Dveldu í ‚griðaborginni‘ svo þú lifir!
„Vegandi skal dvelja í griðastað sínum uns æðsti prestur deyr.“ — 4. MÓSEBÓK 35:28.
1. Hver er blóðhefnandinn og hvað mun hann gera bráðlega?
HEFNANDI Jehóva, Jesús Kristur, er í þann mund að láta til skarar skríða. Með englasveitum sínum mun þessi hefnandi bráðlega ganga til atlögu við alla sem eru blóðsekir og iðrast ekki. Já, Jesús mun þjóna sem aftökumaður Guðs í ‚þrengingunni miklu‘ sem nálgast óðfluga. (Matteus 24:21, 22; Jesaja 26:21) Mannkynið þarf þá að horfast í augu við blóðskuld sína.
2. Hver er eini raunverulegi griðastaðurinn og hvaða spurningum þarf að svara?
2 Til að komast undan þarf maður að komast inn á veginn til griðaborgar nútímans og hlaupa eins og maður eigi lífið að leysa! Sé flóttamanni hleypt inn í borgina þarf hann að halda þar kyrru fyrir því að hún er eina raunverulega hælið sem hann hefur. En þér kann að vera spurn hvort við séum virkilega blóðsek þar eð fæst okkar hafa nokkurn tíma orðið manni að bana. Hvers vegna er Jesús blóðhefnandinn? Hver er griðaborg nútímans? Verður nokkurn tíma óhætt að yfirgefa hana?
Erum við í alvöru blóðsek?
3. Hvaða ákvæði Móselögmálsins sýnir okkur að sameiginleg blóðskuld hvílir á milljörðunum á jörðinni?
3 Eitt af ákvæðum Móselaganna sýnir okkur fram á að sameiginleg blóðskuld hvílir á milljörðunum á jörðinni. Guð gerði Ísraelsmenn samábyrga fyrir blóðsúthellingum. Ef maður fannst myrtur og morðinginn var óþekktur urðu dómarar að mæla fjarlægðina til borganna umhverfis til að finna hver væri næst. Til að losna undan sektinni urðu öldungar þeirrar borgar, sem blóðskuld var talin hvíla á, að fara með unga kvígu, sem ekki hafði verið höfð til vinnu, í óræktaðan dal með sírennandi vatni og hálsbrjóta hana þar. Það var gert frammi fyrir levítaprestum ‚því að Jehóva útvaldi þá til að skera úr þrætumálum og meiðslamálum.‘ Öldungar borgarinnar þvoðu hendur sínar yfir kvígunni og sögðu: „Vorar hendur hafa ekki úthellt þessu blóði og augu vor hafa ekki séð það. Fyrirgef, [Jehóva], lýð þínum, Ísrael, er þú hefir leyst, og lát ekki lýð þinn Ísrael gjalda saklauss blóðs!“ (5. Mósebók 21:1-9) Jehóva Guð vildi ekki að Ísraelsland saurgaðist af blóði eða að sameiginleg blóðskuld hvíldi á landsmönnum.
4. Hvaða blóðsök hvílir á Babýlon hinni miklu?
4 Já, það er til sameiginleg eða samfélagsleg blóðsekt. Hugsaðu þér þá gríðarlegu blóðskuld sem hvílir á Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða. Hún er drukkin af blóði þjóna Jehóva! (Opinberunarbókin 17:5, 6; 18:24) Trúfélög kristna heimsins þykjast fylgja Friðarhöfðingjanum, en stríð, trúarlegir rannsóknarréttir og mannskæðar krossferðir hafa gert þau blóðsek frammi fyrir Guði. (Jesaja 9:6; Jeremía 2:34) Reyndar ber kristni heimurinn aðalábyrgðina á dauða milljóna manna í tveim heimsstyrjöldum þessarar aldar. Þess vegna eru áhangendur falstrúarbragða og þátttakendur í hernaði manna blóðsekir frammi fyrir Guði.
