Mikilleikur Jehóva er órannsakanlegur
„Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, mikilleikur hans er órannsakanlegur.“ — SÁLMUR 145:3.
1, 2. Hvers konar maður var Davíð og hvernig leit hann á sjálfan sig í samanburði við Guð?
RITARI 145. sálmsins er einn af þekktustu mönnum mannkynssögunnar. Ungur að árum stóð hann frammi fyrir vopnuðum risa og drap hann. Og sem stríðskonungur yfirbugaði hann fjölda óvina. Hann hét Davíð og var annar konungur Ísraels til forna. Orðstír hans lifir enn, þannig að milljónir núlifandi manna hafa heyrt hans getið.
2 Þrátt fyrir afrek sín var Davíð lítillátur. Hann söng um Jehóva: „Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað, hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?“ (Sálmur 8:4, 5) Davíð leit ekki svo á að hann sjálfur væri mikill heldur þakkaði hann Jehóva að hann skyldi komast undan óvinum sínum. Hann sagði: „Þú gafst mér skjöld hjálpræðis þíns, og lítillæti þitt gjörði mig mikinn.“ (2. Samúelsbók 22:1, 2, 36) Jehóva sýnir lítillæti með því að vera miskunnsamur við syndara, og Davíð var þakklátur fyrir óverðskuldaða góðvild hans.
‚Ég vil vegsama Guð, konunginn‘
3. (a) Hvernig leit Davíð á konungdóm sinn? (b) Að hve miklu marki langaði Davíð til að lofa Jehóva?
3 Davíð leit á Jehóva sem hinn raunverulega konung Ísraels þótt hann væri sjálfur útvalinn konungur hans. Hann sagði: „Þinn er konungdómurinn, Drottinn, og sá, er gnæfir yfir alla sem höfðingi.“ (1. Kroníkubók 29:11) Og Davíð mat Guð mikils sem stjórnanda. „Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur,“ söng hann, „og prísa nafn þitt um aldur og ævi. Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi.“ (Sálmur 145:1, 2) Davíð langaði til að lofa Jehóva Guð allan liðlangan daginn, til eilífðarnóns.
4. Ofan af hvaða falsákærum flettir Sálmur 145?
4 Sálmur 145 er áhrifamikið svar við þeirri fullyrðingu Satans að Guð sé eigingjarn stjórnandi sem veiti sköpunarverum sínum ekki frelsi. (1. Mósebók 3:1-5) Þessi sálmur flettir líka ofan af þeirri lygi Satans að þeir sem hlýða Guði geri það í eiginhagsmunaskyni en ekki af kærleika. (Jobsbók 1:9-11; 2:4, 5) Líkt og Davíð svara kristnir menn nú á dögum falsákærum djöfulsins. Þeir meta mikils vonina um að lifa að eilífu undir stjórn Guðsríkis vegna þess að þá langar til að lofa Jehóva um alla eilífð. Milljónir manna gera það nú þegar með því að iðka trú á lausnarfórn Jesú. Þær þjóna Jehóva af kærleika og hlýðni sem vígðir, skírðir tilbiðjendur. — Rómverjabréfið 5:8; 1. Jóhannesarbréf 5:3.
5, 6. Hvaða tækifæri höfum við til að lofa Jehóva?
5 Hugsaðu um öll tækifærin sem við höfum til að lofa Jehóva sem þjónar hans. Við getum gert það í bæn þegar við erum djúpt snortin af einhverju sem við höfum lesið í orði hans, Biblíunni. Við getum tjáð honum lof okkar og þakklæti þegar við heillumst af því hvernig hann kemur fram við fólk sitt eða þegar við erum hugfangin af einhverju í stórkostlegu sköpunarverki hans. Við lofum líka Jehóva Guð þegar við ræðum um fyrirætlanir hans við trúsystkini okkar á safnaðarsamkomum eða við önnur tækifæri. Í raun eru öll „góð verk“ í þágu ríkis Jehóva honum til lofs. — Matteus 5:16.
