Jerúsalem — er hún ‚allra besta yndið þitt‘?
„Tunga mín loði mér við góm . . . ef Jerúsalem er eigi allra besta yndið mitt.“ — SÁLMUR 137:6.
1. Hvernig litu margir útlægir Gyðingar á útvalda borg Guðs?
NÆSTUM sjö áratugir voru liðnir síðan fyrstu Gyðingarnir sneru aftur heim úr útlegðinni til Jerúsalem árið 537 f.o.t. Musteri Guðs hafði verið endurreist en borgin lá enn í rústum. Ný kynslóð var vaxin upp í útlegð. Eflaust var mörgum í útlegðinni innanbrjósts eins og sálmaritaranum sem söng: „Ef ég gleymi þér, Jerúsalem, þá visni mín hægri hönd.“ (Sálmur 137:5) Sumir létu ekki við það sitja að minnast borgarinnar heldur sönnuðu í verki að hún væri „allra besta yndið“ þeirra. — Sálmur 137:6.
2. Hver var Esra og hvaða blessun hlaut hann?
2 Tökum Esra prest sem dæmi. Áður en hann sneri heim aftur hafði hann unnið af kappi í þágu hreinnar tilbeiðslu í Jerúsalem. (Esrabók 7:6, 10) Esra hlaut ríkulega blessun fyrir. Jehóva Guð snart hjarta Persakonungs svo að hann veitti Esra þau sérréttindi að fara fyrir öðrum hópi Gyðinga heim til Jerúsalem. Og konungur fékk þeim jafnframt rausnarlegan sjóð af gulli og silfri til að ‚gjöra musteri Jehóva dýrlegt.‘ — Esrabók 7:21-27.
3. Hvernig sýndi Nehemía að Jerúsalem væri honum efst í huga?
3 Um 12 árum síðar gekk annar Gyðingur einbeittur til verks. Það var Nehemía. Hann þjónaði í persnesku höllinni í Súsa. Hann var byrlari Artaxerxesar konungs sem var áhrifa- og virðingarstaða. En það var ekki ‚allra besta yndi‘ Nehemía heldur þráði hann að fara og endurreisa Jerúsalem. Mánuðum saman baðst hann fyrir um þetta mál og Jehóva Guð blessaði hann fyrir. Þegar Persakonungur komst að raun um hvað lá Nehemía á hjarta lét hann honum í té herlið og bréflegt umboð til að endurreisa Jerúsalem. — Nehemíabók 1:1–2:9.
4. Hvernig getum við sýnt að við höfum meira yndi af tilbeiðslunni á Jehóva en nokkru öðru?
4 Esra, Nehemía og margir Gyðingar, sem með þeim unnu, sýndu svo ekki varð um villst að tilbeiðslan á Jehóva í Jerúsalem var þeim mikilvægari en nokkuð annað. Hún var „allra besta yndið“ þeirra, yndislegri en nokkur annar gleðigjafi. Hvílík hvatning fyrir alla sem hafa sömu afstöðu til Jehóva, tilbeiðslunnar á honum og skipulagsins sem hann stýrir með anda sínum. Hvað um þig? Sýnir þú með þrotlausum guðræknisverkum þínum að það sé mesti gleðigjafi þinn að tilbiðja Jehóva með vígðu fólki hans? (2. Pétursbréf 3:11) Til frekari hvatningar skulum við líta á góðan árangur af ferð Esra til Jerúsalem.
Blessun og ábyrgð
5. Hvaða ríkulega blessun hlutu íbúar Júda á dögum Esra?
5 Um 6000 útlagar sneru heim ásamt Esra með gull og silfur til musteris Jehóva. Andvirðið var um 2,5 milljarðar króna á núvirði. Þetta var um sjöfalt meira gull og silfur en fyrstu útlögunum tókst að taka með sér. Júda- og Jerúsalembúar hljóta að hafa verið ákaflega þakklátir fyrir allan þennan stuðning í mannafla og verðmætum. En ríkuleg blessun Guðs hefur líka ábyrgð í för með sér. — Lúkas 12:48.
