Þau ‚gjörðu svo‘
„Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð.“ — 1. JÓHANNESARBRÉF 5:3.
1. Hversu umfangsmikill er kærleikur Guðs?
„GUÐ ER KÆRLEIKUR.“ Allir sem kynnast Guði og hlýða boðorðum hans læra að meta hve djúpur þessi kærleikur er. „Þetta er kærleikurinn: Ekki að vér elskuðum Guð, heldur að hann elskaði oss og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir vorar.“ Þegar við trúum á dýrmæta lausnarfórn Jesú ‚erum við stöðug í kærleika Guðs.‘ (1. Jóhannesarbréf 4:8-10, 16) Þannig getum við notið ríkulegrar andlegrar blessunar núna og hlotið eilíft líf í hinum komandi nýja heimi. — Jóhannes 17:3; 1. Jóhannesarbréf 2:15, 17.
2. Hvernig hafa þjónar Guðs haft gagn af því að halda boðorð hans?
2 Biblíusagan er full af dæmum um fólk sem hélt boðorð Guðs og hlaut ríkulega blessun fyrir. Þar má nefna votta Guðs fyrir daga kristninnar en Páll postuli skrifaði um suma þeirra: „Allir þessir menn dóu í trú, án þess að hafa öðlast fyrirheitin. Þeir sáu þau álengdar og fögnuðu þeim og játuðu, að þeir væru gestir og útlendingar á jörðinni.“ (Hebreabréfið 11:13) Síðar nutu dyggir kristnir þjónar Guðs góðs af ‚náðinni og sannleikanum sem kom fyrir atbeina Jesú Krists.‘ (Jóhannes 1:17) Alla sögu mannsins, sem spannar 6000 ár, hefur Jehóva umbunað trúföstum vottum sem hafa haldið boðorð hans, og þau eru vissulega „ekki þung.“ — 1. Jóhannesarbréf 5:2, 3.
Á dögum Nóa
3. Á hvaða vegu ‚gjörði Nói svo‘?
3 Biblían segir: „Fyrir trú fékk Nói bendingu um það, sem enn þá var ekki auðið að sjá. Hann óttaðist Guð og smíðaði örk til björgunar heimilisfólki sínu. Með trú sinni dæmdi hann heiminn og varð erfingi réttlætisins af trúnni.“ Sem ‚prédikari réttlætisins‘ hlýddi Nói Guði skilyrðislaust og varaði hinn ofbeldisfulla heim fyrir flóðið við yfirvofandi dómi Guðs. (Hebreabréfið 11:7; 2. Pétursbréf 2:5) Hann fylgdi út í æsar fyrirmælum Guðs um smíði arkarinnar. Síðan flutti hann tilgreind dýr í örkina ásamt matvælum og fóðurbirgðum. „Nói gjörði svo. Allt gjörði hann eins og Guð bauð honum.“ — 1. Mósebók 6:22.
4, 5. (a) Hvaða illum áhrifum hefur mannkynið orðið fyrir allt fram á þennan dag? (b) Af hverju ættum við að hlýða fyrirmælum Guðs í einu og öllu?
4 Nói og fjölskylda hans áttu líka í höggi við ill áhrif óhlýðinna engla. Þessir synir Guðs holdguðust, höfðu kynmök við konur og gátu af sér ofurmannlega kynblendinga sem kúguðu mannkynið með ofbeldi og hótunum. „Jörðin var spillt í augsýn Guðs, og jörðin fylltist glæpaverkum.“ Jehóva sendi flóðið til að afmá þessa illu kynslóð. (1. Mósebók 6:4, 11-17; 7:1) Frá dögum Nóa hefur djöflaenglum ekki verið leyft að holdgast í mannsmynd. Engu að síður er ‚allur heimurinn enn á valdi hins vonda,‘ Satans djöfulsins. (1. Jóhannesarbréf 5:19; Opinberunarbókin 12:9) Í spádómi líkti Jesús þessari uppreisnargjörnu kynslóð á dögum Nóa við þá kynslóð manna sem hefur hafnað honum síðan táknið um nærveru hans tók að blasa við frá 1914. — Matteus 24:3, 34, 37-39; Lúkas 17:26, 27.