6 Nefna mætti mörg nýleg dæmi um slík góð verk. Til dæmis hefur fólk Jehóva byggt fjölmörg tilbeiðsluhús í fátækum löndum. Bræður og systur í öðrum löndum hafa átt stóran þátt í þessu með fjárframlögum sínum. Einnig hafa sumir kristnir menn lagt hönd á plóginn með því að fara sem sjálfboðaliðar til þessara svæða til að aðstoða við að byggja ríkissali. En mikilvægasta verkið er að lofa Jehóva með því að boða fagnaðarerindið um ríki hans. (Matteus 24:14) Eins og kemur fram síðar í Sálmi 145 var Davíð þakklátur fyrir stjórn Guðs og dásamaði konungdóm hans. (Sálmur 145:11, 12) Lítur þú kærleiksríka stjórn Guðs sömu augum og Davíð? Og talar þú reglulega við aðra um ríki hans?
Dæmi um mikilleik Guðs
7. Hver er ein af meginástæðunum fyrir því að lofa Jehóva?
7 Sálmur 145:3 tiltekur eina af meginástæðunum fyrir því að lofa Jehóva. Davíð syngur: „Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, mikilleikur hans er órannsakanlegur.“ Mikilleikur Jehóva er óendanlegur. Menn geta hvorki mælt hann, rannsakað né skilið til fulls. En við höfum mikið gagn af því að skoða dæmi um órannsakandi mikilleik hans.
8. Hvað opinberar alheimurinn um mátt og mikilleik Jehóva?
8 Þú hefur áreiðanlega einhvern tíma verið fjarri ljósum borgarinnar og horft upp í stjörnubjartan himininn. Varstu ekki agndofa yfir stjörnumergðinni sem tindraði á næturhimninum? Kviknaði ekki með þér löngun til að lofa hinn mikla Guð, Jehóva, fyrir að skapa alla þessa himinhnetti? En það sem þú sást var aðeins örlítið brot af öllum þeim fjölda stjarna sem eru í Vetrarbrautinni. Þar að auki er áætlað að til séu meira en hundrað milljarðar vetrarbrauta. Af þeim sjáum við aðeins þrjár án sjónauka. Já, hinar óteljandi stjörnur og vetrarbrautir, sem hinn víðáttumikli alheimur samanstendur af, eru vitnisburður um sköpunarmátt Jehóva og órannsakanlegan mikilleik hans. — Jesaja 40:26.
9, 10. (a) Hvernig hefur mikilleikur Jehóva birst í tengslum við Jesú Krist? (b) Hvaða áhrif ætti upprisa Jesú að hafa á trú okkar?
9 Skoðum aðrar hliðar á mikilleik Jehóva eins og hann birtist í tengslum við Jesú Krist. Guð sýndi hve mikill hann er þegar hann skapaði son sinn og notaði hann í óratíma sem ,verkstjóra‘. (Orðskviðirnir 8:22-31) Hinn mikli kærleikur Jehóva kom greinilega í ljós þegar hann gaf eingetinn son sinn sem lausnarfórn fyrir mannkynið. (Matteus 20:28; Jóhannes 3:16; 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Og menn fá ekki skilið hinn dýrlega og ódauðlega andalíkama sem Jehóva gerði handa Jesú við upprisu hans. — 1. Pétursbréf 3:18.
10 Órannsakandi mikilleikur Jehóva kom fram með ýmsum undraverðum hætti þegar hann reisti Jesú upp. Ljóst er að Guð endurvakti minningar Jesú um sköpun hins ósýnilega og hins sýnilega, þar á meðal annarra andavera, alheimsins, frjósamrar jarðarinnar og alls lífs á henni. (Kólossubréfið 1:15, 16) Auk þessara minninga úr fortilveru Jesú um sögu lífs á himni og jörð, endurvakti Jehóva minningar hans sem fullkomins manns. Já, órannsakandi mikilleikur Jehóva er augljós af upprisu Jesú. Þetta mikla verk er einnig trygging fyrir því að hægt sé að reisa aðra upp. Það ætti að styrkja þá trú okkar að Guð geti reist milljónir látinna manna upp sem hann geymir í fullkomnu minni sínu. — Jóhannes 5:28, 29; Postulasagan 17:31.
