Jehóva — æðsta fyrirmyndin um gæsku
„Þakkið [Jehóva] allsherjar, því að [Jehóva] er góður.“ — JEREMÍA 33:11.
1. Hvers vegna getum við ekki annað en lofað Guð fyrir gæsku hans?
JEHÓVA GUÐ er algóður. „Hversu stór er hans gæska!“ sagði spámaðurinn Sakaría. (Sakaría 9:17, Biblían 1959) Allt sem Guð gerði er hann bjó jörðina undir ábúð okkar ber vitni um gæsku. (1. Mósebók 1:31) Við fáum aldrei skilið öll hin flóknu lög sem hann setti er hann skapaði alheiminn, en það litla sem við vitum hrífur okkur svo að við getum ekki annað en lofað hann fyrir gæsku hans. — Prédikarinn 3:11; 8:17.
2. Hvernig skilgreinir þú gæsku?
2 Gæska er sama og siðferðilegt ágæti eða dyggð. En hún er meira en algert illskuleysi. Gæska er hluti af ávexti andans og birtist í góðum verkum. (Galatabréfið 5:22, 23) Við sýnum af okkur gæsku og góðvild þegar við gerum eitthvað gott og gagnlegt fyrir aðra. Í þessu heimskerfi er það svo að sumir telja illt það sem aðrir telja gott. En til að njóta friðar og hamingju verðum við að hafa einn mælikvarða á hið góða. Hver er þess umkominn að setja þennan mælikvarða?
3. Hvað má álykta af 1. Mósebók 2:16, 17 um mælikvarðann á gæsku?
3 Jehóva Guð setur mælikvarðann á gæsku. Það var hann sem sagði fyrsta manninum við upphaf mannkynssögunnar: „Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta eftir vild, en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja.“ (1. Mósebók 2:16, 17) Mennirnir þurfa sem sagt að sækja skilning á góðu og illu til skapara síns.
Dæmi um óverðskuldaða gæsku Guðs
4. Hvað hefur Guð gert fyrir mannkynið síðan Adam syndgaði?
4 Horfur mannsins á eilífri hamingju og fullkomleika spilltust er Adam syndgaði og neitaði að viðurkenna rétt Guðs til að ákvarða hvað sé gott. (1. Mósebók 3:1-6) En áður en Adam fæddust börn sem erfðu frá honum synd og dauða boðaði Jehóva Guð að koma myndi fullkomið sæði. Hann ávarpaði ‚hinn gamla höggorm,‘ Satan djöfulinn og lýsti yfir: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ (Opinberunarbókin 12:9; 1. Mósebók 3:15) Jehóva ætlaði sér að endurleysa syndugt mannkyn. Í gæsku sinni gerði hann ráðstafanir til að þeir sem iðkuðu trú á lausnarfórn sonar hans gætu hlotið hjálpræði án þess þó að verðskulda það. — Matteus 20:28; Rómverjabréfið 5:8, 12.
5. Hvers vegna getum við sýnt af okkur gæsku að vissu marki þrátt fyrir illar tilhneigingar hjartans?
5 Vegna syndar Adams höfum við auðvitað erft illar tilhneigingar hjartans. (1. Mósebók 8:21) En til allrar hamingju hjálpar Jehóva okkur að sýna gæsku að einhverju marki. Með því að halda okkur við það sem við höfum lært af hinum helgu ritum hljótum við bæði „speki til sáluhjálpar,“ erum ‚hæf til sérhvers góðs verks‘ og getum gert það sem gott er í augum hans. (2. Tímóteusarbréf 3:14-17) En til að hafa gagn af fyrirmælum Biblíunnar og sýna gæsku þurfum við að hafa sömu afstöðu og sálmaritarinn sem söng: „Þú [Jehóva] ert góður og gjörir vel, kenn mér lög þín.“ — Sálmur 119:68.
