Hjálpræðið kemur frá Jehóva
„Guð er oss hjálpræðisguð.“ — SÁLMUR 68:21.
1, 2. (a) Af hverju getum við sagt að hjálpræðið komi frá Jehóva? (b) Hvernig útskýrir þú Orðskviðina 21:31?
JEHÓVA er frelsari þeirra sem elska hann. (Jesaja 43:11) Hinn nafntogaði Davíð Ísraelskonungur þekkti það af eigin raun og söng: „Hjá [Jehóva] er hjálpin.“ (Sálmur 3:8) Spámaðurinn Jónas tók svipað til orða í innilegri bæn þegar hann var í kviði stórfisksins. — Jónas 2:9.
2 Salómon, sonur Davíðs, vissi líka að hjálpræðið kæmi frá Jehóva og sagði: „Hesturinn er hafður viðbúinn til orustudagsins, en sigurinn [„hjálpræðið,“ NW] er í hendi [Jehóva].“ (Orðskviðirnir 21:31) Í Miðausturlöndum til forna var uxunum beitt fyrir plóginn, asnar voru burðardýr, múldýrin voru höfð til reiðar og hestar notaðir í orustu. En áður en Ísraelsmenn gengu inn í fyrirheitna landið fyrirskipaði Guð að konungar framtíðarinnar skyldu ekki „afla sér margra hesta.“ (5. Mósebók 17:16) Stríðshesta var ekki þörf því að Jehóva ætlaði að bjarga fólki sínu.
3. Hvaða spurningar eru umhugsunarverðar?
3 Alvaldur Drottinn Jehóva er „hjálpræðisguð.“ (Sálmur 68:21) Það er uppörvandi tilhugsun! En hvaða hjálpræðisverk hefur Jehóva unnið? Og hverjum hefur hann bjargað?
Jehóva bjargar guðræknum
4. Hvernig vitum við að Jehóva bjargar guðræknum?
4 Orð Péturs postula geta verið öllum guðræknum og vígðum þjónum Guðs hughreysting: „Þannig veit [Jehóva], hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu, en refsa hinum ranglátu og geyma þá til dómsdags.“ Pétur sannaði mál sitt með því að benda á að Guð hefði ‚ekki þyrmt hinum forna heimi, en varðveitt Nóa, prédikara réttlætisins, við áttunda mann, er hann lét vatnsflóð koma yfir heim hinna óguðlegu.‘ — 2. Pétursbréf 2:5, 9.
5. Við hvaða aðstæður þjónaði Nói sem ‚prédikari réttlætisins‘?
5 Reyndu að sjá sjálfan þig við þær aðstæður sem voru á dögum Nóa. Holdgaðir illir andar eru á jörðinni. Afkvæmi þessara óhlýðnu engla misþyrma fólki og ‚fylla jörðina glæpaverkum.‘ (1. Mósebók 6:1-12) En Nói lætur ekki kúga sig til að hætta að þjóna Jehóva. Hann er ‚prédikari réttlætisins.‘ Hann smíðar örk ásamt fjölskyldu sinni og efast aldrei um að illskan verði upprætt á æviskeiði sínu. Hann fordæmir heiminn með trú sinni. (Hebreabréfið 11:7) Ástandið núna er hliðstætt því sem var á dögum Nóa, og það sýnir að okkar tímar eru síðustu dagar þessa illa heimskerfis. (Matteus 24:37-39; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Verður þú trúfastur prédikari réttlætisins líkt og Nói, og þjónar með fólki Guðs meðan þú bíður hjálpræðisins sem hann veitir?
6. Hvernig sannar 2. Pétursbréf 2:7, 8 að Jehóva bjargar hinum ráðvöndu?
6 Pétur færir frekari rök fyrir því að Jehóva bjargi hinum guðræknu. Hann segir að Guð hafi frelsað „Lot, hinn réttláta mann, er mæddist af svívirðilegum lifnaði hinna guðlausu. Sá réttláti maður bjó á meðal þeirra og mæddist í sinni réttlátu sálu dag frá degi af þeim ólöglegu verkum, er hann sá og heyrði.“ (2. Pétursbréf 2:7, 8; 1. Mósebók 19:1-29) Milljónir manna á þessum síðustu dögum líta á kynferðislegt siðleysi sem sjálfsagðan hlut. Ert þú ‚mæddur af svívirðilegum lifnaði‘ fjöldans, líkt og Lot var? Ef svo er og þú ástundar réttlæti, þá má vera að Jehóva bjargi þér þegar þetta illa heimskerfi líður undir lok.