Dásemdar- og máttarverk
11. Hvaða mikla verk hóf Jehóva að vinna á hvítasunnu árið 33?
11 Frá því að upprisa Jesú átti sér stað hefur Jehóva framkvæmt mörg önnur mikil og dásamleg verk. (Sálmur 40:6) Á hvítasunnu árið 33 myndaði Jehóva nýja þjóð, „Ísrael Guðs“, og samanstóð hún af lærisveinum Krists sem smurðir voru heilögum anda. (Galatabréfið 6:16) Þessi nýja andlega þjóð stækkaði af miklum krafti og náði að lokum út um allan hinn þekkta heim þess tíma. Þrátt fyrir fráhvarfið, sem leiddi til falskrar kristni eftir dauða postulanna, hélt Jehóva áfram að vinna dásemdarverk til að tryggja að fyrirætlun sín næði fram að ganga.
12. Um hvað vitnar það að Biblían skuli vera til á öllum helstu tungumálum heims?
12 Til dæmis var Biblían varðveitt í heild sinni og að lokum þýdd á öll helstu tungumál jarðar. Þýðingarnar fóru oft fram við erfiðar aðstæður og undir líflátshótunum útsendara Satans. Það hefði engan veginn verið unnt að þýða Biblíuna á yfir 2000 tungumál hefði það ekki verið vilji hins mikilfenglega Guðs, Jehóva.
13. Hvernig hefur Jehóva sýnt mikilleik sinn frá árinu 1914 í tengslum við ríki sitt?
13 Jehóva hefur sýnt mikilleik sinn í tengslum við ríki sitt. Til dæmis setti hann son sinn, Jesú Krist, í embætti sem himneskan konung árið 1914. Stuttu eftir það lét Jesús til skarar skríða gegn Satan og illum öndum hans. Þeim var úthýst af himnum og umsvif þeirra takmörkuð við nágrenni jarðar þar sem þeir bíða þess að verða kastað í undirdjúpið. (Opinberunarbókin 12:9-12; 20:1-3) Síðan þá hafa ofsóknir á hendur smurðum fylgjendum Jesú aukist. En Jehóva hefur stutt þá á yfirstandandi nærverutíma Krists. — Matteus 24:3; Opinberunarbókin 12:17.
14. Hvaða dásemdarverk vann Jehóva árið 1919 og hverju áorkaði hann með því?
14 Árið 1919 vann Jehóva annað dásemdarverk sem ber vott um mikilleik hans. Smurðir fylgjendur Jesú voru endurlífgaðir, en þeim hafði verið komið á kné þannig að andlegt starf þeirra lá niðri. (Opinberunarbókin 11:3-11) Á þeim árum, sem liðin eru, hafa hinir smurðu boðað fagnaðarerindið um stofnsett ríki Guðs kostgæfilega. Öðrum smurðum mönnum hefur verið safnað saman til að fullna töluna 144.000. (Opinberunarbókin 14:1-3) Og Jehóva lagði grunninn að ,nýrri jörð‘, réttlátu mannfélagi, fyrir milligöngu smurðra fylgjenda Krists. (Opinberunarbókin 21:1) En hvað verður um ,nýju jörðina‘ eftir að allir trúfastir smurðir menn eru farnir til himna?
15. Í hvaða verki hafa smurðir kristnir menn tekið forystuna og með hvaða árangri?
