LÍKJUM EFTIR TRÚ ÞEIRRA | JÓNATAN
Þeir voru nánir vinir
Orrustunni var lokið og allt var hljótt í Eikadalnum. Kvöldgolan lék um tjöld hermannanna og Sál konungur stóð á tali við nokkra af mönnum sínum. Jónatan, elsti sonur hans, var viðstaddur og ungur fjárhirðir segir frásögu sína af ákafa. Þessi ungi maður var Davíð og hann var fullur af eldmóði. Sál hlustaði hugfanginn á Davíð og drakk í sig hvert orð. En hvernig leið Jónatan? Hann hafði unnið sigra þann langa tíma sem hann hafði þjónað Jehóva sem hermaður. En Jónatan var ekki hetja dagsins heldur hinn ungi Davíð. Hann hafði drepið risann Golíat! Var Jónatan afbrýðisamur út af allri athyglinni sem Davíð fékk?
Viðbrögð Jónatans koma þér kannski á óvart. Við lesum: „Þegar samtali Davíðs og Sáls lauk vingaðist Jónatan við Davíð. Jónatan elskaði hann eins og sjálfan sig.“ Jónatan gaf Davíð herklæði sín, þar á meðal bogann sinn. Það var rausnarleg gjöf því að Jónatan var fræg bogaskytta. Og ekki nóg með það. Jónatan og Davíð gerðu sáttmála sín á milli, gáfu hátíðlegt loforð, um að þeir yrðu vinir sem myndu styðja hvor annan. – 1. Samúelsbók 18:1–5.
Þannig var upphafið að einum mesta vinskap sem lýst er í Biblíunni. Vinátta er mjög mikilvæg í augum þjóna Guðs. Ef við vöndum val okkar á vinum og ef við erum sjálf traustir vinir og styðjum vini okkar getum við styrkt trú okkar á þessum kærleikslausu tímum. (Orðskviðirnir 27:17) Skoðum þess vegna hvað við getum lært um vináttu af Jónatan.
Grunnurinn að vináttu
Hvernig gat slík vinátta myndast svona fljótt? Það tengist grunninum að vináttunni. Skoðum fyrst forsöguna. Jónatan lifði á erfiðum tíma. Síðustu árin hafði Sál faðir hans breyst, og ekki til hins betra. Hann hafði verið auðmjúkur, hlýðinn og trúaður maður en var orðinn hrokafullur og óhlýðinn konungur. – 1. Samúelsbók 15:17–19, 26.
Það hlýtur að hafa valdið Jónatan miklu hugarangri að Sál breyttist svona því að þeir feðgarnir voru nánir. (1. Samúelsbók 20:2) Jónatan hefur líklega velt fyrir sér hvaða ógæfu Sál gæti kallað yfir útvalda þjóð Jehóva. Myndi óhlýðni konungsins verða til þess að þegnar hans myndu fjarlægast Jehóva og missa velþóknun hans? Þetta hafa án efa verið erfiðir tímar fyrir trúfastan mann eins og Jónatan.
Þessi forsaga gæti hjálpað okkur að skilja hvers vegna Jónatan vingaðist við hinn unga Davíð. Jónatan tók eftir að Davíð hafði sterka trú. Munum að Davíð lét það ekki hræða sig hve feiknastór Golíat var, ólíkt hermönnum Sáls. Hann sagðist koma á móti Golíat í nafni Jehóva og væri því miklu máttugri en Golíat og öll hans vopn. – 1. Samúelsbók 17:45–47.
Þó nokkrum árum áður hafði Jónatan sýnt svipað hugarfar og Davíð. Hann var viss um að tveir menn – hann sjálfur og skjaldsveinn sinn – gætu ráðist á heilt setulið vopnaðra hermanna og unnið sigur. Hvers vegna? ,Ekkert getur hindrað Drottin,‘ sagði Jónatan. (1. Samúelsbók 14:6) Jónatan og Davíð hafa því átt margt sameiginlegt. Þeir höfðu báðir sterka trú á Jehóva og elskuðu hann heitt. Þetta var fullkominn grunnur að náinni vináttu þessara tveggja manna. Það skipti þá ekki máli að Jónatan var voldugur prins og nálega fimmtugur að aldri en Davíð auðmjúkur fjárhirðir sem var ekki orðinn tvítugur.a
Sáttmálinn sem þeir gerðu sín á milli var sannarlega vináttu þeirra til verndar. Hvernig þá? Davíð vissi hvað Jehóva ætlaði honum. Hann átti að verða næsti konungur Ísraels. Hélt hann því leyndu fyrir Jónatan? Varla! Góð vinátta, líkt og þeirra, þrífst á góðum samskiptum, ekki á leyndarmálum og lygum. Hvaða áhrif ætli það hafi haft á Jónatan að fá að vita að Davíð yrði konungur? Hvað ef Jónatan hafði vonast til að verða konungur og fá að leiðrétta allt það ranga sem faðir hans hafði gert? Biblían segir hvergi að Jónatan hafi verið neikvæður vegna aðstæðna. Hún segir bara frá því sem skipti mestu máli, trúfesti Jónatans og trú hans. Jónatan sá að Davíð hafði anda Jehóva. (1. Sam. 16:1, 11–13) Hann hélt því eið sinn og hélt áfram að líta á Davíð sem vin sinn en ekki óvin. Jónatan vildi sjá vilja Jehóva ná fram að ganga.