Jehóva frelsar fólk sitt frá kúgun
7. Hvernig sanna samskipti Jehóva við Ísraelsmenn í Egyptalandi að hann frelsar fólk sitt undan kúgun?
7 Eins lengi og þetta gamla heimskerfi stendur mega þjónar Jehóva þola ofsóknir og kúgun af hendi óvina. En þeir mega treysta því að Jehóva frelsi þá því að hann hefur frelsað kúgað fólk sitt áður. Segjum að þú sért kúgaður Ísraelsmaður í Egyptalandi á dögum Móse. (2. Mósebók 1:1-14; 6:8) Guð lætur hverja pláguna á fætur annarri ganga yfir Egyptaland. (2. Mósebók 8:5–10:29) Þegar frumburðir Egypta deyja í hinni banvænu tíundu plágu leyfir Faraó Ísraelsmönnum að fara en kallar síðan út her sinn og eltir þá. Áður en langt um líður er honum og mönnum hans tortímt í Rauðahafinu. (2. Mósebók 14:23-28) Þú tekur undir þennan söng með Móse og öllum Ísrael: „[Jehóva] er stríðshetja, [Jehóva] er hans nafn. Vögnum Faraós og herliði hans varpaði hann í hafið, og hinir völdustu kappar hans drukknuðu í Hafinu rauða. Undirdjúpin huldu þá, þeir sukku niður í sjávardjúpið eins og steinn.“ (2. Mósebók 15:3-5) Sams konar ógæfa bíður allra sem kúga fólk Guðs núna á síðustu dögum.
8, 9. Nefndu dæmi úr Dómarabókinni sem sýnir fram á að Jehóva frelsar fólk sitt frá kúgun.
8 Um langt árabil eftir að Ísraelsmenn gengu inn í fyrirheitna landið stjórnuðu dómarar með réttvísi meðal þeirra. Stundum máttu landsmenn þola erlenda kúgun en Guð notaði trúfasta dómara til að frelsa þá. Þótt við ‚kveinum undan kúgurum okkar og kvölurum‘ frelsar Jehóva okkur líka ef við þjónum honum í trúfesti. (Dómarabókin 2:16-18; 3:9, 15) Dómarabókin fullvissar okkur reyndar um það og um hið meira hjálpræði sem Guð mun láta skipaðan konung sinn, Jesú Krist, koma til leiðar.
9 Stöldrum við á dögum Baraks dómara. Vegna falskrar guðsdýrkunar sinnar og vanþóknunar Guðs hafa Ísraelsmenn mátt þola 20 ára kúgun af hendi kanverska konungsins Jabíns. Sísera er hershöfðingi yfir stórum her Kanverja. En ‚skjöldur sést ei né spjót meðal fjörutíu þúsunda í Ísrael,‘ þótt þjóðin sé kannski um fjórar milljónir manna. (Dómarabókin 5:6-8) Ísraelsmenn hrópa iðrunarfullir til Jehóva. Barak safnar saman 10.000 manna liði á Taborfjalli í samræmi við fyrirmæli Guðs sem spákonan Debóra flutti honum, og Guð leiðir óvinina inn dalinn fram með fjallinu. Sveitir Sísera og 900 stríðsvagnar þeysa með miklum gný eftir sléttunni og þurrum farvegi Kísonlæks. En steypiregn veldur miklu flóði í Kísonlæk. Þegar Barak og menn hans skunda niður hlíðar Taborfjalls í skjóli veðurs verða þeir vitni að eyðileggingunni sem reiði Jehóva hefur valdið. Flótti er brostinn í lið Kanverja, menn Baraks elta uppi skelfda hermennina og drepa þá einn af öðrum. Enginn kemst undan. Hvílík viðvörun til kúgara okkar sem ætla sér að berjast gegn Guði! — Dómarabókin 4:3-16; 5:19-22.
