18. kafli
Hollusta við skipulag Guðs núna
1, 2. Hvernig ber að skilja Sálm 50:5?
Í SÁLMI 16:10 stendur: „Þú ofurselur Helju eigi líf mitt, leyfir eigi að þinn trúaði sjái gröfina.“ Í Sálmi 50:5 stendur þetta skrifað: „Safnið saman dýrkendum mínum, þeim er gjört hafa sáttmála við mig með fórnum.“ Færa þeir hinir sömu og gera sáttmála við Jehóva ‚fórnirnar‘? Nei, þessir drottinhollu menn ‚fórna‘ ekki sjálfum sér eða leggja líkama sinn í sölurnar til að gera sáttmála við Guð.
2 Hvernig öðlast sáttmálinn þá gildi? Við ‚fórn‘ hins ‚trúaða‘ sem ekki var ofurseldur Helju, skilinn þar eftir, heldur reistur upp frá dauðum. Pétur postuli heimfærir orðin í Sálmi 16:10 upp á Jesú Krist og segir: „Því sá hann [Davíð] fyrir upprisu Krists og sagði: Ekki varð hann eftir skilinn í helju, og ekki varð líkami hans rotnun að bráð. Þennan Jesú reisti Guð upp.“ — Postulasagan 2:25, 27, 31, 32.
3. Hverjum er saman safnað samkvæmt boðinu í Sálmi 50:5, og hvers vegna ættu þeir að finna hjá sér löngun til að vera trúir Guði?
3 Þessi upprisni Jesús er meðalgangari nýja sáttmálans, og það er fórn hans sem fullgildir þann sáttmála. (Hebreabréfið 9:15, 17) Hverjum á þá að safna saman samkvæmt boðinu í Sálmi 50:5? Það eru lærisveinar Jesú sem eiga aðild að nýja sáttmálanum vegna fórnar hans. Þeir ættu að finna hjá sér hvöt til að reynast Jehóva drottinhollir vegna þakklætis fyrir þessa óviðjafnanlegu fórn hans.
4, 5. (a) Hvað varð Satan djöflinum ágengt gegn skipulagi Jehóva í fyrri heimsstyrjöldinni? (b) Hvert voru aðalstöðvar Félagsins fluttar og hvers vegna? (c) Hverjar voru tilfinningar eða viðhorf hinna trúu leifa, þegar þær íhuguðu hvernig komið væri fyrir skipulagi Guðs, líkt og lýst er í Sálmi 137:1?
4 Þegar ríki Jehóva var sett á stofn á himnum árið 1914 snerust þjóðirnar ofsareiðar gegn því með því að heyja fyrri heimsstyrjöldina, og Guð leyfði þeim það. (Sálmur 2:1, 2) Satan djöfullinn reyndi að færa sér heimsstyrjöldina í nyt til að eyða sýnilegum hluta skipulags Jehóva. Honum tókst að fá forseta Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn fangelsaðan í alríkisfangelsinu í Atlanta í Georgíu. Sjö aðrir fulltrúar Félagsins voru hnepptir í fangelsi með honum.
5 Vegna ofsókna voru aðalstöðvar Félagsins í Brooklyn í New York fluttar í leiguhúsnæði í Pittsburgh í Pennsylvaníu. Það var gert til að halda áfram útgáfu tímaritsins Varðturninn. Hinir trúföstu bjuggust þá við að verða dýrlegir á himnum innan skamms. En þessar leifar þjóna Guðs voru gráti nær þegar þær virtu fyrir sér hve illa var komið fyrir skipulagi Jehóva. — Sálmur 137:1.
Hollusta á tímum fangavistar
6-8. Hvernig sýndi forseti Félagsins, J. F. Rutherford, hollustu við skipulag Jehóva meðan hann sat í fangelsi?
6 J. F. Rutherford, forseti Varðturnsfélagsins, var hollur skipulagi Jehóva og meðan á fangavistinni stóð skrifaði hann J. A. Bohnet, traustum samverkamanni Jehóva, sérstakt bréf. Það var dagsett þann 25. desember 1918, merkt honum og sent til skrifstofu Félagsins í Pittsburgh. Rutherford sagði í bréfinu:
7 „Ég er í fangelsi fyrir þá sök að ég neitaði að láta undan Babýlon en reyndi trúfastur að þjóna Drottni mínum, og það er ég þakklátur fyrir. . . . Ég kýs miklu fremur hylli hans og bros, og sitja í fangelsi, heldur en að sættast á málamiðlun eða láta undan dýrinu og vera frjáls og eiga hylli alls heimsins. Það er blessunarrík, sæt reynsla að þjást fyrir trúfasta þjónustu við Drottin. Í ríkinu skulum við framar öllu öðru meta mikils bros föðurins. Það ætti að vera sérhverju barni Guðs efst í huga. Við þráum þá einingu sem bíður okkar þar. Ég er sæll en þó þrái ég að sjá ykkur öll aftur. Mótið og ársfundurinn nálgast. Megi andi Krists fylla hjörtu allra viðstaddra . . .