5 Eins og á dögum Nóa reynir Satan núna að spilla mannkyninu og eyða jörðina sem við byggjum. (Opinberunarbókin 11:15-18) Þess vegna er áríðandi að hlýða hinum innblásnu fyrirmælum: „Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins.“ (Efesusbréfið 6:11) Við styrkjumst til þess með því að nema orð Guðs og fara eftir því. Auk þess höfum við hið umhyggjusama skipulag Jehóva með sínum smurða ‚trúa og hyggna þjóni‘ og kærleiksríku öldungum til að gæta okkar þolinmóðlega á þeim vegi sem við eigum að ganga. Við höfum prédikunarstarfið um heim allan að vinna að. (Matteus 24:14, 45-47) Megum við alltaf ‚gjöra svo‘ alveg eins og Nói sem gætti þess svo vandlega að hlýða fyrirmælum Guðs.
Móse — manna hógværastur
6, 7. (a) Hvað kaus Móse að gera sem hann hlaut ríkuleg laun fyrir? (b) Hvaða fordæmi um hugrekki gaf Móse okkur?
6 Tökum annan trúmann, Móse, sem dæmi. Hann hefði getað lifað í sjálfsdekri og vellystingum í Egyptalandi. En hann kaus fremur „illt að þola með lýð Guðs en njóta skammvinns unaðar af syndinni.“ Sem þjónn Jehóva, er fengið hafði sérstakt verkefni, ‚horfði hann fram til launanna og var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega.‘ — Hebreabréfið 11:23-28.
7 Í 4. Mósebók 12:3 lesum við: „Maðurinn Móse var einkar hógvær, framar öllum mönnum á jörðu.“ Faraó Egyptalands hegðaði sér hins vegar eins og mesti hrokagikkur á jörðu. Hvernig brugðust Móse og Aron við er Jehóva fyrirskipaði þeim að flytja Faraó dóma sína? Okkur er sagt: „Móse og Aron gjörðu þetta. Þeir fóru að öllu svo sem [Jehóva] hafði fyrir þá lagt.“ (2. Mósebók 7:4-7) Þetta er okkur, sem boðum dóma Guðs nú á tímum, sannarlega gott fordæmi um hugrekki.
8. Hvernig var þess krafist af Ísraelsmönnum að ‚gjöra svo‘ og hvernig mun gleðin, sem af því hlaust, eiga sér hliðstæðu í nálægri framtíð?
8 Studdu Ísraelsmenn Móse dyggilega? Eftir að Jehóva hafði þjáð Egypta með níu plágum af tíu gaf hann Ísraelsmönnum ítarleg fyrirmæli um páskahald. „Þá féll lýðurinn fram og tilbað. Og Ísraelsmenn fóru og gjörðu þetta. Þeir gjörðu eins og [Jehóva] hafði boðið þeim Móse og Aroni.“ (2. Mósebók 12:27, 28) Á miðnætti þennan viðburðaríka dag, hinn 14. nísan árið 1513 f.o.t., drap engill Guðs alla frumburði Egypta en gekk framhjá heimilum Ísraelsmanna. Af hverju var frumburðum Ísraelsmanna þyrmt? Af því að blóð páskalambsins, sem þeir stökktu á dyrastafi sína, verndaði þá. Þeir höfðu gert eins og Jehóva hafði fyrirskipað Móse og Aroni. Já, þeir „gjörðu svo.“ (2. Mósebók 12:50, 51) Við Rauðahafið vann Jehóva annað kraftaverk er hann bjargaði hlýðnu fólki sínu en eyddi Faraó og öflugri hermaskínu hans. Ísraelsmenn kunnu sér ekki læti! Eins munu margir, sem nú lifa og hafa hlýtt boðorðum Jehóva, fagna er þeir verða sjónarvottar að því er hann réttlætir sig við Harmagedón. — 2. Mósebók 15:1, 2; Opinberunarbókin 15:3, 4.
