Hvers vegna eigum við að vera heilög?
,Þið skuluð vera heilög.‘ – 3. MÓS. 11:45.
1. Hvaða gagn getum við haft af 3. Mósebók?
HEILAGLEIKI er nefndur oftar í 3. Mósebók en í nokkurri annarri bók Biblíunnar. Allir sem tilbiðja Jehóva þurfa að vera heilagir þannig að það er gagnlegt að kynna sér vel það sem fram kemur um þetta mál í 3. Mósebók.
2. Hvað er athyglisvert við 3. Mósebók?
2 Það var spámaðurinn Móse sem skrifaði þessa bók, og hún hluti af Ritningunni sem er öll nytsöm til fræðslu. (2. Tím. 3:16) Nafnið Jehóva stendur að meðaltali tíu sinnum í hverjum kafla bókarinnar. Að skilja efni hennar er okkur hjálp til að forðast hvaðeina sem gæti kastað rýrð á nafn hans. (3. Mós. 22:32, NW) Setningin „ég er Jehóva“ er margendurtekin í bókinni og það ætti að minna okkur á að hlýða honum. Í þessari grein og þeirri næstu skulum við líta á nokkur gullkorn sem er að finna í 3. Mósebók, þessari gjöf Guðs sem hjálpar okkur að vera heilög í tilbeiðslu okkar.
KRAFAN UM AÐ VERA HEILAGIR
3, 4. Hvað táknaði það að þvo Aron og syni hans? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
3 Lestu 3. Mósebók 8:5, 6. Jehóva útvaldi Aron til að vera æðstiprestur Ísraels og synir hans áttu að vera prestar þjóðarinnar. Aron táknar Jesú Krist og synir hans tákna andasmurða fylgjendur Jesú. Hvað merkti það þá að Aron var þveginn? Jesús var ,lýtalaus‘ og syndlaus þannig að þvotturinn táknaði ekki að hann þyrfti að hreinsast. (Hebr. 7:26; 9:14) Að Aron skyldi vera hreinn táknar hins vegar að Jesús sé hreinn og réttlátur. Hvað var þá táknað með því að þvo syni Arons?
4 Að þvo syni Arons táknaði hreinsun þeirra sem eru útvaldir til að vera prestar á himnum. Er þessi hreinsun tengd skírn þeirra? Nei, menn verða ekki hreinir af syndinni með því að skírast heldur táknar skírnin að þeir hafi vígst Jehóva Guði skilyrðislaust. Hinir andasmurðu hreinsast „með orðinu“ og þurfa að fylgja kenningum Krists af heilum hug. (Ef. 5:25-27) Þannig verða þeir helgaðir og hreinir. En hvað um „aðra sauði“? – Jóh. 10:16.
5. Hvernig getum við sagt að orð Guðs hreinsi aðra sauði?
5 Synir Arons tákna ekki aðra sauði Jesú, það er að segja ,múginn mikla‘. (Opinb. 7:9) Aðrir sauðir verða samt sem áður heilagir með orði Guðs. Þegar þeir sem hafa jarðneska von lesa í Biblíunni um kraftinn í úthelltu blóði Jesú og um gildi þess, trúa þeir orðum hennar og „þjóna honum dag og nótt“. (Opinb. 7:13-15) Stöðug hreinsun andasmurðra og annarra sauða hefur þau áhrif að þeir ,hegða sér vel meðal þjóðanna‘. (1. Pét. 2:12) Það hlýtur að gleðja Jehóva að sjá að hinir andasmurðu og aðrir sauðir eru hreinir og sameinaðir, og að þeir hlýða og fylgja hirðinum Jesú dyggilega.
