Læturðu það sem ritað er hafa áhrif á hjarta þitt?
„Allt þetta ... er ritað til viðvörunar okkur sem endir aldanna er kominn yfir.“ – 1. KOR. 10:11.
1, 2. Hvers vegna ætlum við að skoða mistök fjögurra Júdakonunga?
EF ÞÚ sæir mann renna til og detta á göngustíg myndirðu ábyggilega fara varlega þegar þú gengur sömu leið. Við getum lært af mistökum annarra og forðast að gera sömu mistök og þeir. Þetta gildir einnig um þjónustu okkar við Jehóva. Við getum dregið dýrmæta lærdóma af mistökum annarra, meðal annars fólks sem sagt er frá í Biblíunni.
2 Júdakonungarnir fjórir, sem rætt var um í greininni á undan, þjónuðu Jehóva af öllu hjarta. Þeim varð þó á að gera ýmis alvarleg mistök. Hvaða lærdóm getum við dregið af þeim og hvernig getum við forðast að gera sömu mistök og þeir? Sagt er frá þeim í Biblíunni til að við getum velt reynslu þeirra fyrir okkur og lært af henni. – Lestu Rómverjabréfið 15:4.
ÞAÐ ER ÁVÍSUN Á ÓGÆFU AÐ TREYSTA Á VISKU MANNA
3-5. (a) Hvaða mistök gerði Asa þó að hjarta hans væri óskipt gagnvart Jehóva? (b) Hvers vegna kann Asa að hafa reitt sig á menn þegar Basa ógnaði Júda?
3 Lítum fyrst á Asa og skoðum hvernig við getum látið orð Guðs hafa áhrif á líf okkar. Asa reiddi sig á Jehóva þegar milljón manna her frá Eþíópíu réðst inn í Júda en gerði það hins vegar ekki þegar Basa Ísraelskonungur tók að víggirða borgina Rama sem stóð við landamæri Júda. (2. Kron. 16:1-3) Í síðara tilvikinu treysti Asa á sína eigin visku og mútaði Benhadad Sýrlandskonungi til að ráðast gegn Basa. Virkaði þetta herbragð? „Þegar Basa frétti þetta hætti hann að víggirða Rama,“ segir í Biblíunni. (2. Kron. 16:5) Herbragð Asa virkaði sem sagt – fljótt á litið.
4 En hvernig skyldi Jehóva hafa litið á það sem Asa gerði? Honum mislíkaði að Asa skyldi ekki treysta sér og sendi Hananí, talsmann sinn, til að ávíta hann. (Lestu 2. Kroníkubók 16:7-9.) „Þess vegna muntu eiga í ófriði héðan í frá,“ sagði Hananí. Basa hrökklaðist burt en Asa og þjóð hans mátti búa við ófrið það sem eftir var af stjórnartíð hans.
5 Eins og fram kom í greininni á undan komst Jehóva að þeirri niðurstöðu að hjarta Asa væri óskipt gagnvart sér. (1. Kon. 15:14, Biblían 1981) Í augum Guðs var Asa í meginatriðum trúr og uppfyllti kröfur hans. Hann þurfti samt sem áður að taka afleiðingum óskynsamlegra ákvarðana sinna. Hvað varð til þess að Asa reiddi sig ekki á Jehóva í samskiptum við Basa heldur á menn – Benhadad og sjálfan sig? Ætli hann hafi ímyndað sér að milliríkjasamningar eða herkænska skilaði betri árangri en að leita hjálpar hjá Guði? Eða hlustaði hann kannski á slæm ráð?
6. Hvað getum við lært af mistökum Asa? Lýstu með dæmi.
6 Hvað getum við lært af mistökum Asa? Þegar við stöndum frammi fyrir vandamáli sem virðist óyfirstíganlegt finnst okkur líklega augljóst að við þurfum að reiða okkur á Jehóva. En hvað gerum við þegar við þurfum að takast á við smærri mál í dagsins önn? Eigum við það til að treysta á sjálf okkur og reyna að leysa vandann ein og óstudd? Eða byrjum við á því að kanna hvað Biblían segir um málið og reynum síðan að fylgja leiðbeiningum hennar til að leysa vandann? Segjum til dæmis að fjölskylda þín setji sig stundum upp á móti því að þú sækir samkomur eða mót. Biðurðu þá Jehóva að leiðbeina þér og benda þér á hvernig best sé að taka á málinu? Eða segjum að þú hafir verið atvinnulaus um tíma en þér sé loksins boðið í atvinnuviðtal. Segirðu þá tilvonandi vinnuveitanda að þú sækir samkomur í hverri viku þó að það geti haft áhrif á hvort þú fáir starfið? Hvert sem vandamálið er ættum við að gera eins og sálmaskáldið hvatti til: „Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.“ – Sálm. 37:5.