Þeir lofuðu gæsku Guðs
6. Hvað sungu levítar meðal annars eftir að Davíð konungur lét flytja sáttmálsörkina til Jerúsalem?
6 Davíð Ísraelskonungur viðurkenndi gæsku Guðs og leitaði leiðsagnar hans forðum daga. „Góður og réttlátur er [Jehóva],“ söng hann, „þess vegna vísar hann syndurum veginn.“ (Sálmur 25:8) Í fyrirmælum Guðs til Ísraelsmanna voru meðal annars tíu mikilvæg lagaákvæði — boðorðin tíu. Þau voru rituð á steintöflur og varðveitt í helgri kistu sem kölluð var sáttmálsörk. Eftir að Davíð lét flytja örkina til höfuðborgarinnar Jerúsalem sungu levítar meðal annars: „Þakkið [Jehóva], því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu!“ (1. Kroníkubók 16:34, 37-41) Það hlýtur að hafa verið ánægjulegt að heyra þessi orð af vörum levítasöngvaranna.
7. Hvað gerðist eftir að örkin var flutt í hið allra helgasta og eftir að Salómon fór með vígslubæn?
7 Sams konar lofgerð var kveðin við vígslu musterisins sem Salómon, sonur Davíðs, lét reisa. Eftir að sáttmálsörkinni hafði verið komið fyrir í hinu allra helgasta í musterinu sungu levítarnir lofsöng til Jehóva „því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.“ Undravert ský fyllti þá musterið til tákns um dýrlega nærveru Jehóva. (2. Kroníkubók 5:13, 14) Eftir að Salómon hafði farið með vígslubæn „kom eldur af himni og eyddi brennifórninni og sláturfórninni.“ Við þá sjón „hneigðu [allir Ísraelsmenn] ásjónur sínar til jarðar, niður á steingólfið, lutu og lofuðu [Jehóva]: ‚því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.‘“ (2. Kroníkubók 7:1-3) Að lokinni 14 daga hátíð sneru Ísraelsmenn heim ‚glaðir og í góðu skapi yfir þeim gæðum, sem Jehóva hafði veitt Davíð og Salómon og lýð sínum Ísrael.‘ — 2. Kroníkubók 7:10.
8, 9. (a) Hvaða stefnu tóku Ísraelsmenn um síðir þó að þeir hefðu lofað Jehóva fyrir gæsku hans? (b) Hvað boðaði Jeremía varðandi Jerúsalem og hvernig rættist spádómurinn?
8 Því miður lifðu Ísraelsmenn ekki til langframa í samræmi við lofsöng sinn til Guðs. Svo fór að Júdamenn ‚heiðruðu hann aðeins með vörunum.‘ (Jesaja 29:13) Þeir fóru að ástunda hið illa í stað þess að fylgja mælikvarða Guðs á hið góða. Og í hverju var illskan fólgin? Þeir gerðu sig seka um skurðgoðadýrkun og siðleysi, kúguðu fátæka og frömdu aðrar grófar syndir. Af því leiddi að Jerúsalem var eytt og Júdamenn voru fluttir sem fangar til Babýlonar árið 607 f.o.t.
9 Þannig agaði Jehóva fólk sitt. En fyrir munn spámannsins Jeremía boðaði hann að aftur myndu heyrast í Jerúsalem raddir þeirra er segðu: „Þakkið [Jehóva] allsherjar, því að [Jehóva] er góður, því að miskunn hans varir að eilífu!“ (Jeremía 33:10, 11) Og sú varð raunin. Leifar Gyðinga sneru heim til Jerúsalem árið 537 f.o.t., eftir að landið hafði legið í eyði í 70 ár. (Jeremía 25:11; Daníel 9:1, 2) Þeir reistu að nýju altarið á musterissvæðinu á Móríafjalli og tóku að færa þar fórnir. Grunnur var svo lagður að musterinu á öðru ári eftir heimkomuna. Þetta voru spennandi tímar! „Er smiðirnir lögðu grundvöllinn að musteri [Jehóva],“ segir Esra, „námu prestarnir þar staðar í embættisskrúða með lúðra og levítarnir, niðjar Asafs, með skálabumbur, til þess að vegsama [Jehóva] eftir tilskipun Davíðs Ísraelskonungs. Og þeir hófu að lofa og vegsama [Jehóva] fyrir það, að hann er góður og að miskunn hans við Ísrael er eilíf.“ — Esrabók 3:1-11.
