„Prófa mig, Guð“
„Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, . . . leið mig hinn eilífa veg.“ — SÁLMUR 139:23, 24.
1. Hvernig kemur Jehóva fram við þjóna sína?
VIÐ viljum öll að aðrir sýni okkur skilning, taki tillit til kringumstæðna okkar, hjálpi okkur þegar okkur verður á og krefjist ekki meira af okkur en við erum fær um að gera. Jehóva Guð kemur þannig fram við þjóna sína. Sálmur 103:14 segir: „Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.“ Jesús Kristur, sem endurspeglar fullkomlega föður sinn, býður okkur hlýlega: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok [eða: „Komið undir ok mitt með mér,“ NW, neðanmáls] og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ — Matteus 11:28-30.
2. Berðu viðhorf Jehóva saman við viðhorf manna hvað snertir (a) Jesús Krist, og (b) fylgjendur Krists.
2 Jehóva lítur þjóna sína oft allt öðrum augum en menn gera. Hann lítur á málin frá ólíkum sjónarhóli og tekur með í reikninginn atriði sem aðrir vita ef til vill ekkert um. Þegar Jesús Kristur gekk á jörðinni var hann „fyrirlitinn, og menn forðuðust hann.“ Þeir sem trúðu ekki á hann sem Messías ‚mátu hann einskis.‘ (Jesaja 53:3; Lúkas 23:18-21) Í augum Guðs var hann samt sem áður „[Guðs] elskaði sonur“ og faðirinn sagði við hann: „Á þér hef ég velþóknun.“ (Lúkas 3:22; 1. Pétursbréf 2:4) Meðal fylgjenda Jesú Krists er fólk sem litið er niður á vegna þess að það er efnislega fátækt og þarf að sæta miklum þrengingum. En í augum Jehóva og sonar hans gæti slíkt fólk verið ríkt. (Rómverjabréfið 8:35-39; Opinberunarbókin 2:9) Hvers vegna er litið þannig tvennum augum á málið?
3. (a) Hvers vegna lítur Jehóva fólk oft allt öðrum augum en menn gera? (b) Hvers vegna er alveg lífsnauðsynlegt að við rannsökum hvers konar menn við erum innst inni?
3 Jeremía 11:20 svarar: „[Jehóva] . . . rannsakar nýrun og hjartað.“ Hann sér hvernig við erum innst inni, jafnvel þær hliðar persónuleika okkar sem aðrir fá ekki séð. Við athugun sína gefur hann fyrst og fremst gaum að þeim eiginleikum og ásigkomulagi sem eru bráðnauðsynlegir til að geta átt gott samband við hann, þeim sem koma okkur að mestu gagni þegar til lengdar lætur. Sú vitneskja er hughreystandi, en hún vekur okkur líka til umhugsunar. Þar sem Jehóva gefur því gaum hvernig við erum hið innra er mikilvægt fyrir okkur að rannsaka hvernig við erum hið innra til þess að við getum orðið þess konar fólk sem hann vill hafa í nýja heiminum sínum. Orð hans hjálpar okkur að gera slíka rannsókn. — Hebreabréfið 4:12, 13.
Hversu dýrmætar eru hugsanir Guðs!
4. (a) Hvað fékk sálmaritarann til að lýsa því yfir að hugsanir Guðs væru honum dýrmætar? (b) Hvers vegna ættu þær að vera okkur dýrmætar?
4 Eftir að sálmaritarinn Davíð hafði hugleitt vandlega breiddina og dýptina í þekkingu Guðs á þjónum sínum, svo og alveg einstaka hæfni Guðs til að veita þeim hverja þá hjálp sem þeir kynnu að þarfnast, skrifaði hann: „En hversu torskildar [„dýrmætar,“ NW] eru mér hugsanir þínar.“ (Sálmur 139:17a) Þessar hugsanir, sem birtast í rituðu orði hans, eru miklu hærri en nokkuð sem frá mönnum kemur, óháð því hve snilldarlegar hugmyndir þeirra kunna að virðast. (Jesaja 55:8, 9) Hugsanir Guðs hjálpa okkur að festa athygli okkar við það sem raunverulega skiptir máli í lífinu og að vera kostgæf í þjónustunni við hann. (Filippíbréfið 1:9-11) Þær sýna okkur hvernig við eigum að líta á málin á sama hátt og Guð. Þær hjálpa okkur að vera heiðarleg gagnvart sjálfum okkur, að horfast í augu við hvers konar mann við höfum að geyma. Ert þú fús til þess?
