Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir Esrabókar
ESRABÓK tekur upp þráðinn þar sem frá er horfið í 2. Kroníkubók. Esra prestur, sem skrifar bókina, segir fyrst frá því að Kýrus Persakonungur gefur út tilskipun þess efnis að Gyðingar megi snúa heim úr útlegðinni í Babýlon. Í bókarlok er greint frá því hvernig Esra gerir ráðstafanir til þess að þeir sem hafa saurgast af landsmönnum hreinsi sig. Bókin spannar 70 ára sögu, frá 537 til 467 f.Kr.
Esra hefur mjög ákveðið markmið með gerð bókarinnar. Hann vill sýna fram á hvernig Jehóva uppfyllti loforð sitt um að frelsa þjóðina úr útlegðinni í Babýlon og endurvekja sanna tilbeiðslu í Jerúsalem. Hann fjallar því aðeins um atburði sem tengjast þessu markmiði á einhvern hátt. Esrabók segir frá því hvernig musterið er endurreist og hvernig tilbeiðslan á Jehóva er endurvakin þrátt fyrir andstöðu og þrátt fyrir ófullkomleika þeirra sem þjóna Guði. Bókin er afar áhugaverð fyrir okkur vegna þess að við lifum líka á endurreisnartímum. Margir streyma „upp á fjall Drottins“ Jehóva og öll jörðin verður bráðlega „full af þekking á dýrð Drottins“. — Jesaja 2:2, 3; Habakkuk 2:14.
MUSTERIÐ ENDURBYGGT
Um 50.000 Gyðingar snúa heim til Jerúsalem úr útlegðinni eftir að Kýrus gefur út tilskipun sína þess efnis að þeir séu frjálsir. Serúbabel landstjóri, einnig nefndur Sesbasar, fer með forystu hópsins. Við heimkomuna er reist altari þar sem musterið hafði staðið og byrjað er að færa Jehóva fórnir.
Ísraelsmenn leggja grunninn að húsi Jehóva árið eftir. Óvinir trufla byggingarstarfið hvað eftir annað og þeim tekst að lokum að fá konungsúrskurð um að verkið skuli stöðvað. Spámennirnir Haggaí og Sakaría hvetja fólkið til dáða þannig að það tekur aftur til við byggingu musterisins þrátt fyrir bannið. Andstæðingarnir dirfast ekki að skerast í leikinn. Þeir þora ekki að setja sig upp á móti óbreytanlegri tilskipun Persa sem Kýrus hafði gefið út. Við opinbera rannsókn finnst tilskipun Kýrusar um „hús Guðs í Jerúsalem“. (Esrabók 6:3) Verkinu miðar vel og musterið er að lokum fullgert.
Biblíuspurningar og svör:
1:3-6 — Voru þeir Ísraelsmenn, sem buðu sig ekki fram til að snúa heim, veikir í trúnni? Sumir voru ef til vill haldnir efnishyggju eða kunnu ekki að meta sanna tilbeiðslu en það gilti ekki um alla. Í fyrsta lagi var leiðin heim um 1600 kílómetrar og kostaði fjögurra til fimm mánaða ferðalag. Í öðru lagi þurfti mikið þrek til að endurreisa byggð í landi sem hafði legið í eyði í 70 ár. Heilsubrestur, hár aldur, fjölskylduaðstæður og annað slíkt hefur því eflaust komið í veg fyrir að sumir gætu snúið heim.
2:43 — Hverjir voru musterisþjónarnir? Þetta voru menn af erlendum uppruna sem þjónuðu í musterinu eins og nafnið gefur til kynna. Þetta voru meðal annars afkomendur Gíbeoníta frá dögum Jósúa og fleiri „sem Davíð og höfðingjar hans höfðu sett til að þjóna levítunum“. — Esrabók 8:20.
