólki til að kynnast eðli og eiginleikum Guðs?
◻ Hvað getum við gert, þegar við lesum Biblíuna, til að nálgast skapara okkar enn meir?
◻ Hvernig hyggst þú notfæra þér bókina Is There a Creator Who Cares About You?
[Mynd á blaðsíðu 30]
Hvað gefur ónæmiskerfi okkar til kynna um skaparann?
[Mynd á blaðsíðu 31]
Slitur af Dauðahafshandritunum og er fjórstafanafnið (nafn Guðs á hebresku) sérstaklega merkt.
[Rétthafi]
Með góðfúslegu leyfi Shrine of the Book, Israel Museum, Jerúsalem
[Mynd á blaðsíðu 32]
Hvað getum við lært af viðbrögðum Jesú við sorg Maríu?