Stattu gegn áróðri Satans
,LÁTIÐ ekki blekkja ykkur. Guð mun ekki hjálpa ykkur. Gefist upp eða takið afleiðingunum.‘ Þetta voru í meginatriðum skilaboðin til íbúa Jerúsalem sem marskálkur Sanheríbs Assýríukonungs flutti þeim. Her konungsins hafði ráðist inn í Júda. Skilaboðunum var ætlað að veikja baráttuþrek íbúanna og hræða þá til að gefast upp. — 2. Kon. 18:28-35.
Assýringar voru þekktir fyrir grimmd og hrottaskap. Þeir vöktu ótta meðal óvina sinna með því að gera þeim ljóst í óhugnanlegum smáatriðum hversu illa þeir fóru með fanga. Að sögn sagnfræðingsins Philips Taylors var það „stefna þeirra að hræða fólk og breiða út áróður til að hafa stjórn á þeim sem þeir höfðu sigrað. Þeir reyndu einnig að skelfa hugsanlega óvini með myndrænum áróðri ásamt grimmilegri sálfræði.“ Áróður er máttugt vopn. Hann „ræðst á hugann,“ segir Taylor.
Sannkristnir menn eiga í baráttu en „ekki við menn af holdi og blóði heldur við . . . andaverur vonskunnar í himingeimnum“, það er að segja andaverur sem gerðu uppreisn gegn Guði. (Ef. 6:12) Satan djöfullinn er höfðingi þeirra. Hann notar einnig ótta ásamt áróðri.
Satan heldur því fram að hann geti brotið niður ráðvendni hvers og eins okkar. Þegar ættfaðirinn Job var uppi sagði Satan við Jehóva Guð: „Menn láta allt sem þeir eiga fyrir líf sitt.“ Með öðrum orðum, ef einhver maður er beittur nægum þrýstingi mun hann fyrr eða síðar hætta að vera Guði ráðvandur. (Job. 2:4) Hefur Satan rétt fyrir sér? Er okkur öllum takmörk sett hvað við getum þolað? Og ef farið er yfir þessi mörk munum við þá láta af ráðvendni okkar til að halda lífi? Satan vill að við hugsum þannig. Hann notar því lúmskan áróður til að koma þeirri hugmynd inn hjá okkur. Skoðum hvernig hann fer að þessu og hvernig við getum staðið gegn honum.
Þeir „eiga rót sína að rekja til moldarinnar“
Satan notaði Elífas, einn af þrem félögum Jobs, til að færa rök fyrir því að mennirnir séu allt of veikburða til að vera Guði trúir. Hann talaði um að menn ,búi í leirhúsum‘. Hann sagði við Job: „[Þeir] eiga rót sína að rekja til moldarinnar, sem marðir eru sundur sem mölur væri. Milli morguns og kvelds eru þeir molaðir sundur, án þess að menn gefi því gaum, tortímast þeir gjörsamlega.“ — Job. 4:19, 20.
Á öðrum stöðum í Biblíunni er okkur líkt við brothætt ,leirker‘. (2. Kor. 4:7) Við erum veikburða vegna þess að við höfum erft synd og ófullkomleika. (Rómv. 5:12) Ein og sér erum við berskjölduð fyrir árásum Satans. En sem kristnir menn getum við reitt okkur á hjálp Jehóva. Við erum dýrmæt í augum hans þrátt fyrir veikleika okkar. (Jes. 43:4) Þar að auki gefur hann heilagan anda sinn þeim sem biðja hann. (Lúk. 11:13) Andi hans getur gefið okkur ,kraftinn mikla‘ og gert okkur kleift að standast hvers konar mótlæti af hendi Satans. (2. Kor. 4:7; Fil. 4:13) Ef við tökum afstöðu gegn djöflinum „stöðug í trúnni“ þá mun Guð gefa okkur þann styrk sem við þurfum á að halda. (1. Pét. 5:8-10) Við þurfum því ekki að óttast Satan djöfulinn.
Maðurinn „svelgir í sig ranglæti“
„Hvernig getur dauðlegur maður verið hreinn og sá haft rétt fyrir sér sem er af konu fæddur?“ spurði Elífas. Hann svaraði síðan eigin spurningu og sagði: „[Guð] getur ekki einu sinni treyst sínum heilögu og himinninn er ekki hreinn í augum hans, hvað þá andstyggilegur og spilltur maður sem svelgir í sig ranglæti eins og vatn.“ (Job. 15:14-16) Elífas var að segja Job að í augum Jehóva væri enginn maður réttlátur. Djöfullinn reynir líka að spila á neikvæðar tilfinningar. Hann vill að við höfum áhyggjur af fyrri mistökum, séum of gagnrýnin á okkur sjálf og teljum að okkur sé ekki viðbjargandi. Hann vill einnig að við ofmetum hvers Jehóva ætlast til af okkur og vanmetum samúð hans, fyrirgefningu og stuðning.
Auðvitað hafa allir „syndgað og skortir Guðs dýrð“. Enginn ófullkominn maður stenst fullkominn mælikvarða Jehóva. (Rómv. 3:23; 7:21-23) En það þýðir ekki að við séum honum einskis virði. Hann veit að það er ,hinn gamli höggormur sem heitir djöfull og Satan‘ sem nýtir sér að við erum ófullkomin og syndug. (Opinb. 12:9, 10) Guð er meðvitaður um að við „erum mold“. Hann tekur tillit til þess og „þreytir eigi deilur um aldur“. — Sálm. 103:8, 9, 14.
