Að lifa „daglega“ eftir vígsluheiti okkar
„Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér.“ — LÚKAS 9:23.
1. Nefndu eina leið til að mæla velgengni okkar sem kristinna manna.
„HELGUÐUM við okkur starfinu af öllu hjarta?“ spurði John F. Kennedy, 35. forseti Bandaríkjanna. Hann taldi svarið við spurningunni ráða nokkru um velgengni manna í opinberu starfi. Þessi spurning gæti einnig verið prófsteinn á velgengni okkar sem vígðra kristinna manna og hefur þá mun meiri þýðingu.
2. Hvernig eru orðin „að helga“ og „að vígja“ skilgreind?
2 En hvað er helgun eða vígsla? Orðin tvö eru að nokkru leyti sömu merkingar. Talað er um að helga í merkingunni „lýsa heilagt, vígja“ og einnig að „tileinka, beita í þágu.“ Sögnin að vígja er skilgreind sem „helga, lýsa helgi yfir.“ (Orðabók Menningarsjóðs) Í kristnu samhengi merkir vígsla fórnfús hollusta, að helga sig algerlega þjónustu eða dýrkun Guðs.
3. Hvað er kristin vígsla?
3 Jesús Kristur sagði lærisveinum sínum: „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér.“ (Matteus 16:24) Að vera helgaður Guði felur meira í sér en að sækja messur á sunnudögum eða gera sér ferð á einhvern tilbeiðslustað. Það felur í sér allan lífsbreytni manns. Að vera kristinn merkir að afneita sjálfum sér meðan maður þjónar Jehóva, Guði Jesú Krists. Auk þess tekur kristinn maður „kross“ sinn eða kvalastaur með því að þola hverjar þær þjáningar sem geta verið samfara því að vera fylgjandi Krists.
Hið fullkomna fordæmi
4. Hvað táknaði skírn Jesú?
4 Þegar Jesús var á jörðinni sýndi hann hvað það felur í sér að vígjast Jehóva. Hann sagði: „Fórn og gjafir hefur þú eigi viljað, en líkama hefur þú búið mér.“ Síðan bætti hann við: „Sjá, ég er kominn — í bókinni er það ritað um mig — ég er kominn til að gjöra þinn vilja, Guð minn!“ (Hebreabréfið 10:5-7) Jesús tilheyrði vígðri þjóð og var því vígður Jehóva frá fæðingu. Engu að síður lét hann skírast við upphaf jarðneskrar þjónustu sinnar til tákns um að hann bauð sig fram til að gera vilja Jehóva sem fól meðal annars í sér að hann yrði að leggja lífið í sölurnar sem lausnarfórn. Þannig gaf hann kristnum mönnum fordæmi um að gera hvaðeina sem Jehóva vill.
5. Hvernig gaf Jesús gott fordæmi um viðhorf til efnislegra hluta?
5 Eftir skírn sína fetaði Jesús lífsbraut sem endaði í fórnardauða. Hann hafði ekki áhuga á að afla sér fjár eða lifa þægilegu lífi. Þjónustan var þungamiðjan í lífi hans. Hann hvatti lærisveina sína til að halda áfram að ‚leita fyrst ríkis Guðs og réttlætis‘ og sjálfur lifði hann samkvæmt því. (Matteus 6:33) Hann sagði meira að segja einu sinni: „Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.“ (Matteus 8:20) Hann hefði getað sniðið kenningar sínar að því að kreista peninga út úr fylgjendum sínum. Hann var smiður og hefði getað tekið sér frí frá þjónustunni til að smíða falleg húsgögn og selt til að hafa nokkra silfurpeninga aukreitis. En hann notaði ekki kunnáttu sína til að efnast á henni. Erum við að líkja eftir Jesú sem vígðir þjónar Guðs með því að hafa rétt viðhorf til efnislegra hluta? — Matteus 6:24-34.