10. Af hverju getum við verið viss um að Guð frelsi nútímaþjóna sína af hendi allra kúgara sinna?
10 Jehóva mun frelsa nútímaþjóna sína af hendi allra kúgara, alveg eins og hann frelsaði guðhrædda Ísraelsmenn á hættustund. (Jesaja 43:3; Jeremía 14:8) Guð frelsaði Davíð „af hendi allra óvina hans.“ (2. Samúelsbók 22:1-3) Við skulum vera hugrökk þótt við séum kúguð eða ofsótt því að Messíasarkonungur Jehóva frelsar okkur frá kúguninni. Já, „fátækum hjálpar hann. Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá.“ (Sálmur 72:13, 14) Þessi endurlausn er vissulega nálæg.
Guð bjargar þeim sem treysta honum
11. Hvernig sýndi hinn ungi Davíð traust sitt á Jehóva?
11 Til að sjá hjálpræði Jehóva verðum við að vera hugrökk og treysta honum. Davíð var hugrakkur og reiddi sig á Guð þegar hann gekk til móts við risann Golíat. Ímyndaðu þér hinn unga Davíð standa frammi fyrir Filistarisanum og hrópa: „Þú kemur á móti mér með sverð og lensu og spjót, en ég kem á móti þér í nafni [Jehóva] allsherjar, Guðs herfylkinga Ísraels, sem þú hefir smánað. Í dag mun [Jehóva] gefa þig í mínar hendur, og ég mun leggja þig að velli og höggva af þér höfuðið, og hræ þitt og hræin af her Filista mun ég í dag gefa fuglum loftsins og dýrum merkurinnar, svo að öll jörðin viðurkenni, að Guð er í Ísrael, og til þess að allur þessi mannsafnaður komist að raun um, að [Jehóva] veitir ekki sigur með sverði og spjóti, því að bardaginn er [Jehóva].“ Skömmu síðar lá Golíat örendur og Filistar voru gersigraðir. Jehóva bjargaði fólki sínu. — 1. Samúelsbók 17:45-54.
12. Af hverju getur verið gagnlegt að muna eftir kappanum Eleasar?
12 Þegar við mætum ofsóknurum getum við þurft að hleypa í okkur kjarki og treysta Guði enn meir en áður. (Jesaja 46:8-13; Orðskviðirnir 3:5, 6) Taktu eftir atviki sem gerðist á stað er hét Pas Dammím. Ísraelsmenn hafa hopað þangað undan Filistum. En Eleasar, sem er einn þriggja mestu kappa Davíðs, lamast ekki af ótta. Hann stendur fastur fyrir á byggakri og fellir Filistana einn saman með sverði. Þannig ‚veitir Jehóva Ísrael mikinn sigur.‘ (1. Kroníkubók 11:12-14; 2. Samúelsbók 23:9, 10) Enginn ætlast til að við sigrum heila hersveit ein okkar liðs, en stundum verðum við kannski að standa ein gegn óvinaþrýstingi. Reiðum við okkur þá í bænarhug á Jehóva, hjálpræðisguð okkar? Biðjum við hann að hjálpa okkur að koma ekki upp um trúbræður okkar við ofsóknarana?
Jehóva bjargar ráðvöndum mönnum
13. Af hverju var erfitt að varðveita ráðvendni við Guð í tíuættkvíslaríkinu Ísrael?
13 Til að Jehóva bjargi okkur verðum við að sýna honum ráðvendni hvað sem það kostar. Fólk Guðs til forna rataði í ýmsar raunir. Hugsaðu þér hverju þú hefðir staðið frammi fyrir ef þú hefðir búið í tíuættkvíslaríkinu Ísrael. Óbilgirni Rehabeams varð til þess að tíu ættkvíslir hættu að styðja hann og stofnuðu norðurríkið Ísrael. (2. Kroníkubók 10:16, 17; 11:13, 14) Það átti sér marga konunga og af þeim var Jehú bestur, en jafnvel hann ‚hirti eigi um að breyta eftir lögmáli Jehóva af öllu hjarta.‘ (2. Konungabók 10:30, 31) Þó voru til ráðvandir menn í tíuættkvíslaríkinu. (1. Konungabók 19:18) Þeir iðkuðu trú á Guð og hann var með þeim. Varðveitir þú ráðvendni við Guð þrátt fyrir að trú þín sé reynd?
