Eru bænir þínar ‚bornar fram sem reykelsisfórn‘?
„Bæn mín sé fram borin sem reykelsisfórn fyrir auglit þitt.“ — SÁLMUR 141:2.
1, 2. Hvað var táknað með því að brenna reykelsi?
JEHÓVA GUÐ sagði spámanninum Móse að láta búa til heilagt reykelsi til að nota í tilbeiðslutjaldi Ísraels. Hann lét í té uppskrift með blöndu af fjórum ilmefnum. (2. Mósebók 30:34-38) Ilmurinn af þessu reykelsi var sannarlega sætur.
2 Samkvæmt lagasáttmálanum, sem Ísraelsþjóðin fékk aðild að, átti að brenna reykelsi daglega. (2. Mósebók 30:7, 8) Hafði það einhverja sérstaka þýðingu? Já, því að sálmaritarinn söng: „Bæn mín sé fram borin sem reykelsisfórn fyrir auglit þitt [Jehóva], upplyfting handa minna sem kvöldfórn.“ (Sálmur 141:2) Í Opinberunarbókinni lýsir Jóhannes postuli þeim sem standa kringum himneskt hásæti Guðs og segir að þeir haldi á gullskálum fullum af reykelsi. Hin innblásna bók segir að reykelsið sé „bænir hinna heilögu.“ (Opinberunarbókin 5:8) Brennsla hins sæta ilmreykelsis táknar því velþóknanlegar bænir sem þjónar Jehóva bera fram bæði dag og nótt. — 1. Þessaloníkubréf 3:10; Hebreabréfið 5:7.
3. Hvað ætti að hjálpa okkur að ‚bera bænir okkar fram sem reykelsisfórn fyrir auglit Guðs‘?
3 Til að bænir okkar séu Guði þóknanlegar verðum við að biðja til hans í nafni Jesú Krists. (Jóhannes 16:23, 24) En hvernig getum við bætt bænir okkar? Nokkur biblíuleg dæmi ættu að hjálpa okkur að bera bænir okkar fram sem reykelsisfórn fyrir auglit Jehóva. — Orðskviðirnir 15:8.
Biddu í trú
4. Hvernig er trú tengd velþóknanlegri bæn?
4 Við verðum að biðja í trú til að bænir okkar stígi upp til Guðs eins og sætur reykelsisilmur. (Hebreabréfið 11:6) Þegar kristnir öldungar finna að andlega sjúkur maður er móttækilegur fyrir biblíulegri hjálp þeirra getur ‚trúarbæn þeirra gert hinn sjúka heilan.‘ (Jakobsbréfið 5:15) Bænir bornar fram í trú eru þóknanlegar himneskum föður okkar, og eins biblíunám í bænarhug. Sálmaritarinn lét í ljós gott viðhorf þegar hann söng: „[Ég rétti] út hendurnar eftir boðum þínum, þeim er ég elska, og íhuga lög þín. Kenn mér góð hyggindi og þekkingu, því að ég trúi á boð þín.“ (Sálmur 119:48, 66) Við skulum „rétta út hendurnar“ í auðmjúkri bæn og iðka trú með því að fara eftir boðum Guðs.
5. Hvað ættum við að gera ef okkur brestur visku?
5 Setjum sem svo að okkur bresti visku til að mæta prófraun. Kannski erum við ekki viss um að ákveðinn biblíuspádómur sé að uppfyllast. Í stað þess að komast úr andlegu jafnvægi skulum við biðja um visku. (Galatabréfið 5:7, 8; Jakobsbréfið 1:5-8) Við getum auðvitað ekki búist við að Guð svari okkur með einhverjum stórbrotnum hætti. Við þurfum að sýna að bænir okkar séu einlægar með því að gera allt sem hann ætlast til af fólki sínu. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að byggja upp trúna með biblíunámi og notfæra okkur þau rit sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ lætur í té. (Matteus 24:45-47; Jósúabók 1:7, 8) Við þurfum líka að auka þekkingu okkar með því að sækja að staðaldri samkomur fólks Guðs. — Hebreabréfið 10:24, 25.
6. (a) Hvað ættum við öll að gera okkur ljóst í sambandi við okkar tíma og uppfyllingu biblíuspádómanna? (b) Hvað ættum við að gera auk þess að biðja um að nafn Jehóva helgist?