9. Hvaða nútímasérréttindi eiga sér fyrirmynd í því að Ísraelsmenn ‚gjörðu svo‘ í sambandi við tjaldbúðina?
9 Þegar Jehóva fyrirskipaði Ísrael að leggja fram fjármuni og gera tjaldbúð í eyðimörkinni studdi fólkið framkvæmdina örlátlega og dyggilega. Móse og fúsir samverkamenn hans fylgdu síðan út í ystu æsar þeim vinnuteikningum sem Jehóva lét í té. „Þannig var nú lokið öllu verki við búð samfundatjaldsins, og gjörðu Ísraelsmenn allt, sem [Jehóva] hafði boðið Móse.“ Við vígslu prestanna gerði Móse „eins og [Jehóva] hafði boðið honum, svo gjörði hann í alla staði.“ (2. Mósebók 39:32; 40:16) Nú á tímum höfum við tækifæri til að styðja prédikunarstarfið af heilum hug og vinna að vexti og viðgangi Guðsríkis með öðrum hætti. Það eru sérréttindi okkar að sameinast þannig í að ‚gjöra svo.‘
Jósúa — hughraustur og öruggur
10, 11. (a) Af hverju var Jósúa farsæll? (b) Hvað getur styrkt okkur til að mæta þeim prófraunum sem verða á vegi okkar?
10 Er Móse fól Jósúa að leiða Ísrael inn í fyrirheitna landið var innblásið, ritað orð Jehóva líklega ekki nema Mósebækurnar fimm, einn eða tveir sálmar og svo Jobsbók. Móse hafði gefið Jósúa fyrirmæli um að safna fólkinu saman, er það væri komið inn í fyrirheitna landið, og „lesa lögmál þetta fyrir öllum Ísrael í heyranda hljóði.“ (5. Mósebók 31:10-12) Og sjálfur fyrirskipaði Jehóva Jósúa: „Eigi skal lögmálsbók þessi víkja úr munni þínum, heldur skalt þú hugleiða hana um daga og nætur, til þess að þú gætir þess að gjöra allt það, sem í henni er skrifað, því að þá munt þú gæfu hljóta á vegum þínum og breyta viturlega.“ — Jósúabók 1:8.
11 Daglegur lestur í ‚bók‘ Jehóva gerði Jósúa kleift að standast prófraunirnar framundan, alveg eins og daglegur lestur í orði Jehóva, Biblíunni, styrkir votta hans nú á tímum til að mæta prófraunum þessara erfiðu ‚síðustu daga.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Við erum umkringd ofbeldisfullum heimi og skulum líka taka til okkar hvatningu Guðs til Jósúa: „Ver þú hughraustur og öruggur . . . Lát eigi hugfallast og óttast eigi, því að [Jehóva] Guð þinn er með þér í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur.“ (Jósúabók 1:9) Eftir að ættkvíslir Ísraels höfðu lagt Kanaanland undir sig var þeim ríkulega umbunað er þær settust að í erfðalandi sínu. „Eins og [Jehóva] hafði boðið Móse, svo gjörðu Ísraelsmenn.“ (Jósúabók 14:5) Þegar við erum hlýðin og ‚gjörum svo‘ bíður sams konar umbun okkar allra sem lesum orð Guðs og förum eftir því í lífi okkar.
Konungar — trúfastir og óhlýðnir
12. (a) Hvað áttu konungar Ísraels að gera? (b) Hvað afleiðingar hafði óhlýðni konunganna?