6. Hvernig getum við líkt eftir Jesú í því að vera fórnfúsir, vígðir þjónar Guðs?
6 Með því að láta þjónustu sína við Guð ganga fyrir var Jesús ekki að hugsa um eigin hag. Þau þrjú og hálft ár, sem þjónusta hans stóð yfir, einkenndist líf hans af fórnfýsi. Einhverju sinni eftir annasaman dag, og án þess að hafa einu sinni gefið sér tíma til að matast, var Jesús fús til að kenna fólki sem var ‚hrjáð og umkomulaust eins og sauðir er engan hirði hafa.‘ (Matteus 9:36; Markús 6:31-34) Þótt „vegmóður“ væri átti Jesús frumkvæðið að því að tala við samverska konu við Jakobsbrunn í Síkar. (Jóhannes 4:6, 7, 13-15) Hann tók velferð annarra alltaf fram yfir sína eigin. (Jóhannes 11:5-15) Við getum líkt eftir Jesú með því að fórna fúslega okkar eigin hagsmunum til að þjóna Guði og öðrum. (Jóhannes 6:38) Með því að taka mið af því hvernig við getum í sannleika þóknast Guði, í stað þess að gera bara eins lítið og við komumst upp með, erum við að lifa í samræmi við vígsluheit okkar.
7. Hvernig getum við líkt eftir Jesú í því að gefa Jehóva alltaf heiðurinn?
7 Jesús var alls ekki að hjálpa fólki í þeim tilgangi að beina athyglinni að sjálfum sér. Hann var vígður Guði til að gera vilja hans. Hann fullvissaði sig því alltaf um að Jehóva, faðir hans, fengi allan heiður af hverju því sem hann afrekaði. Þegar höfðingi nokkur ávarpaði hann: „Góði meistari,“ og notaði orðið ‚góður‘ sem titil, leiðrétti Jesús hann með orðunum: „Enginn er góður nema Guð einn.“ (Lúkas 18:18, 19; Jóhannes 5:19, 30) Erum við, eins og Jesús, skjót til að beina athyglinni frá sjálfum okkur og gefa Jehóva heiðurinn?
8. (a) Hvernig aðgreindi Jesús sig frá heiminum sem vígður maður? (b) Hvernig ættum við að líkja eftir honum?
8 Alla ævi sína sem vígður þjónn Guðs hér á jörð sýndi Jesús að hann hafði helgað sig þjónustu við Guð. Hann varðveitti sig hreinan til að hann gæti fórnfært sjálfum sér sem ‚lýtalausu og óflekkuðu lambi.‘ (1. Pétursbréf 1:19; Hebreabréfið 7:26) Hann hélt öll ákvæði Móselaganna og uppfyllti þannig lögmálið. (Matteus 5:17; 2. Korintubréf 1:20) Hann lifði eftir eigin siðferðiskenningum. (Matteus 5:27, 28) Enginn gat réttilega sakað hann um rangar áhugahvatir. Hann ‚hataði ranglæti.‘ (Hebreabréfið 1:9) Sem þrælar Guðs skulum við líkja eftir Jesú með því að halda líferni okkar og áhugahvötum hreinum í augum Jehóva.
Fordæmi til viðvörunar
9. Hvaða fordæmi til viðvörunar benti Páll á og af hverju ættum við að íhuga það?
9 Ólíkt Jesú gáfu Ísraelsmenn okkur fordæmi til viðvörunar. Jafnvel eftir að þeir höfðu lýst yfir að þeir myndu fylgja fyrirmælum Jehóva í einu og öllu gerðu þeir ekki vilja hans. (Daníel 9:11) Páll postuli hvatti kristna menn til að læra af því sem henti Ísraelsmenn. Við skulum líta nánar á nokkur atvik sem Páll minntist á í fyrra bréfi sínu til Korintumanna og sjá hvaða tálgryfjur vígðir þjónar Guðs á okkar tímum þurfa að varast. — 1. Korintubréf 10:1-6, 11.
10. (a) Hvernig urðu Ísraelsmenn „sólgnir í það, sem illt er“? (b) Af hverju þurftu Ísraelsmenn að svara til saka í seinna skiptið sem þeir mögluðu út af mat og hvað getum við lært af þessu viðvörunardæmi?
