Hvers vegna er kærleiksríkt að víkja brotlegum úr söfnuðinum?
„ÞEGAR tilkynnt var að syni mínum hefði verið vikið úr söfnuðinum fannst mér heimurinn hrynja,“ segir Julian. „Hann var elsta barnið mitt. Við vorum mjög nánir og gerðum margt saman. Hann hafði alltaf verið til fyrirmyndar en allt í einu breyttist hegðun hans og varð óviðunandi. Konan mín grét oft og ég vissi ekki hvernig ég átti að hugga hana. Við spurðum okkur aftur og aftur hvort við hefðum einhvern veginn brugðist sem foreldrar.“
En hvernig getur það verið kærleiksríkt að víkja einhverjum úr söfnuðinum fyrst það veldur svona miklum sársauka? Af hvaða ástæðum er gripið til svona róttækra aðgerða samkvæmt Biblíunni? Og hvað verður til þess að brotlegum er stundum vísað úr söfnuðinum?
TIL AÐ EINHVERJUM SÉ VIKIÐ ÚR SÖFNUÐINUM ÞARF TVENNT TIL
Til að skírðum votti Jehóva sé vikið úr söfnuðinum þarf tvennt að koma til. Í fyrsta lagi drýgir hann alvarlega synd og í öðru lagi iðrast hann þess ekki.
Jehóva krefst þess ekki að við séum fullkomin en ætlast samt til þess að við séum heilög í vissum skilningi. Við verðum til dæmis að forðast alvarlegar syndir eins og kynferðislegt siðleysi, falsguðadýrkun, þjófnað, fjársvik, morð og dulspeki. – 1. Kor. 6:9, 10; Opinb. 21:8.
Þú ert eflaust sammála því að siðferðisreglur Jehóva séu sanngjarnar og verndi okkur. Hver vill ekki búa meðal fólks sem er friðsamt, lifir hreinu lífi og hægt er að treysta? Við búum við þessar aðstæður í söfnuðinum, þökk sé loforðinu sem við öll gáfum þegar við vígðumst Guði en þá hétum við að lifa í samræmi við leiðbeiningar hans í Biblíunni.
En segjum að skírður vottur drýgi alvarlega synd vegna veikleika. Trúir þjónar Jehóva til forna gerðu það sumir en hann hafnaði þeim samt ekki. Davíð konungur er dæmi um það. Hann framdi hjúskaparbrot og morð en Natan spámaður sagði samt við hann: „Drottinn hefur fyrirgefið þér synd þína.“ – 2. Sam. 12:13.
Guð fyrirgaf Davíð syndirnar vegna þess að hann iðraðist í einlægni. (Sálm. 32:1-5) Af sömu ástæðu er þjóni Jehóva aðeins vikið úr söfnuðinum ef hann iðrast ekki eða heldur áfram að gera rangt. (Post. 3:19; 26:20) Ef öldungarnir, sem sitja í dómnefnd, sjá ekki einlæg iðrunarmerki þurfa þeir að víkja hinum brotlega úr söfnuðinum.
Okkur gæti fundist það róttækt og jafnvel harkalegt að víkja brotlegum úr söfnuðinum, sérstaklega ef við tengjumst honum nánum böndum. Biblían færir samt sterk rök fyrir því að það sé kærleiksríkt að gera það.
ÞAÐ GETUR VERIÐ ÖLLUM TIL GÓÐS AÐ VÍKJA BROTLEGUM ÚR SÖFNUÐINUM
Jesús benti á að ,spekin sannist af verkum sínum‘. (Matt. 11:19) Þegar víkja þarf brotlegum úr söfnuðinum sýnir það sig að það er öllum til góðs sem hlut eiga að máli. Lítum á þrennt.