8 Enn er margt ógert. Það mun vera mikil náð að mega taka þátt í því. Þeir einir, sem elska hann framar öllu öðru, eru trúfastir og verða þess heiðurs aðnjótandi. . . . Áður en sá dagur rennur upp þarf að bera vitni af miklu kappi. . . . Þær aðferðir og ráð, sem notuð hafa verið, munu ekki duga en Drottinn mun á sinn góða máta gefa það sem til þarf. . . . Ég fagna því að þessi fangelsisvist skyldi okkur geymd en ekki ætluð bróður Russell. Aldrei fyrr hef ég svo mjög hatað ranglætið og elskað réttlætið og þráð að hjálpa öðrum. . . . Sigur Síonar er fyrir dyrum.“
Skipulag Guðs „allra besta yndið“ þeirra
9. Hvaða viðhorf sálmaritarans létu fangelsaðir fulltrúar Félagsins í ljós?
9 Þótt heimurinn hefði dæmt þjóna Jehóva sviksama, óþjóðrækna og landráðamenn afneituðu þeir ekki skipulagi Jehóva. Þeir neituðu að láta undan þvingunum heimsins. Heldur vildu þeir missa hægri hönd sína eða mál en gleyma skipulagi Guðs svo að það hætti að vera „allra besta yndið“ þeirra. — Sálmur 137:5, 6.
10, 11. (a) Hvers báðu leifarnar og hvaða orð sálmaritarans tóku þær sér í munn varðandi Edóm? (b) Hvað hafði óvinum sýnilegs skipulags Jehóva tekist og hverju bjuggust þeir aldrei við?
10 Fjandmenn Jehóva fögnuðu illkvittnislega yfir því sem jarðneskum fulltrúum alheimsskipulags hans var gert. En þjónar Jehóva báðu þess að hefndardagur hans kæmi vegna allra þeirra svívirðinga sem skipulag hans mátti þola. Þeir tóku sér í munn orð sálmaritarans um Edóm til forna: „Mun þú Edóms niðjum, [Jehóva], óheilladag Jerúsalem, þegar þeir æptu: ‚Rífið, rífið allt niður til grunna!‘“ (Sálmur 137:7; Galatabréfið 4:26) Jehóva ann skipulagi sínu, líku eiginkonu, of heitt til að gleyma því sem bandamenn djöfulsins segja og gera á hlut drottinhollra meðlima skipulags hans á jörð.
11 Eftir öllum ytri merkjum var ekki annað að sjá en að pólitískir velunnarar Babýlonar hinnar miklu hefðu rifið sýnilegt skipulag Jehóva „allt niður til grunna.“ Þeir bjuggust aldrei við að sjá það rísa úr duftinu og verða það alheimsskipulag sem það er nú.
Hamingja hefnarans
12. (a) Hver frelsaði þjóna Jehóva úr Babýlon til forna, og á Sálmur 137:8, 9 við hann í fullum skilningi? (b) Hvað sögðu þessi vers fyrir um hefnara Guðs?
12 Jehóva notaði persneska valdhafann Kýrus til að frelsa þjóna sína úr fjötrum heimsveldisins Babýlonar til forna. En í fyllsta skilningi var það ekki Kýrus sem við var átt með lokaorðum Sálms 137, þar sem talað er til Babýlonar hinnar miklu, heimsveldis falskra trúarbragða: „Babýlonsdóttir, þú sem tortímir! Heill þeim, er geldur þér fyrir það sem þú hefir gjört oss! Heill þeim er þrífur ungbörn þín og slær þeim niður við stein.“ — Sálmur 137:8, 9.
13, 14. Hvers vegna geta það ekki verið pólitískir eyðendur Babýlonar hinnar miklu sem árnað er heilla í Sálmi 137:8, 9?
13 Hverjum er hér árnað heilla? Eru það táknræn ‚tíu horn‘ á höfði ‚dýrsins‘ sem gamla skækjutrúarkerfið hefur svo lengi riðið með mikilli viðhöfn? Nei, því að þau pólitísku öfl, sem eyða heimsveldi falskra trúarbragða, gera það ekki til að rýma fyrir hreinni tilbeiðslu hins sanna Guðs. Þau gera það ekki til dýrðar Guði Biblíunnar. Hver getur það þá verið sem sálmaritarinn lýsir hamingjusaman og árnar heilla?
14 Stjórnmálaöfl þessa heims ráðast ekki gegn trúarbrögðunum vegna kærleika til dýrkenda Jehóva. Hvers vegna? Vegna þess að vottar Jehóva standa í veginum fyrir því að þau geti skapað heim er sé algerlega án Guðs. Stjórnmálaöflin eru því aðeins verkfæri sem Guð vottanna notar til að framkvæma tilgang sinn. — Opinberunarbókin 17:17.
