NÁMSGREIN 24
„Gef mér heilt hjarta, til þess að óttast nafn þitt“
„Gef mér heilt hjarta, til þess að óttast nafn þitt. Eg vil lofa þig, Drottinn, Guð minn, af öllu hjarta.“ – SÁLM. 86:11, 12, Biblían 1912.
SÖNGUR 7 Jehóva er styrkur okkar
YFIRLITa
1. Hvað er guðsótti og af hverju er hann nauðsynlegur þeim sem elska Jehóva?
ÞJÓNAR Guðs elska hann og þeir óttast hann líka. Fljótt á litið gæti það virst vera mótsögn. En við erum ekki að tala um ótta af því tagi sem kalla mætti skelfingu. Við ætlum að ræða um annars konar ótta. Þeir sem bera þess konar ótta í brjósti bera lotningu og einlæga virðingu fyrir Guði. Þeir vilja ekki gera himneskum föður sínum neitt á móti skapi af því að þeir vilja ekki spilla vináttusambandi sínu við hann. – Sálm. 111:10; Orðskv. 8:13.
2. Hvað tvennt ætlum við að ræða sem Davíð konungur nefndi í Sálmi 86:11?
2 Lestu Sálm 86:11.b Þegar þú lest þessi orð sérðu greinilega að Davíð konungur skildi hve mikilvægt er að óttast Guð. Við skulum kanna hvernig við getum farið eftir innblásnum orðum hans. Könnum fyrst nokkrar ástæður fyrir því að bera lotningu fyrir nafni Guðs. Síðan ræðum við hvernig hægt sé að sýna dagsdaglega að við berum lotningu fyrir nafni Guðs.
HVERS VEGNA VEKUR NAFN JEHÓVA LOTNINGU?
3. Hvaða lífsreynsla hefur líklega hjálpað Móse að bera lotningu fyrir nafni Guðs?
3 Reyndu að gera þér í hugarlund hvernig Móse hefur verið innanbrjósts þar sem hann stóð í klettaskoru og sá í sýn hvernig dýrð Jehóva fór fram hjá. Í bókinni Insight on the Scriptures segir: „Sennilega hafði enginn maður upplifað nokkuð jafn mikilfenglegt áður en Jesús Kristur kom.“ Það var eflaust engill sem Móse heyrði segja: „Jehóva, Jehóva, miskunnsamur og samúðarfullur Guð sem er seinn til reiði, sýnir tryggan kærleika í ríkum mæli og er alltaf sannorður. Hann sýnir þúsundum tryggan kærleika og fyrirgefur misgerðir, afbrot og syndir.“ (2. Mós. 33:17–23; 34:5–7, NW) Vera má að þessi lífsreynsla hafi rifjast upp fyrir Móse þegar hann notaði nafnið Jehóva. Það er engin furða að hann skyldi hvetja Ísraelsmenn síðar til að ,bera lotningu fyrir hinu dýrlega og ógnvekjandi nafni‘. – 5. Mós. 28:58.
4. Hvað getur fyllt okkur lotningu fyrir Jehóva?
4 Þegar við hugsum um nafnið Jehóva er gott að íhuga hvers konar persóna er að baki nafninu. Við ættum að hugsa um eiginleika hans eins og mátt, visku, réttlæti og kærleika. Við fyllumst lotningu fyrir honum þegar við gerum það. – Sálm. 77:12–16.
5, 6. (a) Hvað merkir nafn Guðs? (b) Hvernig hrindir Jehóva vilja sínum í framkvæmd, samanber 2. Mósebók 3:13, 14 og Jesaja 64:7?
5 Hvað vitum við um merkingu nafnsins Jehóva? Margir fræðimenn telja að það merki ,hann lætur verða‘. Þessi merking minnir okkur á að ekkert getur komið í veg fyrir að Jehóva geri það sem hann ætlar sér. Hann getur látið vilja sinn ná fram að ganga. Hvernig þá?
6 Jehóva hrindir vilja sínum í framkvæmd með því að verða hvaðeina sem til þarf. (Lestu 2. Mósebók 3:13, 14.)c Við höfum oft verið hvött til að hugleiða þennan mikilfenglega þátt í persónuleika Jehóva. Hann getur líka látið ófullkomna þjóna sína á jörð verða það sem þarf til að þjóna honum og koma vilja hans til leiðar. (Lestu Jesaja 64:7.) Jehóva lætur fyrirætlun sína ná fram að ganga með þessum hætti. Ekkert getur komið í veg fyrir að hann láti vilja sinn verða. – Jes. 46:10, 11.
