„Hver hefir lagt vísdóm í hin dimmu ský?“
„ÞÁ er þér sjáið ský draga upp í vestri, segið þér jafnskjótt: ‚Nú fer að rigna.‘ Og svo verður. Og þegar vindur blæs af suðri, segið þér: ‚Nú kemur hiti.‘ Og svo fer.“ Þessi orð Jesú, sem guðspjallaritarinn Lúkas skráði niður, eru dæmi um veðurspár manna í Palestínu til forna. (Lúkas 12:54, 55) Við vissar aðstæður gátu fornmenn lesið táknin og komið með nákvæmar spár fyrir stutt tímabil.
Nú á dögum nota veðurfræðingar háþróuð tæki eins og gervihnetti, dopplerratsjá og öflugar tölvur til að fylgjast með veðurmynstri fyrir lengri tímabil. En oft reynast spár þeirra rangar. Af hverju?
Margt getur torveldað nákvæma verðurspá. Til dæmis geta ófyrirsjáanlegar breytingar á hitastigi, rakastigi, loftþrýstingi, vindhraða og vindátt flækt málið. Þar við bætist flókið samspil sólar, skýja og hafs sem vísindamenn skilja enn ekki að fullu. Af þeirri ástæðu er veðurfræði ónákvæm vísindagrein.
Takmörkuð þekking mannsins á veðráttunni minnir okkur á spurninguna sem Job spurði: „Hver hefir getið daggardropana? Af kviði hverrar er ísinn útgenginn, . . . Getur þú lyft raust þinni upp til skýsins, svo að vatnaflaumurinn hylji þig? . . . Hver hefir lagt vísdóm í hin dimmu ský eða hver hefir gefið loftsjónunum vit? Hver telur skýin með visku, og vatnsbelgir himinsins — hver hellir úr þeim?“ — Jobsbók 38:28-37.
Svarið við öllum þessum spurningum er: Ekki maðurinn heldur Jehóva Guð. Já, hve vitrir sem mennirnir virðast vera, er viska skapara okkar langtum æðri. Það er sannarlega kærleiksríkt af hans hálfu að gefa okkur aðgang að visku sinni á síðum Biblíunnar svo að okkur megi vegna vel. — Orðskviðirnir 5:1, 2.