2:55 — Hverjir voru niðjar þræla Salómons? Hér er um að ræða menn af erlendum uppruna sem fengu sérstök verkefni í þjónustu Jehóva. Hugsanlegt er að þeir hafi unnið við skriftir eða afritun í musterinu eða unnið við stjórnsýslu.
2:61-63 — Höfðu hinir heimkomnu útlagar aðgang að úrím og túmmím sem notuð voru til að leita svara hjá Jehóva? Þeir sem kváðust prestaættar en gátu ekki lagt fram ættartölur sínar hefðu getað stutt tilkall sitt þess með því að nota úrím og túmmím. Esra nefnir þetta aðeins sem möguleika. Biblían minnist hvergi á að úrím og túmmím hafi verið notuð þá eða síðar. Samkvæmt arfsögnum Gyðinga týndust úrím og túmmím þegar musterið var lagt í rúst árið 607 f.Kr.
3:12 — Hvers vegna grétu „öldungar þeir, er séð höfðu hið fyrra musterið“? Þeir mundu hve stórfenglegt musterið var sem Salómon reisti. Grundvöllur þess nýja var nánast ‚einskisverður í augum þeirra‘ í samanburði við fyrra musterið. (Haggaí 2:2, 3) Skyldi vera hægt að endurheimta dýrð fyrra musterisins? Þeir hljóta að hafa verið vondaufir um það og þess vegna grétu þeir.
3:8-10; 4:23, 24; 6:15, 16 — Hve mörg ár tók að endurbyggja musterið? Grunnurinn að musterinu var lagður árið 536 f.Kr., „á öðru ári eftir heimkomu þeirra“. Byggingarstarfið stöðvaðist árið 522 f.Kr., á dögum Artaxerxesar konungs (einnig nefndur Artahsasta). Bannið stóð til 520 f.Kr. sem var annað stjórnarár Daríusar. Endurbyggingunni lauk á sjötta stjórnarári hans sem var 515 f.Kr. (Sjá töfluna „Persakonungar frá 537 til 467 f.Kr.“) Endurbyggingin tók því um 20 ár.
4:8–6:18 — Af hverju eru þessi vers skrifuð á arameísku? Í þessum hluta bókarinnar eru aðallega afrit af bréfum frá embættismönnum til konunga og svör við þeim. Esra afritaði þau eftir opinberum heimildum sem voru á arameísku en hún var notuð í viðskiptum og stjórnsýslu á þeim tíma. Aðrir staðir í Biblíunni, sem eru skrifaðir á þessu forna semíska tungumáli, eru Esrabók 7:12-26; Jeremía 10:11 og Daníel 2:4b–7:28.
Lærdómur:
1:2. Spádómur Jesaja frá því um 200 árum áður rættist. (Jesaja 44:28) Spádómarnir í orði Jehóva bregðast aldrei.
1:3-6. Margir vottar Jehóva, sem geta ekki þjónað í fullu starfi eða starfað þar sem þörfin er meiri, styðja og hvetja þá sem hafa tök á því. Þeir gefa sjálfviljaframlög til að efla boðun og kennslu fagnaðarerindisins. Þannig líkja þeir eftir Ísraelsmönnum sem urðu eftir í Babýlon en studdu þá sem fóru heim.
3:1-6. Trúir þjónar Guðs, sem sneru heim, færðu fyrstu fórnina í sjöunda mánuðinum (tísrí sem svarar til september-október) árið 537 f.Kr. Nebúkadnesar konungur braust inn í Jerúsalem í fimmta mánuðinum (ab sem svarar til júlí-ágúst) árið 607 f.Kr. og tveim mánuðum síðar var borgin í rúst. (2. Konungabók 25:8-17, 22-26) Jerúsalem lá því í eyði í nákvæmlega 70 ár eins og spáð hafði verið. (Jeremía 25:11; 29:10) Allt sem sagt er fyrir í orði Jehóva rætist.