6. Hvað uppgötvaði Esra við heimkomuna og hvernig brást hann við?
6 Esra uppgötvaði fljótlega að margir Gyðingar, þeirra á meðal prestar og öldungar, höfðu brotið lög Guðs með því að kvænast heiðnum konum. (5. Mósebók 7:3, 4) Eðlilega var hann miður sín út af þessu broti á lagasáttmála Guðs. „Þegar ég heyrði þetta, reif ég kyrtil minn og yfirhöfn mína . . . og sat agndofa.“ (Esrabók 9:3) Síðan úthellti Esra hjarta sínu í bæn til Jehóva, að viðstöddum áhyggjufullum Ísraelsmönnum. Í allra áheyrn rifjaði hann upp óhlýðni Ísraels forðum daga og viðvörun Guðs um hvernig fara myndi ef þeir gengju að eiga heiðna íbúa landsins. Hann lauk bæninni þannig: „[Jehóva], Ísraels Guð, þú ert réttlátur! Vér erum eftir skildir sem leifar, er undan hafa komist, svo sem sjá má þann dag í dag. Sjá, vér stöndum frammi fyrir þér í sekt vorri, því að það er eigi unnt að standast fyrir þér vegna þessa.“ — Esrabók 9:14, 15.
7. (a) Hvaða gott fordæmi gaf Esra með því hvernig hann tók á rangri breytni? (b) Hvernig brugðust hinir seku við?
7 Esra talar í fleirtölu og segir „vér.“ Já, hann taldi sjálfan sig með þótt hann væri ekki persónulega sekur. Esra var svo miður sín og bæn hans svo einlæg að hann snerti hjörtu fólksins og fékk það til að vinna verk samboðin iðruninni. Menn buðust til að gera sársaukafulla yfirbót — allir sem höfðu brotið lög Guðs skyldu senda útlendar konur sínar til heimahaga þeirra ásamt þeim börnum sem þeir áttu með þeim. Esra féllst á þessar aðgerðir og hvatti hina seku til að framfylgja þeim. Í krafti þess valds, sem Persakonungur veitti honum, hafði Esra rétt til að lífláta alla lögbrjóta eða gera þá útlæga úr Jerúsalem og Júda. (Esrabók 7:12, 26) En hann virðist ekki hafa þurft að grípa til þess. „Allur söfnuðurinn“ sagði: „Svo sem þú hefir sagt, þannig er oss skylt að breyta.“ Og menn játuðu: „Vér höfum margfaldlega brotið í þessu efni.“ (Esrabók 10:11-13) Tíundi kafli Esrabókar telur upp 111 karlmenn sem framfylgdu úrskurðinum og sendu burt útlendar konur sínar og börnin sem þeir áttu með þeim.
8. Af hverju var það öllu mannkyni til góðs að senda útlendu eiginkonurnar burt, þótt róttækt væri?
8 Þessar aðgerðir voru bæði í þágu Ísraels og alls mannkyns. Ef ekkert hefði verið gert til að leiðrétta þetta hefðu Ísraelsmenn samlagast þjóðunum umhverfis. Ef það hefði gerst hefði ættleggur fyrirheitna sæðisins spillst en það átti að vera öllu mannkyni til blessunar. (1. Mósebók 3:15; 22:18) Erfitt hefði verið að sýna fram á að hið fyrirheitna sæði væri afkomandi Davíðs konungs af Júdaættkvísl. Um 12 árum síðar var þetta mikilvæga mál tekið upp að nýju þegar „niðjar Ísraels skildu sig frá öllum útlendingum.“ — Nehemíabók 9:1, 2; 10:29, 30.