Jónatan og Davíð höfðu báðir sterka trú og þeir elskuðu Jehóva innilega.
Þessi vinátta reyndist mikil blessun. Hvað getum við lært af trú Jónatans? Allir þjónar Guðs ættu að vita hversu mikils virði vinátta er. Vinir okkar þurfa ekki að vera á sama aldri eða hafa sama bakgrunn og við. En þeir geta haft mikil áhrif á okkur ef þeir hafa sterka trú. Jónatan og Davíð gátu margsinnis styrkt og uppörvað hvor annan. Og þeir höfðu báðir þörf á slíkri hjálp því að brátt myndi reyna enn meira á vináttu þeirra.
Hverjum átti að sýna trúfesti?
Í fyrstu var Sál mjög hrifinn af Davíð og setti hann yfir her sinn. En ekki leið á löngu þar til Sál varð öfundsýkinni að bráð, ólíkt Jónatan. Davíð vann hvern sigurinn á fætur öðrum gegn Filisteum, óvinum Ísraels. Davíð hlaut því lof og aðdáun. Sumar konur í Ísrael sungu jafnvel: „Sál felldi sín þúsund en Davíð sín tíu þúsund.“ Sál líkaði ekki þessi söngur. Við lesum áfram: „Upp frá þessu leit Sál Davíð jafnan öfundaraugum.“ (1. Samúelsbók 18:7, 9) Hann var hræddur um að Davíð myndi hrifsa konungstignina af sér. Það var heimskulegt. Davíð vissi sjálfsagt að hann tæki við af Sál sem konungur en honum datt aldrei í hug að steypa smurðum konungi Jehóva af stóli meðan hann var við völd.
Sál lagði á ráðin um að Davíð yrði drepinn í bardaga en það heppnaðist ekki. Davíð hélt áfram að fara með sigur af hólmi í stríði og óx sífellt í áliti hjá fólki. Næst reyndi Sál að fá allt heimilisfólk sitt, þjóna sína og elsta son sinn, til að taka þátt í ráðabruggi um að drepa Davíð. Hugsaðu þér hversu vonsvikinn Jónatan hefur verið að sjá föður sinn haga sér svona! (1. Samúelsbók 18:25–30; 19:1) Jónatan var trúr sonur, en hann var líka trúr vinur. Nú reyndi á trúfesti hans. Hvað myndi hann gera?
Jónatan sagði: „Konungurinn ætti ekki að drýgja slíkan glæp á Davíð, þjóni sínum. Hann hefur ekkert illt gert þér, heldur hafa verk hans reynst þér mjög gagnleg. Hann hætti lífi sínu þegar hann drap Filisteann og með því veitti Drottinn öllum Ísrael mikinn sigur. Þú sást það sjálfur og gladdist. Hvers vegna viltu drýgja glæp og úthella saklausu blóði með því að drepa Davíð að ástæðulausu?“ Ólíkt því sem Sál var vanur sýndi hann sanngirni og hlustaði á Jónatan, hann sór þess jafnvel eið að gera Davíð ekki mein. En Sál stóð ekki við orð sín. Davíð hélt áfram að njóta velgengni og Sál varð svo fullur öfundar og bræði að hann reyndi að kasta spjóti í hann! (1. Samúelsbók 19:4–6, 9, 10) En Davíð komst undan og flúði hirð Sáls.
Hefurðu einhvern tíma þurft að velja hverjum þú vildir sýna trúfesti? Það getur verið mjög sársaukafullt. Við slíkar aðstæður gætu einhverjir sagt við þig að fjölskyldan gangi alltaf fyrir. En Jónatan vissi betur. Hvernig gat hann tekið málstað föður síns fyrst Davíð var trúfastur og hlýðinn þjónn Jehóva? Jónatan lét því hollustu sína við Jehóva stýra ákvörðun sinni. Þess vegna talaði hann máli Davíðs. En þótt Jónatan hafi fyrst og fremst verið Guði trúfastur sýndi hann líka föður sínum trúfesti með því að vera hreinskilinn við hann í stað þess að segja honum bara það sem hann langaði til að heyra. Það er gott fyrir okkur öll að líkja eftir því hvernig Jónatan sýndi trúfesti.
