Þekkir Guð þig í raun og veru?
„[Jehóva], . . . alla vegu mína gjörþekkir þú.“ — SÁLMUR 139:1, 3.
1. Hversu útbreidd er sú tilfinning að ‚aðrir skilji ekki‘ áhyggjurnar, vandamálin og álagið sem á okkur hvílir?
SKILUR einhver í raun og veru áhyggjurnar, álagið og vandamálin sem á þér hvíla? Um allan heim má finna milljónir manna, unga og gamalla, sem eiga enga fjölskyldu eða ættingja er láta sig varða hvað kemur fyrir þá. Jafnvel innan fjölskyldunnar hafa margar eiginkonur — já, og líka eiginmenn — það á tilfinningunni að maki þeirra geri sér ekki fulla grein fyrir því álagi sem íþyngir þeim. Þegar þau eru vonsvikin segja þau stundum: „En þú skilur ekki!“ Og það er ófátt unga fólkið sem hefur dregið þá ályktun að enginn skilji það heldur. Meðal þeirra sem hafa þráð meiri skilning annarra má þó finna fólk sem seinna hefur öðlast mjög innihaldsríkt líf. Hvernig er það mögulegt?
2. Hvað getur gert tilbiðjendum Jehóva kleift að lifa mjög innihaldsríku lífi?
2 Ástæðan er sú að hvort sem aðrir menn skilja þetta fólk til fulls eða ekki er það öruggt um að Guð skilji hvað það gengur í gegnum og að það þurfi ekki, sem þjónar hans, að takast einsamalt á við vandamál sín. (Sálmur 46:2) Þar að auki gerir orð Guðs, ásamt aðstoð skilningsríkra kristinna öldunga, því kleift að horfa lengra en aðeins á persónuleg vandamál sín. Ritningin hjálpar þessu fólki að gera sér ljóst að trúföst þjónusta þess er dýrmæt í augum Guðs og að örugg framtíð bíði þeirra sem festa von sína á hann og þær ráðstafanir sem hann hefur gert fyrir atbeina sonar síns Jesú Krist. — Orðskviðirnir 27:11; 2. Korintubréf 4:17, 18.
3, 4. (a) Hvernig getur það hjálpað okkur að öðlast gleði í þjónustunni við Jehóva að viðurkenna að ‚Jehóva er Guð‘ og að ‚hann hafi skapað okkur‘? (b) Hvers vegna treystum við algerlega á kærleiksríka umhyggju Jehóva?
3 Þú kannast ef til vill við Sálm 100:2 sem segir: „Þjónið [Jehóva] með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng!“ Hversu margir tilbiðja Jehóva í rauninni á þennan hátt? Traustar ástæður til þess eru nefndar í 3. versi sem áminnir okkur: „Vitið, að [Jehóva] er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð.“ Í hebreska textanum er vísað til hans sem Elohim og þannig bent á mikilleik hans, hátign, reisn og yfirburði alla. Hann er hinn eini sanni Guð. (5. Mósebók 4:39; 7:9; Jóhannes 17:3) Þjónar hans kynnast guðdómi hans, ekki aðeins sem staðreynd er þeim hefur verið kennd heldur sem einhverju er þeir fá að reyna og þeir eru vitnisburður um með hlýðni sinni, trausti og hollustu. — 1. Kroníkubók 28:9; Rómverjabréfið 1:20.
4 Sökum þess að Jehóva er hinn lifandi Guð, sem getur jafnvel séð hjörtu okkar, er ekkert hulið augum hans. Hann hefur fulla vitund um það sem er að gerast í lífi okkar. Hann skilur hvað veldur þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir, svo og því hugar- og tilfinningaróti sem þau kunna að hafa í för með sér. Sem skaparinn þekkir hann okkur betur en við gerum sjálf. Hann veit einnig hvernig á að hjálpa okkur að takast á við aðstæður okkar og hvernig má veita varanlega lausn. Af kærleika mun hann hjálpa okkur — eins og hirðir sem heldur á lambi í fanginu — er við treystum á hann af öllu hjarta. (Orðskviðirnir 3:5, 6; Jesaja 40:10, 11) Könnun á Sálmi 139 getur gert mikið til að efla þetta traust.
