„Konunglegur prestdómur“ öllu mannkyni til blessunar
„Þið eruð ,útvalin kynslóð, konunglegur prestdómur, heilög þjóð, eignarlýður.‘“ – 1. PÉT. 2:9.
GETURÐU SVARAÐ?
Hvenær gaf Jehóva fyrst loforð um ,konunglegan prestdóm‘?
Hvernig leiðir nýi sáttmálinn fram ,konunglegan prestdóm‘?
Hvernig verður „konunglegur prestdómur“ öllu mannkyni til blessunar?
1. Hvers vegna er „kvöldmáltíð Drottins“ einnig kölluð minningarhátíð og til hvers er hún haldin?
JESÚS og postularnir 12 héldu páskahátíðina í síðasta sinn að kvöldi 14. nísan árið 33. Eftir að hafa sent svikarann Júdas Ískaríot út stofnaði Jesús til nýrrar hátíðar sem var síðar kölluð „kvöldmáltíð Drottins“. Jesús sagði lærisveinunum tvisvar við þetta tækifæri: „Gjörið þetta í mína minningu.“ (1. Kor. 11:20, 24, 25) Þessi hátíð er líka kölluð minningarhátíð um dauða Krists. Vottar Jehóva um allan heim hlýða boði Krists og halda minningarhátíðina árlega. Samkvæmt almanaki Biblíunnar hefst 14. nísan nú í ár við sólsetur fimmtudaginn 5. apríl.
2. Hvað sagði Jesús um brauðið og vínið?
2 Lúkas, lærisveinn Jesú, tekur saman í stuttu máli það sem Jesús sagði og gerði þegar hann innleiddi minningarhátíðina: „Hann tók brauð, gerði þakkir, braut það, gaf þeim og sagði: ,Þetta er líkami minn sem fyrir yður er gefinn. Gerið þetta í mína minningu.‘ Eins tók hann kaleikinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: ,Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði sem fyrir yður er úthellt.‘“ (Lúk. 22:19, 20) Hvernig skildu postularnir orð Jesú?
3. Hvernig skildu postularnir það sem Jesús sagði um brauðið og vínið?
3 Postularnir voru Gyðingar og því vel kunnugir dýrafórnunum sem prestarnir færðu Guði í musterinu í Jerúsalem. Slíkar fórnir voru færðar til að hljóta velþóknun Jehóva og margar þeirra voru til að friðþægja fyrir syndir. (3. Mós. 1:4; 22:17-29) Þegar Jesús sagði að líkami hans yrði ,fyrir þá gefinn‘ og blóði hans ,fyrir þá úthellt‘ skildu postularnir það þannig að hann myndi gefa fullkomið líf sitt að fórn. Hún yrði miklu verðmætari en dýrafórnirnar.
4. Hvað átti Jesús við þegar hann sagði: „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði“?
4 Jesús sagði líka: „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði.“ Hvað átti hann við með því? Postularnir þekktu spádóm Jeremía um nýja sáttmálann. (Lestu Jeremía 31:31-33.) Jesús var með þessum orðum að innleiða þennan nýja sáttmála. Nýi sáttmálinn myndi taka við af lagasáttmálanum sem Jehóva gerði við Ísraelsþjóðina fyrir milligöngu Móse. Voru þessir tveir sáttmálar tengdir á einhvern hátt?
5. Hvað stóð Ísraelsþjóðinni til boða vegna lagasáttmálans?
5 Já, markmiðið með þeim var nátengt. Þegar Jehóva innleiddi lagasáttmálann sagði hann við Ísraelsþjóðina: „Ef þið nú hlýðið á mig af athygli og haldið sáttmála minn skuluð þið verða sérstök eign mín, umfram aðrar þjóðir, því að öll jörðin er mín. Þið skuluð verða mér konungsríki presta og heilög þjóð.“ (2. Mós. 19:5, 6) Hvernig skildi Ísraelsþjóðin þessi orð?
LOFORÐIÐ UM ,KONUNGLEGAN PRESTDÓM‘
6. Hvaða loforð átti lagasáttmálinn þátt í að uppfylla?
6 Ísraelsþjóðin vissi vel hvað sáttmáli var því að Jehóva hafði gert formlega sáttmála við forfeðurna Nóa og Abraham. (1. Mós. 6:18; 9:8-17; 15:18; 17:1-9) Í sáttmálanum, sem Jehóva gerði við Abraham, var þetta loforð: „Allar þjóðir heims munu blessun hljóta af niðjum þínum.“ (1. Mós. 22:18) Lagasáttmálinn var liður í því að uppfylla loforðið við Abraham. Vegna hans gat Ísraelsþjóðin orðið ,sérstök eign Jehóva, umfram aðrar þjóðir‘. En til hvers? Til að verða honum „konungsríki presta“.