HVAÐA ÁHRIF GETUR VONDUR FÉLAGSSKAPUR HAFT Á ÞIG?
7, 8. Hvaða mistök gerði Jósafat og með hvaða afleiðingum? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
7 Snúum okkur nú að Jósafat, syni Asa. Hann hafði margt til brunns að bera. Hann reiddi sig á Guð og gerði margt gott. En hann tók líka óviturlegar ákvarðanir. Til dæmis gifti hann son sinn dóttur hins illa konungs Akabs í Norðurríkinu Ísrael. Og þrátt fyrir viðvaranir Míka spámanns fór hann ásamt Akab í stríð gegn Sýrlendingum. Jósafat komst naumlega undan og sneri aftur til Jerúsalem. (2. Kron. 18:1-32) Þegar heim kom gekk spámaðurinn Jehú til móts við hann og spurði: „Ber þér að hjálpa hinum guðlausa og vingast við þá sem hata Drottin?“ – Lestu 2. Kroníkubók 19:1-3.
8 Lærði Jósafat af reynslunni? Þótt hann elskaði Jehóva og vildi þóknast honum virðist hann ekki hafa dregið lærdóm af viðvörun Jehús og samskiptum sínum við Akab. Hann tók aftur þá óviturlegu ákvörðun að gera bandalag við óvin Guðs. Það var við Ahasía konung sem var sonur Akabs. Jósafat og Ahasía létu í sameiningu smíða skip sem brotnuðu í spón og nýttust aldrei eins og áformað var. – 2. Kron. 20:35-37.
9. Hvaða áhrif getur vondur félagsskapur haft á okkur?
9 Frásagan af Jósafat ætti að vera okkur hvatning til að líta í eigin barm. Hvernig þá? Á heildina litið var Jósafat góður konungur. Hann gerði rétt og „leitaði Drottins af öllu hjarta“. (2. Kron. 22:9) Hann var samt ekki ónæmur fyrir þeim áhrifum sem vondur félagsskapur hefur. Mundu eftir orðskviðnum sem segir: „Eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim sem leggur lag sitt við heimskingja.“ (Orðskv. 13:20) Við reynum kannski að hjálpa áhugasömum að eignast samband við Jehóva. Það getur þó verið varasamt að eiga óþarflega mikil samskipti við þá sem þjóna ekki Jehóva. Mundu að samskipti Jósafats við Akab kostuðu hann næstum lífið.
10. (a) Hvaða lærdóm geturðu dregið af Jósafat ef þig langar til að giftast? (b) Hvað ættum við að hafa hugfast varðandi félagsskap?
10 Segjum að þig langi til að gifta þig. Hvaða lærdóm geturðu þá dregið af Jósafat? Það gæti hent þjón Jehóva að verða hrifinn af manneskju sem elskar ekki Jehóva. Hann ímyndar sér ef til vill að hann geti ekki fundið sér maka við hæfi innan safnaðarins. Stundum gerist það líka að ættingjar, sem eru ekki vottar, þrýsta á þjón Guðs að gifta sig ,áður en hann verður of gamall‘. Og sumum er kannski innanbrjósts eins og systurinni sem sagði: „Það er innbyggt í okkur að þrá ást og félagsskap.“ Hvað getur þjónn Jehóva gert? Það getur verið gott fyrir hann að rifja upp sögu Jósafats. Yfirleitt leitaði hann leiðsagnar Guðs. (2. Kron. 18:4-6) En hvað gerðist þegar hann lagði lag sitt við Akab sem elskaði ekki Jehóva hið minnsta? Jósafat hefði átt að hafa hugfast að augu Jehóva „skima um alla jörðina til þess að geta komið þeim til hjálpar sem eru heils hugar við hann“. (2. Kron. 16:9) Við ættum líka að muna það. Jehóva skilur aðstæður okkar og elskar okkur. Trúirðu að hann sjái til þess að þú fáir að njóta þeirrar ástar og félagsskapar sem þú þarfnast? Þú mátt treysta að sá tími kemur að hann fullnægir þessum þörfum þínum.