Það kostar að sýna trúfesti
Jónatan reyndi aftur að fá Sál til að sættast við Davíð, en Sál vildi ekki einu sinni hlusta á hann í þetta skiptið. Davíð kom til Jónatans á laun og sagði honum að hann óttaðist um líf sitt. „[Það] er aðeins eitt fótmál milli mín og dauðans,“ sagði hann við eldri vin sinn. Jónatan féllst á að kanna hvaða hug faðir hans bar til Davíðs og láta Davíð síðan vita hvernig staðan væri. Davíð fór í felur á meðan og Jónatan myndi segja honum fréttirnar með því að nota boga og örvar. Jónatan bað Davíð þess eins að sverja þennan eið: ,Þú mátt aldrei bregða trúnaði við ætt mína þegar Drottinn hefur upprætt sérhvern fjandmann Davíðs af jörðinni.‘ Davíð lofaði að hann myndi alltaf annast þá sem kæmu úr ætt Jónatans. – 1. Samúelsbók 20:3, 13–27.
Jónatan reyndi að tala vel um Davíð við Sál, en konungurinn varð ævareiður. Hann sagði að Jónatan væri „sonur þrjóskrar og þvermóðskufullrar kvensniftar“ og að trúfesti hans við Davíð væri fjölskyldunni til skammar. Hann reyndi að fá Jónatan til að hugsa um eigin hagsmuni: „Á meðan sonur Ísaí er ofanjarðar ert þú ekki öruggur né heldur konungdómur þinn.“ Jónatan haggaðist ekki og spurði föður sinn: „Hvers vegna á hann að deyja, hvað hefur hann gert?“ Sál varð foxillur! Hann var orðinn aldraður en var samt enn mikill stríðsmaður. Hann kastaði spjóti í átt að syni sínum. Þótt hann væri fær með spjótið missti hann marks. Jónatan fór burt reiður, djúpt særður og niðurlægður. – 1. Samúelsbók 20:24–34.
Jónatan reyndist trúfastur og sýndi fram á að hann væri ekki eigingjarn.
Daginn eftir fór Jónatan út á víðavang nálægt felustað Davíðs. Hann skaut ör eins og þeir höfðu talað um til að láta Davíð vita að Sál ætlaði sér enn að drepa hann. Síðan sendi Jónatan þjón sinn aftur til borgarinnar. Hann og Davíð voru nú einir svo að þeir gátu talað saman um stutta stund. Þeir grétu báðir og Jónatan var leiður yfir að kveðja Davíð, ungan vin sinn, sem þurfti nú að hefja nýtt líf sem flóttamaður. – 1. Samúelsbók 20:35–21:1.
Jónatan reyndist trúfastur og sýndi fram á að hann væri ekki eigingjarn. Satan, óvinur alls trúfasts fólks, hefði haft unun af því að sjá Jónatan feta í fótspor Sáls og setja löngun í völd og heiður framar öðru. Munum að Satan hefur ánægju af því að höfða til eigingjarnra langana fólks. Honum tókst að gera það við Adam og Evu, fyrstu hjónunum. (1. Mósebók 3:1–6) En honum tókst ekki að hafa áhrif á Jónatan. Satan hlýtur að hafa gramist það mjög! Munt þú standast svipaðar tilraunir hans? Við lifum á tímum þar sem sjálfselska er ríkjandi. (2. Tímóteusarbréf 3:1–5) Hvað getum við lært af trúfesti og óeigingirni Jónatans?
„Þú varst mér mjög kær“
Hatur Sáls í garð Davíðs varð að áráttu. Jónatan gat ekkert gert þegar hann horfði upp á föður sinn haga sér eins og hann væri orðinn vitfirrtur – hann safnaði saman her sínum, fór um landið og leitaðist við að verða einum saklausum manni að bana. (1. Samúelsbók 24:2, 3, 13–16; 26:20) Tók Jónatan þátt í þessu? Það er áhugavert að Biblían nefnir hann aldrei í tengslum við neinar þessara herferða. Trúfesti Jónatans við Jehóva og við Davíð, og eiðurinn sem hann vann um vináttu gerði það ómögulegt.