5. Hvernig hafa sumir verið eins og óviljamanndráparinn í Ísrael?
5 Sumir hafa valdið öðrum bana af ásetningi eða með gáleysi. Aðrir hafa tekið þátt í sameiginlegum manndrápum, kannski að undirlagi trúarleiðtoga sem fullyrtu að það væri vilji Guðs. Og enn aðrir hafa ofsótt og drepið þjóna Guðs. En jafnvel þótt við höfum ekki gert slíkt berum við samfélagsábyrgð á missi mannslífa vegna þess að við þekktum ekki lög Guðs og vilja. Við erum eins og óviljamanndráparinn sem ‚drap náunga sinn óviljandi og hafði eigi verið óvinur hans áður.‘ (5. Mósebók 19:4) Slíkir menn ættu að sárbæna Guð um miskunn og hlaupa inn í griðaborg nútímans. Ella mun blóðhefnandinn eiga örlagaríkan fund með þeim.
Hin mikilvægu hlutverk Jesú
6. Hvers vegna má segja að Jesús sé nánasti ættingi mannkynsins?
6 Hefndarmaðurinn í Ísrael var nánasti ættingi fórnarlambsins. Til að hefna blóðs allra þeirra sem hafa verið drepnir á jörðinni, sérstaklega þjóna Jehóva, þyrfti hefnandi nútímans að vera ættingi alls mannkyns. Jesús Kristur gegnir því hlutverki. Hann fæddist sem fullkominn maður. Hann gaf syndlaust líf sitt í dauðann sem lausnarfórn, og eftir upprisu sína til himna bar hann verðmæti þess fram fyrir Guð í þágu deyjandi afkomenda syndarans Adams. Þannig varð Kristur lausnari mannkyns, nánasti ættingi okkar — réttmætur blóðhefnandi. (Rómverjabréfið 5:12; 6:23; Hebreabréfið 10:12) Jesús er nefndur bróðir smurðra fylgjenda sinna. (Matteus 25:40, 45; Hebreabréfið 2:11-17) Nú er hann konungur á himni og verður „Eilífðarfaðir“ jarðneskra þegna sinna sem njóta munu góðs af fórn hans. Þeir fá að lifa að eilífu. (Jesaja 9:6, 7) Það er því viðeigandi að Jehóva skuli hafa skipað þennan ættingja mannkyns blóðhefnanda.
7. Hvað gerir Jesús, æðsti presturinn mikli, fyrir mennina?
7 Jesús er líka syndlaus, reyndur og samúðarfullur æðsti prestur. (Hebreabréfið 4:15) Í þeirri stöðu beitir hann gildi friðþægingarfórnar sinnar í þágu mannkyns. Griðaborgirnar voru ætlaðar ‚Ísraelsmönnum og dvalarmönnum og hjábýlingum meðal þeirra.‘ (4. Mósebók 35:15) Æðsti presturinn mikli beitti fórn sinni því fyrst í þágu smurðra fylgjenda sinna, ‚Ísraelsmanna.‘ Núna er henni beitt í þágu ‚dvalarmanna‘ og „hjábýlinga“ í griðaborg nútímans. Þessir ‚aðrir sauðir‘ Drottins Jesú Krists vonast eftir eilífu lífi á jörð. — Jóhannes 10:16; Sálmur 37:29, 34.
Griðaborg nútímans
8. Hver er griðaborg nútímans?
8 Hvað er griðaborg nútímans? Hún er ekki ákveðinn staður eins og Hebron sem var ein levíta- og griðaborganna sex og heimili æðsta prestsins í Ísrael. Griðaborg nútímans er ráðstöfun Guðs til að vernda okkur gegn dauða fyrir að brjóta boðorð hans um heilagleika blóðsins. (1. Mósebók 9:6) Hver sem brýtur þetta boðorð, annaðhvort af ásetningi eða óviljandi, þarf að leita fyrirgefningar Guðs og biðja um að synd hans sé strikuð út vegna trúar á blóð æðsta prestsins, Jesú Krists. Smurðir kristnir menn með himneska von og ‚múgurinn mikli‘ með jarðneska von hafa notfært sér gagnið af friðþægingarfórn Jesú og eru í griðaborg nútímans. — Opinberunarbókin 7:9, 14; 1. Jóhannesarbréf 1:7; 2:1, 2.