10. Með hvaða þýðingarmiklum orðum er Sálmur 118 hafinn og honum lokið?
10 Svipaða lofgerð um gæsku Guðs er að finna í fjölmörgum af sálmunum. Einn þeirra er Sálmur 118 sem ísraelskar fjölskyldur sungu við lok páskamáltíðarinnar. Sálmurinn hefst og honum lýkur með orðunum: „Þakkið [Jehóva], því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.“ (Sálmur 118:1, 29) Vel má vera að þetta hafi verið síðasta lofgerðin sem Jesús Kristur söng með hinum trúföstu postulum kvöldið fyrir dauða sinn árið 33. — Matteus 26:30.
„Lát mig þá sjá dýrð þína!“
11, 12. Hvaða yfirlýsingu heyrði Móse þegar hann fékk að sjá dýrð Guðs bregða fyrir?
11 Tengslin milli gæsku Jehóva og ástúðlegrar umhyggju hans koma fram í Biblíunni löngu fyrir daga Esra. Skömmu eftir að Ísraelsmenn tilbáðu gullkálfinn í eyðimörkinni og hinir brotlegu höfðu verið líflátnir bað Móse Jehóva: „Lát mig þá sjá dýrð þína!“ Jehóva vissi að Móse gæti ekki séð andlit hans og haldið lífi og svaraði: „Ég vil láta allan minn ljóma líða fram hjá þér.“ — 2. Mósebók 33:13-20.
12 Næsta dag fékk Móse að sjá ljóma Jehóva líða fram hjá í sjónhending á Sínaífjalli og heyrði hann lýsa yfir: „[Jehóva, Jehóva], miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur, sem auðsýnir gæsku þúsundum og fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir, en lætur þeirra þó eigi með öllu óhegnt, heldur vitjar misgjörða feðranna á börnum og barnabörnum, já í þriðja og fjórða lið.“ (2. Mósebók 34:6, 7) Þessi orð gefa til kynna að gæska Jehóva sé tengd ástúðlegri umhyggju hans, því að frummálsorðið, sem hér er þýtt gæska, merkir einnig ástúðleg umhyggja. Ef við lítum nánar á þennan persónueiginleika Jehóva og aðra auðveldar það okkur að sýna gæsku. Byrjum á því að líta á þann eiginleika sem nefndur er tvisvar í þessari einstöku yfirlýsingu um gæsku Guðs.
Ástúðleg umhyggja Guðs
13. Hvaða eiginleiki er nefndur tvisvar í yfirlýsingu Guðs við Móse og af hverju er það viðeigandi?
13 Jehóva er „Guð . . . gæskuríkur . . . sem auðsýnir gæsku þúsundum.“ Hebreska orðið, sem þýtt er „gæska,“ merkir einnig tryggur kærleikur. Þetta er eini eiginleikinn sem nefndur er tvisvar í yfirlýsingu Guðs til Móse, en það er vel við hæfi því að kærleikur er sterkasti eiginleiki hans. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Hin þekkta lofgerð til Jehóva, „hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu,“ leggur áherslu á þennan eiginleika því að þar talar frumtextinn um ástúðlega umhyggju eða tryggan kærleika í stað miskunnar.