7. Hvað var átt við með „konungsríki presta“?
7 Ísraelsþjóðin þekkti til konunga og presta. Melkísedek var hins vegar sá eini sem hafði forðum daga gegnt báðum embættum samtímis með velþóknun Jehóva. (1. Mós. 14:18) En nú gaf Jehóva þeim tækifæri til að mynda „konungsríki presta“. Síðar í orði Guðs er bent á að með því hafi þjóðin haft tækifæri til að leiða fram ,konunglegan prestdóm‘, það er að segja konunga sem yrðu einnig prestar. – 1. Pét. 2:9.
8. Hvert er hlutverk presta sem Jehóva hefur skipað?
8 Konungar fara auðvitað með stjórnvald. En hvert er hlutverk presta? Í Hebreabréfinu 5:1 stendur: „Sérhver æðsti prestur er tekinn úr flokki manna og settur í þágu manna til að þjóna frammi fyrir Guði og bera fram gáfur og fórnir fyrir syndir.“ Prestur, sem Jehóva hefur skipað, gengur fram fyrir hann í þágu manna. Presturinn biður Jehóva um fyrirgefningu synda þeirra með því að bera fram þær fórnir sem kveðið er á um. Hann er einnig fulltrúi Jehóva með því að fræða menn um lög hans. (3. Mós. 10:8-11; Mal. 2:7) Með þessu er presturinn að koma mönnum í sátt við Guð.
9. (a) Hvaða skilyrði þurfti Ísraelsþjóðin að uppfylla til að geta orðið „konungsríki presta“? (b) Hvers vegna kom Jehóva á fót prestastétt innan Ísraelsþjóðarinnar? (c) Hvað kom í veg fyrir að hægt væri að leiða fram „konungsríki presta“ undir lagasáttmálanum?
9 Lagasáttmálinn gaf Ísraelsþjóðinni tækifæri til að leiða fram ,konunglegan prestdóm‘ til gagns fyrir allar „aðrar þjóðir“. En þessi einstaki möguleiki var þó skilyrðum háður. Guð sagði: „Ef þið nú hlýðið á mig af athygli og haldið sáttmála minn skuluð þið verða sérstök eign mín.“ Gátu Ísraelsmenn hlýtt Jehóva í hvívetna? Já, en ekki fullkomlega. (Rómv. 3:19, 20) Þess vegna kom Jehóva á fót prestastétt innan Ísraelsþjóðarinnar sem fór ekki með konungsvald. Hún átti að færa dýrafórnir fyrir syndir sem Ísraelsmenn myndu óhjákvæmilega drýgja. (3. Mós. 4:1–6:7) Syndirnar voru meðal annars syndir prestanna sjálfra. (Hebr. 5:1-3; 8:3) Jehóva tók við þessum fórnum, en þær gátu samt ekki bætt að fullu fyrir syndir þeirra sem færðu þær. Prestastéttin, sem þjónaði undir lagasáttmálanum, gat ekki komið einlægum Gyðingum algerlega í sátt við Guð. Páll postuli lýsti því þannig: „Blóð nauta og hafra getur með engu móti numið burt syndir.“ (Hebr. 10:1-4) Í rauninni hvíldi bölvun yfir Gyðingum vegna þess að þeir héldu ekki lögmálið fullkomlega. (Gal. 3:10) Í slíku ástandi gátu þeir tæplega þjónað sem prestar fyrir allt mannkynið.
10. Hvaða hlutverki þjónaði lagasáttmálinn?
10 Var loforð Jehóva um að leiða fram „konungsríki presta“ af Ísraelsmönnum þá haldlaust? Alls ekki. Þeir áttu kost á að verða konungar og prestar ef þeir reyndu að hlýða Jehóva í einlægni. En það yrði ekki undir lagasáttmálanum. Hvers vegna ekki? (Lestu Galatabréfið 3:19-25.) Lögmálið varðveitti hreina tilbeiðslu meðal þeirra sem reyndu að fylgja því í einlægni. Það auðveldaði Gyðingunum að skilja að þeir voru syndugir og þurftu á betri fórn að halda en þeirri sem æðsti presturinn var fær um að bera fram. Lögmálið var „tyftari“ sem myndi leiða þá til Krists, eða Messíasar – hins smurða. En þegar Messías kæmi myndi hann innleiða nýja sáttmálann sem Jeremía spámaður talaði um. Þeim sem tóku á móti Kristi var boðið að vera með í nýja sáttmálanum og þeir yrðu „konungsríki presta“. Skoðum nú hvernig það gat orðið.
