Þekktu Jehóva hinn persónulega Guð
INDVERJINN dr. Radhakrishnan ber saman guðshugmynd hindúa og aðrar trúarstefnur og segir: „Guð Hebrea er annarrar tegundar. Hann er persónulegur og virkur þátttakandi í sögunni og hefur áhuga á breytingum og tilviljunum þessa framsækna heims. Hann hefur samband við okkur.“
Hið hebreska nafn Guðs í Biblíunni er יהוה og er yfirleitt þýtt „Jehóva.“ Hann er hafinn yfir alla aðra guði. Hvað vitum við um hann? Hvernig kom hann fram við menn á biblíutímanum?
Jehóva og Móse „augliti til auglitis“
Jehóva og þjónn hans, Móse, áttu mjög náið samband, svo náið að sagt er að þeir hafi umgengist hvor annan „augliti til auglitis“ þótt Móse gæti ekki séð Guð bókstaflega. (5. Mósebók 34:10; 2. Mósebók 33:20) Þegar Móse var ungur var hugur hans með Ísraelsmönnum sem voru á þeim tíma þrælar í Egyptalandi. Hann hafnaði því að teljast til fjölskyldu Faraós og „kaus fremur illt að þola með lýð Guðs.“ (Hebreabréfið 11:25) Þar af leiðandi veitti Jehóva honum mörg og mikil sérréttindi.
Þar eð Móse ólst upp í fjölskyldu Faraós var hann „fræddur í allri speki Egypta.“ (Postulasagan 7:22) En til að leiða Ísraelsþjóðina þurfti hann líka að rækta með sér hógværð, þolinmæði og auðmýkt. Það gerði hann á þeim 40 árum sem hann var fjárhirðir í Midíanslandi. (2. Mósebók 2:15-22; 4. Mósebók 12:3) Enda þótt Jehóva væri ósýnilegur opinberaði hann Móse sjálfan sig og fyrirætlanir sínar og fól honum í hendur boðorðin tíu fyrir milligöngu engla. (2. Mósebók 3:1-10; 19:3–20:20; Postulasagan 7:53; Hebreabréfið 11:27) Biblían segir að Jehóva hafi ‚talað við Móse augliti til auglitis eins og maður talar við mann.‘ (2. Mósebók 33:11) Jehóva sagði meira að segja: „Ég tala við hann munni til munns.“ Móse átti mjög dýrmætt einkasamband við ósýnilegan en persónulegan Guð sinn. — 4. Mósebók 12:8.
Auk þess að skrásetja sögu Ísraelsþjóðarinnar frá upphafi skráði Móse lagasáttmálann með öllum ákvæðum hans. Honum voru einnig falin önnur dýrmæt sérréttindi — að skrifa 1. Mósebók. Sú saga, sem síðari hluti bókarinnar segir, var velþekkt í fjölskyldu hans sjálfs og þar af leiðandi auðskráð. En hvar fékk Móse upplýsingar um árdaga mannkynssögunnar? Hugsanlegt er að hann hafi haft í fórum sínum ævafornar, skráðar heimildir, sem forfeður hans varðveittu, og notað þær sem frumheimild. En einnig má vera að upplýsingarnar hafi varðveist í munnlegri geymd eða að Jehóva hafi opinberað honum þær beint. Auðmjúkir menn á öllum tímum hafa gert sér grein fyrir hve náið samband Móse átti við Guð sinn að þessu leyti.
Jehóva — persónulegur Guð Elía
Spámaðurinn Elía þekkti Jehóva líka sem persónulegan Guð. Elía var kostgæfinn gagnvart sannri tilbeiðslu og þjónaði Jehóva þótt hann sætti miklu hatri og andstöðu frá dýrkendum Baals, helsta guðs Kanverja. — 1. Konungabók 18:17-40.
Akab Ísraelskonungur og Jesebel, kona hans, freistuðu þess að ráða Elía af dögum. Elía óttaðist um líf sitt og flúði til Beerseba, vestur af Dauðahafi. Þar eigraði hann út í eyðimörkina og bað þess að hann mætti deyja. (1. Konungabók 19:1-4) Hafði Jehóva yfirgefið Elía? Hafði hann ekki lengur áhuga á trúföstum þjóni sínum? Elía fannst það kannski en það var alrangt. Síðar talaði Jehóva blíðlega við hann og spurði: „Hvað ert þú hér að gjöra, Elía?“ Eftir að Jehóva hafði sýnt yfirnáttúrlegan mátt sinn með stórbrotnum hætti „barst rödd að eyrum [Elía] og mælti [aftur]: ‚Hvað ert þú hér að gjöra, Elía?‘“ Jehóva sýndi Elía þennan persónulega áhuga í þeim tilgangi að hvetja tryggan þjón sinn. Guð hafði meira verk fyrir hann að vinna og Elía hlýddi kallinu fúslega. Elía lauk trúfastur verki sínu og helgaði nafn Jehóva, hins persónulega Guðs síns. — 1. Konungabók 19:9-18.