6 Áhugamál og starfsframi sumra kristinna manna bendir til að þeir hafi misst sjónar á því að nú er langt liðið á tíma ‚endalokanna.‘ (Daníel 12:4) Það er vel við hæfi að biðja þess að þeir megi glæða eða styrkja trú sína á hin biblíulegu rök fyrir því að nærvera Krists hafi hafist árið 1914 þegar Jehóva setti hann í hásæti sem himneskan konung, og að hann ríki núna mitt á meðal óvina sinna. (Sálmur 110:1, 2; Matteus 24:3) Við ættum öll að gera okkur það ljóst að hinir boðuðu atburðir, svo sem eyðing falstrúarbragðanna — ‚Babýlonar hinnar miklu‘ — djöfulleg árás Gógs frá Magóg á fólk Jehóva og björgun þess í Harmagedónstríðinu, geta hafist snögglega og óvænt og geta allir gerst á tiltölulega skömmum tíma. (Opinberunarbókin 16:14, 16; 18:1-5; Esekíel 38:18-23) Við skulum því biðja um hjálp Guðs til að halda okkur andlega vakandi. Megum við öll biðja þess í einlægni að nafn Jehóva helgist, ríki hans komi og vilji hans verði gerður á jörðu eins og á himni. Já, megum við halda áfram að iðka trú og sýna í verki að bænir okkar séu einlægar. (Matteus 6:9, 10) Megi allir sem elska Jehóva leita fyrst ríkis hans og réttlætis og taka eins mikinn þátt og þeir geta í boðun fagnaðarerindisins áður en endirinn kemur. — Matteus 6:33; 24:14.
Lofaðu Jehóva og þakkaðu honum
7. Hvað finnst þér um bæn Davíðs sem skráð er að hluta til í 1. Kroníkubók 29:10-13?
7 Innilegt lof og þakkir til Guðs er þýðingarmikil leið til að ‚bera fram bænir sem reykelsisfórn.‘ Davíð konungur bað slíkrar bænar þegar hann og Ísraelsmenn lögðu fram fjármuni til byggingar musteris Jehóva. Hann bað: „Lofaður sért þú, [Jehóva], Guð Ísraels, forföður vors, frá eilífð til eilífðar. Þín, [Jehóva], er tignin, mátturinn og dýrðin, vegsemdin og hátignin, því að allt er þitt, á himni og jörðu. Þinn er konungdómurinn, [Jehóva], og sá, er gnæfir yfir alla sem höfðingi. Auðlegðin og heiðurinn koma frá þér; þú drottnar yfir öllu, máttur og megin er í hendi þinni, og á þínu valdi er það, að gjöra hvern sem vera skal mikinn og máttkan. Og nú, Guð vor, vér lofum þig og tignum þitt dýrlega nafn.“ — 1. Kroníkubók 29:10-13.
8. (a) Hvaða lofgerð í Sálmi 148 til 150 snertir hjarta þitt sérstaklega? (b) Hvað gerum við ef okkur er innanbrjósts eins og lýst er í Sálmi 27:4?
8 Þetta er fagurt lof og þakkargerð. Bænir okkar geta verið jafninnilegar þótt við séum ef til vill ekki svona mælsk. Sálmarnir eru fullir af þakkarbænum og lofgerð. Í Sálmi 148 til 150 er að finna hina fegurstu lofgerð. Þakkir til Guðs koma fram í mörgum sálmum. „Eins hefi ég beðið [Jehóva], það eitt þrái ég,“ söng Davíð, „að ég fái að dveljast í húsi [Jehóva] alla ævidaga mína til þess að fá að skoða yndisleik [Jehóva], sökkva mér niður í hugleiðingar í musteri hans.“ (Sálmur 27:4) Breytum í samræmi við slíkar bænir með því að taka kostgæfilega þátt í öllu sem söfnuður Jehóva tekur sér fyrir hendur. (Sálmur 26:12) Ef við gerum það og ef við íhugum orð Guðs daglega höfum við fjölmargar ástæður til að nálgast hann og færa honum innilegt lof og þakkir.