15 Hinn 1. og 15. ágúst árið 1935 birtust í þessu tímariti mjög mikilvægar greinar um hinn ,mikla múg‘ í 7. kafla Opinberunarbókarinnar. Smurðir kristnir menn fóru að leita af kappi að þessum tilbiðjendum af öllum þjóðum, kynkvíslum, lýðum og tungum og bjóða þeim að sameinast sér. Þessi ,mikli múgur‘ manna lifir af hina yfirvofandi ,miklu þrengingu‘ og hefur von um eilíft líf í paradís. Þeir verða varanlegur hluti ,nýju jarðarinnar‘. (Opinberunarbókin 7:9-14) Boðunar- og kennslustarfið, sem smurðir kristnir menn taka forystuna í, hefur orðið til þess að yfir sex milljónir manna hafa nú þá von að lifa að eilífu í jarðneskri paradís. Þessi aukning hefur átt sér stað þrátt fyrir fjandskapinn sem Satan og spilltur heimur hans hafa sýnt. Og hver á heiður skilinn fyrir það? (1. Jóhannesarbréf 5:19) Það er aðeins Jehóva sem gat komið þessu til leiðar með heilögum anda sínum. — Jesaja 60:22; Sakaría 4:6.
Tign og dýrð vegsemdar Jehóva
16. Hvers vegna geta menn ekki séð „tign og dýrð vegsemdar“ Jehóva?
16 „Máttarverk“ og ,dásemdarverk‘ Jehóva munu aldrei gleymast, hver sem þau eru. Davíð skrifaði: „Ein kynslóðin vegsamar verk þín fyrir annarri og kunngjörir máttarverk þín. Þær segja frá tign og dýrð vegsemdar þinnar: ,Ég vil syngja um dásemdir þínar.‘ Og um mátt ógnarverka þinna tala þær: ,Ég vil segja frá stórvirkjum þínum.‘“ (Sálmur 145:4-6) En hversu mikið gat Davíð vitað um tign og dýrð Jehóva sem er „andi“ og því ósýnilegur mönnum? — Jóhannes 1:18; 4:24.
17, 18. Hvað gat Davíð gert til að dýpka virðingu sína fyrir „tign og dýrð vegsemdar“ Jehóva?
17 Þrátt fyrir að Davíð sæi ekki Guð gat hann samt dýpkað virðingu sína fyrir vegsemd hans með ýmsu móti. Hann gat til dæmis lesið um ýmis máttarverk Jehóva í Ritningunni, þar á meðal þegar hann eyddi óguðlegum heimi í flóðinu mikla. Eflaust hefur Davíð veitt því athygli hvernig falsguðir Egypta voru niðurlægðir þegar Guð frelsaði Ísraelsmenn úr ánauðinni í Egyptalandi. Atburðir sem þessir eru til merkis um vegsemd og mikilleik Jehóva.
18 Virðing Davíðs fyrir vegsemd Guðs var ekki aðeins sprottin af lestri Ritningarinnar heldur einnig af því að hann hugleiddi það sem hann las. Ef til vill hefur hann hugleitt það sem gerðist þegar Jehóva gaf Ísraelsmönnum lögmálið. Þá voru þrumur og eldingar, þykkt ský og afar sterkur lúðurþytur. Sínaífjall lék á reiðiskjálfi og reyk lagði frá því. Ísraelsmenn, sem komnir voru saman við fjallsræturnar, heyrðu „tíu boðorðin“ úr miðjum eldinum og reyknum, þegar Jehóva talaði fyrir milligöngu engils. (5. Mósebók 4:32-36; 5:22-24; 10:4; 2. Mósebók 19:16-20; Postulasagan 7:38, 53) Hvílíkur vitnisburður um mikilfengleik Jehóva! Þeir sem elska orð Guðs og hugleiða frásagnir sem þessar geta ekki annað en hrifist af „tign og dýrð vegsemdar“ Jehóva. Núna höfum við alla Biblíuna og hún hefur að geyma fjölmargar dýrlegar sýnir sem vekja aðdáun okkar á mikilleik Jehóva. — Esekíel 1:26-28; Daníel 7:9, 10; Opinberunarbókin, 4. kafli.