6. Hvers vegna er gott að rannsaka sjálfan sig reglulega?
6 Sú krafa að prestar Ísraels skyldu vera hreinir hefur ákveðna þýðingu fyrir þjóna Jehóva nú á dögum. Biblíunemendur okkar hafa stundum orð á því að húsnæðið þar sem við tilbiðjum Jehóva sé hreint og snyrtilegt og við séum vel til fara. En hreinleiki prestanna minnir okkur á að allir sem ganga upp á fjallið þar sem Jehóva er tilbeðinn verða að hafa „hreint hjarta“. (Lestu Sálm 24:3, 4; Jes. 2:2, 3) Við verðum að þjóna Jehóva með hreinum huga og hjarta, og líkaminn þarf líka að vera hreinn. Við þurfum að rannsaka sjálf okkur oft, og stundum gætum við þurft að gera talsverðar breytingar til að geta verið heilög. (2. Kor. 13:5) Segjum til dæmis að skírður vottur horfi vísvitandi á klám. Hann ætti að spyrja sig hvort hann sé heilagur. Síðan ætti að hann að leita sér aðstoðar til að hætta þessu andstyggilega hátterni. – Jak. 5:14.
VERUM HEILÖG MEÐ ÞVÍ AÐ VERA HLÝÐIN
7. Hvað gerði Jesús sem kom heim og saman við 3. Mósebók 8:22-24?
7 Þegar Aron æðstiprestur og synir hans voru vígðir til starfa var blóð úr hrúti borið á hægra eyra þeirra, þumalfingur og stórutá. (Lestu 3. Mósebók 8:22-24.) Þessi athöfn táknaði að prestarnir myndu hlýða Jehóva og rækja skyldur sínar eftir bestu getu. Jesús æðstiprestur er líka fullkomin fyrirmynd hinna andasmurðu og annarra sauða. Eyru hans voru móttækileg fyrir leiðsögn Guðs. Hann notaði hendurnar til að gera vilja Jehóva og fætur hans villtust aldrei út af heilagri braut. – Jóh. 4:31-34.
8. Hvað þurfa allir þjónar Jehóva að gera?
8 Andasmurðir kristnir menn og aðrir sauðir verða að líkja eftir ráðvendni Jesú, æðstaprests síns. Allir þjónar Jehóva verða að hlýða þeim leiðbeiningum sem er að finna í orði hans til að hryggja ekki heilagan anda. (Ef. 4:30) Þeir þurfa að ,láta fætur sína feta beinar brautir‘. – Hebr. 12:13.
9. Hvað segja þrír bræður sem hafa unnið náið með bræðrum í hinu stjórnandi ráði, og hvernig getur það hjálpað þér að vera heilagur?
9 Við skulum líta á ummæli þriggja bræðra sem hafa jarðneska von en hafa unnið áratugum saman með bræðrum í hinu stjórnandi ráði. Einn þeirra segir: „Það hefur verið mikill heiður að fá að starfa náið með þessum bræðrum, en auðvitað hefur það sýnt sig við og við að þeir eru ófullkomnir þótt þeir séu andasmurðir. Ég hef samt haft það markmið að vera hlýðinn þeim sem fara með forystuna.“ Annar bróðir segir: „Vers eins og 2. Korintubréf 10:5, þar sem talað er um ,hlýðni við Krist‘, hafa hjálpað mér að vera hlýðinn og vinna með þeim sem fara með forystuna, og ég hlýði af heilum hug.“ Þriðji bróðirinn segir: „Að hlýða söfnuði Jehóva og þeim sem hann notar til að koma vilja sínum til leiðar á jörð felur í sér að elska það sem hann elskar og hata það sem hann hatar, auk þess að leita alltaf eftir leiðsögn hans og gera það sem hann hefur þóknun á.“ Árið 1925 hafði birtist grein í Varðturninum sem hét „Fæðing þjóðar“. Þessi bróðir hafði komist að raun um að Nathan Knorr, sem sat síðar í hinu stjórnandi ráði, meðtók fúslega það sem stóð í greininni þó að sumir aðrir hafi véfengt ýmis atriði í henni. Þessi hlýðni hafði sterk áhrif á bróðurinn. Veltu fyrir þér orðum þessara þriggja bræðra. Það getur hjálpað þér að vera heilagur með því að vera hlýðinn.