5. (a) Hvað hvetur orð Guðs okkur til að varðveita „framar öllu öðru“? (b) Hvernig getum við haft gagn af frásögu Biblíunnar um Kain? (c) Hvernig hjálpa Móselögin okkur að skilja hvað sé Jehóva þóknanlegt, jafnvel þótt við þurfum ekki að hlíta þeim?
5 Menn hafa tilhneigingu til að leggja of mikla áherslu á hið ytra en Ritningin ráðleggur okkur: „Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru.“ (Orðskviðirnir 4:23) Biblían hjálpar okkur til að gera það, bæði með forskrift og fordæmum. Hún segir okkur að Kain hafi til málamynda fært Guði fórn á meðan í hjarta hans ólgaði gremja og síðan hatur gagnvart bróður hans, Abel. Og hún hvetur okkur til að líkjast honum ekki. (1. Mósebók 4:3-5; 1. Jóhannesarbréf 3:11, 12) Þar er skráð hvernig Móselögin gerðu kröfu um hlýðni. En hún leggur einnig áherslu á að fremsta krafa lögmálsins var sú að þeir sem tilbæðu Jehóva yrðu að elska hann af öllu hjarta, huga, sálu og mætti; næstmikilvægasta boðorðið væri það að þeir skyldu elska náunga sinn eins og sjálfa sig. — 5. Mósebók 5:32, 33; Markús 12:28-31.
6. Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur í ljósi þess sem segir í Orðskviðunum 3:1?
6 Í Orðskviðunum 3:1 erum við ekki einungis hvött til að halda boðorð Guðs heldur gæta þess að hlýðnin við þau endurspegli það sem býr í hjarta okkar. Við þurfum hvert og eitt að spyrja okkur: ‚Má með réttu segja það um hlýðni mína við kröfur Guðs?‘ Ef okkur verður ljóst að áhugahvötum okkar eða hugsunum er áfátt í einhverjum efnum — og enginn okkar getur sagt að hann sé lýtalaus — þá þurfum við að spyrja okkur: ‚Hvað er ég að gera til að bæta ástandið?‘ — Orðskviðirnir 20:9; 1. Jóhannesarbréf 1:8.
7. (a) Hvernig gæti fordæming Jesú á faríseunum í Matteusi 15:3-9 hjálpað okkur að varðveita hjarta okkar? (b) Hvaða ástand gæti krafist þess að við gripum til öflugra ráðstafana til að aga huga okkar og hjarta?
7 Þegar farísearnir hjá Gyðingum þóttust vera að heiðra Guð á sama tíma og þeir ýttu slóttuglega undir siðvenju sem var sprottin af eigingirni, fordæmdi Jesús þá sem hræsnara og sýndi að tilbeiðsla þeirra væri til einskis. (Matteus 15:3-9) Jesús varaði líka við því að ekki sé nægilegt, til þess að þóknast Guði sem getur séð hjartað, að lifa siðsömu lífi út á við ef við látum hugann þrálátlega gæla við ósiðlegar hugsanir í þeim tilgangi að hafa af því nautnafulla ánægju. Við þurfum ef til vill að grípa til róttækra ráðstafana til þess að aga huga okkar og hjarta. (Orðskviðirnir 23:12; Matteus 5:27-29) Slík ögun er líka nauðsynleg ef veraldleg vinna okkar, markmið okkar hvað menntun varðar eða skemmtunarval okkar er farið að hafa þau áhrif að við séum farin að líkja eftir heiminum, leyfa honum að móta okkur samkvæmt mælikvarða sínum. Gleymum því aldrei að lærisveinninn Jakob ávarpar þá sem segjast tilheyra Guði en vilja vera vinir heimsins sem hina „ótrúu.“ Hvers vegna? Vegna þess að „allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ — Jakobsbréfið 4:4; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17; 5:19.
8. Hvað þurfum við að gera til að hafa fullt gagn af dýrmætum hugsunum Guðs?
8 Til þess að hafa fullt gagn af hugsunum Guðs varðandi þessi mál og önnur þurfum við að taka frá tíma til að lesa þær eða hlusta á þær. Við verðum þar að auki að nema þær, tala um þær og hugleiða þær vandlega. Margir lesenda Varðturnsins sækja reglulega samkomur votta Jehóva þar sem Biblían er rædd. Þeir taka tíma frá öðrum viðfangsefnum til að geta gert það. (Efesusbréfið 5:15-17) Endurgjaldið, sem þeir fá, er miklu verðmætara en efnislegur auður. Finnst þér það ekki líka?