9. Hvaða góð ráð gefur Biblían kristnum mönnum sem eiga vantrúaðan maka?
9 Hvað geta nútímaþjónar Jehóva lært af þessari frásögu? Kristnir menn eru auðvitað ekki undir lagasáttmálanum. (2. Korintubréf 3:14) Þeir hlýða ‚lögmáli Krists.‘ (Galatabréfið 6:2) Kristinn maður, sem á vantrúaðan maka, fer því eftir ráðum Páls: „Ef bróðir nokkur á vantrúaða konu og hún lætur sér það vel líka að búa saman við hann, þá skilji hann ekki við hana.“ (1. Korintubréf 7:12) Og kristnum manni, sem á vantrúaðan maka, er biblíulega skylt að leggja sig fram um að gera hjónabandið farsælt. (1. Pétursbréf 3:1, 2) Hlýðni við þessi góðu ráð hefur oft orðið til þess að hinir vantrúuðu hafa orðið hliðhollir sannri guðsdýrkun. Sumir hafa jafnvel tekið trú og látið skírast. — 1. Korintubréf 7:16.
10. Hvað geta kristnir menn lært af Ísraelsmönnunum 111 sem sendu útlendar konur sínar burt?
10 En einhleypir kristnir menn geta dregið góðan lærdóm af þeim Ísraelsmönnum sem sendu útlendar konur sínar frá sér. Þeir ættu ekki að biðla til nokkurs af hinu kyninu sem er ekki í trúnni. Það getur verið erfitt, jafnvel sársaukafullt, að forðast slík sambönd en það er besta stefnan til að njóta blessunar Guðs áfram. Kristnum mönnum er fyrirskipað: „Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum.“ (2. Korintubréf 6:14) Kristinn maður, sem vill giftast, ætti að einsetja sér að giftast trúsystkini sínu. — 1. Korintubréf 7:39.
11. Hvernig getur reynt á trú okkar líkt og hjá Ísraelsmönnunum?
11 Kristnir menn hafa leiðrétt stefnu sína á marga aðra vegu þegar þeim hefur verið bent á að þeir séu komnir út á óbiblíulega braut. (Galatabréfið 6:1) Þetta tímarit hefur af og til bent á óbiblíulega hegðun sem gæti gert mann óhæfan til að tilheyra skipulagi Guðs áfram. Tökum dæmi: Árið 1973 skildi fólk Jehóva til fulls að notkun fíkniefna og tóbaks væri alvarleg synd. Til að ástunda guðrækni verðum við að ‚hreinsa okkur af allri saurgun á líkama og sál.‘ (2. Korintubréf 7:1) Margir tóku þessi biblíulegu ráð til sín. Þeir voru fúsir til að þola fráhvarfseinkennin til að fá að tilheyra hreinum söfnuði Guðs áfram. Skýrar biblíulegar leiðbeiningar hafa einnig verið gefnar um kynferðismál, klæðnað og snyrtingu og um skynsamlegt val á vinnu, skemmtiefni og tónlist. Megum við alltaf ‚vera fullkomin‘ í þeim skilningi að við tökum leiðréttingu eins og Ísraelsmennirnir 111, hvenær sem athygli okkar er vakin á biblíulegum meginreglum. (2. Korintubréf 13:11) Það sýnir að sérréttindin að tilbiðja Jehóva ásamt heilögu fólki hans er ‚allra besta yndið okkar.‘
12. Hvað gerðist árið 455 f.o.t?
12 Biblían segir ekki hvað gerðist í Jerúsalem næstu 12 árin eftir atvikið með útlendu konurnar. Hin mörgu hjúskaparslit hafa eflaust aukið á fjandskap grannþjóða Ísraels. Árið 455 f.o.t. kom Nehemía til Jerúsalem í herfylgd. Hann hafði verið skipaður landstjóri í Júda og hafði meðferðis bréf frá Persakonungi með umboði til að endurreisa borgina. — Nehemíabók 2:9, 10; 5:14.