9. Hvernig braut Sál frá Tarsus boðorð Guðs um blóðið en hvernig breyttist afstaða hans?
9 Áður en Páll postuli varð kristinn hafði hann brotið boðorðið um blóðið. Hann var þá nefndur Sál frá Tarsus og hafði ofsótt fylgjendur Jesú og jafnvel lagt blessun sína yfir morð. „En mér var miskunnað,“ sagði Páll, „sökum þess að ég gjörði það í vantrú, án þess að vita, hvað ég gjörði.“ (1. Tímóteusarbréf 1:13; Postulasagan 9:1-19) Sál var iðrunarfullur og sannaði það síðar með mörgum trúarverkum. En það þarf meira en trú á lausnargjaldið til að ganga inn í griðaborg nútímans.
10. Hvernig er hægt að öðlast góða samvisku og hvað verðum við að gera til að viðhalda henni?
10 Óviljamanndrápari gat aðeins dvalið í einhverri af griðaborgum Ísraels ef hann gat sannað að hann hefði góða samvisku gagnvart Guði í sambandi við blóðskuld. Til að öðlast góða samvisku verðum við að trúa á fórn Jesú, iðrast synda okkar og breyta um stefnu. Við þurfum að biðja um góða samvisku er við vígjumst Guði fyrir milligöngu Krists og gefa tákn um það með niðurdýfingarskírn. (1. Pétursbréf 3:20, 21) Þessi góða samviska gerir okkur kleift að eignast hreint vináttusamband við Jehóva. Eina leiðin til að viðhalda góðri samvisku er sú að fara eftir kröfum Guðs og vinna þau verk sem okkur eru falin í griðaborg nútímans, alveg eins og flóttamenn í griðaborgunum til forna urðu að halda lögmálið og vinna skyldustörf sín. Aðalstarf fólks Jehóva nú á dögum er fólgið í því að prédika boðskapinn um Guðsríki. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Að vinna það verk hjálpar okkur að vera nytsamir íbúar griðaborgar nútímans.
11. Hvað verðum við að forðast ef við viljum vera óhult í griðaborg nútímans?
11 Með því að yfirgefa griðaborg nútímans værum við að gera okkur berskjölduð því að hefnandinn lætur bráðlega til skarar skríða gegn öllum blóðsekum mönnum. Núna er ekki rétti tíminn til að láta fanga sig utan þessarar verndarborgar eða á hættusvæði nálægt ytri mörkum beitilandsins umhverfis hana. Við myndum hafna utan griðaborgar nútímans ef við misstum trúna á friðþægingarfórn æðsta prestsins. (Hebreabréfið 2:1; 6:4-6) Við værum ekki heldur óhult ef við tækjum upp veraldlega siði, stæðum við útjaðar skipulags Jehóva eða vikjum frá réttlátum stöðlum okkar himneska föður. — 1. Korintubréf 4:4.
Frelsuð úr griðaborginni
12. Hve lengi verða þeir sem áður voru blóðsekir að halda sig í „griðaborginni“?
12 Óviljamanndrápari í Ísrael varð að dvelja í griðaborg ‚uns æðsti presturinn dó.‘ (4. Mósebók 35:28) Hve lengi verða þá þeir sem áður voru blóðsekir að dvelja í „griðaborginni“? Uns þeir þarfnast ekki lengur þjónustu æðsta prestsins, Jesú Krists. „Hann [getur] og til fulls frelsað þá, sem fyrir hann ganga fram fyrir Guð,“ sagði Páll. (Hebreabréfið 7:25) Svo lengi sem vottar fyrir synd og fyrrverandi blóðskuld er þörf á þjónustu æðsta prestsins til að ófullkomnir menn geti staðið hreinir frammi fyrir Guði.
13. Hverjir eru „Ísraelsmenn“ nútímans og hve lengi verða þeir að dvelja í „griðaborginni“?
13 Munum að griðaborgirnar til forna voru valdar handa ‚Ísraelsmönnum,‘ dvalarmönnum og hjábýlingum. „Ísraelsmenn“ eru andlegir Ísraelsmenn. (Galatabréfið 6:16) Þeir verða að dvelja í „griðaborginni“ eins lengi og þeir eru á jörðinni. Hvers vegna? Vegna þess að þeir eru enn í ófullkomnu holdi sínu og þurfa þar af leiðandi að njóta friðþægingar æðsta prestsins á himnum. En þegar þessir smurðu kristnu menn deyja og eru reistir upp sem andaverur á himnum þarfnast þeir ekki lengur friðþægingarþjónustu æðsta prestsins; þeir hafa yfirgefið holdið fyrir fullt og allt og blóðskuldina sem fylgdi því. Æðsti presturinn hefur dáið gagnvart þeim sem friðþægjari og verndari.
