12. kafli
Þú átt hlut að mikilvægu deilumáli
1, 2. (a) Hvers vegna skiptir það þig máli hvernig þú lifir lífinu? (b) Hvern annan skiptir það máli og hvers vegna?
EKKI ER SAMA hvernig þú lifir lífi þínu. Líferni þitt mun tryggja þér annaðhvort hamingjuríka framtíð eða óhamingjusama. Að endingu mun það ráða úrslitum um hvort þú líður undir lok með þessum heimi eða lifir af endalok hans inn í réttlátan nýjan heim Guðs þar sem þú getur lifað að eilífu. — 1. Jóhannesarbréf 2:17; 2. Pétursbréf 3:13.
2 En líferni þitt hefur áhrif á fleiri en aðeins sjálfan þig. Það sem þú gerir hefur áhrif á aðra líka. Séu til dæmis foreldrar þínir á lífi getur þú, með líferni þínu, verið þeim annaðhvort til heiðurs eða vansæmdar. Biblían segir: „Vitur sonur gleður föður sinn, en heimskur sonur er móður sinni til mæðu.“ (Orðskviðirnir 10:1) Enn meira máli skiptir þó að líferni þitt hefur áhrif á Jehóva Guð. Það getur annaðhvort glatt hann eða hryggt. Hvers vegna? Vegna þessa alvarlega deilumáls sem snertir þig.
VERÐA MENN TRÚFASTIR GUÐI?
3. Hvernig ögraði Satan Jehóva?
3 Satan djöfullinn var frumkvöðullinn að þessu deilumáli. Hann gerði það þegar honum tókst að fá Adam og Evu til að brjóta lög Guðs og slást í lið með sér í uppreisn gegn Guði. (1. Mósebók 3:1-6) Það gaf Satan, að honum fannst, tilefni til að ögra Jehóva: ‚Menn þjóna þér aðeins vegna þess sem þeir fá frá þér. Gefðu mér bara tækifæri; þá get ég snúið öllum gegn þér.‘ Enda þótt þetta standi ekki orðrétt svo í Biblíunni er ljóst að Satan sagði eitthvað af þessu tagi við Guð. Það kemur fram í Jobsbók í Biblíunni.
4, 5. (a) Hver var Job? (b) Hvað gerðist á himnum á dögum Jobs?
4 Job var uppi mörgum öldum eftir uppreisnina sem átti sér stað í Edengarðinum. Hann var réttlátur og trúfastur þjónn Guðs. En skipti það Guð eða Satan einhverju máli að Job var trúfastur? Biblían sýnir að svo var. Hún segir okkur frá því að Satan hafi gengið fram fyrir Jehóva á himnum. Gefðu gaum að umræðuefninu:
5 „Nú bar svo til einn dag, að synir Guðs komu til þess að ganga fyrir [Jehóva], og kom Satan og meðal þeirra. Mælti þá [Jehóva] til Satans: ‚Hvaðan kemur þú?‘ Satan svaraði [Jehóva] og sagði: ‚Ég hefi verið að reika um jörðina og arka fram og aftur um hana.‘ Og [Jehóva] mælti til Satans: ‚Veittir þú athygli þjóni mínum Job? því að enginn er hans líki á jörðu, maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar.‘“ — Jobsbók 1:6-8.
6. Hvaða deila sýnir Biblían að hafi verið í gangi á dögum Jobs?
6 Hvers vegna gat Jehóva þess við Satan að Job væri ráðvandur maður? Bersýnilega var um það deilt hvort Job myndi reynast Jehóva trúfastur eða ekki. Leiddu hugann að spurningu Guðs: „Hvaðan kemur þú?“ og svari Satans: „Ég hefi verið að reika um jörðina og arka fram og aftur um hana.“ Þessi spurning og svar Satans sýna að Jehóva gaf Satan frjálsar hendur til að gera alvöru úr þeirri ögrun sinni að hann gæti gert alla fráhverfa Guði. Hverju svaraði Satan spurningu Jehóva um trúfesti Jobs?
7, 8. (a) Af hvaða ástæðu þjónaði Job Guði að sögn Satans? (b) Hvað gerði Jehóva til að útkljá deilumálið?
7 „Og Satan svaraði [Jehóva] og sagði: ‚Ætli Job óttist Guð fyrir ekki neitt? Hefir þú ekki lagt skjólgarð um hann og hús hans og allt, sem hann á, hringinn í kring? Handaverk hans hefir þú blessað, og fénaður hans breiðir sig um landið. En rétt þú út hönd þína og snert þú allt, sem hann á, og mun hann þá formæla þér upp í opið geðið.‘“ — Jobsbók 1:9-11.