10 Í fyrsta lagi varaði Páll okkur við því að verða „sólgnir í það, sem illt er.“ (1. Korintubréf 10:6) Það minnir okkur kannski á það er Ísraelsmenn kvörtuðu yfir því að hafa ekkert annað en manna að borða. Jehóva sendi þeim lynghænsn. Svipað atvik hafði átt sér stað um ári áður í Síneyðimörk, rétt áður en Ísraelsmenn lýstu yfir að þeir væru vígðir Jehóva. (2. Mósebók 16:1-3, 12, 13) Þó var munur á. Þegar Jehóva sendi lynghænsn í fyrra sinnið lét hann Ísraelsmenn ekki svara fyrir möglið. En núna var staðan önnur. „Meðan kjötið var enn milli tanna þeirra, áður en það var upp unnið, upptendraðist reiði [Jehóva] gegn fólkinu, og [Jehóva] lét þar verða mjög mikinn mannfelli meðal fólksins.“ (4. Mósebók 11:4-6, 31-34) Hvað hafði breyst? Núna var þjóðin vígð og var sem slík krafin reikningsskapar. Þjóðin kunni ekki að meta ráðstafanir Jehóva þannig að hún möglaði gegn honum, þó svo að hún hefði heitið að gera allt sem hann hafði talað! Eins er það ef við möglum út af borði Jehóva nú á dögum. Sumir kunna ekki að meta andlegar ráðstafanir Jehóva fyrir milligöngu hins ‚trúa og hyggna þjóns.‘ (Matteus 24:45-47) En munum að vígsla okkar útheimtir að við höfum þakklát í huga það sem Jehóva hefur gert fyrir okkur og tökum við andlegu fæðunni sem hann sér okkur fyrir.
11. (a) Hvernig saurguðu Ísraelsmenn tilbeiðslu sína á Jehóva með skurðgoðadýrkun? (b) Hvernig gæti eins konar skurðgoðadýrkun haft áhrif á okkur?
11 Því næst segir Páll í viðvörunarskyni: „Verðið ekki skurðgoðadýrkendur, eins og nokkrir þeirra.“ (1. Korintubréf 10:7) Að því er best verður séð var postulinn þarna að vísa til kálfadýrkunarinnar sem átti sér stað rétt eftir að Ísraelsmenn höfðu gert sáttmálann við Jehóva við Sínaífjall. Þú segir kannski: ‚Sem vígður þjónn Jehóva myndi ég aldrei gerast sekur um skurðgoðadýrkun.‘ En taktu eftir að frá bæjardyrum Ísraelsmanna séð voru þeir ekkert hættir að tilbiðja Jehóva. Samt tóku þeir upp kálfadýrkun sem var viðurstyggileg í augum Guðs. Hvað fólst í þessari tilbeiðslu? Fólkið færði fórnir frammi fyrir kálfinum og ‚settist síðan niður til að eta og drekka, og því næst stóð það upp til leika‘ eða til að skemmta sér. (2. Mósebók 32:4-6) Sumir nú á tímum segjast kannski tilbiðja Jehóva. En líf þeirra snýst ef til vill ekki um tilbeiðslu á Jehóva heldur að njóta þess sem heimurinn býður upp á, og þeir reyna að sníða þjónustuna við Jehóva að því. Það er að vísu ekki jafn gróft og að falla fram fyrir gullkálfi, en það er samt ekki ýkja ólíkt í reynd. Að gera sínar eigin langanir að guði er býsna fjarri því að lifa í samræmi við vígsluheit sitt við Jehóva. — Filippíbréfið 3:19.
12. Hvað lærum við um það að afneita sjálfum okkur af frásögunni af dýrkun Ísraelsmanna á Baal Peór?
12 Í næsta varnaðardæmi, sem Páll nefndi, var líka minnst á eins konar skemmtun. „Drýgjum ekki heldur hórdóm, eins og nokkrir þeirra drýgðu hórdóm, og tuttugu og þrjár þúsundir féllu á einum degi.“ (1. Korintubréf 10:8) Ísraelsmenn létu siðlausa skemmtun, sem Móabsdætur buðu þeim, leiða sig út í tilbeiðslu á Baal Peór í Sittím. (4. Mósebók 25:1-3, 9) Að afneita sjálfum okkur til að gera vilja Jehóva felur í sér að viðurkenna staðla hans um siðferðilega rétta breytni. (Matteus 5:27-30) Nú á tímum hnignandi siðferðis erum við minnt á nauðsyn þess að halda okkur hreinum af alls kyns siðlausri hegðun, og beygja okkur undir vald Jehóva til að ákveða hvað sé gott og hvað sé illt. — 1. Korintubréf 6:9-11.