9. Af hverju taka sumir sem sækja kristnar samkomur skjótari framförum en aðrir?
9 Sumir þeirra sem sækja þessar samkomur taka hins vegar skjótari andlegum framförum en aðrir. Þeir heimfæra sannleikann í ríkari mæli á líf sitt. Hvað veldur því? Iðulega er ein meginástæðan sú að þeir stunda einkanám sitt vel. Þeir gera sér ljóst að við lifum ekki á brauði einu saman. Andleg fæða á hverjum degi er ekki síður mikilvæg en að neyta líkamlegrar fæðu reglulega. (Matteus 4:4; Hebreabréfið 5:14) Þeir leitast því við að nota að minnsta kosti einhverja stund daglega til að lesa Biblíuna eða rit sem útskýra hana. Þeir undirbúa sig undir safnaðarsamkomurnar, nema námsefnið fyrirfram og fletta upp ritningarstöðunum. Þeir gera meira en að lesa efnið; þeir hugleiða það vandlega. Í námsaðferð þeirra felst að þeir hugsa alvarlega um það hvaða áhrif það sem þeir eru að læra ætti að hafa á þeirra eigið líf. Þegar þeir taka andlegum framförum fer þeim að verða innanbrjósts eins og sálmaritaranum sem skrifaði: „Hve mjög elska ég lögmál þitt . . . Reglur þínar eru dásamlegar.“ — Sálmur 1:1-3; 119:97, 129.
10. (a) Hversu lengi hafa menn hag af því að halda áfram að nema orð Guðs? (b) Hvernig sýnir Ritningin það?
10 Hvort sem við höfum numið orð Guðs í eitt ár, 5 ár eða 50 ár verður það aldrei einfaldlega eins og endurtekning — ekki ef hugsanir Guðs eru okkur dýrmætar. Það skiptir ekki máli hversu mikið við höfum lært frá Ritningunni, þar er alltaf eitthvað að finna sem við vitum ekki. „Hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar,“ sagði Davíð. „Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin.“ Við erum ekki fær um að telja hugsanir Guðs. Ef við ættum að telja upp hugsanir Guðs allan liðlangan daginn og sofnuðum út frá því væri enn miklu meira til að hugsa um þegar við vöknuðum næsta morgunn. Þess vegna skrifaði Davíð: „Ég mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér.“ (Sálmur 139:17, 18) Um alla eilífð verður meira fyrir okkur að læra um Jehóva og vegu hans. Við komumst aldrei svo langt að við vitum allt. — Rómverjabréfið 11:33.
Að hata það sem Jehóva hatar
11. Hvers vegna er mikilvægt að þekkja ekki aðeins hugsanir Guðs heldur hafa einnig sams konar tilfinningar og hann?
11 Við nemum ekki orð Guðs aðeins til þess að fylla höfuðið af staðreyndum. Þegar við látum það komast inn í hjarta okkar fara tilfinningar okkar að líkjast tilfinningum Guðs og það skiptir mjög miklu máli. Hvað getur það leitt af sér að þroska ekki með sér slíkar tilfinningar? Við gætum ef til vill þulið upp það sem Biblían segir en engu að síður álitið það sem er bannað eftirsóknarvert eða fundist kröfurnar til okkar vera byrði. Vegna mannlegs ófullkomleika getum við vissulega átt í togstreitu við rangar tilhneigingar, jafnvel þótt við hötum það sem rangt er. (Rómverjabréfið 7:15) En getum við vænst þess að þóknast Jehóva, sem „prófar hjörtun,“ ef við sýnum ekki heiðarlega viðleitni til að laga það hvernig við erum hið innra að því sem er rétt? — Orðskviðirnir 17:3.
12. Hversu mikilvægt er að elska það sem Guð elskar og hata það sem Guð hatar?
12 Ef við hötum það sem Guð hatar er það öflug hindrun gegn rangri breytni, og ef við elskum það sem Guð elskar höfum við ánægju af að gera það sem rétt er. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Ritningin hvetur okkur hvað eftir annað til að glæða með okkur bæði ást og hatur. „Ó þið sem elskið Jehóva, hatið hið illa.“ (Sálmur 97:10, NW) „Hafið andstyggð á hinu vonda, en haldið fast við hið góða.“ (Rómverjabréfið 12:9) Gerum við það?
13. (a) Hvaða bæn Davíðs um eyðingu hinna illu samsinnum við algerlega? (b) Hverjir voru illvirkjarnir sem Davíð bað Guð um að eyða?