14. Hverjir njóta ekki síst gæsku Guðs og ástúðlegrar umhyggju?
14 Gæska Jehóva birtist meðal annars í ástúðlegri umhyggju hans, ekki síst fyrir vígðum og trúföstum þjónum hans á jörð. (1. Pétursbréf 5:6, 7) Hann sýnir ástúðlega umhyggju þeim sem óttast hann og þjóna honum, eins og vottar Jehóva geta borið vitni um. Ísraelsmenn að holdinu hættu að njóta hins trygga kærleika Jehóva vegna þess að þeir höfnuðu syni hans. En gæska Guðs og kærleikur til sannkristinna manna af öllum þjóðum varir endalaust. — Jóhannes 3:36.
Jehóva — miskunnsamur og líknsamur
15. (a) Hvernig hófst yfirlýsingin sem Móse heyrði á Sínaífjalli? (b) Hvað er fólgið í miskunn?
15 Yfirlýsingin, sem Móse heyrði á Sínaífjalli, hófst með orðunum: „[Jehóva, Jehóva], miskunnsamur og líknsamur Guð.“ Hebreska orðið, sem þýtt er „miskunn,“ getur merkt „innyfli“ og er náskylt orði sem merkir „móðurleg.“ Miskunn felur sem sagt í sér djúpstæða samúð. En miskunn er meira en meðaumkun því að hún ætti að hvetja okkur til að lina þjáningar annarra með einhverjum hætti. Kristnir öldungar vita til dæmis að þeir þurfa að vera miskunnsamir við trúsystkini sín og ‚iðka miskunnsemi með gleði‘ þegar það á við. — Rómverjabréfið 12:8; Jakobsbréfið 2:13; Júdasarbréfið 22, 23.
16. Hvernig er Jehóva líknsamur?
16 Gæska Guðs birtist einnig í líknsemi. Orðið, sem þýtt er líknsemi, lýsir tillitssemi við tilfinningar annarra og hlýlegri vinsemd, einkum við þá sem eru minni máttar. Samskipti Jehóva við trúa þjóna sína er besta dæmið um líknsemi. Til dæmis sýndi hann þá líknsemi að senda engla til að styrkja hinn aldraða spámann Daníel og upplýsa meyna Maríu um það að hún ætti að fá þann heiður að ala Jesú. (Daníel 10:19; Lúkas 1:26-38) Við þjónar Jehóva kunnum vissulega að meta hvernig hann höfðar til okkar á síðum Biblíunnar. Við lofum hann fyrir gæsku hans sem birtist með þessum hætti, og leitumst við að vera líknsöm í samskiptum við aðra. Andlega þroskaðir menn leiðrétta trúsystkini „með hógværð“ og reyna að vera mildir og vinsamlegir.
Þolinmóður Guð
17. Hvers vegna erum við þakklát fyrir að Jehóva skuli vera „þolinmóður“?
17 „Guð . . . þolinmóður.“ Þessi orð vekja athygli á enn einum þætti í gæsku Jehóva. Hann er þolinmóður, og umber galla okkar og gefur okkur tíma til að sigrast á alvarlegum veikleikum og taka andlegum framförum. (Hebreabréfið 5:12–6:3; Jakobsbréfið 5:14, 15) Þolinmæði Guðs er líka til góðs fyrir þá sem dýrka hann ekki enn. Þeim gefst enn þá tími til að taka við guðsríkisboðskapnum og iðrast. (Rómverjabréfið 2:4) En þó að Jehóva sé þolinmóður kemur gæskan honum stundum til að láta reiði sína í ljós eins og hann gerði þegar Ísraelsmenn dýrkuðu gullkálfinn við Sínaífjall. Og reiði hans mun bráðlega birtast með enn stórbrotnari hætti þegar hann bindur enda á hið óguðlega heimskerfi Satans. — Esekíel 38:19, 21-23.