Það er nafni Jehóva til heiðurs. Þar sem við berum nafn Jehóva gefur hegðun okkar ákveðna mynd af nafni hans. (Jes. 43:10) Hegðun drengs getur annaðhvort verið foreldrum hans til sóma eða skammar. Eins hefur góð eða slæm hegðun þeirra sem bera nafn Jehóva viss áhrif á það hvernig fólk hugsar um hann. Ef þeir sem bera nafn Jehóva tileinka sér siðferðisreglur hans verður það nafni hans til sóma. Þannig var það líka á dögum Esekíels þegar aðrar þjóðir settu nafn Jehóva í samband við Gyðinga. – Esek. 36:19-23.
Við myndum varpa skugga á heilagt nafn Guðs ef við gerðum okkur sek um kynferðislegt siðleysi. Pétur postuli skrifaði kristnum mönnum: „Verið eins og hlýðin börn og látið líferni ykkar ekki framar mótast af þeim girndum er þið áður létuð stjórnast af í vanvisku ykkar. Verðið heldur sjálf heilög í öllu dagfari ykkar eins og sá er heilagur sem ykkur hefur kallað. Ritað er: ,Verið heilög því ég er heilagur.‘“ (1. Pét. 1:14-16) Hreint og heilagt líferni er nafni Guðs til lofs.
Ef vottur Jehóva gerir eitthvað rangt er líklegt að vinir hans og kunningjar komist að því. Að víkja brotlegum úr söfnuðinum vitnar um að Jehóva á sér þjóna sem fylgja leiðbeiningum Biblíunnar til að vera hreinir og heilagir. Maður kom eitt sinn á samkomu í ríkissal í Sviss og sagðist vilja ganga í söfnuðinn. Systur hans hafði verið vikið úr söfnuðinum vegna kynferðislegs siðleysis. Hann sagðist vilja tilheyra söfnuði sem „umbæri ekki syndsamlegt líferni“.
Það verndar söfnuðinn gegn spillandi áhrifum. Páll postuli varaði Korintumenn við hættunni sem fylgdi því að leyfa iðrunarlausum syndurum að vera áfram í söfnuðinum. Hann líkti slæmum áhrifum þeirra á söfnuðinn við súrdeig sem fær allt deigið til að hefast. „Lítið súrdeig sýrir allt deigið,“ sagði hann. Síðan gaf hann þetta ráð: „Útrýmið hinum vonda úr ykkar hópi.“ – 1. Kor. 5:6, 11-13.
Þessi „vondi maður“, sem Páll nefnir, lifði siðlausu lífi og skammaðist sín ekkert fyrir. Aðrir í söfnuðinum voru jafnvel farnir að réttlæta líferni hans. (1. Kor. 5:1, 2) Ef þessi grófa synd hefði verið látin viðgangast hefðu aðrir kristnir menn ef til vill farið að taka upp þá siðlausu hegðun sem var svo algeng þar í borg. Ef menn horfa í gegnum fingur sér við syndara sem iðrast ekki er hætta á að fólk verði kærulaust gagnvart siðferðisreglum Guðs. (Préd. 8:11) Þessir syndarar gætu auk þess orðið eins og „blindsker“ og valdið skipbroti í trúnni hjá öðrum í söfnuðinum. – Júd. 4, 12, Biblían 1981.
Hinn brotlegi getur komið til sjálfs sín. Jesús talaði einu sinni um ungan mann sem fór að heiman og sóaði föðurarfi sínum í óhófsömum lifnaði. Týndi sonurinn lærði í hörðum skóla reynslunnar að lífið var innantómt og miskunnarlaust eftir að hann var farinn úr föðurhúsum. Að lokum kom sonurinn til sjálfs sín, iðraðist og sneri heim í faðm fjölskyldunnar. (Lúk. 15:11-24) Jesús hjálpar okkur að skilja tilfinningar Jehóva þegar hann lýsir ástríkum föðurnum sem fagnar því að sonurinn skuli hafa tekið sinnaskiptum. „Mér þóknast ekki dauði guðlausra, heldur að hinn guðlausi hverfi frá breytni sinni og lifi,“ segir Jehóva. – Esek. 33:11.