12 Hvað um konunga Ísraels? Jehóva hafði gert þessa kröfu til konungsins: „Þegar hann nú er setstur í hásæti konungdóms síns, þá skal hann fá lögmál þetta hjá levítaprestunum og rita eftirrit af því handa sér í bók. Og hann skal hafa hana hjá sér og lesa í henni alla ævidaga sína, til þess að hann læri að óttast [Jehóva] Guð sinn og gæti þess að halda öll fyrirmæli þessa lögmáls og þessi ákvæði.“ (5. Mósebók 17:18, 19) Hlýddu konungar Ísraels þessum fyrirmælum? Langflestir brugðust hrapallega og máttu þola þær bölvanir sem sagðar voru fyrir í 5. Mósebók 28:15-68. Loks var Ísraelsmönnum „dreift meðal þjóðanna frá einu heimsskauti til annars.“
13. Hvaða gagn getum við haft af því að elska orð Jehóva eins og Davíð?
13 En Davíð — fyrsti trúfasti konungurinn í Ísrael — sýndi Jehóva einstaka hollustu. Hann reyndist vera ‚ljónshvolpur í Júda‘ og var táknmynd Krists Jesú, hins sigursæla ‚ljóns af Júda ættkvísl, rótarkvistar Davíðs.‘ (1. Mósebók 49:8, 9; Opinberunarbókin 5:5) Í hverju lá styrkur Davíðs? Hann mat ritað orð Jehóva mikils og lifði eftir því. Í Sálmi 19, sem er „Davíðssálmur,“ lesum við: „Lögmál [Jehóva] er lýtalaust.“ Eftir að hafa minnst á vitnisburð, fyrirmæli, boðorð og ákvæði Jehóva segir Davíð: „Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur. Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér.“ (Sálmur 19:8-12) Ef daglegur lestur og hugleiðing um orð Jehóva var umbunarrík fyrir 3000 árum er hún það enn frekar nú á dögum! — Sálmur 1:1-3; 13:6; 119:72, 97, 111.
14. Hvernig sýnir breytni Salómons að við þurfum meira en þekkingu?
14 En þekking ein sér er ekki nóg. Það er líka nauðsynlegt fyrir þjóna Guðs að nota þessa þekkingu, fara eftir henni í samræmi við vilja Guðs — já, að ‚gjöra svo.‘ Það má sjá af Salómon, syni Davíðs, sem Jehóva kaus til „að hann skyldi sitja á konungsstóli [Jehóva] yfir Ísrael.“ Salómon fékk það verkefni að byggja musterið samkvæmt fyrirmyndinni eða byggingarteikningunum er Davíð hafði fengið vegna innblásturs. (1. Kroníkubók 28:5, 11-13) Hvernig gat Salómon unnið þetta gríðarmikla verk? Jehóva svaraði bæn hans með því að veita honum visku og þekkingu. Með hana að bakhjarli, og með því að fara eftir vinnuteikningunum frá Guði, gat Salómon reist þetta glæsilega hús sem fylltist svo dýrð Jehóva. (2. Kroníkubók 7:2, 3) En síðar brást Salómon. Á hvaða hátt? Lögmál Jehóva sagði um konung Ísraels: „Hann skal og eigi hafa margar konur, svo að hjarta hans gjörist eigi fráhverft.“ (5. Mósebók 17:17) En Salómon eignaðist „sjö hundruð eiginkonur og þrjú hundruð hjákonur, og konur hans sneru hjarta hans . . . til annarra guða.“ Á efri æviárum sínum hætti Salómon að ‚gjöra svo.‘ — 1. Konungabók 11:3, 4; Nehemíabók 13:26.