18. Hvaða munur er á trúfesti Jehóva og trúfesti mannlegra leiðtoga?
18 Jehóva er „Guð . . . harla trúfastur.“ Hann er afar ólíkur leiðtogum meðal manna sem lofa miklu en efna það ekki. Dýrkendur Jehóva geta hins vegar treyst öllu sem stendur í innblásnu orði hans. Þar sem Guð er harla trúfastur getum við alltaf treyst loforðum hans. Í gæsku sinni svarar faðirinn á himnum alltaf bænum okkar þegar við biðjum um andlegan sannleika og lætur hann ríkulega í té. — Sálmur 43:3; 65:3.
19. Með hvaða einstökum hætti hefur Jehóva sýnt iðrandi syndurum gæsku sína?
19 Jehóva „fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir.“ Í gæsku sinni er Jehóva reiðubúinn að fyrirgefa iðrandi syndurum. Við erum himneskum föður okkar innilega þakklát fyrir að bjóða okkur upp á fyrirgefningu vegna fórnar Jesú. (1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Við erum ákaflega þakklát fyrir að allir, sem iðka trú á lausnargjaldið, skuli geta notið velvildar Jehóva og átt von um eilíft líf í nýja heiminum sem hann hefur heitið. Þetta er ærið tilefni til að lofa Jehóva fyrir gæsku hans í garð mannkyns. — 2. Pétursbréf 3:13.
20. Hvaða sönnun höfum við fyrir því að Guð umberi ekki illsku?
20 „[Jehóva] lætur þeirra þó eigi með öllu óhegnt.“ Þetta er reyndar enn ein ástæða til að lofa Jehóva fyrir gæsku hans. Hvers vegna? Vegna þess að gæska er meðal annars fólgin í því að samþykkja alls ekki illskuna. Og „þegar Drottinn Jesús opinberast af himni með englum máttar síns“ lætur hann „hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu.“ Þeir „munu sæta hegningu, eilífri glötun.“ (2. Þessaloníkubréf 1:6-9) Dýrkendur Jehóva, sem komast af, njóta þess þá að geta lifað án þess að óguðlegir menn, er ‚elska ekki það sem gott er,‘ valdi þeim óþægindum. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-3.
Líkjum eftir gæsku Jehóva
21. Af hverju ættum við að sýna af okkur gæsku?
21 Um það verður ekki deilt að við höfum margar ástæður til að lofa Jehóva og þakka honum gæsku hans. Við sem erum þjónar hans ættum því að gera okkar ýtrasta til að sýna af okkur gæsku því að Páll postuli hvatti trúsystkini sín: „Verðið . . . eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans.“ (Efesusbréfið 5:1) Faðir okkar á himnum er alltaf góður og við ættum að vera það líka.
22. Um hvað er fjallað í næstu grein?
22 Ef við erum vígð Jehóva af heilu hjarta er okkur eflaust mikið í mun að líkja eftir gæsku hans. En þar sem við erum afkomendur hins synduga Adams er ekki alltaf auðvelt fyrir okkur að gera gott. Í greininni á eftir skulum við kanna hvers vegna við getum samt sem áður gert það. Við könnum einnig ýmis svið þar sem við getum og ættum að líkja eftir Jehóva sem er æðsta fyrirmyndin um gæsku.
Hvert er svarið?
• Hvað er gæska?
• Hvernig leggur Biblían áherslu á gæsku Guðs?
• Nefndu dæmi um það hvernig Jehóva hefur sýnt gæsku sína.
• Af hverju ættum við að líkja eftir gæsku Jehóva?
[Mynd á blaðsíðu 20]
Jehóva agaði þjóð sína forðum daga vegna þess að hún lifði ekki í samræmi við lofgerð sína.
[Mynd á blaðsíðu 20]
Trúfastar leifar sneru heim til Jerúsalem.
[Mynd á blaðsíðu 21]
Móse heyrði einstaka yfirlýsingu um gæsku Guðs.
[Mynd á blaðsíðu 23]
Gæska Jehóva birtist í því hvernig hann höfðar til okkar á síðum Biblíunnar.