Spurningar frá lesendum
Í Biblíunni er minnst á „Bók hins réttláta“ og bók „um hernað Drottins“. (Jós. 10:13; 4. Mós. 21:14) Þessar tvær bækur er ekki að finna í helgiritasafni Biblíunnar. Voru þetta innblásin rit sem síðar glötuðust?
Það er engin ástæða til að ætla að bækurnar hafi verið ritaðar undir innblæstri og síðar glatast. Guðinnblásnir biblíuritarar vísa í töluvert af öðrum ritum. Hluti þessara rita tilheyrir vissulega Biblíunni en tilvísanirnar eru settar þannig fram að þær eru framandi fyrir nútímalesendur. Í 1. Kroníkubók 29:29 er til dæmis minnst á „sögu sjáandans Samúels,“ „sögu Natans spámanns“ og „sögu sjáandans Gaðs“. Séu þessar þrjár tilvísanir teknar sem heild gætu þær verið vísun í þær bækur sem nú eru kallaðar 1. og 2. Samúelsbók eða jafnvel Dómarabókin.
Einnig er vísað í ákveðin rit sem hafa svipuð heiti og bækur Biblíunnar en eru ekki hluti af henni. Tökum sem dæmi fjórar fornar bækur: „annála Júdakonunga,“ „bók konunga Júda og Ísraels,“ „bók Ísraelskonunga“ og „bók konunga Ísraels og Júda“. Þó að nöfnin séu lík nöfnum biblíubóka, sem við þekkjum sem 1. og 2. Konungabók, þá eru þær ekki innblásnar og tilheyra því ekki helgiritasafni Biblíunnar. (1. Kon. 14:29; 2. Kron. 16:11; 20:34; 27:7) Þessar fjórar bækur voru trúlega sagnfræðileg rit sem spámaðurinn Jeremía og Esra gátu vitnað í þegar þeir skrifuðu frásögurnar sínar í Biblíuna.
Ljóst er að sumir biblíuritarar vísuðu í eða studdust við óinnblásinn sagnfræðirit og önnur skjöl sem voru til. Í Esterarbók 10:2 er minnst á „árbækur Medíu og Persíukonunga“. Á svipaðan hátt segist Lúkas hafa athugað „kostgæfilega allt þetta frá upphafi“ við undirbúning guðspjallsins. Lúkas á líklega við að hann hafi rannsakað þær skriflegu heimildir sem hægt var að nálgast þegar hann skráði ættartölu Jesú í guðspjallið. (Lúk. 1:3; 3:23-38) Þó að heimildirnar, sem Lúkas notaði, væru ekki innblásnar þá var guðspjallið sannarlega innblásið og er dýrmætt fyrir okkur.
Hvað varðar bækurnar tvær sem spurt er um, „Bók hins réttláta“ og bókina „um hernað Drottins“, þá voru þær ekki innblásnar. Þær virðast hafa verið óinnblásin skjöl sem hægt var að nálgast. Jehóva gerði því ekki ráðstafanir til þess að bækurnar yrðu varðveittar. Í Biblíunni er að finna tilvísanir í þessar tvær bækur og þær gefa vísbendingar um innihald bókanna. Með hliðsjón af þessu álykta fræðimenn að bækurnar hafi verið samansafn ljóða og söngva um átökin milli Ísraelsmanna og óvina þeirra. (2. Sam. 1:17-27) Í biblíualfræðibók er sagt að þessar bækur hafi líklega haft að geyma „hið almennt þekkta söngva- og ljóðasafn sem varðveitt var af atvinnusöngvurum í Ísrael til forna“. Einstaklingar, sem fengu spádóma og sýnir frá Jehóva, skrásettu jafnvel ýmislegt sem var ekki innblásið. En það var ekki hluti af ritningunni sem er „nytsöm til fræðslu, umvöndunar“ og „leiðréttingar“ á okkar tímum. — 2. Tím. 3:16; 2. Kron. 9:29; 12:15; 13:22.
Þó að minnst sé á vissar bækur í Biblíunni og þær hafi verið notaðar sem heimildir þýðir það ekki að þær hafi verið innblásnar. Hins vegar varðveitir Jehóva Guð allt sem ritað er í ‚orði hans‘ og það „varir að eilífu“. (Jes. 40:8) Já, það sem Jehóva kaus að láta skrá í þær 66 bækur Biblíunnar sem við höfum er einmitt það sem við þurfum til að vera ‚albúin og hæf ger til sérhvers góðs verks‘. — 2. Tím. 3:16, 17.