Andstaða öfundsjúkra nágranna
13. Hvaða afstöðu tóku nágrannar Gyðinga og hvernig brást Nehemía við?
13 Falstrúaðir nágrannar snerust öndverðir gegn því verki sem Nehemía kom til að vinna. Leiðtogar þeirra höfðu í hótunum við hann og spurðu: „Ætlið þér að gjöra uppreisn móti konunginum?“ Nehemía sýndi trú á Jehóva og svaraði: „Guð himnanna, hann mun láta oss takast þetta, en vér þjónar hans munum fara til og byggja. En þér eigið enga hlutdeild né rétt né minning í Jerúsalem.“ (Nehemíabók 2:19, 20) Þegar viðgerð múranna hófst gerðu þessir sömu óvinir gys að: ‚Hvað hafa Gyðingarnir fyrir stafni, þeir vesalingar? Munu þeir gjöra steinana í rústahaugunum lifandi? Ef refur stigi á það, þá mundi steinveggur þeirra hrynja undan honum!‘ Í stað þess að svara háðsglósunum bað Nehemía: „Heyr, Guð vor, hversu vér erum smánaðir! Lát háð þeirra koma þeim sjálfum í koll.“ (Nehemíabók 4:2-4) Nehemía gaf afargott fordæmi með stöðugu trausti sínu á Jehóva. — Nehemíabók 6:14; 13:14.
14, 15. (a) Hvernig brást Nehemía við ofbeldishótun óvinanna? (b) Hvernig hafa vottar Jehóva getað haldið áfram andlegu byggingarstarfi sínu þrátt fyrir harða andstöðu?
14 Vottar Jehóva nú á dögum hafa mikilvæga prédikun að inna af hendi, og þeir reiða sig einnig á stuðning Guðs til að ljúka henni. Andstæðingar hæðast að starfi þeirra og reyna að hindra það. Stundum gefst fólk upp, sem hefur sýnt Guðsríkisboðskapnum áhuga, af því að það þolir ekki háðið. Ef háðsglósur duga ekki eiga andstæðingarnir til að reiðast og hóta ofbeldi. Það gerðist meðan verið var að reisa múra Jerúsalem. En Nehemía lét ekki hræða sig. Hann vopnbjó byggingarmennina til að verjast óvinaárás og styrkti trú þeirra með þessum orðum: „Eigi skuluð þér óttast þá. En minnist [Jehóva], hins mikla og ógurlega, og berjist fyrir bræður yðar, sonu yðar, dætur yðar, konur yðar og hús yðar.“ — Nehemíabók 4:13, 14.
15 Eins og gert var á dögum Nehemía eru vottar Jehóva vel búnir til að halda áfram andlegu byggingarstarfi sínu þrátt fyrir hatramma andstöðu. Hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur látið fólki Guðs í té trústyrkjandi andlega fæðu sem gerir því kleift að bera ávöxt jafnvel þar sem starfið er bannað. (Matteus 24:45) Jehóva hefur þar af leiðandi haldið áfram að veita fólki sínu aukningu um heim allan. — Jesaja 60:22.
Erfiðleikar innan frá
16. Hvaða erfiðleikar innan frá ógnuðu góðum anda byggingarmannanna?
16 Endurreisn múranna gerðist erfiðari þegar á leið og múrarnir hækkuðu. Þá kom fram í dagsljósið vandamál sem ógnaði góðum anda meðal byggingarmannanna. Sökum matarskorts reyndist sumum Gyðingum erfitt að sjá fjölskyldum sínum fyrir fæði og greiða skatta sína til persnesku stjórnarinnar. Efnaðir Gyðingar lánuðu þeim mat og fé. En í bága við lög Guðs urðu hinir fátækari að leggja lönd sín og börn að veði fyrir endurgreiðslu skuldarinnar og vöxtum af henni. (2. Mósebók 22:25; 3. Mósebók 25:35-37; Nehemíabók 4:6, 10; 5:1-5) Nú hótuðu lánardrottnarnir að yfirtaka löndin og þröngva þeim til að selja börnin mansali. Nehemía varð stórreiður þessu kærleiksleysi og efnishyggjunni sem það bar vott um. Hann gerði tafarlaust ráðstafanir til að tryggja að Jehóva héldi áfram að blessa endurreisn múranna.