13. Hvernig hjálpar fordæmi Pínehasar okkur að skilja hvað vígsla til Jehóva felur í sér?
13 Þótt margir féllu í þá gildru að drýgja hór í Sittím lifðu sumir eftir vígsluheiti þjóðarinnar við Jehóva. Þeirra á meðal var Pínehas sem sýndi afburðakostgæfni. Er hann kom auga á ísraelskan höfðingja leiða midíanska konu í tjald sitt tók hann sér þegar í stað spjót í hönd og lagði þau í gegn. Jehóva sagði Móse: „Pínehas . . . hefir bægt reiði minni frá Ísraelsmönnum með því að vandlæta [„umbera alls enga samkeppni við mig,“ NW] meðal þeirra með mínu vandlæti. Hefi ég því eigi gjöreytt Ísraelsmönnum í vandlæti mínu.“ (4. Mósebók 25:11) Vígsla felur í sér að umbera alls enga samkeppni við Jehóva. Við megum ekki leyfa neinu að komast í það sæti sem vígslan við Jehóva ætti að skipa í hjörtum okkar. Kostgæfni gagnvart Jehóva fær okkur líka til að halda söfnuðinum hreinum með því að umbera ekki gróft siðleysi heldur skýra öldungunum frá því.
14. (a) Hvernig freistuðu Ísraelsmenn Jehóva? (b) Hvernig hjálpar fullkomin vígsla til Jehóva okkur að ‚þreytast ekki‘?
14 Páll nefndi annað dæmi til viðvörunar: „Freistum ekki heldur [Jehóva], eins og nokkrir þeirra freistuðu hans, þeir biðu bana af höggormum.“ (1. Korintubréf 10:9) Páll var hér að tala um það er Ísraelsmenn mögluðu gegn Guði við Móse og „féllst hugur á leiðinni.“ (4. Mósebók 21:4) Hefur þér orðið það á? Hélst þú að Harmagedón væri alveg á næsta leiti þegar þú vígðir þig Jehóva? Hefur þolinmæði hans enst lengur en þú bjóst við? Mundu að við vígðumst Jehóva ekki aðeins ákveðið tímabil eða bara fram að Harmagedón. Vígsla okkar er eilíf. Við skulum því ‚ekki þreytast að gjöra það sem gott er, því að á sínum tíma munum vér uppskera, ef vér gefumst ekki upp.‘ — Galatabréfið 6:9.
15. (a) Gegn hverjum mögluðu Ísraelsmenn? (b) Hvernig kemur vígsla til Jehóva okkur til að virða guðræðisleg yfirráð?
15 Loks varaði Páll við því að ‚mögla‘ gegn útnefndum þjónum Jehóva. (1. Korintubréf 10:10) Ísraelsmenn mögluðu harðlega gegn Móse og Aroni þegar 10 njósnarar af þeim 12, sem sendir voru til að kanna Kanaanland, gáfu neikvæða skýrslu. Þeir höfðu jafnvel á orði að velja sér annan leiðtoga í stað Móse og snúa aftur til Egyptalands. (4. Mósebók 14:1-4) Viðurkennum við þá forystu sem okkur er veitt fyrir atbeina heilags anda Jehóva nú á dögum? Sé litið á hið ríkulega búna andlega borð trúa og hyggna þjónshópsins er ljóst hverja Jesús notar til að útbýta „mat á réttum tíma.“ (Matteus 24:45) Til að vera vígðir Jehóva af allri sálu þurfum við að sýna útnefndum þjónum hans virðingu. Megum við aldrei verða eins og sumir möglarar nútímans sem hafa, ef svo má segja, valið sér nýjan leiðtoga til að leiða sig aftur út í heiminn.
Geri ég mitt ítrasta?
