Hvers vegna ættirðu að lofa Jehóva?
„Hallelúja. Gott er að syngja Guði vorum lof. Það er yndislegt, honum hæfir lofsöngur.“ – SÁLM. 147:1.
1-3. (a) Hvenær var Sálmur 147 líklega ortur? (b) Hvað má læra af Sálmi 147?
SÁ SEM skilar af sér góðu verki eða sýnir framúrskarandi kristna eiginleika á hrós skilið. Fyrst svo er þegar menn eiga í hlut hlýtur að vera enn ríkari ástæða til að lofa Jehóva Guð. Við getum lofað hann fyrir ógurlegan mátt hans sem sköpunarverkið vitnar um og eins fyrir kærleika hans og hlýju sem birtist svo vel þegar hann fórnaði syni sínum.
2 Sá sem orti 147. sálminn fann sig knúinn til að lofa Jehóva og hvatti líka aðra til að taka undir lofsönginn. – Lestu Sálm 147:1, 7, 12.
3 Við vitum ekki hver orti þennan sálm en sálmaskáldið var sennilega uppi um það leyti sem Jehóva leyfði Ísraelsmönnum að snúa heim til Jerúsalem úr útlegðinni í Babýlon. (Sálm. 147:2) Sálmaskáldið lofar Jehóva fyrir að leyfa þjóð sinni að tilbiðja sig á nýjan leik í heimalandi sínu. En hann nefnir fleiri ástæður til að lofa Guð. Hverjar eru þær? Hvaða ástæður hefur þú til að hrópa „hallelúja“ eða „lofið Jah“? – Sálm. 147:1; 104:35, neðanmáls.
JEHÓVA HUGHREYSTIR ÞÁ SEM ERU ÞJAKAÐIR
4. Hvernig hlýtur Ísraelsmönnum að hafa liðið þegar Kýrus frelsaði þá og hvers vegna?
4 Reyndu að gera þér í hugarlund hvernig Ísraelsmönnum hefur verið innanbrjósts í útlegðinni í Babýlon. „Syngið oss Síonarljóð,“ sögðu fangarar þeirra í hæðnistón. Jerúsalem var í rústum, borgin sem gaf Gyðingum hvað mesta ástæðu til að lofa Jehóva. (Sálm. 137:1-3, 6) Síst langaði þá til að syngja. Þeir voru sorgmæddir og þörfnuðust sárlega huggunar og hughreystingar. En Jehóva hjálpaði þjónum sínum eins og hann hafði lofað í orði sínu. Kýrus Persakonungur vann Babýlon og lýsti svo yfir: „Drottinn ... hefur sjálfur falið mér að reisa sér hús í Jerúsalem ... Sérhver ykkar á meðal, sem er af lýð hans, skal fara þangað upp eftir og sé Drottinn, Guð hans, með honum.“ (2. Kron. 36:23) Þessi framvinda mála hlýtur að hafa verið ákaflega uppörvandi fyrir Ísraelsmenn í Babýlon.
5. Hvað er Jehóva fær um að gera samkvæmt lýsingu sálmaskáldsins?
5 Jehóva hughreysti ekki aðeins Ísraelsmenn sem þjóð heldur hughreysti hann þá líka hvern og einn. Hið sama er uppi á teningnum nú á tímum. Sálmaskáldið sagði um Guð: „Hann græðir þá sem hafa sundurkramið hjarta og bindur um benjar þeirra.“ (Sálm. 147:3) Jehóva lætur sér annt um þá sem eiga við erfiðleika að glíma, hvort sem þeir eru af líkamlegu eða tilfinningalegu tagi. Hann er óðfús að hughreysta okkur og binda um hjartasár okkar. (Sálm. 34:19; Jes. 57:15) Hann gefur okkur visku og styrk til að glíma við hvaða prófraun sem er. – Jak. 1:5.
6. Hvað getum við lært af því sem sálmaskáldið segir í Sálmi 147:4? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
6 Sálmaskáldið beinir nú augum sínum til himins og segir að Jehóva ,ákveði tölu stjarnanna og nefni þær allar með nafni‘. (Sálm. 147:4) Hvers vegna skiptir hann um umræðuefni, að því er virðist, og fer að tala um himintunglin? Sálmaskáldið gat séð stjörnurnar berum augum en hafði enga hugmynd um hve margar þær voru. Nú er hægt að sjá miklu fleiri stjörnur en hægt var á þeim tíma. Sumir telja að stjörnurnar í Vetrarbrautinni skipti milljörðum og vetrarbrautirnar í alheiminum teljist í billjónum. Frá okkar sjónarhóli eru stjörnurnar hreinlega óteljandi. En skaparinn nefnir þær allar með nafni. Hver einasta stjarna er sem sagt einstök í augum Jehóva. (1. Kor. 15:41) Hvað þá um mennina á jörðinni? Guð veit hvar hver einasta stjarna er á hverjum tíma, og hann þekkir þig líka sem einstakling. Hann veit nákvæmlega hvar þú ert og hann veit upp á hár hvernig þér líður og hvað þig vantar þá stundina.