15. Hver leggur stjórnmálaöflunum í brjóst hvað gera skuli og hvern notar hann til þess?
15 Þótt þessi stjórnmálaöfl séu notuð beint til að afmá heimsveldi falskra trúarbragða er það í raun Jehóva Guð sem lætur þau vinna verkið. Hvernig? Hann notar til þess son sinn, hinn meiri Kýrus, konunginn Jesú Krist. Jesús Kristur sem konungur Guðsríkis er því sá sem sálmaritarinn óskar heilla!
16. Hvernig eyðir Jehóva ‚börnum‘ Babýlonar?
16 Á meðan Jehóva verndar drottinholla þjóna sína mun hann táknrænt talað hrifsa sérhvert trúarlegt ‚barn‘ skækjunnar, heimsveldis falskra trúarsetninga, og slá það sundur við stóran, gnæfandi „stein“ — óbifanlegt ríki Jehóva Guðs í höndum Jesú Krists.
17. (a) Hvað átti Jesús að boða, samkvæmt Jesaja 61:1, 2, eftir að hann væri smurður anda Guðs? (b) Hvernig fer sú boðun fram núna?
17 Þegar Jesús var á jörðinni smurði Guð hann anda sínum ekki aðeins til að „boða náðarár [Jehóva],“ heldur líka „hefndardag Guðs vors.“ (Jesaja 61:1, 2; Lúkas 4:16-21) Á okkar tímum, nú á ‚síðustu dögum‘ þessa heimskerfis, lætur Jehóva trúfasta þjóna sína boða „hefndardag Guðs vors“ um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til viðvörunar. „Mikill múgur“ sauðumlíkra lærisveina Jesú Krists hefur gengið í lið með leifunum í þessari boðun. Þeim var lýst fyrirfram í sýn skráðri í Opinberunarbókinni 7:9-17.
18. Í hvaða hamingju eignast drottinhollir þjónar Guðs hlutdeild?
18 Allir þessir, leifarnar og ‚múgurinn mikli,‘ hafa hlýtt boði engilsins í Opinberunarbókinni 18:4. Þeir hafa gengið út úr Babýlon hinni miklu. Hvers vegna liggur svo mikið á að gera það? Vegna þess að menn verða að flýja út úr Babýlon hinni miklu áður en „dýrið“ og „hornin tíu“ eru látin knosa og eyða trúarlegum ‚börnum‘ hennar rétt fyrir Harmagedón. Þessir drottinhollu menn fá hlut í hamingju hins meiri Kýrusar, Jesú Krists. Þeir taka undir með himninum í lofsöng: „Hallelúja! Hjálpræðið og dýrðin og mátturinn er Guðs vors. Sannir og réttlátir eru dómar hans. Hann hefur dæmt skækjuna miklu, sem jörðunni spillti með saurlifnaði sínum.“ — Opinberunarbókin 19:1, 2; samanber Jeremía 51:8-11.
19. Hvaða hamingju njóta leifarnar núna og hvaða meiri hamingja bíður þeirra?
19 Frá 1919 hefur Jehóva gert „mikla hluti“ fyrir þjóna sína. (Sálmur 126:1-3) Hinar frelsuðu leifar eru enn glaðar í hjarta sér fyrir það hvernig hann hefur miklað mátt sinn til að frelsa þjóna sína, og sýnt að hann er „hinn trúfasti“ Guð. (5. Mósebók 7:9) Þeir eru innilega hamingjusamir, en þó bíður þeirra enn ríkulegri hamingja. Hún hlotnast þeim þegar þeir geta fengið hlutdeild í hamingju hins meiri Kýrusar, einvaldsins Jesú Krists, þegar hann knosar öll ‚börn‘ þessa djöfullega skipulags.
20. Hverjir aðrir eiga hlut í hamingju leifanna og hvers vegna?
20 Milljónir fyrrverandi ‚bandingja‘ Babýlonar hinnar miklu hafa þegar fengið hjálp til að flýja hina dæmdu trúarstofnun áður en hún hlýtur voveifleg endalok. Þannig er til orðinn mikill múgur ‚annarra sauða.‘ Þeir telja nú um alla jörðina yfir þrjár milljónir. Því eru engin takmörk sett hve mörgum má enn bjarga undan tortímingu heimsveldis falskra trúarbragða. Trúir skipulagi Jehóva fá þeir hlutdeild í hamingju leifanna með því að leggja þeim lið við að boða hefndardag Jehóva yfir trúarveldinu Babýlon hinni miklu.
21. Hvernig ættum við að hugsa um Babýlon hina miklu og bandingja hennar?
21 Látum því aldrei undan heimsveldi falskra trúarbragða á nokkurn veg. Snúum í engu aftur til þessa hnignandi trúarkerfis. Við skulum halda áfram að hjálpa eins mörgum bandingjum Babýlonar hinnar miklu og frekast er unnt að forða sér áður en hinn meiri Kýrus vinnur sinn gleðiríka sigur.