Sá sem sér alla vegu okkar
5. Hvað þýðir það að Jehóva skuli ‚rannsaka‘ okkur og hvers vegna er það æskilegt?
5 Sálmaritarinn Davíð skrifaði af djúpu þakklæti: „[Jehóva], þú rannsakar og þekkir mig.“ (Sálmur 139:1) Davíð treysti því að þekking Jehóva á honum væri ekki yfirborðskennd. Guð sá Davíð ekki eins og menn kynnu að gera, vel vaxinn mann, vel máli farinn og góðan hörpuleikara. (1. Samúelsbók 16:7, 18) Jehóva hafði ‚rannsakað‘ hið innsta eðli Davíðs og hafði gert það vegna kærleiksríkrar umhyggju fyrir andlegri velferð hans. Ef þú ert einn af dyggum þjónum Jehóva þekkir hann þig alveg eins vel og hann þekkti Davíð. Vekur það ekki upp hjá þér bæði þakklætistilfinningu og óttablandna lotningu?
6. Hvernig sýnir Sálmur 139:2, 3 að Jehóva veit um allt sem við gerum, jafnvel um hugsanir okkar?
6 Allt sem Davíð tók sér fyrir hendur lá bert fyrir augum Jehóva og Davíð gerði sér grein fyrir því. „Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar. Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú.“ (Sálmur 139:2, 3) Þótt Jehóva sé á himni, langt í burtu frá jörðinni, kom það ekki í veg fyrir að hann vissi hvað Davíð var að gera eða hvað hann var að hugsa. Hann hafði ‚athugað‘ eða skoðað vandlega athafnir Davíðs, nótt sem dag, til þess að vita hvers eðlis þær voru.
7. (a) Nefndu, með hliðsjón af lífi Davíðs, sumt af því í lífi okkar sem Guð veit um. (b) Hvaða áhrif ætti vitneskjan um það að hafa á okkur?
7 Þegar kærleikur til Guðs og tiltrú á frelsunarmátt hans hafði fengið Davíð sem ungan mann til að bjóða sig fram til að berjast við Filistann og risann Golíat, vissi Jehóva það. (1. Samúelsbók 17:32-37, 45-47) Síðar, þegar fjandskapur manna olli Davíð miklum sálarkvölum, þegar álagið var svo mikið að hann tárfelldi um nætur, var það honum hughreysting að vita að Jehóva heyrði auðmjúka bæn hans. (Sálmur 6:7, 10; 55:3-6, 23) Á sama hátt vissi Jehóva vel af því þegar þakklátt hjarta Davíðs fékk hann á andvökunóttum til að hugsa vandlega um Jehóva. (Sálmur 63:7; samanber Filippíbréfið 4:8, 9.) Kvöld eitt, þegar Davíð horfði á nágrannakonu sína baða sig, vissi Jehóva það líka og hann sá hvað gerðist þegar Davíð leyfði syndugum löngunum að ýta Guði úr huga sér, jafnvel um stutta stund. (2. Samúelsbók 11:2-4) Síðar, þegar Natan spámaður var sendur til að láta Davíð horfast í augu við alvöru syndar sinnar, heyrði Jehóva ekki aðeins orðin sem komu af munni Davíðs heldur skynjaði einnig að þau komu frá iðrunarfullu hjarta. (2. Samúelsbók 12:1-14; Sálmur 51:3, 19) Ætti það ekki að fá okkur til að hugsa alvarlega um hvert við förum, hvað við gerum og hvað sé í hjarta okkar?