Ef við segjum skilið við óguðlega breytni og nálgumst Jehóva með iðrunarfullu hjarta mun ,hann fyrirgefa ríkulega‘. (Jes. 55:7; Sálm. 51:17) Jafnvel þó að syndir okkar „séu sem skarlat skulu þær verða hvítar sem mjöll“. (Jes. 1:18) Við skulum því aldrei gefast upp á því að lifa í samræmi við vilja Guðs.
Við erum syndug og getum því aldrei verið réttlát frammi fyrir Guði. Adam og Eva glötuðu fullkomleikanum og möguleika sínum og okkar á eilífu lífi. (Rómv. 6:23) En vegna kærleika síns til mannkyns gerði Jehóva ráðstafanir til að fyrirgefa syndir okkar ef við sýnum trú á lausnarfórn sonar hans, Jesú Krists. (Matt. 20:28; Jóh. 3:16) „Náð Guðs“ birtist þannig með stórkostlegum hætti. (Tít. 2:11) Það er hægt að fyrirgefa syndir okkar. Hví ættum við þá að leyfa Satan að telja okkur trú um að svo sé ekki?
„Snertu hold hans og bein“
Satan hélt því fram að Job myndi láta af trú sinni ef hann missti heilsuna. Hann skoraði á Jehóva og sagði: „Snertu hold hans og bein. Þá mun hann vissulega formæla þér upp í opið geðið.“ (Job. 2:5) Andstæðingur Guðs yrði eflaust ánægður ef hann gæti talið okkur trú um að við værum einskis virði vegna heilsubrests.
En Jehóva hafnar okkur ekki þó að við getum ekki gert allt það sem við gerðum áður í þjónustu við hann. Hvað ef vinur okkar yrði fyrir árás sem skaðaði hann? Myndum við meta hann minna vegna þess að hann væri ekki lengur fær um að gera eins mikið fyrir okkur og áður? Vissulega ekki. Við myndum samt elska hann og annast — sérstaklega ef hann var að huga að okkar hag þegar hann hlaut skaðann. Ættum við að búast við einhverju minna af hendi Jehóva? Í Biblíunni segir: „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki ykkar og kærleikanum sem þið auðsýnduð honum.“ — Hebr. 6:10.
Í Biblíunni er minnst á fátæka ekkju sem hafði hugsanlega stutt tilbeiðsluna á Guði í mörg ár. Jesús fylgdist með henni þegar hún setti „tvo smápeninga“ í fjárhirsluna í musterinu. Fannst honum framlag hennar vera einskis virði? Nei, þvert á móti. Hann hrósaði henni fyrir að gera allt sem aðstæður hennar leyfðu til að styðja við sanna tilbeiðslu. — Lúk. 21:1-4.
Ef við erum trúföst Jehóva getum við verið viss um að þó að við eldumst eða veikjumst vegna ófullkomleikans hefur það engin áhrif á samband okkar við hann. Guð yfirgefur aldrei trúfasta þjóna sína þó að mótlæti skerði getu þeirra til að þjóna honum. — Sálm. 71:9, 17, 18.
„Setjið upp hjálm hjálpræðisins“
Hvernig getum við varið okkur fyrir áróðri Satans? Páll postuli skrifaði: „Styrkist í Drottni og krafti máttar hans. Klæðist alvæpni Guðs til þess að þið getið staðist vélabrögð djöfulsins.“ Einn hluti af andlegu herklæðunum er ,hjálmur hjálpræðisins‘. (Ef. 6:10, 11, 17) Vegna áróðurs Satans ættum við að fullvissa okkur um að við höfum sett á okkur hjálminn og að við höfum hann á okkur til frambúðar. Hjálmur verndar höfuð hermannsins. ,Vonin um frelsun‘ og fullvissa um að Guð stendur við loforð sín um yndislegan nýjan heim verndar hugi okkar fyrir lygum Satans. (1. Þess. 5:8) Við þurfum að halda voninni lifandi og sterkri með því að vera iðin við sjálfsnám í Biblíunni.
Job þurfti að þola hættulegar og hatursfullar árásir Satans. En trú hans á upprisuna var svo sterk að jafnvel þó að dauðinn blasti við honum missti hann ekki kjarkinn. Þess í stað sagði hann við Jehóva: „Þú mundir kalla, og ég — ég mundi svara þér, þú mundir þrá verk handa þinna.“ (Job. 14:15, Biblían 1981) Jafnvel þó að Job hefði þurft að deyja sökum ráðvendni sinnar treysti hann því að kærleikur Guðs til trúfastra þjóna sinna myndi knýja hann til að reisa þá upp frá dauðum.
Berum sama traust til hins sanna Guðs. Jehóva á mótleik gegn hverju því sem Satan og þjónar hans geta gert okkur. Munum einnig eftir hughreystandi orðum Páls: „Guð er trúr og lætur ekki reyna ykkur um megn fram heldur mun hann, þegar hann reynir ykkur, einnig sjá um að þið fáið staðist.“ — 1. Kor. 10:13.
[Mynd á bls. 20]
Jehóva kann að meta trúfasta þjónustu þína.
[Mynd á bls. 21]
Settu á þig hjálm hjálpræðisins og hafðu hann á þér.