8 Með svari sínu var Satan að gera lítið úr trúfesti Jobs við Guð. ‚Job þjónar þér,‘ sagði Satan, ‚vegna þess sem þú gefur honum, ekki vegna þess að hann elski þig.‘ Satan kvartaði auk þess undan því að Jehóva, sem var máttugri en hann, beitti mætti sínum á ósanngjarnan hátt. ‚Þú hefur alltaf verndað hann,‘ sagði hann. Til að útkljá deilumálið svaraði Jehóva: „Sjá, veri allt, sem hann á, á þínu valdi, en á sjálfan hann mátt þú ekki leggja hönd þína.“ — Jobsbók 1:12.
9. Hvaða erfiðleikum olli Satan Job og með hvaða afleiðingum?
9 Satan lét ekki segja sér tvisvar að valda Job vandræðum. Hann lét ýmist drepa eða stela öllum búpeningi Jobs. Síðan bjó hann svo um hnútana að öll tíu börn Jobs týndu lífi. Job missti næstum allt en var þó Jehóva trúfastur. Hann formælti ekki Guði. (Jobsbók 1:2, 13-22) En málinu var ekki þar með lokið.
10. Hvað sýnir að Satan gafst ekki upp?
10 Enn gekk Satan, ásamt öðrum englum, fram fyrir Jehóva. Aftur spurði Jehóva Satan hvort hann hefði gefið gaum trúfesti Jobs og sagði: „Og enn þá er hann staðfastur í ráðvendni sinni.“ Þá svaraði Satan: „Nær er skinnið en skyrtan, og fyrir líf sitt gefur maðurinn allt sem hann á. En rétt þú út hönd þína og snert þú bein hans og hold, og þá mun hann formæla þér upp í opið geðið.“ — Jobsbók 2:1-5.
11. (a) Hvaða fleiri erfiðleika leiddi Satan yfir Job? (b) Hver var afleiðingin?
11 Jehóva gaf Satan þá leyfi til að gera hvað sem hann lysti við Job nema að taka líf hans. (Jobsbók 2:6) Satan sló þá Job illkynjuðum sjúkdómi. Þjáningar Jobs voru slíkar að hann bað þess að hann mætti deyja. (Jobsbók 2:7; 14:13, 14) Eiginkona hans snerist gegn honum og sagði: „Formæltu Guði og farðu að deyja!“ (Jobsbók 2:9) En Job vildi ekki gera það. „Þar til er ég gef upp andann, læt ég ekki taka frá mér sakleysi mitt,“ sagði hann. (Jobsbók 27:5) Job reyndist Guði trúr. Með því var sannað að Satan hefði haft á röngu að standa þegar hann sagði Job einungis þjóna Guði í eiginhagsmunaskyni, ekki vegna þess að hann elskaði hann. Einnig var sýnt fram á að Satan gat ekki fengið alla til að hætta að þjóna Guði.
12. (a) Hvernig gat Guð svarað ákæru Satans vegna trúfesti Jobs? (b) Hvað sannaði trúfesti Jesú við Guð?
12 Hvaða tilfinningar heldur þú að trúfesti Jobs hafi vakið með Jehóva? Hún gerði hann mjög hamingjusaman! Orð Guðs hvetur: „Vertu vitur, sonur minn, og gleð hjarta mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.“ (Orðskviðirnir 27:11) Það er Satan sem smánar Jehóva, og með trúfesti sinni gladdi Job hjarta Guðs. Hún gaf Guði tækifæri til að svara þeirri ögrun Satans að menn þjónuðu honum ekki ef þeir væru reyndir. Margir aðrir hafa líka gefið Guði tækifæri til slíks svars. Besta dæmið var hinn fullkomni maður Jesús. Hann hvikaði ekki frá hollustu sinni við Guð þrátt fyrir allar þær prófraunir og þrengingar sem Satan leiddi yfir hann. Með því sannaði hann að hinn fullkomni maður Adam hefði getað gert hið sama ef hann hefði viljað, og að Guð hafi ekki verið ranglátur þegar hann krafðist skilyrðislausrar hlýðni af manninum.
HVAR STENDUR ÞÚ?
13. (a) Hvernig tengist líferni þitt deilumálinu? (b) Hvernig getur þú glatt Guð eða hryggt?