15. Hvernig ‚gjörði Jósía svo‘?
15 Fáeinir konungar Júda voru hlýðnir. Jósía var þeirra síðastur. Árið 648 f.o.t. tók hann að útrýma skurðgoðadýrkun úr landinu og gera við musteri Jehóva. Það var þar sem æðsti presturinn fann „lögmálsbók [Jehóva], er gefin var fyrir Móse.“ Hvað gerði Jósía í málinu? „Konungur gekk upp í musteri [Jehóva] og með honum allir Júdamenn og Jerúsalembúar, svo og prestarnir og levítarnir og allur lýðurinn, bæði gamlir og ungir, og hann las í áheyrn þeirra öll orð sáttmálsbókarinnar, er fundist hafði í musteri [Jehóva]. Og konungur gekk á sinn stað og gjörði þann sáttmála frammi fyrir [Jehóva], að fylgja [Jehóva] og varðveita skipanir hans, fyrirmæli og lög af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni, til þess að breyta þannig eftir orðum sáttmálans, þeim er rituð voru í þessari bók.“ (2. Kroníkubók 34:14, 30, 31) Já, Jósía „gjörði svo.“ Sökum trúfastrar breytni hans frestaði Jehóva að fullnægja dómi sínum á hinu trúlausa Júdaríki uns fráhverfir synir hans voru teknir við.
Lifað eftir orði Guðs
16, 17. (a) Að hvaða leyti verðum við að feta í fótspor Jesú? (b) Hvaða aðrir trúfastir þjónar Guðs eru okkur gott fordæmi?
16 Af öllum, sem uppi hafa verið, er Drottinn Jesús Kristur besta dæmið um mann sem hugleiddi orð Guðs og lifði eftir því. Orð Guðs var sem matur fyrir hann. (Jóhannes 4:34) Hann sagði áheyrendum sínum: „Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér föðurinn gjöra. Því hvað sem hann gjörir, það gjörir sonurinn einnig.“ (Jóhannes 5:19, 30; 7:28; 8:28, 42) Jesús „gjörði svo“ og lýsti yfir: „Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gjöra vilja minn, heldur vilja þess, er sendi mig.“ (Jóhannes 6:38) Við sem erum vígðir vottar Jehóva eigum að ‚gjöra svo‘ með því að feta í fótspor Jesú. — Lúkas 9:23; 14:27; 1. Pétursbréf 2:21.
17 Vilji Guðs var Jesú alltaf efst í huga. Hann var þaulkunnugur orði Guðs og var því vel fær um að svara út frá Biblíunni. (Matteus 4:1-11; 12:24-31) Með því að gefa stöðugt gaum að orði Guðs getum við líka orðið ‚albúin og hæf til sérhvers góðs verks.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Við skulum fylgja fordæmi trúfastra þjóna Jehóva að fornu og nýju en þó sérstaklega fordæmi meistara okkar, Jesú Krists, sem sagði: „Heimurinn á að sjá, að ég elska föðurinn og gjöri eins og faðirinn hefur boðið mér.“ (Jóhannes 14:31) Megum við líka sýna Guði kærleika okkar með því að halda áfram að ‚gjöra svo.‘ — Lúkas 12:29-31.
18. Hvað ætti að hvetja okkur til að ‚verða gjörendur orðsins‘ og hvað er fjallað um í næstu grein?
18 Er við ígrundum hlýðni þjóna Guðs á biblíutímanum, er það ekki hvatning fyrir okkur til að þjóna í trúfesti núna á lokadögum hins illa heimskerfis Satans? (Rómverjabréfið 15:4-6) Við ættum svo sannarlega að finna hvöt hjá okkur til að ‚verða gjörendur orðsins‘ í fyllsta skilningi eins og fjallað er um í greininni á eftir. — Jakobsbréfið 1:22.
Manstu?
◻ Hvað ætti „kærleikur Guðs“ að þýða fyrir okkur?
◻ Hvað lærum við af fordæmi Nóa, Móse og Jósúa?
◻ Að hvaða marki hlýddu konungarnir í Ísrael ‚orði‘ Guðs?
◻ Hvernig er Jesús okkur fyrirmynd í því að ‚gjöra svo‘?
[Mynd á blaðsíðu 25]
Nói, Móse og Jósúa ‚gjörðu svo.‘