NÝI SÁTTMÁLINN LEIÐIR FRAM ,KONUNGLEGAN PRESTDÓM‘
11. Hvernig varð Jesús undirstaðan að ,konunglegum prestdómi‘?
11 Jesús frá Nasaret varð Messías árið 29. Hann var um þrítugt þegar hann bauð sig fram til að gera sérstakan vilja Jehóva með sig. Hann sýndi það með því að láta skírast. Við það tækifæri sagði Jehóva um hann: „Þessi er minn elskaði sonur.“ Jehóva smurði hann ekki með olíu heldur heilögum anda. (Matt. 3:13-17; Post. 10:38) Guð smurði Jesú sem æðsta prest allra sem trúa á hann og sem tilvonandi konung þeirra. (Hebr. 1:8, 9; 5:5, 6) Hann yrði undirstaðan að ,konunglegum prestdómi‘.
12. Hvað varð mögulegt vegna fórnar Jesú?
12 Hvaða fórn gat Jesús borið fram, í embætti æðsta prests, sem gat bætt að fullu fyrir erfðasynd þeirra sem trúðu á hann? Fórnin var fullkomið mannslíf hans eins og hann gaf til kynna þegar hann innleiddi minningarhátíðina um dauða sinn. (Lestu Hebreabréfið 9:11, 12.) Frá því að Jesús varð æðsti prestur við skírn sína árið 29 sætti hann sig við þjáningar og prófraunir sem stóðu yfir allt til dauða hans. (Hebr. 4:15; 5:7-10) Eftir að hann var reistur upp fór hann til himna og bar verðgildi fórnar sinnar fram fyrir Jehóva. (Hebr. 9:24) Þaðan í frá gat Jesús verið málsvari þeirra sem iðka trú á fórn hans og hjálpað þeim að þjóna Jehóva með von um eilíft líf. (Hebr. 7:25) Fórn hans fullgilti einnig nýja sáttmálann. – Hebr. 8:6; 9:15.
13. Hvað áttu þeir í vændum sem fengju aðild að nýja sáttmálanum?
13 Þeir sem fengju aðild að nýja sáttmálanum yrðu einnig smurðir heilögum anda. (2. Kor. 1:21) Þar á meðal voru trúir Gyðingar og síðar fólk af öðrum þjóðum. (Ef. 3:5, 6) Hvað áttu þeir í vændum? Syndir þeirra yrðu fyrirgefnar að fullu. Jehóva hafði lofað: „Ég mun fyrirgefa þeim sekt þeirra og minnist ekki framar syndar þeirra.“ (Jer. 31:34) Þegar Jehóva hafði gefið þeim sakaruppgjöf voru þeir í aðstöðu til að verða konungar og prestar. Pétur skrifaði andasmurðum mönnum: „Þið eruð ,útvalin kynslóð, konunglegur prestdómur, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þið skuluð víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði ykkur frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.“ (1. Pét. 2:9) Pétur vitnar þarna í það sem Jehóva sagði við Ísraelsþjóðina þegar hann innleiddi lagasáttmálann og heimfærir það á kristna menn undir nýja sáttmálanum. – 2. Mós. 19:5, 6.