13 Jehóva hefur greinilega lýst yfir þeim tilgangi sínum að uppræta illvirkjana af jörðinni og innleiða nýja jörð þar sem réttlæti býr. (Sálmur 37:10, 11; 2. Pétursbréf 3:13) Þeir sem elska réttlæti þrá að sjá þá tíma koma. Þeir eru alveg sama sinnis og sálmaritarinn Davíð sem bað: „Ó að þú, Guð, vildir bana illvirkjanum! Þá fara jafnvel blóðsekir menn vissulega frá mér, sem tala um þig eftir eigin höfði; þeir hafa lagt nafn þitt við hégóma — andstæðingar þínir.“ (Sálmur 139:19, 20, NW) Davíð sjálfan langaði ekki til að bana slíkum illvirkjum. Hann bað um að Jehóva veitti þeim makleg málagjöld. (5. Mósebók 32:35; Hebreabréfið 10:30) Þetta voru ekki menn sem höfðu á einhvern hátt aðeins móðgað Davíð persónulega. Þeir höfðu gefið villandi hugmyndir um Guð, lagt nafn hans við hégóma. (2. Mósebók 20:7) Á óheiðarlegan hátt sögðust þeir þjóna honum en þeir notuðu nafn hans til framdráttar sínum eigin ráðagerðum. Davíð bar enga elsku til þeirra sem völdu að vera andstæðingar Guðs.
14. Eru til illir menn sem hægt er að hjálpa? Ef svo er, þá hvernig?
14 Milljarðar manna þekkja ekki Jehóva. Margir þeirra stunda í fáfræði ýmislegt sem orð Guðs sýnir að er illt. Ef þeir halda ótrauðir áfram þá braut verða þeir meðal þeirra sem farast í þrengingunni miklu. Jehóva hefur samt enga þóknun á dauða hinna óguðlegu og það ættum við ekki heldur að hafa. (Esekíel 33:11) Svo lengi sem tíminn leyfir munum við leitast við að hjálpa slíkum mönnum að kynnast vegum Jehóva og fylgja þeim. En hvað ef sumir hata Jehóva ákaflega?
15. (a) Hverja leit sálmaritarinn á sem óvini sína? (b) Hvernig getum við nú á tímum sýnt að við „hötum“ þá sem rísa gegn Jehóva?
15 Sálmaritarinn segir um þá: „Ætti ég eigi, [Jehóva], að hata þá, er hata þig, og hafa viðbjóð á þeim, er rísa gegn þér? Ég hata þá fullu hatri, þeir eru orðnir óvinir mínir.“ (Sálmur 139:21, 22) Það var vegna þess að þeir hötuðu Jehóva ákaflega að Davíð hafði andstyggð á þeim. Fráhvarfsmenn eru í hópi þeirra sem sýna Jehóva hatur með því að rísa gegn honum. Fráhvarf er í raun og veru uppreisn gegn Jehóva. Sumir fráhvarfsmenn þykjast þekkja Guð og þjóna honum en hafna jafnframt kennisetningum og kröfum sem settar eru fram í orði hans. Aðrir fullyrða að þeir trúi Biblíunni en þeir hafna skipulagi Jehóva og reyna ötullega að hindra starf þess. Þegar þeir velja slíka rangsleitni af ásettu ráði eftir að hafa þekkt það sem rétt er, þegar hið ranga verður svo rótgróið að það er orðið óaðskiljanlegur hluti af lunderni þeirra, þá verður kristinn maður að hata (í biblíulegum skilning þess orðs) þá sem hafa bundist illskunni órjúfanlegum böndum. Sannkristnir menn hafa sömu tilfinningar og Jehóva til slíkra fráhvarfsmanna; þeim leikur ekki forvitni á kynnast fráhvarfshugmyndum. Þvert á móti hafa þeir „viðbjóð“ á þeim sem hafa gert sig að óvinum Guðs, en þeir láta Jehóva það eftir að fullnægja hefndinni. — Jobsbók 13:16; Rómverjabréfið 12:19; 2. Jóhannesarbréf 9, 10.
Þegar Guð rannsakar okkur
16. (a) Hvers vegna vildi Davíð að Jehóva prófaði hann? (b) Hvað er það við okkar eigið hjarta sem við ættum að biðja Guð um að hjálpa okkur að greina?