7, 8. (a) Hvað skilur Jehóva varðandi okkur mennina? (b) Lýstu með dæmi hve umhyggjusamur Jehóva er þegar hann hjálpar ófullkomnum mönnum.
7 Jehóva veit hvað þú átt við að glíma og bæði getur og langar til að hjálpa þér að takast á við vandamál lífsins. (Lestu Sálm 147:5.a) Þér finnst kannski að aðstæður þínar séu hreinlega of þungbærar, að byrðin sé þér ofviða. Guð skilur að þér eru takmörk sett. Hann ,minnist þess að þú ert mold‘. (Sálm. 103:14) Við gerum sömu mistökin aftur og aftur af því að við erum ófullkomin. Við hörmum það sem við missum út úr okkur, þessar röngu langanir sem blossa upp af og til eða tilhneiginguna til að öfunda aðra af því sem þeir eiga. Jehóva hefur enga slíka veikleika en hann hefur samt takmarkalausan skilning á eðli okkar. – Jes. 40:28.
8 Þú hefur ef til vill fundið fyrir máttugri hönd Jehóva þegar hann hjálpaði þér að ná þér aftur á strik eftir einhverja prófraun. (Jes. 41:10, 13) Kyoko er brautryðjandi. Hún missti kjarkinn eftir að hún fluttist á nýtt starfssvæði. Hvernig sýndi Jehóva að hann skildi hvað hún átti við að glíma? Í söfnuðinum, sem Kyoko flutti til, voru margir sem gátu sett sig í spor hennar. Henni fannst Jehóva segja við sig: „Ég elska þig, ekki bara af því að þú ert brautryðjandi heldur líka af því að þú ert dóttir mín og ert vígð mér. Mig langar til að þú njótir þess að vera vottur minn.“ Hvernig hefur hinn alvaldi sýnt þér að „hans skilningur er ómælanlegur“?
JEHÓVA SÉR FYRIR ÞVÍ SEM VIÐ ÞURFUM
9, 10. Á hverju byrjar Jehóva þegar hann hjálpar okkur? Lýstu með dæmi.
9 Við þurfum öll fæði, klæði og húsaskjól. Hefurðu áhyggjur af því að eiga ekki nóg að borða? Mundu þá að Jehóva skapaði hringrásir náttúrunnar til að jörðin gæfi af sér fæðu. Hrafnsungarnir geta meira að segja krunkað eftir henni. (Lestu Sálm 147:8, 9.) Fyrst Jehóva fóðrar hrafnana hlýturðu að geta treyst að hann sjái þér líka fyrir nauðsynjum. – Sálm. 37:25.
10 Síðast en ekki síst sér Jehóva okkur fyrir andlegri næringu en hún veitir okkur ,frið hans sem er æðri öllum skilningi‘. (Fil. 4:6, 7) Mutsuo og eiginkona hans fundu greinilega fyrir því að Jehóva styrkti þau eftir skjálftaflóðbylgjuna í Japan árið 2011. Þau björguðust naumlega með því að klifra upp á þakið á húsi sínu. Þann dag misstu þau nánast allt sem þau áttu. Þau eyddu kaldri og dimmri nóttinni í herbergi á annarri hæð í löskuðu húsinu. Morguninn eftir fóru þau að leita að einhverri andlegri næringu. Eina bókin, sem þau fundu, var árbók Votta Jehóva 2006. Mutsuo rak strax augun í fyrirsögnina: „Mannskæðustu hamfaraflóðbylgjur sögunnar.“ Þar var sagt frá jarðskjálfta nærri Súmötru árið 2004 sem olli mestu skjálftaflóðbylgju sem sögur fara af. Mutsuo og konan hans lásu frásöguna tárvotum augum. Þau fundu hvernig Jehóva sýndi þeim hlýju og umhyggju með því að sjá þeim fyrir þeirri uppörvun sem þau vantaði þá stundina. Jehóva sá líka fyrir efnislegum þörfum þeirra. Trúsystkini annars staðar frá í Japan færðu þeim hjálpargögn. En það sem styrkti þau mest voru heimsóknir sem söfnuðurinn fékk frá deildarskrifstofunni. Mutsuo segir: „Mér fannst Jehóva standa við hliðina á okkur og annast okkur. Það var ákaflega hughreystandi.“ Það mikilvægasta, sem Jehóva gerir til að hjálpa okkur, er að sjá okkur fyrir andlegri fæðu en hann fullnægir líka efnislegu þörfunum.
NÝTTU ÞÉR HJÁLP GUÐS
11. Hvað þurfum við að gera til að nýta okkur hjálp Guðs?
11 Jehóva er alltaf reiðubúinn að skerast í leikinn og ,styðja hjálparlausa‘. (Sálm. 147:6a) En hvernig getum við nýtt okkur það að hann skuli vera fús til að hjálpa okkur? Við þurfum að eiga náið samband við hann. Til þess þurfum við að vera hógvær. (Sef. 2:3) Þeir sem eru hógværir bíða þess með þolinmæði að Guð stöðvi ranglæti sem þeir hafa orðið fyrir og bæti þeim upp þjáningarnar. Jehóva hefur velþóknun á slíku fólki.