Tilfinningar hans í garð ungs vinar síns breyttust aldrei. Seinna fann hann leið til að hitta Davíð aftur. Það var í Hóres, en það merkir ,skógi vaxið svæði‘. Hóres var í eyðimörk á fjöllóttu svæði sem var líklega nokkrum kílómetrum suðaustur af Hebron. Hvers vegna tók Jónatan þá áhættu að hitta þennan flóttamann? Biblían segir að markmið hans hafi verið að telja í Davíð „kjark í nafni Guðs“. (1. Samúelsbók 23:16) Hvernig fór Jónatan að því?
„Vertu óhræddur,“ sagði Jónatan við ungan vin sinn. Hann bætti við: ,Sál, faðir minn, mun ekki ná þér.‘ Hvernig gat hann verið svo viss um það? Jónatan var fullviss um að vilji Jehóva myndi ná fram að ganga. Hann hélt áfram: „Þú verður konungur yfir Ísrael.“ Samúel spámanni hafði verið falið að segja það þó nokkrum árum áður og nú minnti Jónatan Davíð á að orð Jehóva væri alltaf áreiðanlegt. Og hvernig sá Jónatan sína eigin framtíð fyrir sér? „Ég mun ganga næst þér.“ Hvílíkt lítillæti sem hann sýndi. Hann var sáttur við að vera undir stjórn þessa manns sem var 30 árum yngri en hann og að þjóna við hlið hans. Jónatan sagði að lokum: „Þetta veit Sál, faðir minn.“ (1. Samúelsbók 23:17, 18) Sál vissi innst inni að hann gat ómögulega sigrað þann mann sem Jehóva hafði valið að næsta konungi.
Á næstu árum hefur Davíð líklega oft hugsað með hlýhug til þessa fundar. Þetta var í síðasta skipti sem þeir hittust. Því miður varð von Jónatans um að verða næstur Davíð aldrei að veruleika.
Jónatan fór í stríð ásamt föður sínum gegn Filisteum, yfirlýstum óvinum Ísraelsmanna. Hann gat barist við hlið föður síns með góðri samvisku því að hann lét ill verk föður síns ekki koma í veg fyrir þjónustu sína við Jehóva. Hann barðist hugrakkur og var trúfastur eins og alltaf. Bardaginn endaði þó ekki vel fyrir Ísraelsmenn. Sál var orðinn svo illur að hann var farinn að stunda dulspeki, sem var algert brot á lögum Guðs og varðaði dauðarefsingu. Sál naut því ekki lengur blessunar Jehóva. Þrír synir Sáls, þar á meðal Jónatan, létu lífið í bardaganum. Sál særðist og tók sitt eigið líf. – 1. Samúelsbók 28:6–14; 31:2–6.
„Þú verður konungur yfir Ísrael,“ sagði Jónatan, „og ég mun ganga næst þér.“ – 1. Samúelsbók 23:17.
Davíð var þjakaður af sorg. Þessi góðhjartaði maður syrgði jafnvel Sál, manninn sem hafði valdið honum svo miklum þjáningum og erfiðleikum. Davíð skrifaði sorgarkvæði um Sál og Jónatan. Hjartnæmustu orð kvæðisins eru ef til vill þau sem var beint til ástkærs læriföður og vinar Davíðs: „Ég harma þig, Jónatan, bróðir minn. Þú varst mér mjög kær, ást þín var mér undursamlegri en ástir kvenna.“ – 2. Samúelsbók 1:26.
Davíð gleymdi aldrei eiðinum sem hann hafði svarið Jónatan. Einhverjum árum síðar leitaði hann uppi og annaðist Mefíbóset, lamaðan son Jónatans. (2. Samúelsbók 9:1–13) Davíð hafði augljóslega lært af trúfesti og hollustu Jónatans sem var tilbúinn að vera vini sínum trúfastur þótt það kostaði hann mikið. Getum við líka dregið lærdóm af því? Getum við eignast vini eins og Jónatan? Getum við verið vinir eins og hann? Við líkjum eftir Jónatan með því að hjálpa vinum okkar að byggja upp og styrkja samband sitt við Jehóva, með því að sýna Guði hollustu framar öllu öðru og vera trúföst í stað þess að hugsa bara um eigin hag. Og þá líkjum við einnig eftir trú Jónatans.
a Jónatan er fyrst nefndur í Biblíunni þegar Sál byrjaði að stjórna sem konungur. Þá var Jónatan herforingi og hefur því að minnsta kosti verið tvítugur. (4. Mósebók 1:3; 1. Samúelsbók 13:2) Sál ríkti í 40 ár. Jónatan hefur því verið um sextugt þegar Sál dó. Davíð var þrítugur þegar Sál dó. (1. Samúelsbók 31:2; 2. Samúelsbók 5:4) Jónatan hefur þess vegna verið 30 árum eldri en Davíð.