Leitaðu auðmjúklega hjálpar Jehóva
9. Hvers bað Asa konungur og með hvaða árangri?
9 Ef við þjónum Jehóva af öllu hjarta sem vottar hans getum við treyst því að hann heyri bænir okkar um hjálp. (Jesaja 43:10-12) Tökum Asa Júdakonung sem dæmi. Fyrstu 10 árin af 41 árs stjórnartíð hans (977-937 f.o.t.) einkenndust af friði. Þá réðst milljón manna her inn í Júda undir stjórn Sera Blálendings. Þótt Asa væri langtum fáliðaðri hélt hann með menn sína móti innrásarhernum. En fyrir bardagann baðst Asa ákaft fyrir. Hann viðurkenndi frelsunarmátt Jehóva, sárbændi hann um hjálp og sagði: „Við þig styðjumst vér, og í þínu nafni höfum vér farið á móti þessum mannfjölda. [Jehóva], þú ert vor Guð, gagnvart þér er dauðlegur maðurinn máttvana.“ Sigurinn var alger því að Jehóva bjargaði Júda vegna síns mikla nafns. (2. Kroníkubók 14:1-15) Hvort sem Guð bjargar okkur úr þrengingum eða styrkir okkur til að standast þær leikur enginn vafi á að hann heyrir bænir okkar um hjálp.
10. Hvernig getur bæn Jósafats konungs hjálpað okkur þegar við vitum ekki hvernig við eigum að bregðast við ákveðnu hættuástandi?
10 Ef við vitum ekki hvernig við eigum að bregðast við ákveðnu hættuástandi megum við treysta því að Jehóva heyri áköll okkar um hjálp. Það sýndi sig á dögum Jósafats Júdakonungs sem tók við völdum árið 936 f.o.t. og ríkti í 25 ár. Þegar sameinaður her Móabíta, Ammóníta og Seírfjallabúa ógnaði Júda sárbað Jósafat: „Guð vor, munt þú eigi láta dóm yfir þá ganga? Því að vér erum máttvana gagnvart þessum mikla mannfjölda, er kemur í móti oss. Vér vitum eigi, hvað vér eigum að gjöra, heldur mæna augu vor til þín.“ Jehóva svaraði þessari auðmjúku bæn og barðist fyrir Júda með því að valda slíkri ringulreið í óvinaliðinu að menn drápu hver annan. Þetta skaut þjóðunum umhverfis skelk í bringu svo að Júda bjó við frið. (2. Kroníkubók 20:1-30) Þegar okkur brestur visku til að bregðast rétt við hættuástandi getum við beðið eins og Jósafat: ‚Við vitum ekki hvað við eigum að gera heldur mæna augu okkar til þín, Jehóva.‘ Heilagur andi getur látið okkur muna eftir einhverju í Biblíunni sem nægir okkur til að leysa vandann, og Guð getur líka hjálpað okkur á einhvern hátt sem er ofvaxið hugsun manna. — Rómverjabréfið 8:26, 27.
11. Hvað má læra um bænina af viðbrögðum Nehemía við fréttum af múrum Jerúsalem?
11 Við getum þurft að biðja þolinmóð um hjálp Guðs. Nehemía harmaði, grét, fastaði og baðst fyrir svo dögum skipti í sambandi við múrarústir Jerúsalem og neyð Júdamanna. (Nehemíabók 1:1-11) Bænir hans stigu greinilega upp til Guðs eins og sætur reykelsisilmur. Dag einn spurði Artaxerxes Persakonungur hinn niðurdregna Nehemía: „Hvers beiðist þú?“ „Þá gjörði ég bæn mína til Guðs himnanna,“ segir Nehemía. Þessari stuttu og hljóðu bæn var svarað því að hann fékk leyfi til að gera það sem hjarta hans þráði — að fara heim til Jerúsalem og endurreisa borgarmúrana. — Nehemíabók 2:1-8.