AÐ HLÝÐA LÖGUM GUÐS UM BLÓÐ
10. Hve mikilvægt er að hlýða lögum Guðs um blóð?
10 Lestu 3. Mósebók 17:10. Jehóva sagði Ísraelsmönnum að þeir mættu ekki neyta blóðs. Þess er líka krafist af kristnum mönnum að halda sig frá blóði, bæði manna og dýra. (Post. 15:28, 29) Okkur hrýs hugur við því að Jehóva ,snúi augliti sínu gegn okkur‘ og uppræti okkur úr söfnuðinum. Við elskum hann og viljum hlýða honum. Jafnvel þó að líf okkar sé í hættu erum við ákveðin í að láta ekki undan þrýstingi frá þeim sem þekkja ekki Jehóva og hafa ekki áhuga á að hlýða honum. Við erum viðbúin því að gert sé gys að okkur fyrir að halda okkur frá blóði en við kjósum að hlýða Guði. (Júd. 17, 18) Hvað getur hjálpað okkur að vera ákveðin í að borða hvorki blóð né þiggja blóðgjöf? – 5. Mós. 12:23.
11. Hvernig vitum við að það sem gert var á friðþægingardeginum var ekki bara helgisiður?
11 Æðstiprestur Ísraels notaði blóð í vissum tilgangi á hinum árlega friðþægingardegi og það auðveldar okkur að skilja viðhorf Guðs til blóðs. Blóð átti aðeins að nota til að friðþægja fyrir syndir þeirra sem leituðu fyrirgefningar Jehóva. Æðstipresturinn átti að skvetta blóði úr nauti og geithafri ofan á lok sáttmálsarkarinnar og frammi fyrir því. (3. Mós. 16:14, 15, 19) Þessi athöfn var forsenda þess að Jehóva fyrirgæfi syndir Ísraelsmanna. Jehóva tiltók enn fremur að Ísraelsmaður, sem veiddi eða slátraði dýri til matar, ætti að hella niður blóðinu og hylja það mold „því að blóðið er lífskraftur alls holds“. (3. Mós. 17:11-14) Voru þetta bara innantómir helgisiðir? Nei. Meðferð blóðs á friðþægingardeginum og fyrirmælin um að hella niður blóði var hvort tveggja í samræmi við fyrirmæli sem Jehóva hafði gefið Nóa og afkomendum hans öldum áður. (1. Mós. 9:3-6) Jehóva Guð hafði bannað mönnum að neyta blóðs sér til næringar. Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir kristna menn?
12. Hvernig setur Páll postuli blóð í samband við fyrirgefningu?
12 Páll postuli sagði í bréfi til kristinna Hebrea að blóð hreinsaði. Hann skrifaði: „Samkvæmt lögmálinu er það nálega allt sem hreinsast með blóði og eigi fæst fyrirgefning án úthellingar blóðs.“ (Hebr. 9:22) Dýrafórnir höfðu sitt gildi en Páll benti á að þær minntu Ísraelsmenn aðeins á að þeir væru syndarar og það þyrfti meiri fórn til að afmá syndir þeirra með öllu. Lögmálið var ,skuggi hins góða sem var í vændum en ekki skýr mynd þess‘. (Hebr. 10:1-4) Hvernig var hægt að fá syndir sínar fyrirgefnar?
13. Hvaða gildi hefur það fyrir þig að Jesús skyldi færa Jehóva andvirði blóðs síns?
13 Lestu Efesusbréfið 1:7. Jesús Kristur ,lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir okkur‘ og fórnardauði hans hefur djúpstæða merkingu fyrir alla sem elska hann og föður hans. (Gal. 2:20) Syndafyrirgefning byggist hins vegar á því sem Jesús gerði eftir að hann var dáinn og upprisinn. Jesús uppfyllti það sem gert var á friðþægingardeginum í samræmi við ákvæði lögmálsins. Þann dag fór æðstipresturinn með blóð fórnardýra inn í hið allra helgasta í tjaldbúðinni og síðar í musteri Salómons. Það var eins og hann gengi fram fyrir Guð til að bera fram blóðið. (3. Mós. 16:11-15) Jesús fór inn í sjálfan himininn með andvirði blóðs síns og bar það fram fyrir Jehóva. (Hebr. 9:6, 7, 11-14, 24-28) Við erum innilega þakklát fyrir að fá syndir okkar fyrirgefnar og eiga hreina samvisku vegna þess að við trúum á blóð Jesú.