14. Hvaða hjálpræðisverk vann Jehóva á dögum Hiskía konungs og hvað leiddi til þess að Babýloníumenn unnu Júda?
14 Útbreitt virðingarleysi fyrir lögmáli Guðs varð Ísraelsríkinu að falli. Þegar Assýringar unnu það árið 740 f.o.t. hafa ýmsir af ættkvíslunum tíu eflaust flúið til tveggjaættkvíslaríkisins Júda þar sem þeir gátu tilbeðið Jehóva í musteri hans. Fjórir af 19 konungum þess af ætt Davíðs — Asa, Jósafat, Hiskía og Jósía — báru af fyrir guðrækni sína. Á dögum hins ráðvanda Hiskía réðust Assýringar með miklum her á Júda. Sem svar við bæn Hiskía sendi Guð einn engil sem drap 185.000 Assýringa á einni nóttu og frelsaði þar með tilbiðjendur sína. (Jesaja 37:36-38) En fólkið hélt ekki lögmál Guðs né fór eftir viðvörunum spámanna hans og það varð til þess að Babýloníumenn unnu Júda og eyddu höfuðborgina Jerúsalem og musteri hennar árið 607 f.o.t.
15. Af hverju þurftu útlægir Gyðingar í Babýlon að vera þolgóðir og hvernig frelsaði Jehóva þá að lokum?
15 Gyðingar þurftu að sýna þolgæði til að varðveita ráðvendni við Guð í útlegðinni í Babýlon sem stóð í hér um bil 70 dapurleg ár. (Sálmur 137:1-6) Spámaðurinn Daníel var einn þeirra. (Daníel 1:1-7; 9:1-3) Hugsaðu þér gleði hans þegar tilskipun Kýrusar Persakonungs tók gildi árið 537 f.o.t., þess efnis að Gyðingar mættu snúa heim til Júda og endurreisa musterið. (Esrabók 1:1-4) Daníel og fleiri höfðu þraukað í marga áratugi en loks sáu þeir Babýlon falla og fólk Jehóva frelsað. Það ætti að hjálpa okkur að vera þolgóð meðan við bíðum eyðingar ‚Babýlonar hinnar miklu,‘ heimsveldis falskra trúarbragða. — Opinberunarbókin 18:1-5.
Jehóva bjargar alltaf fólki sínu
16. Hvernig bjargaði Guð þjónum sínum á dögum Esterar drottningar?
16 Jehóva bjargar alltaf þjónum sínum þegar þeir eru trúir nafni hans. (1. Samúelsbók 12:22; Jesaja 43:10-12) Hverfum aftur til tíma Esterar drottningar á fimmtu öld f.o.t. Ahasverus konungur (Xerxes I) hefur skipað Haman forsætisráðherra sinn. Haman er ævareiður vegna þess að Mordekai Gyðingur hefur neitað að krjúpa fyrir honum, og hann leggur á ráðin um að tortíma honum og öllum Gyðingum í Persaveldi. Hann lýsir þá lögbrjóta, býður fram fé og fær leyfi til að nota innsiglishring konungs til að innsigla tilskipun um að þeim skuli útrýmt. Ester sýnir það hugrekki að segja konungi að hún sé Gyðingur að ætt og uppruna og flettir ofan af banaráðum Hamans. Innan skamms hangir Haman í gálganum sem hann ætlaði Mordekai. Mordekai er gerður forsætisráðherra og er heimilað að leyfa Gyðingum að verja hendur sínar. Þeir vinna mikinn sigur á óvinum sínum. (Ester 3:1–9:19) Þessi atburður ætti að styrkja trú okkar á að Jehóva vinni björgunarverk í þágu hlýðinna nútímaþjóna sinna.