Láttu Jesú kenna þér að biðja
12. Lýstu með eigin orðum inntakinu í fyrirmyndarbæn Jesú.
12 Af öllum bænum í Ritningunni er fyrirmyndarbæn Jesú Krists sérstaklega lærdómsrík. Lúkasarguðspjall segir: „Einn lærisveina [Jesú] sagði við hann . . . : ‚Herra, kenn þú oss að biðja, eins og Jóhannes kenndi lærisveinum sínum.‘ En hann sagði við þá: ‚Þegar þér biðjist fyrir, þá segið: Faðir, helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, gef oss hvern dag vort daglegt brauð. Fyrirgef oss vorar syndir, enda fyrirgefum vér öllum vorum skuldunautum. Og eigi leið þú oss í freistni.‘“ (Lúkas 11:1-4; Matteus 6:9-13) Jesús ætlaðist ekki til að þessi bæn væri þulin eftir sér heldur notuð sem fyrirmynd. Við skulum skoða hana lið fyrir lið.
13. Útskýrðu þýðingu orðanna: „Faðir, helgist þitt nafn.“
13 „Faðir, helgist þitt nafn.“ Það eru sérréttindi vígðra þjóna Jehóva að ávarpa hann sem föður. Við ættum að vera eins og börn sem bera áhyggjur sínar fúslega upp við miskunnsaman föður, og taka okkur tíma að staðaldri til að biðja með virðingu og lotningu til Guðs. (Sálmur 103:13, 14) Bænir okkar ættu að endurspegla þá löngun að nafn Jehóva helgist af því að við þráum að sjá það hreinsað af allri þeirri smán sem hrúgað hefur verið á það. Já, við viljum að nafn Jehóva sé í heiðri haft sem heilagt og helgað. — Sálmur 5:12; 63:4, 5; 148:12, 13; Esekíel 38:23.
14. Hvað merkir það að biðja: „Til komi þitt ríki“?
14 „Til komi þitt ríki.“ Ríkið er stjórn Jehóva eins og hún birtist fyrir milligöngu messíasarstjórnar sonar hans og ‚hinna heilögu‘ sem ríkja með honum á himnum. (Daníel 7:13, 14, 18, 27; Opinberunarbókin 20:6) Bráðlega mun það ‚koma‘ og afmá alla andstæðinga drottinvalds Guðs á jörðinni. (Daníel 2:44) Þá verður vilji hans gerður á jörðu eins og á himni. (Matteus 6:10) Það verður mikil gleðistund fyrir alla sem þjóna alvöldum Drottni alheimsins í trúfesti.
15. Hvað gefum við til kynna með því að biðja Jehóva um „vort daglegt brauð“?
15 „Gef oss hvern dag vort daglegt brauð.“ Með því að biðja Jehóva um „daglegt brauð“ erum við aðeins að fara fram á daglegar nauðsynjar, ekki neinar allsnægtir. Þótt við treystum Guði til að sjá okkur farborða vinnum við líka sjálf og beitum viðeigandi ráðum til að afla okkur matar og annarra nauðsynja. (2. Þessaloníkubréf 3:7-10) Að sjálfsögðu ættum við að þakka himneskum gjafara okkar fyrir kærleika hans, visku og mátt sem býr að baki öllu þessu. — Postulasagan 14:15-17.
16. Hvernig getum við fengið fyrirgefningu Guðs?
16 „Fyrirgef oss vorar syndir, enda fyrirgefum vér öllum vorum skuldunautum.“ Þar eð við erum ófullkomin og syndug stöndumst við ekki fullkominn staðal Jehóva að öllu leyti. Þess vegna þurfum við að biðja hann fyrirgefningar á grundvelli lausnarfórnar Jesú. En ef við viljum að hann „sem heyrir bænir“ noti þessa fórn til að breiða yfir syndir okkar verðum við að iðrast og vera fús til að taka hverjum þeim aga sem hann beitir okkur. (Sálmur 65:3; Rómverjabréfið 5:8; 6:23; Hebreabréfið 12:4-11) Og við getum ekki vænst fyrirgefningar Guðs nema við höfum ‚fyrirgefið skuldunautum okkar,‘ þeim sem hafa syndgað gegn okkur. — Matteus 6:12, 14, 15.