8. (a) Á hvaða hátt hafa ‚orðin á tungu okkar‘ áhrif á stöðu okkar frammi fyrir Guði? (b) Hvernig má sigrast á veikleika hvað varðar notkun tungunnar? (Matteus 15:18; Lúkas 6:45)
8 Þar eð Guð veit um allt sem við gerum ætti okkur ekki að undra að honum sé kunnugt um hvernig við notum jafnvel svo lítinn líkamslim sem tungan er. Davíð konungur gerði sér grein fyrir því og hann skrifaði: „Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, [Jehóva], þekkir það eigi til fulls.“ (Sálmur 139:4) Davíð vissi vel að þeir sem boðnir yrðu velkomnir sem gestir í tjald Jehóva yrðu menn sem færu ekki með róg um aðra og neituðu að nota tungu sína til að breiða út safamiklar slúðursögur sem yrðu nánum kunningja þeirra til ámælis. Þeir sem Jehóva veitti velþóknun sína yrðu menn sem töluðu sannleika, jafnvel í hjarta sér. (Sálmur 15:1-3; Orðskviðirnir 6:16-19) Enginn okkar getur haft fullkomna stjórn á tungu sinni en Davíð sýndi ekki þann veikleika að álykta að hann gæti ekkert gert til að bæta ástand sitt í þessu efni. Hann varði miklum tíma í að yrkja og syngja lofsöngva til Jehóva. Hann viðurkenndi einnig fúslega þörf sína á hjálp og bað til Guðs um hana. (Sálmur 19:13-15) Þarf einnig að ræða við Guð í bæn um það hvernig við notum tunguna?
9. (a) Hvað gefur lýsingin í Sálmi 139:5 til kynna um það hversu rækilega Guð viti um stöðu okkar? (b) Hvaða traust vekur þetta með okkur?
9 Jehóva hefur ekki aðeins takmarkaða innsýn í stöðu okkar. Hann hefur heildarmyndina, frá öllum hliðum. Davíð notaði umlukta eða umsetna borg sem dæmi og skrifaði: „Þú umlykur mig á bak og brjóst.“ Guð sat ekki um Davíð eins og óvinur; hann var árvakur verndari. „Hönd þína hefir þú lagt á mig,“ bætti Davíð við og gaf þannig til kynna hvernig Guð stýrði málum og verndaði þá sem elskuðu hann, þeim til varanlegs gagns. „Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn,“ viðurkenndi Davíð. (Sálmur 139:5, 6) Svo alger og rækileg er þekking Guðs á þjónum sínum að við fáum ekki skilið það til fullnustu. En við vitum nóg til að treysta því að Jehóva skilji okkur svo sannarlega og að sú hjálp sem hann veitir verði sú allra besta. — Jesaja 48:17, 18.
Guð getur hjálpað okkur hvar sem við erum
10. Hvaða uppörvandi sannindi koma fram í hinni lifandi lýsingu í Sálmi 139:7-12?
10 Sálmaritarinn skoðar kærleiksríka umhyggju Jehóva frá öðrum sjónarhóli og heldur áfram: „Hvert get ég farið frá anda þínum og hvert flúið frá augliti þínu?“ Hann langaði alls ekki til að reyna að komast frá Jehóva. Hann vissi hins vegar að Jehóva myndi vita um hann hvar sem hann væri niður kominn og gæti hjálpað honum með heilögum anda. „Þótt ég stigi upp í himininn,“ heldur hann áfram, „þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar. Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf, einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér. Og þótt ég segði: ‚Myrkrið hylji mig og ljósið í kringum mig verði nótt,‘ þá myndi þó myrkrið eigi verða þér of myrkt og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér.“ (Sálmur 139:7-12) Við gætum ekkert farið og ekki lent í neinum þeim kringumstæðum þar sem við værum komin úr sjónmáli Jehóva eða utan seilingar anda hans þannig að hann nái ekki að hjálpa okkur.
11, 12. (a) Hvernig kom hæfni Jehóva til að sjá og hjálpa í ljós í samskiptum hans við Jónas, jafnvel þótt Jónas missti sjónar á því um stund? (b) Hvernig ætti reynsla Jónasar að gagnast okkur?
11 Svo fór eitt sinn að Jónas spámaður missti sjónar á þessu. Jehóva hafði falið honum að prédika fyrir íbúum Níníve. Eitthvað fékk hann til að halda að hann fengi ekki ráðið við það hlutverk. Ef til vill hraus Jónasi hugur við því að starfa í Níníve vegna þess að Assýringar voru þekktir fyrir grimmd. Hann reyndi því að láta sig hverfa. Í hafnarbænum Jaffa fékk hann far með skipi sem ætlaði til Tarsis (sem menn yfirleitt tengja Spáni, meira en 3500 kílómetra vestur af Níníve). Jehóva sá hann engu að síður stíga á skip, fara niður í farrými og leggjast til svefns. Guð vissi líka hvar Jónas var þegar honum var seinna kastað fyrir borð og Jehóva heyrði til Jónasar þegar hann, inni í maga stórfisksins, lofaði að standa við heit sitt. Þegar Jónasi hafði verið skilað upp á þurrt land var honum aftur gefið tækifæri til að vinna það verk sem honum hafði verið falið. — Jónas 1:3, 17; 2:1–3:4.