GÆTTU ÞESS AÐ VERÐA EKKI HROKAFULLUR Í HJARTA ÞÉR
11, 12. (a) Hvernig sýndi Hiskía hvað bjó í hjarta hans? (b) Hvers vegna fyrirgaf Jehóva Hiskía?
11 Við getum dregið ákveðinn lærdóm af Hiskía. Jehóva, sem rannsakar hjartað, dró einu sinni fram hvað bjó innra með honum. (Lestu 2. Kroníkubók 32:31.) Hiskía veiktist alvarlega og Guð gaf honum þá tákn til merkis um að hann myndi ná sér. Táknið fólst í því að skuggi á sólskífu færðist aftur á bak. Herforingjarnir í Babýlon virðast hafa frétt af þessu tákni og sendu fulltrúa sína til að spyrjast fyrir um það. (2. Kon. 20:8-13; 2. Kron. 32:24) Jehóva „yfirgaf“ Hiskía í þeim skilningi að hann leyfði honum að sýna hvað bjó í hjarta hans. Hiskía gerði þau heimskulegu mistök að sýna mönnunum „alla fjárhirslu sína“.
12 Biblían lætur ósagt hvað olli því að Hiskía varð hrokafullur í hjarta sér. Ætli það hafi verið sigurinn yfir Assýringum eða að hann læknaðist fyrir kraftaverk? Skyldi það hafa verið það að hann varð „mjög auðugur og mikils metinn“? Hver sem ástæðan var varð hann hrokafullur og „endurgalt ekki þá velvild, sem honum hafði verið sýnd“. En dapurlegt. Hiskía bakaði sér vanþóknun Jehóva um tíma þó að hann hefði þjónaði honum af öllu hjarta. „En Hiskía auðmýkti sig“ síðar og þess vegna kom reiði Guðs ekki yfir hann og þjóðina. – 2. Kron. 32:25-27; Sálm. 138:6.
13, 14. (a) Hvenær gæti Jehóva ,yfirgefið okkur til að reyna okkur‘? (b) Hvernig ættum við að bregðast við þegar okkur er hrósað fyrir eitthvað?
13 Hvaða lærdóm getum við dregið af Hiskía og alvarlegum mistökum hans? Hroki Hiskía kom fram í dagsljósið skömmu eftir að Jehóva yfirbugaði Sanheríb og læknaði Hiskía af banvænum sjúkdómi. Segjum að okkur hafi tekist vel til með eitthvað sem við gerðum. Getur þá verið að Jehóva ,yfirgefi okkur til að reyna okkur‘ þannig að við getum sýnt hvað býr í hjarta okkar? Hugsum okkur til dæmis að bróðir hafi lagt hart að sér við að undirbúa og flytja ræðu fyrir stórum hópi áheyrenda. Margir hrósa honum fyrir ræðuna. Hvernig bregst hann við hrósinu?
14 Þegar okkur er hrósað ættum við að gera eins og Jesús hvatti til. Hann sagði: ,Þegar þér hafið gert allt sem yður var boðið skuluð þér segja: „Ónýtir þjónar erum vér. Vér höfum gert það eitt sem oss bar að gera.“‘ (Lúk. 17:10) Enn og aftur getum við dregið lærdóm af Hiskía. Hroki hans birtist í því að hann „endurgalt ekki þá velvild, sem honum hafði verið sýnd“. Það er gott að íhuga hve mikið Jehóva hefur gert fyrir okkur. Það auðveldar okkur að forðast viðhorf sem hann hatar. Við getum talað með þakklæti um hann því að hann gaf okkur bæði Biblíuna og heilagan anda sem gerir okkur kleift að gera verkefnum okkar góð skil.