17. Hvað merkja orðin: „Eigi leið þú oss í freistni“?
17 „Eigi leið þú oss í freistni.“ Biblían tekur stundum svo til orða að Jehóva geri eitthvað en á þá við að hann einungis leyfi það. (Rutarbók 1:20, 21) Guð freistar okkar ekki til að syndga. (Jakobsbréfið 1:13) Freistingar til ills eiga upptök sín hjá djöflinum, í syndugu holdi okkar og heiminum. Satan er freistarinn sem reynir með kænskubrögðum að koma okkur til að syndga gegn Guði. (Matteus 4:3; 1. Þessaloníkubréf 3:5) Þegar við biðjum: „Eigi leið þú oss í freistni,“ erum við að biðja Guð að leyfa ekki að við bregðumst þegar okkar er freistað til að óhlýðnast honum. Hann getur leiðbeint okkur svo að við látum ekki undan og föllum í gildru Satans, ‚hins vonda.‘ — Matteus 6:13, neðanmáls; 1. Korintubréf 10:13.
Breyttu í samræmi við bænir þínar
18. Hvernig getum við breytt í samræmi við bænir okkar um hamingjusamt hjónaband og fjölskyldulíf?
18 Fyrirmyndarbæn Jesú fjallar um viss meginatriði, en við getum rætt um hvað sem er í bænum okkar. Við getum til dæmis rætt um löngun okkar í hamingjusamt hjónaband. Við getum beðið um sjálfstjórn til að varðveita hreinleika okkar uns við göngum í hjónaband. En breytum þá í samræmi við bænir okkar með því að forðast siðlaus rit og skemmtiefni. Verum líka staðráðin í að ‚giftast aðeins í Drottni.‘ (1. Korintubréf 7:39; 5. Mósebók 7:3, 4) Þegar við erum gift þurfum við að breyta í samræmi við bænir okkar um hamingjusamt hjónaband með því að fara eftir ráðleggingum Guðs. Og ef við eigum börn er ekki nóg að biðja þess að þau verði trúfastir þjónar Jehóva. Við verðum líka að gera allt sem við getum til að innræta þeim sannleika Guðs með biblíunámi og með því að taka þau að staðaldri með okkur á kristnar samkomur. — 5. Mósebók 6:5-9; 31:12; Orðskviðirnir 22:6.
19. Hvað ættum við að gera ef við biðjum í sambandi við boðunarstarfið?
19 Biðjum við um blessun í boðunarstarfinu? Þá skulum við hegða okkur samkvæmt því með því að taka góðan þátt í boðun fagnaðarerindisins um ríkið. Ef við biðjum um tækifæri til að hjálpa öðrum að komast inn á veginn til eilífs lífs þurfum við að fara aftur til þeirra sem sýna áhuga og vera reiðubúin að taka frá tíma á stundaskrá okkar til að stjórna biblíunámskeiði. Hvað þá ef okkur langar til að gerast brautryðjendur eða boðberar í fullu starfi? Þá skulum við gera viðeigandi ráðstafanir í samræmi við bænir okkar með því að auka hlutdeild okkar í boðunarstarfinu og starfa með brautryðjendum. Þar með sýnum við að við erum að vinna að því sem við biðjum um í bænum okkar.
20. Hvað er fjallað um í greininni á eftir?
20 Ef við þjónum Jehóva í trúfesti getum við treyst því að hann svari bænum sem samræmast vilja hans. (1. Jóhannesarbréf 5:14, 15) Við höfum lært margt gagnlegt af því að skoða sumar af þeim bænum sem sagt er frá í Biblíunni. Í greininni á eftir verður fjallað um ýmsar aðrar viðmiðunarreglur Biblíunnar handa þeim sem vilja ‚bera bænir sínar fram sem reykelsisfórn fyrir auglit Jehóva.‘
Hvert er svarið?
◻ Af hverju ættum við að biðja í trú?
◻ Hvaða hlutverki gegnir lof- og þakkargerð í bænum okkar?
◻ Af hverju getum við örugg leitað hjálpar Jehóva í bæn?
◻ Nefndu nokkur aðalatriði fyrirmyndarbænarinnar.
◻ Hvernig getum við breytt í samræmi við bænir okkar?
[Mynd á blaðsíðu 22]
Stundum getum við þurft að biðja eins og Jósafat konungur: ‚Við vitum ekki hvað við eigum að gera heldur mæna augu okkar til þín, Jehóva.‘
[Mynd á blaðsíðu 23]
Biður þú í samræmi við fyrirmyndarbæn Jesú?