13 Hvað um þitt líf? Vera kann að þú teljir það ekki skipta máli hvernig þú lifir lífi þínu, en það gerir það. Hvort sem þér er það ljóst eða ekki heldur þú annaðhvort með Guði eða Satan í deilumálinu. Jehóva lætur sér annt um þig og vill sjá þig þjóna sér og lifa að eilífu á jörð sem verður paradís. (Jóhannes 3:16) Þegar Ísraelsmenn gerðu uppreisn gegn Guði særði það hann. (Sálmur 78:40, 41) Er lífsbreytni þín slík að hún gleðji Guð eða særi? Til að gleðja Guð þarft þú auðvitað að læra lög hans og hlýða þeim.
14. (a) Hvaða lögum í sambandi við kynmök verðum við að hlýða til að gleðja Guð? (b) Hvers vegna er það glæpur að brjóta slík lög?
14 Öðru fremur reynir Satan að fá menn til að brjóta lög Guðs um notkun getnaðarmáttar síns, svo og um hjúskap og fjölskyldulíf. Lög Guðs til verndar hamingju okkar segja að ógift fólk eigi ekki að hafa kynmök, og að gift fólk eigi ekki að hafa kynmök við nokkurn nema maka sinn. (1. Þessaloníkubréf 4:3-8; Hebreabréfið 13:4) Þegar lög Guðs eru brotin fæðast börn oft foreldrum sem hvorki elska þau né vilja eignast þau. Sumar mæður láta jafnvel eyða fóstri, drepa börnin áður en þau geta fæðst. Margir sem drýgja hór fá auk þess skelfilega kynsjúkdóma sem geta skaðað börnin sem þeir kunna að eignast. Það er ótrúfesti, glæpur gegn Guði, að hafa kynmök við þann sem þú ert ekki giftur. Job sagði: „Hafi hjarta mitt látið ginnast vegna einhverrar konu, og hafi ég staðið á hleri [beðið átekta, NW] við dyr náunga míns, . . . slíkt væri óhæfa og glæpur, sem dómurum ber að hegna fyrir.“ — Jobsbók 31:1, 9, 11.
15. (a) Hverjum þóknumst við ef við drýgjum hór? (b) Hvers vegna er hyggilegt að hlýða lögum Guðs?
15 Okkur ætti ekki að undra að þessi heimur, sem djöfullinn stjórnar, skuli láta það líta út fyrir að vera eðlilegt og rétt að hafa kynmök við einstakling sem þú ert ekki giftur. En hverjum ert þú að þóknast ef þú gerir það? Satan, en ekki Jehóva. Til að gleðja Guð þarft þú að ‚flýja saurlifnaðinn.‘ (1. Korintubréf 6:18) Að vísu er ekki alltaf auðvelt að vera Guði trúr. Það var ekki auðvelt fyrir Job heldur. En mundu að það er viturlegt að hlýða lögum Guðs. Þú munt njóta meiri hamingju nú þegar ef þú gerir það. En það sem þó skiptir meira máli er að þú munt styðja málstað Guðs í deilumálinu og gleðja hann, og hann mun blessa þig með eilífu lífi og hamingju á jörðinni.
16. (a) Hvernig hlaut Job blessun vegna trúfesti sinnar? (b) Hvað má segja um það tjón sem Satan vinnur, svo sem það að drepa hin tíu börn Jobs?
16 Satan tókst að vísu að gera Job að fátæklingi og valda dauða barnanna hans tíu. Enginn vafi er á að það var Job mikill missir. En þegar Job reyndist trúfastur blessaði Guð hann með tvöfalt meiru en hann hafði átt áður en Satan var leyft að reyna hann. Job eignaðist auk þess tíu börn í viðbót. (Jobsbók 42:10-17) Við getum líka verið viss um að þau tíu börn Jobs, sem Satan drap, muni fá líf aftur í upprisu dauðra. Ekki er til það tjón eða erfiðleikar, sem Satan er leyft að valda, sem ástríkur faðir okkar, Jehóva, mun ekki leiðrétta á sínum tíma.
17. Hvers vegna skiptir það máli hvernig við lifum lífinu?
17 Þess vegna munt þú alltaf vilja hafa í huga að líferni þitt skiptir miklu máli. Það skiptir einkum máli Jehóva Guð og Satan djöfulinn vegna þess að þú átt hlut að deilumálinu um það hvort menn reynist Guði trúir eða ekki.
[Mynd á blaðsíðu 106]
Job afsannaði fullyrðingu Satans að enginn myndi vera Guði trúfastur þegar hann væri prófreyndur.
[Mynd á blaðsíðu 110]
Það er glæpur gegn Guði að hafa kynmök við annan en maka þinn.
[Mynd á blaðsíðu 111]
Jehóva blessaði Job fyrir trúfesti hans með langtum meiru en hann átti áður.