14, 15. Hvers vegna er mikilvægt að skilja lög Jehóva um blóð og hlýða þeim?
14 Áttarðu þig betur á því núna hvers vegna Jehóva bannar okkur að neyta blóðs af nokkru tagi? (3. Mós. 17:10) Skilurðu hvers vegna blóð er heilagt í augum Guðs? Hann lítur svo á að blóð jafngildi lífi. (1. Mós. 9:4) Ertu ekki sammála því að við eigum að sjá blóð sömu augum og Jehóva og halda okkur frá því eins og hann fyrirskipar? Eina leiðin til að eiga frið við Guð er að trúa á lausnarfórn Jesú og viðurkenna að blóð hafi sérstaka þýðingu í augum skaparans. – Kól. 1:19, 20.
15 Við getum öll staðið óvænt frammi fyrir því að þurfa að taka afstöðu til blóðgjafar. Náinn ættingi eða vinur getur þurft að ákveða fyrirvaralítið hvort hann þiggi blóðþætti eða læknismeðferð þar sem blóð hans er meðhöndlað á einhvern hátt. Það er því ákaflega mikilvægt að kynna sér málin vel og vera viðbúin því að lenda óvænt á spítala. Það, ásamt bæninni, hjálpar okkur að láta ekki undan heldur vera einbeitt og ákveðin á neyðarstund. Ekki viljum við hryggja hjarta Jehóva með því að þiggja eitthvað sem er fordæmt í Biblíunni. Margir læknar og aðrir talsmenn blóðgjafa hvetja fólk til að gefa blóð í von um að bjarga mannslífum. En heilagir þjónar Jehóva viðurkenna að hann, skaparinn, hafi rétt til að ákveða hvernig megi nota blóð. Allt blóð er heilagt í augum hans. Við verðum að vera ákveðin í að hlýða lögum hans um blóð. Við sýnum honum með heilagri breytni okkar að við séum innilega þakklát fyrir blóð Jesú – eina blóðið sem gerir okkur kleift að fá syndir okkar fyrirgefnar og hljóta eilíft líf. – Jóh. 3:16.
JEHÓVA ÆTLAST TIL AÐ VIÐ SÉUM HEILÖG
16. Hvers vegna eiga þjónar Jehóva að vera heilagir?
16 Þegar Jehóva frelsaði Ísraelsmenn úr ánauð í Egyptalandi sagði hann þeim: „Vegna þess að ég er Drottinn, sem leiddi ykkur út af Egyptalandi til að gerast Guð ykkar, skuluð þið vera heilagir því að ég er heilagur.“ (3. Mós. 11:45) Ísraelsmenn áttu að vera heilagir vegna þess að Jehóva er heilagur. Og við sem erum vottar Jehóva verðum líka að vera heilög. Þriðja Mósebók tekur af allan vafa um það.
17. Hvað finnst þér núna um 3. Mósebók?
17 Það hefur verið gagnlegt að glugga í 3. Mósebók. Líklega hefurðu fengið meiri mætur á þessari innblásnu biblíubók og þeim verðmætu upplýsingum sem hún hefur að geyma. Þú skilur vafalaust betur núna hvers vegna við eigum að vera heilög. Hvaða fleiri gullkorn er að finna í þessum hluta Biblíunnar? Hvað annað má læra af honum varðandi heilaga þjónustu við Jehóva? Rætt er um það í næstu grein.