7. Hvernig getum við fengið enn meiri mætur á himneskum föður okkar?
7 Við getum fengið enn meiri mætur á himneskum föður okkar með því að hugleiða það sem hann hefur afrekað og það sem hann hefur gert okkur fær um að gera. Við fyllumst lotningu þegar við virðum fyrir okkur undur sköpunarverksins, allt það sem Jehóva hefur skapað og búið til. (Sálm. 8:4, 5) Og við fyllumst djúpri virðingu fyrir Jehóva þegar við ígrundum það sem hann hefur gert okkur fær um til að vilji hans nái fram að ganga. Nafnið Jehóva er magnþrungið! Það felur í sér allt sem faðir okkar er, allt sem hann hefur gert og allt sem hann ætlar að gera. – Sálm. 89:8, 9.
KUNNGERUM NAFN JEHÓVA
8. Hvernig vill Jehóva að þjónar hans hugsi um nafn hans, samanber 5. Mósebók 32:2, 3?
8 Jehóva kenndi Móse ljóð rétt áður en Ísraelsmenn gengu inn í fyrirheitna landið. (5. Mós. 31:19) Móse átti síðan að kenna fólkinu ljóðið. (Lestu 5. Mósebók 32:2, 3.) Þessi tvö biblíuvers bera greinilega með sér að Jehóva vill ekki að nafn sitt sé falið og meðhöndlað eins og það sé of heilagt til að segja það upphátt. Hann vill að allar skynsemigæddar sköpunarverur sínar þekki nafnið. Hugsaðu þér hvernig fólkinu hefur verið innanbrjósts að heyra Móse fræða það um Jehóva og dýrlegt nafn hans. Það sem hann kenndi þjóðinni var hressandi og endurnærandi eins og mild og hlý gróðrarskúr. Hvernig getum við kennt fólki á sambærilegan hátt?
9. Hvernig getum við átt þátt í að helga nafn Jehóva?
9 Þegar við boðum fagnaðarboðskapinn hús úr húsi eða á fjölförnum stöðum getum við notað Biblíuna til að sýna fólki að Guð heitir Jehóva. Við getum boðið því falleg rit, sýnt fræðandi myndskeið og bent á efni á vefnum okkar sem dregur upp sanna mynd af Jehóva. Okkur bjóðast oft tækifæri í vinnunni, skólanum eða á ferðalögum til að tala um Guð okkar og aðlaðandi eiginleika hans. Þegar við segjum þeim sem við hittum frá fyrirætlun Jehóva með mannkynið og jörðina gefum við þeim mynd af Jehóva sem þeir hafa kannski aldrei fengið áður. Við eigum þátt í að helga nafn Jehóva þegar við segjum frá sannleikanum um hann. Þá hrekjum við sumar af lygunum og róginum sem fólk kann að hafa heyrt um ástríkan föður okkar. Ekkert er jafn hressandi og endurnærandi fyrir fólk og sannleikur Biblíunnar sem við kennum. – Jes. 65:13, 14.
10. Af hverju er ekki nóg að fræða biblíunemendur okkar um réttlát lög Guðs og meginreglur?
10 Þegar við höldum biblíunámskeið viljum við að nemendur okkar læri nafn Jehóva og noti það. Auk þess viljum við að þeir skilji hvað nafnið stendur fyrir. Tekst okkur það ef við kennum bara fyrirmæli Guðs, lög og lífsreglur? Góður nemandi á líklega auðvelt með að læra lög Guðs og hrífst jafnvel af þeim. En ætli hann læri að elska Jehóva og hlýða honum? Eva þekkti lög Guðs en hún elskaði ekki löggjafann í raun og veru og Adam gerði það ekki heldur. (1. Mós. 3:1–6) Það er því ekki nóg að fræða nemendur okkar bara um réttlát lög Jehóva og meginreglur.