19. Hvernig getum við dýpkað virðingu okkar fyrir tign Jehóva?
19 Annað sem gat vakið aðdáun Davíðs á tign Guðs var að kynna sér lögmálið sem hann gaf Ísraelsmönnum. (5. Mósebók 17:18-20; Sálmur 19:8-12) Hlýðni við lög Jehóva göfgaði Ísraelsþjóðina og greindi hana frá öllum öðrum þjóðum. (5. Mósebók 4:6-8) Ef við lesum reglulega í Ritningunni, hugleiðum hana gaumgæfilega og nemum af kappi dýpkar virðing okkar fyrir tign Jehóva líkt og hjá Davíð.
Eiginleikar Guðs mikla hann
20, 21. (a) Hvaða eiginleikar eru nefndir í Sálmi 145:7-9 sem eru til merkis um mikilleik Jehóva? (b) Hvaða áhrif hafa þessir eiginleikar Guðs á alla sem elska hann?
20 Eins og við höfum séð af fyrstu sex versunum í Sálmi 145 höfum við ærna ástæðu til að lofa Jehóva fyrir ýmislegt sem tengist órannsakanlegum mikilleik hans. Í versi 7 til 9 miklar Davíð hann með því að benda á nokkra af eiginleikum hans og syngur: „Þær minna á þína miklu gæsku og fagna yfir réttlæti þínu. Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur. Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.“
21 Davíð nefnir fyrst gæsku Jehóva og réttlæti en Satan djöfullinn dró hvort tveggja í efa. Hvaða áhrif hafa þessir eiginleikar á alla sem elska Guð og eru undirgefnir drottinvaldi hans? Gæska Jehóva og réttlátir stjórnarhættir færa tilbiðjendum hans slíka gleði að þeir geta ekki hætt að lofa hann. Og það sem meira er, gæska hans nær til allra. Vonandi á það eftir hjálpa mun fleirum að iðrast og gerast tilbiðjendur hins sanna Guðs áður en það er um seinan. — Postulasagan 14:15-17.
22. Hvernig kemur Jehóva fram við þjóna sína?
22 Davíð kunni einnig að meta eiginleikana sem Guð sjálfur benti á þegar hann „gekk fram hjá [Móse] og kallaði: ‚Drottinn, Drottinn, miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.‘“ (2. Mósebók 34:6) Davíð gat því lýst yfir: „Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.“ Þó að Jehóva sé óendanlega mikill heiðrar hann mennska þjóna sína með því að vera náðugur við þá. Hann er miskunnsamur. Hann er reiðubúinn að fyrirgefa iðrandi syndurum á grundvelli lausnarfórnar Jesú. Jehóva er líka þolinmóður þar sem hann gefur þjónum sínum tækifæri til að vinna bug á veikleikum sem gætu útilokað þá frá nýjum og réttlátum heimi hans. — 2. Pétursbréf 3:9, 13, 14.
23. Um hvaða eiginleika verður fjallað í næstu grein?
23 Davíð dásamar gæsku Guðs eða ástúðlega umhyggju. Í þeim versum, sem eftir eru af Sálmi 145, kemur fram hvernig Jehóva sýnir þennan eiginleika og hvernig trúir þjónar hans bregðast við ástúðlegri umhyggju hans. Um þetta verður fjallað í næstu grein.
Hvernig svarar þú?
• Hvaða tækifæri fáum við „á hverjum degi“ til að lofa Jehóva?
• Hvaða dæmi sýna að mikilleikur Jehóva er órannsakanlegur?
• Hvernig getum við dýpkað virðingu okkar fyrir dýrlegri vegsemd Jehóva?
[Mynd á blaðsíðu 18]
Vetrarbrautir alheimsins vitna um mikilleik Jehóva.
[Rétthafi]
Með góðfúslegu leyfi Anglo-Australian Observatory, ljósmynd: David Malin.
[Mynd á blaðsíðu 20]
Hvernig hefur mikilleikur Jehóva birst í tengslum við Jesú Krist?
[Mynd á blaðsíðu 21]
Þegar Ísraelsmenn fengu lögmálið við Sínaífjall urðu þeir vitni að dýrlegri vegsemd Jehóva.