„KONUNGLEGUR PRESTDÓMUR“ ÖLLU MANNKYNI TIL BLESSUNAR
14. Hvaðan átti ,konunglegi prestdómurinn‘ að starfa?
14 Þeir sem tilheyra nýja sáttmálanum áttu að starfa á jörðinni. Þar myndu þeir þjóna sem prestar og koma fram fyrir hönd Jehóva með því að „víðfrægja dáðir hans“ meðal manna og gefa þeim andlega fæðu. (Matt. 24:45; 1. Pét. 2:4, 5) Eftir dauða sinn og upprisu yrðu þeir fullfærir um að þjóna bæði sem konungar og prestar með Kristi á himnum. (Lúk. 22:29; 1. Pét. 1:3-5; Opinb. 1:6) Þessu til staðfestingar sá Jóhannes postuli margar andaverur í sýn við hásæti Jehóva á himnum. Þær sungu „nýjan söng“ og ávörpuðu ,lambið‘: „Með blóði þínu keyptir þú Guði til handa menn af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð. Og þú gerðir þá að konungum og prestum Guði vorum til handa. Og þeir munu ríkja á jörðunni.“ (Opinb. 5:8-10) Seinna sá Jóhannes aðra sýn og sagði þá um þessa konunga: „Þeir [munu] vera prestar Guðs og Krists og ríkja með honum um þúsund ár.“ (Opinb. 20:6) Með Kristi mynda þeir ,konunglegan prestdóm‘ sem mun ríkja yfir jörðinni öllu mannkyni til blessunar.
15, 16. Hvernig verður „konunglegur prestdómur“ til blessunar fyrir mannkynið?
15 Hvernig verða hinar 144.000 mannkyninu til blessunar? Í 21. kafla Opinberunarbókarinnar er þeim lýst sem himneskri borg, nýrri Jerúsalem, sem er kölluð ,eiginkona lambsins‘. (Opinb. 21:9) Í versi 2 til 4 stendur: „Ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði er skartar fyrir manni sínum. Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu er sagði: ,Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.‘“ Hvílíkar blessanir! Þegar dauðinn er ekki lengur til verður aðalástæðan fyrir tárum, harmi, veini og kvöl úr sögunni. Mannkynið verður fullkomið og komið í fulla sátt við Guð.
16 Í Opinberunarbókinni 22:1, 2 er okkur sagt meira um það hvernig „konunglegur prestdómur“ verður mannkyninu til blessunar. Þar stendur: „Hann sýndi mér móðu lífsvatnsins, skæra sem kristall. Hún rann frá hásæti Guðs og lambsins eftir miðju stræti borgarinnar. Beggja vegna móðunnar var lífsins tré sem ber tólf sinnum ávöxt. Í hverjum mánuði ber það ávöxt sinn. Blöð trésins eru til lækningar þjóðunum.“ Þessi sýn hjálpar okkur að skilja hvernig ,þjóðirnar‘, það er að segja mannkynið, verða læknaðar af erfðasynd Adams að fullu og öllu. Hið fyrra verður endanlega farið.
„KONUNGLEGUR PRESTDÓMUR“ LÝKUR VERKI SÍNU
17. Hverju kemur ,konunglegi prestdómurinn‘ til leiðar á 1000 árum?
17 Í lok 1000 ára stjórnar sinnar hafa þeir sem þjóna sem konungar og prestar hjálpað mannkyninu til fullkomleika. Kristur, í hlutverki æðsta prests og konungs, afhendir þá Jehóva fullkomið mannkyn. (Lestu 1. Korintubréf 15:22-26.) Hlutverki ,konunglega prestdómsins‘ er þá lokið.
18. Hvernig mun Jehóva nota meðstjórnendur Krists eftir að hlutverki ,konunglega prestdómsins‘ er lokið?
18 Hvernig mun Jehóva nota þessa háttsettu meðstjórnendur Krists eftir það? Samkvæmt Opinberunarbókinni 22:5 munu þeir „ríkja um aldir alda“. Yfir hverjum munu þeir ríkja? Biblían segir það ekki, en þeir munu halda áfram að vera mjög verðmætir í augum Jehóva. Þeir verða ódauðlegir og óforgengilegir og hafa öðlast reynslu af því að aðstoða ófullkomið mannkyn. Þeir halda því áfram að ríkja sem konungar og Jehóva mun nota þá til að láta fyrirætlun sína ná fram að ganga um alla eilífð.
19. Á hvað verða þeir minntir sem sækja minningarhátíðina?
19 Við verðum minnt á þessi biblíusannindi þegar við höldum minningarhátíðina um dauða Jesú fimmtudaginn 5. apríl. Þeir fáu sem eftir eru á jörðinni úr hópi hinna andasmurðu borða þá af ósýrða brauðinu og drekka af rauðvíninu til að sýna að þeir eigi aðild að nýja sáttmálanum. Það minnir þá á þann heiður og ábyrgð sem þeir hafa í eilífri fyrirætlun Guðs. Allir viðstaddir ættu að vera innilega þakklátir fyrir ,konunglega prestdóminn‘ sem Jehóva Guð hefur skipað öllu mannkyninu til blessunar.
[Mynd á bls. 29]
„Konunglegur prestdómur“ verður öllu mannkyni til eilífrar blessunar.