TÖKUM EKKI ÁKVARÐANIR Í FLJÓTFÆRNI
15, 16. Hvers vegna missti Jósía vernd Jehóva og týndi lífi?
15 Að síðustu skulum við skoða það sem læra má af sögu Jósía konungs. Könnum hvað varð til þess að þessi góði konungur tapaði í orrustu og dó. (Lestu 2. Kroníkubók 35:20-22.) Jósía lagði út í stríð við Nekó, konung Egyptalands, þó að sá síðarnefndi segðist ekki eiga neitt sökótt við hann. Í Biblíunni segir að orð Nekós hafi komið „úr munni Guðs“. Hvers vegna lagði Jósía þá út í orrustu við hann? Það er ósagt látið í Biblíunni.
16 Hvernig gat Jósía vitað að það sem Nekó sagði væri frá Jehóva? Hann hefði getað spurt Jeremía, einn af trúum spámönnum Guðs. (2. Kron. 35:23, 25) Hvergi kemur þó fram að hann hafi gert það. Auk þess var Nekó ekki á leiðinni til Jerúsalem til að herja á hana heldur til Karkemis til að berjast gegn annarri „konungsætt“. Nekó reyndi ekki að misbjóða Jehóva né þjóð hans. Það vitnaði því um slæma dómgreind af hálfu Jósía að leggja út í stríð við Nekó. Hvaða lærdóm getum við dregið af því? Þegar vandamál blasir við er gott að kanna hvernig Jehóva vill að við bregðumst við.
17. Hvernig getum við forðast að gera svipuð mistök og Jósía þegar við tökum ákvarðanir?
17 Þegar við þurfum að taka ákvörðun ættum við að skoða hvaða meginreglur Biblíunnar eiga við og hvernig best sé að fylgja þeim. Í sumum tilfellum gæti verið gott að leita ráða hjá öldungum safnaðarins. Við höfum ef til vill hugleitt það sem við vitum um þetta mál og jafnvel leitað fanga í ritunum okkar. Öldungur gæti samt bent okkur á aðrar meginreglur sem varða málið. Tökum dæmi: Systir í söfnuðinum hefur hugsað sér að fara út í boðunina á ákveðnum degi. Hún veit að það er skylda hennar að boða fagnaðarerindið. (Post. 4:20) Maðurinn hennar er ekki í trúnni og hann vill að hún sé heima þennan dag. Hann nefnir að þau hafi ekki verið mikið saman undanfarið og hann langar til að þau geri eitthvað í sameiningu. Hún veltir fyrir sér ýmsum biblíuversum, svo sem versunum þar sem segir að okkur beri að hlýða Guði og gera fólk að lærisveinum. (Matt. 28:19, 20; Post. 5:29) En hún veit að hún þarf líka að vera sanngjörn og undirgefin eiginmanni sínum. (Ef. 5:21-24; Tít. 3:1, 2) Er maðurinn hennar algerlega mótfallinn því að hún boði fagnaðarerindið eða er hann bara að biðja hana að gera eitthvað annað þennan ákveðna dag? Við sem þjónum Jehóva viljum vera skynsöm þegar við tökum ákvarðanir og leggja okkur fram um að þóknast honum.
NJÓTTU ÞESS AÐ ÞJÓNA JEHÓVA AF ÖLLU HJARTA
18. Hvaða lærdóm geturðu dregið af konungunum fjórum sem rætt er um í þessari grein?
18 Þar sem við erum ófullkomin er viss hætta á að við gerum sömu mistök og konungarnir fjórir sem rætt er um í þessari grein. Við gætum (1) treyst á visku manna, (2) leitað í vondan félagsskap, (3) orðið hrokafull eða (4) tekið ákvarðanir án þess að kanna fyrst hver sé vilji Guðs. Það er gott til þess að vita að Jehóva sér hið góða í fari okkar, rétt eins og hann sá hjá konungunum fjórum. Hann sér líka hve heitt við elskum hann og að við þráum að þjóna honum af öllu hjarta. Þess vegna sá hann til þess að sagt yrði frá fólki í Biblíunni sem við getum dregið lærdóm af til að forðast alvarleg mistök. Við skulum íhuga þessar frásögur Biblíunnar og vera Jehóva þakklát fyrir að láta skrá þær.