16. Hvaða spurninga geta vígðir þjónar Guðs spurt sig?
16 Ísraelsmenn hefðu ekki stigið svona alvarleg víxlspor ef þeir hefðu munað að þeir höfðu vígst Jehóva skilyrðislaust. Ólíkt hinum trúlausu Ísraelsmönnum lifði Jesús Kristur í samræmi við vígslu sína allt til enda. Sem fylgjendur Krists líkjum við eftir því fordæmi hans að vera vígður Guði af allri sálu, og við lifum lífinu „ekki framar í mannlegum fýsnum, heldur . . . að vilja Guðs.“ (1. Pétursbréf 4:2; samanber 2. Korintubréf 5:15.) Það er vilji Jehóva nú á tímum að „alls konar menn bjargist og komist til nákvæmrar þekkingar á sannleikanum.“ (1. Tímóteusarbréf 2:4, NW) Í þeim tilgangi prédikum við „þetta fagnaðarerindi um ríkið“ áður en endirinn kemur. (Matteus 24:14) Hve mikið leggjum við á okkur í því starfi? Við gætum spurt okkur: ‚Geri ég mitt ítrasta?‘ (2. Tímóteusarbréf 2:15) Aðstæður manna eru ólíkar. Jehóva er ánægður með að maður þjóni honum ‚með það, sem hann á til, og fer ekki fram á það sem hann á ekki til.‘ (2. Korintubréf 8:12; Lúkas 21:1-4) Enginn ætti að dæma aðra með því að véfengja að þeir séu vígðir Guði af öllu hjarta. Hver og einn ætti að meta fyrir sig hve djúpt hollusta hans við Jehóva ristir. (Galatabréfið 6:4) Kærleikur okkar til Jehóva ætti að koma okkur til að spyrja: ‚Hvernig get ég glatt Jehóva?‘
17. Hvaða samband er milli hollustu og þess að meta Jehóva að verðleikum? Lýstu með dæmi.
17 Hollusta okkar við Jehóva dýpkar því meir sem við metum hann. Fjórtán ára drengur í Japan vígðist Jehóva og lét skírast niðurdýfingarskírn til tákns um það. Síðar langaði hann til að leggja stund á æðri menntun og verða vísindamaður. Þjónusta í fullu starfi hvarflaði aldrei að honum, en sem vígður þjónn Jehóva vildi hann ekki yfirgefa hann og sýnilegt skipulag hans. Hann hóf háskólanám til að vinna að markmiði sínu. Þar sá hann hvernig þeir sem luku burtfararprófi neyddust til að helga allt líf sitt einhverju fyrirtæki eða framhaldsnámi. Hann fór að velta fyrir sér hvaða erindi hann ætti eiginlega þangað. Gæti hann í sannleika sagt sóst eftir lífsstíl þeirra og helgað sig veraldlegri vinnu? Var hann ekki nú þegar vígður Jehóva? Hann lærði að meta sannleikann betur og gerðist reglulegur brautryðjandi. Hann fékk dýpri skilning á vígsluheiti sínu sem kom honum til að ákveða í hjarta sínu að bjóða sig fram til þjónustu hvar sem hans væri þörf. Hann sótti Þjónustuþjálfunarskólann og fékk það verkefni að þjóna sem trúboði erlendis.
18. (a) Hve mikið felur vígsla okkar til Jehóva í sér? (b) Hvaða laun getur vígsla okkar til Jehóva haft í för með sér?
18 Vígsla felur í sér allt lífið. Við verðum að afneita sjálfum okkur og fylgja hinu góða fordæmi Jesú „daglega.“ (Lúkas 9:23) Þar sem við höfum afneitað sjálfum okkur biðjum við Jehóva ekki um orlof eða leyfi frá störfum. Líf okkar samræmist þeim meginreglum sem hann setur þjónum sínum. Jafnvel í málum þar sem við höfum valfrelsi er gott að spyrja sig hvort við séum að gera okkar besta til að lifa sem vígðir þjónar Jehóva. Þegar við þjónum honum daglega og gerum okkar ítrasta til að þóknast honum, þá farnast okkur vel sem kristnum mönnum og við njótum velþóknunar Jehóva, hans sem einn er þess verðugur að við helgum okkur honum af allri sálu.
Geturðu útskýrt?
◻ Hvað fól vígsla í sér fyrir Jesú Krist?
◻ Af hverju ættum við að forðast að mögla gegn Jehóva?
◻ Á hvaða vegu getum við forðast að láta skurðgoðadýrkun lauma sér inn í líf okkar?
◻ Hvað hjálpar okkur að ‚þreytast ekki‘ að gera vilja Guðs?
[Mynd á blaðsíðu 29]
Vígðir kristnir menn ‚þreytast ekki að gera það sem gott er.‘