17. Hvað gerði Nehemía til að tryggja að Jehóva blessaði byggingarstarfið áfram og með hvaða árangri?
17 „Mikið þing“ var kallað saman og Nehemía sýndi hinum efnameiri Gyðingum greinilega fram á hvernig þeir hefðu bakað sér vanþóknun Jehóva. Síðan hvatti hann hina brotlegu, þeirra á meðal suma presta, til að skila öllum því fé sem þeir höfðu tekið í vexti, og skila löndum sem þeir höfðu tekið ólöglega af þeim sem höfðu ekki efni á að greiða vextina. Afstaða hinna seku var hrósunarverð: „Vér viljum skila því aftur og einskis krefjast af þeim,“ sögðu þeir. „Vér viljum gjöra sem þú segir.“ Þetta voru ekki orðin tóm því að Biblían segir að ‚lýðurinn hafi breytt samkvæmt orðum Nehemía.‘ Og allur söfnuðurinn vegsamaði Jehóva. — Nehemíabók 5:7-13.
18. Hvað eru vottar Jehóva þekktir fyrir?
18 Hvað um okkar daga? Vottar Jehóva misnota sér ekki neyð annarra heldur eru þeir þekktir fyrir örlæti sitt í garð bágstaddra trúbræðra og annarra. Líkt og á dögum Nehemía hafa margir lofað Jehóva fyrir og þakkað honum. Engu að síður hefur hinn „trúi og hyggni þjónn“ þurft að gefa biblíuleg ráð um viðskipti og um nauðsyn þess að misnota ekki aðra í hagnaðarskyni. Sums staðar í heiminum er algengt að krefjast óheyrilegs brúðarverðs, en Biblían varar afdráttarlaust við því að ágjarnir og ræningjar erfi ekki Guðsríki. (1. Korintubréf 6:9, 10) Góð viðbrögð flestra kristinna manna við slíkum ráðleggingum minna á hvernig Gyðingarnir áttuðu sig á að það væri synd að misnota sér fátækt trúbræðra sinna.
Múrar Jerúsalem fullgerðir
19, 20. (a) Hvaða áhrif hafði það á trúarlega fjandmenn þegar endurbyggingu múranna lauk? (b) Hvaða sigra hafa vottar Jehóva unnið víða um lönd?
19 Þrátt fyrir andstöðu lauk endurreisn múranna á 52 dögum. Hvaða áhrif hafði það á andstæðingana? Nehemía sagði: „Er allir óvinir vorir spurðu þetta, urðu allar þjóðirnar, sem bjuggu umhverfis oss, hræddar, og þær lækkuðu mjög í eigin áliti, því að þær könnuðust við, að fyrir hjálp Guðs vors hafði verki þessu orðið lokið.“ — Nehemíabók 6:16.
20 Óvinir berjast enn með ýmsu móti gegn starfi Guðs víða um lönd. En milljónir manna hafa áttað sig á því hve tilgangslaust það sé að standa gegn vottum Jehóva. Nefna má sem dæmi þær tilraunir sem gerðar hafa verið til að stöðva prédikunarstarfið í Austur-Evrópu, víða í Afríkulöndum og í Þýskalandi á tímum nasista. Allt hefur það mistekist og margir viðurkenna nú að það sé ‚fyrir hjálp Guðs sem verkið er unnið.‘ Hvílík umbun fyrir trúfasta menn í þessum löndum sem hafa um langt skeið látið tilbeiðsluna á Jehóva vera ‚allra besta yndið sitt.‘
21. Hvaða mikilvæga atburði er fjallað um í næstu grein?
21 Í næstu grein er fjallað um mikilvæga atburði sem voru undanfari gleðilegrar vígsluhátíðar borgarmúranna. Við fjöllum líka um hvernig brátt verður lokið byggingu langtum stórfenglegri borgar, öllu mannkyni til góðs.
Manstu?
◻ Hvernig glöddust Esra og fleiri yfir Jerúsalem?
◻ Hvaða brot hjálpuðu Esra og Nehemía mörgum að leiðrétta?
◻ Hvað geturðu lært af frásögunni af Esra og Nehemía?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Nehemía hafði mun meiri áhuga á Jerúsalem en virðingarstöðunni sem hann gegndi í Súsa.
[Myndir á blaðsíðu 16, 17]
Við þurfum að biðja um leiðsögn Jehóva líkt og Nehemía og um styrk til að halda áfram hinu þýðingarmikla prédikunarstarfi okkar.