Spurningar frá lesendum
Er viðeigandi að kristinn maður leyfi krufningu látins ættingja?
Biblían segir ekkert beint um líkskoðun eða krufningu. Hins vegar geymir hún ýmsar upplýsingar sem kristinn maður getur hugleitt í þessu sambandi. Síðan getur hann tekið sína eigin ákvörðun í ljósi þeirra og annarra aðstæðna.
Krufning er það að skera upp lík og rannsaka líffærin, til dæmis til að komast að dánarorsök. Hún getur veitt upplýsingar um áhrif eða eðli sjúkdóms. Sum trúfélög byggja afstöðu sína til krufningar á óbiblíulegum kenningum. Til dæmis segir kaþólsk fræðibók: „Meðhöndla skyldi lík látins manns með lotningu svo sem fyrri bústað sálar hans. . . . Honum er ætlað að rísa upp með sálinni í almennri upprisu til eilífs lífs. . . . Liðið getur nokkur tími frá læknisfræðilegum dauða fram að burtför sálarinnar.“ En Biblían sýnir að þegar maður (lifandi sál) deyr verður hann dauð sál. (1. Mósebók 2:7; 7:21-23; 3. Mósebók 21:1, 11) Hvað um líkama hans? Við lesum bæði um mennina og skepnurnar: „Allt er af moldu komið, og allt hverfur aftur til moldar.“ (Prédikarinn 3:18-20) Í upprisunni mun Guð ekki reisa upp líkamann, sem er löngu orðinn að moldu, heldur mynda nýjan líkama eins og honum þóknast. — Sjá 1. Korintubréf 15:38, 47, 48.
Hugleiða má í tengslum við krufningu aðra hlið á viðhorfum Biblíunnar til hinna dánu: „Þér skuluð eigi skera skurði í hold yðar fyrir sakir dauðs manns, né heldur gjöra hörundsflúr á yður. Ég er [Jehóva].“ (3. Mósebók 19:28; 5. Mósebók 14:1, 2; Jeremía 47:5; Míka 5:1) Þjónar Guðs áttu ekki að líkja eftir þjóðunum í kringum sig í því að lemstra hold sitt til tákns um sorg eða af öðrum, fölskum trúarlegum ástæðum. Þetta boð hlýtur líka að hafa hvatt Ísraelsmenn til að virða líkama sinn sem sköpunarverk Guðs. — Sálmur 100:3; 139:14; Jobsbók 10:8.
Kristnir menn ættu líka að bera tilhlýðilega virðingu fyrir lífi sínu og líkama sem þeir hafa helgað Guði. (Rómverjabréfið 12:1) Sumum finnst að þessi virðing gagnvart líkamanum ætti að móta viðhorf þeirra til krufningar. Þeim finnst að ekki skuli skera upp lík látins ástvinar, nema fyrir því sé einhver brýn ástæða. Þeir vita kannski að sums staðar hefur blóð úr látnum manni verið notað til blóðgjafa eða annarra nota sem þeir vilja ekki taka þátt í.a
Hvers vegna hafa þá sumir kristnir menn leyft krufningu? Þeir gera sér ljóst að Biblían segir ekkert beint um slíka aðgerð. Ef til vill hafa þeir líka í huga að Ísraelsmenn í Egyptalandi leyfðu egypskum læknum að smyrja lík Jakobs og Jósefs, sem trúlega hefur falið í sér uppskurð til að fjarlægja innri líffæri. (1. Mósebók 50:2, 3, 26) Sums staðar krefjast landslög þess að krufning fari fram. Ef ungur, heilbrigður einstaklingur deyr án augljósrar ástæðu er víða skylt að kryfja lík hans. Þar sem landslög krefjast krufningar hafa kristnir menn auðvitað í huga þau ráð að ‚hlýða yfirvöldum.‘ — Rómverjabréfið 13:1, 7; Matteus 22:21.
Jafnvel þegar einstaklingur hefur verið undir læknishendi, og dánarorsök er líklega kunn, getur krufning stundum gefið nytsamlegar upplýsingar. Eftirlifandi ættingjar vilja ef til vill vita nákvæmlega hver dánarorsök er, til að hafa í höndum sem gleggstar upplýsingar um heilsufarssögu fjölskyldunnar. Slíkar upplýsingar gætu haft áhrif á lífshætti þeirra í framtíðinni eða læknismeðferð sem þeir fá. Sumir hafa leyft krufningu af öðrum ástæðum. Krufningarskýrsla og vefjarannsóknir gætu haft í för með sér að fjölskylda ætti tilkall til dánarbóta ef sannað er að hinn látni hafi dáið úr atvinnusjúkdómi. Sumir hafa jafnvel hugsað sem svo að krufning gæti veitt þeim aukinn hugarfrið, með því að veita þeim vitneskju um hvað olli dauða ástvinar eða hvað hafði ekki áhrif á hann. Krufning gæti líka orðið öðrum utan fjölskyldunnar til gagns. Ættingjar gætu talið að krufning gæti fært lækni aukna vitneskju um ferli sjúkdóms svo að hann yrði betur í stakk búinn til að lækna aðra.
Það er því viðeigandi að kristnir menn beri virðingu fyrir líkama sínum, en sitthvað annað getur komið til álita þegar tekin er ákvörðun um hvort leyfa skuli krufningu í hverju einstöku tilviki.
[Neðanmáls]
a Í Varðturninum þann 1. desember 1983, bls. 32, er að finna upplýsingar um líffæraflutninga.