Eftir að Ísraelsþjóðinni var hafnað talaði Jehóva ekki lengur persónulega til þjóna sinna á jörðinni. Það merkti þó ekki að áhugi hans á þeim hefði dvínað. Með heilögum anda sínum leiðbeindi hann þeim enn og styrkti í þjónustu sinni. Tökum Pál postula sem dæmi en hann var áður þekktur undir nafninu Sál.
Páli leiðbeint með heilögum anda
Sál var frá Tarsus, þekktum bæ í Kilikíu. Foreldrar hans voru Hebrear en sjálfur var hann rómverskur ríkisborgari. Sál var engu að síður alinn upp eftir strangasta átrúnaði farísea. Síðar hafði hann tækifæri til að menntast í Jerúsalem „við fætur Gamalíels“ sem var kunnur lögmálskennari. — Postulasagan 22:3, 26-28.
Afvegaleidd kostgæfni Sáls gagnvart gyðinglegri hefð olli því að hann tók þátt í hrottalegri herferð gegn fylgjendum Jesú Krists. Hann lagði jafnvel blessun sína yfir morðið á Stefáni, fyrsta kristna píslarvottinum. (Postulasagan 7:58-60; 8:1, 3) Síðar viðurkenndi hann að enda þótt hann hefði áður verið lastmáll, ofsóknari og smánari, hefði ‚sér verið miskunnað sökum þess að hann gerði það í vantrú án þess að vita hvað hann gerði.‘ — 1. Tímóteusarbréf 1:13.
Sál gekk ekkert til nema ósvikin löngun til að þjóna Guði. Eftir að hann snerist til trúar á veginum til Damaskus notaði Jehóva hann mikið. Hinn upprisni Kristur benti Ananíasi, sem var kristinn lærisveinn á fyrstu öld, á að hjálpa honum. Eftir það leiðbeindi andi Jehóva Páli (rómverska nafnið sem Sál var þekktur undir sem kristinn maður) í langri og árangursríkri þjónustu víða um Evrópu og Litlu-Asíu. — Postulasagan 13:2-5; 16:9, 10.
Sést heilagur andi einnig að verki nú á dögum? Já.
Guðleysi hindrar ekki persónulegan áhuga Jehóva
Joseph F. Rutherford var annar forseti Varðturnsfélagsins. Hann lét skírast sem Biblíunemandi árið 1906 — en svo voru vottar Jehóva kallaðir þá — var skipaður lögmaður Félagsins árið eftir og varð forseti þess í janúar árið 1917. En þessi ungi lögfræðingur var einu sinni guðleysingi. Hvernig breyttist hann í svona áhugasaman kristinn þjón Jehóva?
Í júlí árið 1913 var Rutherford fundarstjóri á móti Alþjóðasamtaka biblíunemenda í Springfield í Massachusetts í Bandaríkjunum. Fréttamaður The Homestead, dagblaðsins á staðnum, átti viðtal við Rutherford og viðtalið birtist síðan í bæklingi sem gefinn var út um mótið.
Rutherford sagði frá því að þegar hann áformaði að giftast hafi hann tilheyrt baptistasöfnuði en konuefni hans öldungakirkjunni. Þegar baptistapresturinn hans sagði að „hún færi til helvítis af því að hún væri ekki skírð niðurdýfingarskírn, og að hann færi beint til himna af því að hann væri skírður þannig, var rökhyggju hans misboðið og hann gerðist guðleysingi.“
Það tók Rutherford nokkurra ára ítarlegar rannsóknir að byggja aftur upp trú á persónulegan Guð. Hann vann út frá þeim forsendum, sagði hann, að „það sem fullnægi ekki huganum eigi engan rétt á að fullnægja hjartanu.“ Kristnir menn „yrðu að vera vissir um að Ritningin, sem þeir tryðu á, væri sönn,“ sagði Rutherford og bætti við: „Þeir verða að þekkja grundvöllinn sem þeir standa á.“ — Sjá 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.