14. Hvað annað veldur því að þeir sem hafa himneska von verða að halda sig í „griðaborginni“?
14 Það eitt, að þeir sem verða „samarfar Krists“ eru menn, útheimtir að þeir haldi sig í „griðaborginni“ uns þeir ljúka jarðneskri tilveru sinni trúfastir til dauða. Þegar þeir deyja fórna þeir mannlegu eðli endanlega. (Rómverjabréfið 8:17; Opinberunarbókin 2: 10) Fórn Jesú nær aðeins til þeirra sem hafa mannlegt eðli. Þess vegna deyr æðsti presturinn gagnvart andlegum Ísraelsmönnum þegar þeir eru reistir upp sem andaverur til að búa eilíflega á himnum og „verða hluttakendur í guðlegu eðli.“ — 2. Pétursbréf 1:4.
15. Hverjir eru „dvalarmenn“ og ‚hjábýlingar‘ nútímans og hvað mun æðsti presturinn gera fyrir þá?
15 Hvenær „deyr“ æðsti presturinn gagnvart ‚dvalarmönnum‘ og ‚hjábýlingum‘ nútímans þannig að þeir geti yfirgefið „griðaborgina“? Þeir sem tilheyra múginum mikla geta ekki gengið út úr þessari griðaborg strax eftir þrenginguna miklu. Hvers vegna ekki? Vegna þess að þeir verða enn í ófullkomnu, syndugu holdi og þarfnast verndar æðsta prestsins áfram. Þeir öðlast mannlegan fullkomleika með því að notfæra sér friðþægingarþjónustu hans meðan þúsund ára konung- og prestdómur hans stendur yfir. Jesús leiðir þá síðan fram fyrir Guð til lokaprófunar þar sem ráðvendni þeirra verður reynd endanlega með því að sleppa Satan og illum öndum hans lausum um stuttan tíma. Þeir standast þessa prófraun eins og Guð ætlast til, svo að hann lýsir þá réttláta. Þannig ná þeir fyllingu mannlegs fullkomleika. — 1. Korintubréf 15:28; Opinberunarbókin 20:7-10.a
16. Hvenær þarfnast þeir sem koma lifandi úr þrengingunni miklu ekki lengur friðþægingarþjónustu æðsta prestsins?
16 Þeir sem koma lifandi úr þrengingunni miklu þurfa því að varðveita góða samvisku með því að halda kyrru fyrir í „griðaborginni“ uns þúsundáraríki Krists er á enda. Þá verða þeir orðnir fullkomnir menn og þarfnast ekki lengur friðþægingarþjónustu æðsta prestsins þannig að þeir ganga undan verndarhendi hans. Jesús deyr þá gagnvart þeim sem æðsti prestur því að hann þarf ekki lengur að beita hreinsandi fórnarblóði sínu í þeirra þágu. Þá yfirgefa þeir „griðaborgina.“
17. Af hverju þurfa þeir sem reistir eru upp í þúsundáraríki Krists ekki að fara inn í „griðaborgina“ og halda þar kyrru fyrir?
17 Þurfa þeir sem reistir eru upp í þúsundáraríki Jesú að ganga inn í „griðaborgina“ og dvelja þar uns æðsti presturinn deyr? Nei, því að þeir guldu fyrir syndsemi sína með dauða sínum. (Rómverjabréfið 6:7; Hebreabréfið 9:27) Engu að síður hjálpar æðsti presturinn þeim að öðlast fullkomleika. Ef þeir standast lokaprófið eftir þúsundáraríkið lýsir Guð þá líka réttláta og ábyrgist eilíft líf á jörðinni þeim til handa. Hver sá maður, sem fylgir ekki kröfum Guðs, reynist ekki ráðvandur og stenst ekki lokaprófið, kallar að sjálfsögðu yfir sig sakfellingardóm og eyðingu.