16 Davíð vildi ekki á nokkurn hátt líkjast hinum illu. Margir reyna að fela hvernig þeir eru hið innra en Davíð bað í auðmýkt: „Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar, og sjá þú, hvort ég geng á glötunarvegi, og leið mig hinn eilífa veg.“ (Sálmur 139:23, 24) Þegar Davíð nefndi hjarta sitt átti hann ekki við líffærið sem slíkt. Hann var að skírskota til hvernig hann væri innst inni, síns innri manns, og er það í samræmi við táknræna merkingu þessa orðalags. Við ættum líka að vilja að Guð prófi hjarta okkar og greini hvort hjá okkur búi einhverjar óviðeigandi langanir, hlýhugur, tilfinningar, fyrirætlanir, hugsanir eða áhugahvatir. (Sálmur 26:2) Jehóva hvetur okkur: „Son minn, gef mér hjarta þitt, og lát vegu mína vera þér geðfellda.“ — Orðskviðirnir 23:26.
17. (a) Hvað ættum við að gera í stað þess að dylja hugsanir sem valda okkur óróa? (b) Ætti það að koma okkur á óvart að finna rangar tilhneigingar í hjarta okkar, og hvað ættum við að gera varðandi þær?
17 Ef innra með okkur leynast einhverjar hugsanir sem valda okkur sársauka eða óróleika vegna rangra langana eða hvata, eða vegna þess að við höfum hegðað okkur rangt á einhvern hátt, þá viljum við vissulega að Jehóva hjálpi okkur að koma málum í rétt horf. Í stað orðalagsins ‚glötunarvegur‘ notar þýðing Mófatts „röng stefna,“ og The New English Bible segir „sérhver leið sem hryggir þig [það er að segja Guð].“ Við skiljum ef til vill ekki alveg hugsanirnar sem valda okkur óróa og vitum þess vegna ekki hvernig við eigum að orða vanda okkar við Guð, en hann skilur mál okkar. (Rómverjabréfið 8:26, 27) Það ætti ekki að koma okkur á óvart þótt rangar tilhneigingar fyrirfinnist í hjarta okkar, en við skyldum þó ekki afsaka þær. (1. Mósebók 8:21) Við ættum að leita hjálpar Guðs til að uppræta þær. Ef við í sannleika elskum Jehóva og vegu hans getum við leitað slíkrar hjálpar hjá honum í þeirri fullvissu að „Guð er meiri en hjarta vort og þekkir alla hluti.“ — 1. Jóhannesarbréf 3:19-21.
18. (a) Hvernig leiðir Jehóva okkur hinn eilífa veg? (b) Hvaða hlýlegu hrósi getum við átt von á ef við höldum áfram að fylgja leiðsögn Jehóva?
18 Í samræmi við bæn sálmaritarans, um að Jehóva myndi leiða hann hinn eilífa veg, leiðir Jehóva svo sannarlega auðmjúka og hlýðna þjóna sína. Hann leiðir þá ekki aðeins á braut sem getur veitt þeim langlífi vegna þess að ill breytni þeirra veldur ekki ótímabærum dauða þeirra — nei, Guð leiðir þá eftir vegi sem liggur til eilífs lífs. Hann innprentar okkur hversu friðþægingargildi fórnar Jesú er okkur nauðsynlegt. Gegnum orð sitt og skipulag veitir hann okkur bráðnauðsynlega fræðslu til þess að við séum fær um að gera vilja hans. Hann bendir okkur ákveðið á mikilvægi þess að bregðast rétt við hjálp hans svo að við verðum hið innra sams konar menn og við segjumst vera. (Sálmur 86:11) Og hann hvetur okkur áfram með voninni um fullkomna heilsu í réttlátum nýjum heimi þar sem við munum að eilífu geta þjónað honum, hinum eina sanna Guði. Ef við höldum áfram að bregðast trúfastlega við leiðsögn hans getur hann sagt það sama við okkur og hann sagði við son sinn: „Á þér hef ég velþóknun.“ — Lúkas 3:22; Jóhannes 6:27; Jakobsbréfið 1:12.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvers vegna lítur Jehóva þjóna sína oft öðrum augum en menn gera?
◻ Hvað getur hjálpað okkur að greina það sem Guð sér þegar hann rannsakar hjarta okkar?
◻ Hvers konar nám hjálpar okkur að öðlast þekkingu og varðveita hjarta okkar?
◻ Hvers vegna er mikilvægt að vita ekki aðeins hvað Guð segir heldur einnig að hafa sama viðhorf og hann?
◻ Hvers vegna ættum við persónulega að biðja: „Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt“?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Þegar þú ert að nema skaltu leitast við að tileinka þér hugsanir og viðhorf Guðs.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Hugsanir Jehóva eru „fleiri en sandkornin.“
[Rétthafi]
Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.