4:1-3. Hinir heimkomnu Gyðingar höfnuðu tilboði sem hefði haft í för með sér trúarlegt bandalag við falsguðadýrkendur. (2. Mósebók 20:5; 34:12) Tilbiðjendur Jehóva nú á dögum eiga ekki heldur samstarf við önnur trúfélög.
5:1-7; 6:1-12. Jehóva getur búið svo um hnútana að allt gangi þjónum hans í haginn.
6:14, 22. Við hljótum velþóknun Jehóva og blessun ef við tökum dyggilega þátt í starfi hans.
6:21. Heimkomnir Gyðingar, sem höfðu látið undan heiðnum áhrifum, og Samverjar, sem bjuggu meðal þeirra, gerðu nauðsynlegar breytingar á líferni sínu þegar þeir sáu hvernig verki Jehóva miðaði áfram. Ættum við ekki að vera dugleg í því sem Guð hefur falið okkur, þar á meðal að boða fagnaðarerindið um ríkið?
ESRA KEMUR TIL JERÚSALEM
Fimmtíu ár eru liðin síðan hús Jehóva var endurbyggt og vígt. Það er árið 468 f.Kr. Þá leggur Esra upp frá Babýlon og heldur til Jerúsalem ásamt hópi Gyðinga. Hvað blasir við honum við heimkomuna?
Höfðingjarnir segja honum: „Ísraelslýður og prestarnir og levítarnir hafa ekki haldið sér frá hinum heiðnu íbúum landsins, sem skylt hefði verið vegna viðurstyggða þeirra.“ Auk þess „hafa höfðingjarnir og yfirmennirnir gengið á undan í þessu tryggðrofi“. (Esrabók 9:1, 2) Esra er miður sín en fær hvatningu til að herða upp hugann og gera það sem gera þarf. (Esrabók 10:4) Hann tekur í taumana og fær jákvæð viðbrögð meðal fólksins.
Biblíuspurningar og svör:
7:1, 7, 11 — Er í öllum versunum átt við Artahsasta þann sem stöðvaði byggingarframkvæmdirnar? Nei, tveir Persakonungar hétu eða báru titilinn Artahsasta (eða Artaxerxes). Annar þeirra var annaðhvort Bardía eða Gaumata sem fyrirskipaði árið 522 f.Kr. að vinnan við musterið skyldi stöðvuð. Það var Artaxerxes Longimanus sem var við völd þegar Esra kom til Jerúsalem.
7:28–8:20 — Af hverju voru margir Gyðingar í Babýlon tregir til að fara til Jerúsalem með Esra? Þótt liðnir væru meira en sex áratugir frá því að fyrri hópurinn af Gyðingum sneri heim var byggð enn þá strjál í Jerúsalem. Það fylgdu því margs konar óþægindi og ýmsar hættur að hefja nýtt líf í borginni. Jerúsalem þess tíma bauð ekki upp á mikil þægindi eða möguleika fyrir Gyðinga sem höfðu efnast vel í Babýlon. Og ekki mátti gleyma því að ferðin heim var áhættusöm. Þeir sem sneru heim þurftu að hafa sterka trú á Jehóva, brennandi áhuga á sannri tilbeiðslu og hugrekki til að flytjast búferlum. Esra tók í sig hug því að hönd Jehóva hvíldi yfir honum. Fimmtán hundruð fjölskyldur, ef til vill um 6000 manns, tóku sig upp að áeggjan hans. Í framhaldinu bættust við 38 levítar og 220 musterisþjónar, einnig fyrir hvatningu Esra.
9:1, 2 — Hversu alvarleg hætta stafaði af því að Gyðingar skyldu mægjast við landsmenn? Hinir heimkomnu Ísraelsmenn áttu að standa vörð um tilbeiðsluna á Jehóva þangað til Messías kæmi. Sönn tilbeiðsla var í hættu þegar þeir mægðust við aðra íbúa landsins. Þar eð sumir höfðu stofnað til hjúskapar við skurðgoðadýrkendur var hætta á að öll þjóðin samlagaðist heiðnum siðum. Hrein tilbeiðsla hefði getað horfið af jörðinni. Til hverra átti Messías þá að koma? Það er engin furða að Esra skyldi verða agndofa yfir því sem hafði átt sér stað.
