FORSÍÐUEFNI | ER DAUÐINN ENDIR ALLS?
Dauðinn er ekki endir alls!
Betanía var lítið þorp í þriggja kílómetra fjarlægð frá Jerúsalem. (Jóhannes 11:18) Þar átti sér stað sorglegur atburður nokkrum vikum áður en Jesús dó. Lasarus, sem var náinn vinur Jesú, varð skyndilega fárveikur og lést skömmu síðar.
Þegar Jesús frétti að Lasarus væri látinn sagði hann lærisveinum sínum að þessi kæri vinur sinn væri sofandi og að hann ætlaði að fara að vekja hann. (Jóhannes 11:11) En lærisveinarnir skildu ekki alveg hvað Jesús átti við og því sagði hann þeim berum orðum: „Lasarus er dáinn.“ – Jóhannes 11:14.
Fjórum dögum eftir útförina kom Jesús til Betaníu. Hann reyndi að hugga Mörtu, systur hins látna, en hún sagði: „Ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn.“ (Jóhannes 11:17, 21) „Ég er upprisan og lífið,“ sagði Jesús þá við hana. „Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi.“ – Jóhannes 11:25.
„Lasarus, kom út!“
Til að sýna fram á að þetta voru ekki orðin tóm gekk Jesús að gröfinni og hrópaði hárri röddu: „Lasarus, kom út!“ (Jóhannes 11:43) Og öllum til mikillar furðu kom Lasarus út úr gröfinni.
Jesús hafði tvisvar áður reist fólk upp frá dauðum. Í öðru tilvikinu reisti hann unga stúlku, dóttur Jaírusar, til lífs. Rétt áður en hann reisti hana upp sagði hann líka við viðstadda að hún væri sofandi. – Lúkas 8:52.
Taktu eftir að þegar Jesús talaði um Lasarus og dóttur Jaírusar líkti hann dauðanum við svefn. Það er viðeigandi samlíking. Af hverju? Svefn er ómeðvitað hvíldarástand og hæfir vel til að lýsa hvíld frá erfiðleikum og þjáningum. (Prédikarinn 9:5; sjá rammann „Dauðinn er eins og djúpur svefn“.) Lærisveinar Jesú á fyrstu öld höfðu skýran skilning á því hvað gerist við dauðann. „Í hugum fylgjenda Jesú var dauðinn svefn og gröfin hvíldarstaður ... fyrir þá sem dáið höfðu trúfastir,“a að sögn alfræðibókarinnar Encyclopedia of Religion and Ethics.
Það er hughreystandi að vita að hinir dánu sofi í gröfinni og þjáist ekki á neinn hátt. Dauðinn hættir þar með að vera leyndardómur og við þurfum ekki lengur að óttast hann.
„ÞEGAR MAÐURINN DEYR, LIFNAR HANN ÞÁ AFTUR?“
Góður nætursvefn er vissulega mikilvægur en hvern langar samt til að sofa að eilífu? Getum við vonast til þess að hinir látnu, sem liggja sofandi í gröfinni, lifni á ný eins og Lasarus og dóttir Jaírusar?
Þegar ættfaðirinn Job bjóst við dauða sínum vildi hann fá svar við því. Hann spurði: „Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur?“ – Jobsbók 14:14.
Job svaraði sjálfur spurningu sinni þegar hann ákallaði almáttugan Guð og sagði: „Þá hrópaðir þú og ég svaraði þér, þú mundir þrá verk handa þinna.“ (Jobsbók 14:15) Job var viss um að Jehóva þráði að reisa trúa þjóna sína til lífs. Var það óskhyggja af hálfu Jobs að halda að það myndi einhvern tíma gerast? Nei, alls ekki.
Með því að reisa fólk upp til lífs sýndi Jesús og sannaði að Guð hafði gefið honum vald yfir dauðanum. Í Biblíunni stendur reyndar að Jesús hafi fengið „lykla dauðans“. (Opinberunarbókin 1:18) Jesús hefur því fengið vald til að reisa fólk upp til lífs í framtíðinni, rétt eins og hann fékk vald til að reisa Lasarus upp frá dauðum.
Í Biblíunni er oft minnst á þessa upprisuvon. Engill fullvissaði spámanninn Daníel: „Gakk þú til hvíldar. Þú munt rísa upp og taka við hlut þínum við endalok daganna.“ (Daníel 12:13) Jesús ræddi við saddúkea, leiðtoga Gyðinga sem trúðu ekki á upprisu dauðra, og sagði: „Þið villist því að þið þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs.“ (Matteus 22:23, 29) Páll postuli sagði: „Þá von hef ég til Guðs ... að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ – Postulasagan 24:15.
HVENÆR FÁ HINIR DÁNU UPPRISU?
Hvenær mun upprisa réttlátra og ranglátra eiga sér stað? Engillinn sagði við Daníel, sem var réttlátur maður, að hann myndi rísa upp „við endalok daganna“. Marta trúði því einnig að Lasarus, bróðir hennar, myndi rísa upp „í upprisunni á efsta degi“. – Jóhannes 11:24.
Í Biblíunni er þessi ,efsti dagur‘ settur í samband við þann tíma þegar Kristur ríkir sem konungur. Páll skrifaði: „Því að Kristur á að ríkja uns hann hefur lagt alla fjendurna að fótum sér. Dauðinn er síðasti óvinurinn sem verður að engu gerður.“ (1. Korintubréf 15:25, 26) Það er því ærin ástæða til að biðja um að ríki Guðs komi og að vilji hans verði gerður á jörðinni.b
Eins og Job vissi mætavel er það vilji Guðs að hinir látnu fái upprisu. Þegar sá dagur rennur upp verður dauðinn að engu gerður fyrir fullt og allt. Enginn mun þá framar þurfa að velta fyrir sér spurningunni: Er dauðinn endir alls?
a Gríska orðið sem notað er um grafreit merkir „svefnstaður“.
b Hægt er að lesa meira um ríki Guðs í 8. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? sem gefin er út af Vottum Jehóva.