Þeir sem vikið er úr söfnuðinum tilheyra ekki lengur andlegri fjölskyldu sinni og það rennur ef til vill upp fyrir þeim hverju þeir hafa glatað. Þeir gætu komið til sjálfs sín þegar þeir finna fyrir slæmum afleiðingum syndarinnar og minnast þess hve ánægðir þeir voru meðan þeir áttu gott samband við Jehóva og fólk hans.
Það er mikilvægt að sýna kærleika og festu til að ná tilætluðum árangri. „Slái réttlátur maður mig af elsku og hirti mig, þá skal höfuð mitt eigi færast undan höfuðsmyrslum,“ sagði sálmaskáldið Davíð. (Sálm. 141:5, Biblían 1912) Lýsum þessu með dæmi: Hugsum okkur mann sem örmagnast á göngu á köldum vetrardegi. Hann ofkælist og fer að syfja. Ef hann sofnar í snjónum deyr hann. Félagi hans slær hann af og til utan undir til að halda honum vakandi á meðan þeir bíða eftir björgunarsveitinni. Það er eflaust vont en það getur bjargað lífi hans. Davíð skildi líka að það væri honum til góðs að réttlátur maður segði honum til syndanna þótt sárt væri.
Að víkja manni úr söfnuðinum getur veitt honum þann aga sem hann þarf. Sonur Julians, sem rætt var um í upphafi greinar, bætti ráð sitt eftir áratug. Hann sneri aftur til safnaðarins og er núna orðinn öldungur. „Þegar mér var vikið úr söfnuðinum þurfti ég að horfast í augu við afleiðingarnar af líferni mínu,“ segir hann. „Ég þurfti á þessari ögun að halda.“ – Hebr. 12:7-11.
AÐ SÝNA KÆRLEIKA ÞEGAR EINHVERJUM ER VIKIÐ ÚR SÖFNUÐINUM
Það er auðvitað mjög sorglegt þegar einhverjum er vikið úr söfnuðinum, en það þarf ekki að vera eins og heimsendir. Það er hlutverk okkar allra að láta þessa alvarlegu aðgerð þjóna tilgangi sínum.
Öldungar, sem hafa það erfiða verkefni að tilkynna hinum brotlega að honum sé vikið úr söfnuðinum, reyna að vera kærleiksríkir eins og Jehóva. Þeir skýra vinsamlega fyrir honum hvað hann þurfi að gera til að geta komið inn í söfnuðinn á ný. Af og til geta öldungar heimsótt þá sem vikið hefur verið úr söfnuðinum en sýna einhver merki um að þeir vilji bæta ráð sitt, til að minna þá á hvernig þeir geti snúið aftur til Jehóva.a
Fjölskyldan getur sýnt söfnuðinum og hinum brotlega kærleika með því að virða ákvörðun öldunganna. Julian segir: „Hann var enn þá sonur minn, en líferni hans hafði reist múr á milli okkar.“
Allir í söfnuðinum geta sýnt kærleika byggðan á meginreglum Guðs með því að forðast samskipti og samræður við þann sem vikið er úr söfnuðinum. (1. Kor. 5:11; 2. Jóh. 10, 11) Ögunin, sem Jehóva veitir honum fyrir milligöngu öldunganna, verður þá áhrifameiri. Söfnuðurinn getur auk þess hugsað sérstaklega um að styðja við nánustu ættingja þess sem vikið er úr söfnuðinum og sýna þeim kærleika. Þeir eiga eflaust mjög erfitt og þeir ættu ekki að fá á tilfinninguna að þeim sé meinað að eiga félagsskap við trúsystkini. – Rómv. 12:13, 15.
„Það er stundum nauðsynlegt að víkja fólki úr söfnuðinum,“ segir Julian. „Það hjálpar okkur að fylgja siðferðisreglum Jehóva. Þó að það sé sársaukafullt er það okkur til góðs til langs tíma litið. Sonur minn hefði aldrei snúið til baka ef ég hefði umborið líferni hans.“