12 Hefði það ekki verið miklu betra fyrir Jónas að reiða sig strax í upphafi á að andi Jehóva myndi hjálpa honum að vinna það verk sem honum var falið? Seinna skráði Jónas þó auðmjúkur niður reynslu sína og sú frásögn hefur upp frá því hjálpað mörgum að sýna það traust á Jehóva sem Jónasi virtist svo erfitt að öðlast. — Rómverjabréfið 15:4.
13. (a) Hvaða verkefni hafði Elía skilað trúfastur af hendi áður en hann flýði undan Jesebel drottningu? (b) Hvernig hjálpaði Jehóva Elía, jafnvel þegar hann reyndi að fara huldu höfði utan landamæra Ísraels?
13 Reynsla Elía var nokkuð frábrugðin þessu. Hann hafði trúfastur komið á framfæri þeim úrskurði Jehóva að þurrkur kæmi yfir Ísrael sem hegning fyrir syndir íbúanna. (1. Konungabók 16:30-33; 17:1) Djarflega hafði hann haldið á lofti sannri tilbeiðslu í keppninni milli Jehóva og Baals á Karmelfjalli. Og hann hafði fylgt því eftir með því að taka af lífi 450 spámenn Baals við Kísonlæk. En þegar Jesebel drottning sór í bræði sinni að láta drepa Elía flýði hann land. (1. Konungabók 18:18-40; 19:1-4) Var Jehóva þar til að hjálpa honum á þessum erfiðleikatímum? Já, svo sannarlega. Ef Elía hefði klifið hátt fjall, eins og til himins; ef hann hefði falið sig í helli djúpt í jörðu, eins og í undirheimum; ef hann hefði flúið til fjarlægrar eyjar eins hratt og morgunroðinn breiðist yfir jörðina — hefði hönd Jehóva verið þar til að styrkja hann og leiða. (Samanber Rómverjabréfið 8:38, 39.) Og vissulega styrkti Jehóva Elía, ekki aðeins með mat til ferðalagsins heldur einnig með því að sýna starfskraft sinn á stórfenglegan hátt. Elía gekk þannig tvíefldur til næsta verkefnis síns sem spámaður. — 1. Konungabók 19:5-18.
14. (a) Hvers vegna væri rangt að álykta að Guð sé alls staðar nálægur? (b) Við hvaða kringumstæður hefur Jehóva á kærleiksríkan hátt haldið þjónum sínum uppi nú á tímum? (c) Hvernig má það vera að þótt við værum í Séol væri Guð þar?
14 Spádómsorðin í Sálmi 139:7-12 þýða ekki að Guð sé alls staðar nálægur, að hann sé persónulega alltaf alls staðar. Ritningin sýnir greinilega að svo er ekki. (5. Mósebók 26:15; Hebreabréfið 9:24) Þjónar hans eru þó aldrei utan seilingar hans. Það gildir um þá sem hafa þurft að fara til fjarlægra landa til að sinna guðræðislegum verkefnum sínum. Það gilti um trúfasta votta í fangabúðum nasista í seinni heimsstyrjöldinni, og það gilti um trúboða sem haldið var í einangrun í fangelsi í Kína á árunum 1958 til 1965. Það gilti um kæra bræður okkar og systur í landi í Mið-Afríku sem þurftu hvað eftir annað að flýja frá þorpum sínum og jafnvel úr landi. Gerist þess þörf getur Jehóva náð beint niður í undirheima, Séol, hina almennu gröf mannkynsins, og náð trúföstu fólki til baka aftur með upprisunni. — Jobsbók 14:13-15; Lúkas 20:37, 38.
Sá sem í sannleika skilur okkur
15. (a) Hversu snemma gat Jehóva fylgst með þroska okkar? (b) Hvernig gefur tilvísun sálmaritarans til nýrnanna til kynna í hve miklum mæli Guð þekkir okkur?