Já, jafnvel guðleysingi eða efasemdarmaður getur enn þann dag í dag rannsakað Ritninguna, byggt upp trú og þroskað sterkt einkasamband við Jehóva Guð. Eftir ítarlegt biblíunám með hjálp bókarinnar Þekking sem leiðir til eilífs lífs (gefin út af Varðturnsfélaginu) viðurkenndi ungur maður: „Ég trúði ekki á Guð þegar ég hóf þetta nám en núna hefur biblíuþekkingin gerbreytt hugsunarhætti mínum. Ég er farinn að þekkja Jehóva og treysta honum.“
„Heimskinginn“ og Guð
„Það hvarflaði aldrei að neinum ritara Gt [Hebresku ritninganna] að sanna eða færa rök fyrir tilvist Guðs,“ segir dr. James Hastings í bókinni A Dictionary of the Bible. „Það var ekki í anda hins forna heims almennt að afneita tilvist Guðs eða færa rök fyrir henni. Trúin var mannshuganum eðlileg og sameiginleg öllum mönnum.“ En það þýðir auðvitað ekki að allir menn á þeim tíma hafi verið guðhræddir. Því fór fjarri. Bæði Sálmur 14:1 og 53:2 minnast á ‚heimskingjann‘ sem segir í hjarta sínu: „Enginn Guð er til!“
Hvers konar maður er þessi heimskingi, maðurinn sem afneitar tilvist Guðs? Það er ekki átt við að honum sé vitsmunalega áfátt, að hann sé fáfróður. Hebreska orðið navalʹ lýsir öllu heldur manni sem er siðferðilega áfátt. Prófessor S. R. Driver segir í riti sínu The Parallel Psalter að gallinn felist „ekki í rökhyggjuveilu heldur siðferðilegu og trúarlegu tilfinningaleysi, algerum skynsemisskorti og skilningsleysi.“
Sálmaritarinn lýsir síðan siðferðisbrestinum sem orsakast af slíku viðhorfi: „Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.“ (Sálmur 14:1) Dr. Hastings segir að lokum: „Menn reiða sig á að Guð sé fjarlægur heiminum og að þeir komist refsilaust upp með athæfi sitt, svo að þeir verða spilltir og verk þeirra andstyggileg.“ Þeir taka opnum örmum óguðlegum lífsskoðunum og gefa engan gaum að persónulegum Guði sem þá langar alls ekki til að standa reikningsskap. En slíkur hugsunarháttur er jafnheimskulegur og fáránlegur núna og hann var þegar sálmaritarinn skrifaði þessi orð fyrir meira en 3000 árum.
Viðvaranir frá persónulegum Guði okkar
Snúum okkur nú aftur að spurningunum sem varpað var fram í inngangsgreininni. Af hverju eiga svona margir erfitt með að samrýma þjáningarnar í heiminum hugmyndinni um persónulegan Guð?
Biblían hefur að geyma ritaðar upplýsingar frá mönnum sem ‚töluðu orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.‘ (2. Pétursbréf 1:21) Aðeins Biblían opinberar okkur hinn persónulega Guð, Jehóva. Hún varar okkur líka við illskeyttri andaveru — Satan djöflinum — sem er ósýnilegur mönnum en voldugur og leikinn að stýra og stjórna hugsun þeirra. Ef við trúum ekki á persónulegan Guð er harla erfitt að trúa að til sé persónulegur djöfull eða Satan.
Jóhannes postuli skrifaði vegna innblásturs: „[Hann] sem heitir djöfull og Satan . . . afvegaleiðir alla heimsbyggðina.“ (Opinberunarbókin 12:9) Síðar sagði Jóhannes: „Vér vitum, að vér tilheyrum Guði og allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Þessi orð enduróma orð Jesú sem Jóhannes skráði sjálfur í guðspjalli sínu: „Höfðingi heimsins kemur. Í mér á hann ekki neitt.“ — Jóhannes 14:30.
Þessi kenning Biblíunnar er víðsfjarri því sem flestir trúa nú á dögum. „Það er greinilega ekki í tísku að tala um djöfulinn núorðið. Vísinda- og efahyggja okkar tíma hefur sett Satan á eftirlaun,“ segir blaðið Catholic Herald. En Jesús sagði tæpitungulaust þeim mönnum sem hugðust myrða hann: „Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist.“ — Jóhannes 8:44.
Skýring Biblíunnar á valdi og mætti Satans er skynsamleg. Hún skýrir hvers vegna heimurinn er þjakaður hatri, styrjöldum og glórulausu ofbeldi eins og sýndi sig í Dunblane (sjá blaðsíðu 3 og 4), þrátt fyrir að langflestir vilji búa í friði og samlyndi. Og Satan er ekki eini óvinurinn sem við þurfum að kljást við. Biblían varar líka við að til séu aðrir djöflar eða illar andaverur sem gengu endur fyrir löngu í lið með Satan til að afvegaleiða og misnota mannkynið. (Júdasarbréfið 6) Jesús Kristur átti margsinnis í höggi við þessar andaverur og reyndist þeim yfirsterkari. — Matteus 12:22-24; Lúkas 9:37-43.
Hinn sanni Guð, Jehóva, hefur áformað að hreinsa jörðina af illsku og útrýma bæði Satan og illum öndum hans. Með þekkingu okkar á Jehóva að bakhjarli getum við haft sterka trú á loforð hans og treyst þeim. Hann segir: „Á undan mér hefir enginn guð verið búinn til, og eftir mig mun enginn verða til. Ég, ég er [Jehóva], og enginn frelsari er til nema ég.“ Jehóva er sannarlega persónulegur Guð allra sem þekkja hann, tilbiðja og þjóna. Við getum treyst að hann og hann einn veiti okkur hjálpræði. — Jesaja 43:10, 11.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Málmstunga frá átjándu öld sem sýnir Móse skrifa 1. Mósebók 1:1 vegna innblásturs.
[Rétthafi]
Úr The Holy Bible eftir J. Baskett, Oxford.
[Mynd á blaðsíðu 8]
Jesús Kristur yfirbugaði illu andana margsinnis.