17. Hvernig átti hlýðni þátt í björgun kristinna Gyðinga sem bjuggu í Júdeu á fyrstu öld?
17 Önnur ástæða fyrir því að Guð bjargar fólki sínu er sú að það hlýðir honum og syni hans. Settu þig í spor lærisveina Jesú af hópi Gyðinga á fyrstu öld. Hann segir þeim: „Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið, að eyðing hennar er í nánd. Þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla.“ (Lúkas 21:20-22) Árin líða og þú ferð að velta fyrir þér hvort orð hans rætist. Árið 66 rennur upp og Gyðingar gera uppreisn. Rómverskur her undir stjórn Cestíusar Gallusar umkringir Jerúsalem og sækir að musterisveggnum. En skyndilega hverfa Rómverjar á brott án nokkurrar sýnilegrar ástæðu. Hvað gera kristnir Gyðingar? Í bók sinni, Ecclesiastical History (3. bindi, 5. kafla, 3) segir Evsebíus að þeir hafi flúið frá Jerúsalem og Júdeu. Þeim var þyrmt af því að þeir hlýddu spádómlegri viðvörun Jesú. Ert þú jafnfljótur að fara eftir leiðbeiningum Ritningarinnar, sem ‚trúr ráðsmaður‘ yfir ‚öllum eigum‘ Jesú kemur á framfæri? — Lúkas 12:42-44.
Hjálpræði til eilífs lífs
18, 19. (a) Hvaða hjálpræðisleið opnaði dauði Jesú og fyrir hverja? (b) Hvað var Páll postuli staðráðinn í að gera?
18 Kristnir Gyðingar í Júdeu björguðu lífinu með því að fara eftir viðvörun Jesú. En dauði Jesú opnar ‚öllum mönnum‘ hjálpræðisleið til eilífs lífs. (1. Tímóteusarbréf 4:10) Þörf mannsins á lausnargjaldi kom til þegar Adam syndgaði, glataði lífinu og seldi mannkynið í þrælkun syndar og dauða. (Rómverjabréfið 5:12-19) Dýrafórnirnar undir Móselögunum voru aðeins táknræn syndafriðþæging. (Hebreabréfið 10:1-4) Jesús átti ekki mennskan föður og heilagur andi Guðs ‚yfirskyggði‘ Maríu allt frá getnaði Jesú til fæðingar. Þess vegna fæddist hann laus við arfgenga synd og ófullkomleika. (Lúkas 1:35; Jóhannes 1:29; 1. Pétursbréf 1:18, 19) Þegar hann dó algerlega ráðvandur fórnaði hann fullkomnu lífi sínu til að endurkaupa mannkynið og frelsa það. (Hebreabréfið 2:14, 15) Kristur gaf sjálfan sig þannig „til lausnargjalds fyrir alla.“ (1. Tímóteusarbréf 2:5, 6) Það notfæra sér ekki allir þessa hjálpræðisráðstöfun en Guð samþykkir að hún sé notuð í þágu þeirra sem þiggja hana í trú.
19 Með því að leggja verðgildi lausnarfórnar sinnar fram fyrir Guð á himnum endurkeypti Kristur afkomendur Adams. (Hebreabréfið 9:24) Þannig eignast Jesús brúði sem er 144.000 smurðir fylgjendur hans reistir upp til lífs á himnum. (Efesusbréfið 5:25-27; Opinberunarbókin 14:3, 4; 21:9) Hann verður líka „Eilífðarfaðir“ þeirra sem taka við fórn hans og hljóta eilíft líf á jörðinni. (Jesaja 9:6, 7; 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Þetta er kærleiksrík ráðstöfun. Ljóst er af síðara innblásna bréfinu, sem Páll skrifaði kristnum mönnum í Korintu, hve mikils hann mat hana, eins og fram kemur í greininni á eftir. Páll var reyndar staðráðinn í að láta ekkert hindra sig í að hjálpa fólki að notfæra sér frábæra hjálpræðisráðstöfun Jehóva og öðlast eilíft líf.
Hvert er svarið?
◻ Hvaða biblíuleg sönnun er fyrir því að Guð bjargi hinum guðræknu?
◻ Hvernig vitum við að Jehóva bjargar þeim sem treysta á hann og varðveita ráðvendni?
◻ Hvaða ráðstöfun hefur Guð gert til að veita mönnum hjálpræði og eilíft líf?
[Mynd á blaðsíðu 24]
Davíð treysti á Jehóva, „hjálpræðisguð“ sinn. Gerir þú það?
[Mynd á blaðsíðu 26]
Jehóva bjargar alltaf fólki sínu eins og hann sýndi á dögum Esterar drottningar.