15 Undir innblæstri dregur sálmaritarinn athyglina að því að vitneskja Jehóva um okkur nái jafnvel aftur fyrir fæðingardag okkar, er hann segir: „Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi. Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.“ (Sálmur 139:13, 14) Samruni gena frá föður okkar og móður við getnaðinn býr til mynstur sem hefur djúptæk áhrif á líkamlega og andlega eiginleika okkar. Guð skilur hvaða möguleikar eru þarna fyrir hendi. Í þessum sálmi eru nýrun sérstaklega nefnd sem Ritningin notar oft til að tákna innstu þætti persónuleika okkar.a (Sálmur 7:10; Jeremía 17:10) Jehóva hefur þekkt þessi smáatriði varðandi okkur frá því áður en við fæddumst. Það er líka hann sem af kærleiksríkri umhyggju hannaði mannslíkamann þannig að frjóvguð fruma myndar í legi móðurinnar skýli til að halda fóstrinu aðgreindu og vernda það er það þroskast.
16. (a) Á hvaða hátt dregur Sálmur 139:15, 16 skýrt fram hvernig sjón Guðs getur smogið í gegnum efnið? (b) Hvers vegna ætti það að vera uppörvandi fyrir okkur?
16 Sálmaritarinn heldur þá áfram og leggur áherslu á hvernig sjón Guðs getur smogið í gegnum efnið: „Beinin í mér voru þér eigi hulin, þá er ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar [sem er greinilega skáldleg tilvísun til kviðar móður hans en með óbeinni tilvitnun til sköpunar Adams af dufti jarðar]. Augu þín sáu mig jafnvel sem fóstur og í bók þinni voru allir hlutar þess skráðir, og dagarnir er þeir [líkamshlutarnir] voru myndaðir, og þó var enn ekki einn [afmarkaður líkamshluti] einasti þeirra.“ (Sálmur 139:15, 16, vers 16 samkvæmt NW) Á því leikur enginn vafi að Jehóva skilur okkur, hvort sem aðrir menn gera það eða ekki. Hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur?
17. Hvað finnum við okkur knúin til að gera þegar við lítum svo á að verk Guðs séu undursamleg?
17 Sá sem ritaði Sálm 139 viðurkenndi að verk Guðs, sem hann skrifaði um, væru undursamleg. Er þér einnig þannig innanbrjósts? Eitthvað, sem er undursamlegt, fær mann til að hugsa dýpra og beina athygli sinni hugfanginn að því. Líklega eru það viðbrögð þín gagnvart efnislegu sköpunarverki Jehóva. (Samanber Sálm 8:4, 5, 10.) Hugleiðir þú einnig á þennan hátt það sem hann hefur gert til þess að koma Messíasarríkinu á laggirnar, það sem hann er að gera til að láta prédika fagnaðarerindið um alla jörðina, og hvernig orð hans umbreytir persónuleika manna? — Samanber 1. Pétursbréf 1:10-12.
18. Hvaða áhrif mun það hafa á okkur að finnast verk Guðs undursamleg?
18 Er það á sama hátt reynsla þín að það sé undursamlegt að ígrunda verk Guðs, að það veki hjá þér heilnæman ótta, slíkan sem knýr þig með krafti til verka, slíkan sem hefur djúpstæð áhrif á persónuleika þinn og hvernig þú verð lífi þínu? (Samanber Sálm 66:5.) Sé svo mun hjarta þitt fá þig til að vegsama Jehóva, prísa hann, skapa þér tækifæri til að segja öðrum frá tilgangi hans og þeim dásemdum sem hann geymir þeim sem elska hann. — Sálmur 145:1-3.
[Neðanmáls]
a Sjá Insight on the Scriptures, gefið út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc., 2. bindi, bls. 150.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvernig hjálpar sú vitneskja að ‚Jehóva sé Guð‘ okkur til að þjóna honum með fögnuði?
◻ Hvernig ætti það að hafa áhrif á líf okkar að Guð skuli vita um allt sem við gerum?
◻ Hvers vegna er það uppörvandi að við skulum aldrei vera úr augsýn Guðs?
◻ Hvers vegna getur Guð skilið okkur á þann hátt sem enginn maður getur?
◻ Hvers vegna fær nám eins og þetta okkur til að vilja vegsama Jehóva?