10:3, 44 — Af hverju voru börnin send burt með mæðrum sínum? Ef börnin hefðu orðið eftir eru meiri líkur á að mæðurnar hefðu snúið aftur. Auk þess þarfnast ung börn yfirleitt umönnunar mæðra sinna.
Lærdómur:
7:10. Esra var iðinn biblíunemandi og góður kennari og er því góð fyrirmynd fyrir okkur. Hann sneri huga sínum að því að rannsaka lögmál Jehóva og gerði það að bænarefni. Hann lagði sig allan fram um að gefa nákvæman gaum að orðum Jehóva. Hann fór eftir því sem hann lærði og lagði hart að sér við að kenna öðrum.
7:13. Jehóva vill að við þjónum sér fúslega.
7:27, 28; 8:21-23. Esra þakkaði Jehóva, bað einlæglega til hans áður en hann lagði upp í langa og hættulega ferð til Jerúsalem og var fús til að setja sig í hættu Guði til dýrðar. Hann er okkur góð fyrirmynd.
9:2. Við verðum að taka alvarlega þá hvatningu að giftast aðeins „í Drottni“. — 1. Korintubréf 7:39.
9:14, 15. Vondur félagsskapur getur kallað yfir okkur vanþóknun Jehóva.
10:2-12, 44. Þeir sem höfðu tekið sér útlendar eiginkonur iðruðust auðmjúklega og bættu ráð sitt. Þeir eru til fyrirmyndar með hugarfari sínu og breytni.
Jehóva heldur loforð sín
Esrabók er mjög verðmæt fyrir okkur. Á nákvæmlega réttum tíma uppfyllti Jehóva loforð sitt um að frelsa þjóð sína úr útlegðinni í Babýlon og endurreisa sanna tilbeiðslu í Jerúsalem. Styrkir það ekki trú okkar á Jehóva og loforð hans?
Í Esrabók er margt góðra fordæma. Esra og þeir sem fóru með honum til Jerúsalem til að endurreisa sanna tilbeiðslu eru til fyrirmyndar með hollustu sinni við Guð. Bókin heldur einnig á lofti trú guðhræddra útlendinga og auðmjúku hugarfari iðrandi syndara. Hin innblásna bók Esra er skýr sönnun þess að orð Guðs sé „lifandi og kröftugt“. — Hebreabréfið 4:12.
[Skýringarmynd/mynd á blaðsíðu 19]
PERSAKONUNGAR FRÁ 537 TIL 467 F.KR.
Kýrus mikli (Esrabók 1:1), dó árið 530 f.Kr.
Kambýses (Ahasverus) (Esrabók 4:6) 530-522 f.Kr.
Artaxerxes (Bardía eða Gaumata) (Esrabók 4:7) 522 f.Kr. (Ráðinn af dögum aðeins sjö mánuðum eftir valdatöku)
Daríus fyrsti (Esrabók 4:24) 522-486 f.Kr.
Xerxes (Ahasverus)a 486-475 f.Kr. (Ríkti ásamt Daríusi fyrsta frá 496-486 f.Kr.)
Artaxerxes Longimanus (Esrabók 7:1) 475-424 f.Kr.
[Neðanmáls]
a Xerxes er ekki nefndur í Esrabók. Í Esterarbók er hann kallaður Ahasverus.
[Mynd]
Ahasverus.
[Mynd á blaðsíðu 18]
Kýrus
[Mynd á blaðsíðu 18]
Á kefli Kýrusar kemur fram að það hafi verið stefna hans að leyfa útlægum mönnum að snúa heim aftur.
[Rétthafi]
Kefli: Ljósmyndað með góðfúslegu leyfi British Museum.
[Mynd á blaðsíðu 21]
Veistu af hverju Esra var góður kennari?