18. Hvað mun fylgja mannkyninu að eilífu sem tengist konung- og prestdómi Jesú?
18 Æðstu prestar Ísraels dóu um síðir. En Jesús er orðinn „æðsti prestur að eilífu að hætti Melkísedeks.“ (Hebreabréfið 6:19, 20; 7:3) Jesús deyr því ekki þegar hann hættir að embætta sem æðsti prestur og sáttarmaður í þágu mannkyns. Hin góðu áhrif konungs- og æðstaprestsþjónustu hans fylgja mannkyninu að eilífu og menn munu ævinlega standa í þakkarskuld við hann fyrir þessa þjónustu. Jesús mun enn fremur taka forystuna í hreinni tilbeiðslu Jehóva um alla eilífð. — Filippíbréfið 2:5-11.
Dýrmætur lærdómur fyrir okkur
19. Hvaða lærdóm um hatur og kærleika getum við dregið af griðaborgafyrirkomulaginu?
19 Við getum dregið ýmsan lærdóm af griðaborgafyrirkomulaginu. Til dæmis fékk manndrápari, sem bar morðhug til fórnarlambs síns, ekki að dvelja í griðaborg. (4. Mósebók 35:20, 21) Hvernig gæti þá nokkur sá, sem dvelur í griðaborg nútímans, leyft sér að fá hatur á bróður sínum? „Hver sem hatar bróður sinn er manndrápari,“ skrifaði Jóhannes postuli, „og þér vitið, að enginn manndrápari hefur eilíft líf í sér.“ Þess vegna skulum við ‚elska hver annan, því að kærleikurinn er frá Guði kominn.‘ — 1. Jóhannesarbréf 3:15; 4:7.
20. Hvað verða þeir sem eru í griðaborg nútímans að gera til að hljóta vernd fyrir hefnandanum?
20 Til að njóta verndar fyrir hefndarmanninum varð óviljamanndrápari að dvelja í griðaborginni og mátti ekki reika út fyrir beitiland hennar. Hvað um þá sem eru í griðaborg nútímans? Þeir mega ekki yfirgefa borgina ef þeir vilja vera óhultir fyrir blóðhefnandanum mikla. Þeir verða að gæta sín að láta ekki tælast til að fara út fyrir beitilandsmörkin ef svo má að orði komast. Þeir þurfa að gæta þess vel að þeir fari ekki í hjörtum sér að elska heim Satans. Það getur kostað bænir og erfiði en líf þeirra er undir því komið. — 1. Jóhannesarbréf 2:15-17; 5:19.
21. Hvaða gefandi starf vinna þeir sem eru í griðaborg nútímans?
21 Óviljamanndráparar í griðaborgum fortíðar urðu að vinna nytsamleg störf. Á sama hátt hafa smurðir „Ísraelsmenn“ gefið gott fordæmi sem uppskerumenn og boðberar Guðsríkis. (Matteus 9:37, 38; Markús 13:10) Kristnir menn með jarðneska von eru eins og „dvalarmenn“ og ‚hjábýlingar‘ í griðaborg nútímans og hafa þau sérréttindi að vinna þetta björgunarstarf ásamt hinum smurðu sem enn eru á jörðinni. Og þetta er gefandi starf! Þeir sem starfa trúfastir í griðaborg nútímans umflýja eilífan dauða af hendi hefnandans og hafa eilíft gagn af þjónustu þessa mikla æðsta prests Guðs. Ætlar þú að dvelja í griðaborginni og lifa eilíflega?
[Neðanmáls]
Hvert er svar þitt?
◻ Hvers vegna má segja að milljarðarnir á jörðinni séu blóðsekir?
◻ Hvaða hlutverkum gegnir Jesús Kristur gagnvart mannkyninu?
◻ Hver er griðaborg nútímans og hvernig kemst maður inn í hana?
◻ Hvenær losnar fólk úr „griðaborginni“?
◻ Hvaða dýrmætan lærdóm getum við dregið af griðaborgafyrirkomulaginu?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Veistu hvaða mikilvægum hlutverkum Jesús Kristur gegnir?