11. Hvernig geta nemendur okkar lært að elska löggjafann þegar við fræðum þá um lög Guðs og meginreglur?
11 Lög og fyrirmæli Jehóva gleðja og eru okkur til góðs. (Sálm. 119:97, 111, 112) En það er ekki víst að nemendum okkar finnist það nema þeir komi auga á kærleika Jehóva sem býr að baki lögunum. Við gætum því spurt nemendur okkar: Af hverju heldurðu að Guð biðji þjóna sína að gera þetta eða gera það ekki? Hvað segir það okkur um hann sem persónu? Ef við hjálpum nemendum okkar að hugsa um Jehóva og kennum þeim að elska dýrlegt nafn hans er líklegra að við snertum hjarta þeirra. Þá læra nemendurnir ekki aðeins að elska lögin heldur líka löggjafann. (Sálm. 119:68) Þá styrkist trú þeirra og þeir geta staðist eldraunir sem bíða þeirra. – 1. Kor. 3:12–15.
LIFUM Í NAFNI JEHÓVA
12. Hvernig mistókst Davíð einu sinni að halda hjarta sínu heilu og með hvaða afleiðingum?
12 Davíð konungi var innblásið að skrifa: „Gef mér heilt hjarta.“ (Sálm. 86:11) Þetta eru mikilvæg orð. Hann vissi af eigin raun hve auðveldlega hjartað getur orðið tvískipt. Einu sinni var hann uppi á hallarþakinu og sá þá konu annars manns vera að baða sig. Var hjarta Davíðs heilt á því augnabliki eða var það tvískipt? Hann þekkti lagaákvæði Jehóva: „Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns.“ (2. Mós. 20:17) En það er greinilegt að hann hélt áfram að horfa. Hjarta hans varð tvískipt. Hann langaði í konuna, sem hét Batseba, en hann langaði líka til að þóknast Jehóva. Davíð hafði elskað og óttast Jehóva lengi vel en nú náði eigingirnin yfirhöndinni með þeim afleiðingum að hann braut alvarlega af sér. Hann kastaði rýrð á nafn Jehóva en kallaði líka skelfilega ógæfu yfir saklaust fólk, þar á meðal sína eigin fjölskyldu. – 2. Sam. 11:1–5, 14–17; 12:7–12.
13. Hvernig vitum við að hjarta Davíðs varð aftur heilt?
13 Jehóva agaði Davíð og hann endurheimti gott samband við hann. (2. Sam. 12:13; Sálm. 51:4–6, 19) Davíð gleymdi ekki þeim erfiðleikum og ógæfu sem hlaust af því að hjarta hans varð tvískipt. Það má einnig þýða orð hans í Sálmi 86:11: „Gefðu mér óskipt hjarta.“ Hjálpaði Jehóva Davíð að gera hjarta sitt heilt og óskipt að nýju? Já, í Biblíunni er síðar talað um að ,hjarta hans hafi verið óskipt gagnvart Drottni, Guði hans‘. – 1. Kon. 11:4; 15:3, Biblían 1981.
14. Hvaða spurningar þurfum við að spyrja okkur og hvers vegna?
14 Það sem gerðist hjá Davíð er bæði uppörvandi og til viðvörunar. Að hann skyldi drýgja alvarlega synd er þjónum Guðs nú á dögum víti til varnaðar. Hvort sem við erum nýlega byrjuð að þjóna Jehóva eða höfum gert það árum saman er gott að spyrja sig: Berst ég gegn tilraunum Satans til að gera hjarta mitt tvískipt?
15. Hvernig getur guðsótti verndað okkur ef við sjáum vafasamri mynd bregða fyrir?
15 Hvað gerirðu til dæmis ef þú sérð mynd í sjónvarpinu eða á netinu sem gæti kveikt kynferðislegar langanir hjá þér? Það er hægðarleikur að telja sér trú um að myndin eða kvikmyndin sé ekki beinlínis klámfengin. En gæti hún verið tilraun af hálfu Satans til að gera hjarta þitt tvískipt? (2. Kor. 2:11) Þessi mynd gæti verið eins og lítill fleygur úr málmi sem maður notar til að kljúfa stóran trjádrumb. Hann byrjar á því að reka þunnan en beittan enda fleygsins inn í viðinn. Síðan rekur hann fleyginn á kaf og þá klofnar trjádrumburinn. Gæti vafasöm mynd í sjónvarpi eða á netinu verið eins og þunni endinn á fleygnum? Það sem fljótt á litið virðist lítið og saklaust getur fyrr en varir gert hjarta okkar tvískipt og leitt okkur út í alvarlega synd. Hleyptu engu óviðeigandi inn í hjarta þitt! Varðveittu það heilt og óskipt og óttastu nafn Jehóva.
16. Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur þegar freistingar verða á vegi okkar?
16 Satan notar margt annað en vafasamar myndir til að reyna að freista okkar til að gera rangt. Hvað gerum við þegar slíkar freistingar verða á vegi okkar? Það er auðvelt að hugsa sem svo að þetta sé nú ekkert alvarlegt. Við hugsum kannski: Tja, mér yrði ekki vikið úr söfnuðinum fyrir að gera þetta þannig að það getur varla verið mjög alvarlegt. Þetta er kolrangur hugsunarháttur. Það væri miklu betra að spyrja sjálfan sig: Er Satan að reyna að gera hjarta mitt tvískipt með því að leggja þessa freistingu fyrir mig? Myndi ég kasta rýrð á nafn Jehóva ef ég léti undan röngum löngunum? Myndi þetta styrkja eða veikja samband mitt við Guð? Veltu þessum spurningum fyrir þér. Biddu um visku til að svara þeim hreinskilnislega og án sjálfsblekkingar. (Jak. 1:5) Það getur verið þér til verndar. Það getur hjálpað þér að bregðast við af festu þegar þín er freistað, líkt og Jesús gerði þegar hann sagði: „Farðu burt, Satan!“ – Matt. 4:10.
17. Af hverju kemur tvískipt hjarta að litlu gagni? Lýstu með dæmi.
17 Tvískipt hjarta kemur að litlu gagni. Hugsaðu þér íþróttalið. Segjum að sumum í liðinu komi illa saman. Sumir vilja vera stjörnur liðsins, fáeinir vilja ekki fylgja reglunum og nokkrir bera enga virðingu fyrir þjálfaranum. Það er ólíklegt að lið af þessu tagi vinni leik. Sameinað lið á hins vegar betri sigurmöguleika. Hjarta þitt getur verið eins og sigursæla liðið ef hugsanir þínar, langanir og tilfinningar eru sameinaðar í þjónustu Jehóva. Mundu að Satan vill ekkert frekar en að gera hjarta þitt tvískipt. Hann vill að hugsanir þínar, langanir og tilfinningar togist á og stangist á við það sem Jehóva vill. En þú þarft að vera með heilt hjarta til að geta þjónað Jehóva. (Matt. 22:36–38) Leyfðu Satan aldrei að gera hjarta þitt tvískipt.
18. Hvað ætlar þú að gera, samanber Míka 4:5?
18 Biddu til Jehóva eins og Davíð gerði: „Gef mér heilt hjarta, til þess að óttast nafn þitt.“ Einsettu þér að lifa í samræmi við bænina. Vertu staðráðinn í að láta daglegar ákvarðanir þínar, smáar sem stórar, endurspegla að þú berð djúpa lotningu fyrir heilögu nafni Jehóva. Þá verður þú góður vottur Jehóva og nafni hans til sóma. (Orðskv. 27:11) Og þá getum við öll tekið undir með Míka spámanni: „Vér munum lifa í nafni Drottins [„Jehóva“, NW], Guðs vors, um aldir alda.“ – Míka 4:5.
SÖNGUR 41 Heyr mínar bænir
a Í þessari grein beinum við athygli okkar að hluta af bæn Davíðs konungs í Sálmi 86:11, 12. Hvað merkir það að óttast nafn Jehóva? Hvaða ástæðu höfum við til að bera lotningu fyrir þessu mikla nafni? Og hvernig getur guðsótti verið okkur vernd svo að við látum ekki undan freistingum?
b Sálmur 86:11 (Biblían 1912): „Vísa mér veg þinn, Drottinn, lát mig ganga í trúfesti þinni, gef mér heilt hjarta, til þess að óttast nafn þitt.“
c 2. Mósebók 3:14 (NW): „Guð svaraði Móse: ,Ég verð það sem ég kýs að verða.‘ Hann bætti við: ,Þú skalt segja Ísraelsmönnum: „Ég verð sendi mig til ykkar.“‘“
d MYND: Móse kenndi Ísraelsmönnum ljóð sem var Jehóva til lofs.
e MYND: Eva barðist ekki gegn röngum löngunum. Við forðumst hins vegar myndir og skilaboð sem gætu kveikt rangar langanir og orðið til þess að við köstuðum rýrð á nafn Guðs.