12, 13. (a) Hvað þurfum við að forðast ef við viljum njóta hjálpar Guðs? (b) Á hverjum hefur Jehóva velþóknun?
12 Hins vegar segir að Jehóva ,felli óguðlega til jarðar‘. (Sálm. 147:6b) Þetta eru alvarleg orð. Við verðum að hata það sem Jehóva hatar til að njóta kærleika hans og forðast reiði hans. (Sálm. 97:10) Við eigum til dæmis að hata kynferðislegt siðleysi. Það þýðir að við verðum að forðast allt sem gæti leitt okkur út í það, meðal annars klám. (Sálm. 119:37; Matt. 5:28) Það getur kostað harða baráttu en það er erfiðisins virði til að njóta blessunar Jehóva.
13 Í þessari baráttu þurfum við að reiða okkur á Jehóva, ekki sjálf okkur. Ætli hann yrði ánægður ef við reyndum að bjarga okkur með því að treysta á „styrk hestsins“, það er að segja það sem menn eru vanir að reiða sig á? Nei, við megum ekki heldur treysta „fráum fótum mannsins“ og láta eins og við sjálf eða einhverjir aðrir menn geti bjargað okkur. (Sálm. 147:10) Við þurfum öllu heldur að leita til Jehóva og sárbæna hann um hjálp. Ólíkt ráðgjöfum meðal manna þreytist hann aldrei að hlusta á okkur, jafnvel þó að við biðjum hann æ ofan í æ um hjálp. Jehóva „hefur þóknun á þeim sem óttast hann, þeim sem setja von sína á miskunn hans“. (Sálm. 147:11) Við getum treyst að hann styðji okkur í miskunn sinni og kærleika og hjálpi okkur að sigrast á röngum löngunum.
14. Hvaða sannfæring styrkti sálmaskáldið?
14 Jehóva gefur okkur tilefni til að treysta að hann hjálpi þjónum sínum þegar þeir eru hjálparþurfi. Sálmaskáldið hugsaði til endurreisnar Jerúsalem og söng um Jehóva: „Hann hefur gert sterka slagbrandana fyrir hliðum þínum, blessað börn þín sem í þér eru. Hann stillir til friðar við landamæri þín.“ (Sálm. 147:13, 14) Það var hughreystandi fyrir sálmaskáldið að vita að Guð myndi styrkja borgarhliðin svo að þau vernduðu tilbiðjendur hans.
15-17. (a) Hvað gæti okkur fundist um prófraunir okkar en hvernig notar Jehóva orð sitt til að hjálpa okkur? (b) Lýstu hvernig ,orð Guðs berst skjótt‘.
15 Þú getur lent í erfiðleikum sem valda þér áhyggjum en Jehóva getur gefið þér visku til að takast á við þá. Sálmaskáldið segir að Guð ,sendi boðskap sinn um jörðina og skjótt berist orð hans‘. Síðan segir hann að Jehóva ,gefi snjó og strái hrími og hagli‘ og spyr svo: „Hver fær staðist frost hans?“ Hann bætir við að Jehóva ,sendi út orð sitt og láti ísinn þiðna‘. (Sálm. 147:15-18) Okkar alvitri og almáttugi Guð, sem ræður yfir hagli og snjó, getur hjálpað þér að yfirstíga hvaða erfiðleika sem verða á vegi þínum.
16 Jehóva leiðbeinir okkur nú á dögum með orði sínu, Biblíunni. Og „skjótt berst orð hans“ í þeim skilningi að hann gefur okkur fúslega leiðbeiningar þegar við þurfum á þeim að halda. Hugsaðu þér hve gagnlegt er að lesa í Biblíunni og ritum hins ,trúa og hyggna þjóns‘, horfa á Sjónvarp Votta Jehóva, nota vefinn jw.org, tala við öldungana og vera með trúsystkinum. (Matt. 24:45) Hefurðu ekki fundið fyrir því hve fljótur Jehóva er að leiðbeina þér?
17 Simone hefur fundið fyrir kraftinum í orði Guðs. Henni fannst hún einskis virði og efaðist um að Guð gæti haft velþóknun á henni. En þegar hún var langt niðri leitaði hún til Jehóva í bæn og bað hann hjálpar. Hún var líka iðin við sjálfsnám í Biblíunni. „Ég hef aldrei lent í þeirri aðstöðu að finna ekki fyrir styrk og leiðsögn Jehóva,“ segir hún. Þetta hefur hjálpað henni að vera eins jákvæð og hún getur.
18. Hvers vegna finnst þér þú eiga náið samband við Jehóva og hvaða ástæður hefurðu til að lofa hann?
18 Sálmaskáldið, sem orti Sálm 147, vissi að Jehóva hafði velþóknun á þjóð sinni til forna. Þetta var eina þjóðin sem hann hafði gefið „orð sitt ... lög sín og ákvæði“. (Lestu Sálm 147:19, 20.) Við njótum þeirrar blessunar að vera eina fólkið sem er kennt við nafn Guðs. Við höfum eignast náið samband við hann vegna þess að við þekkjum hann og látum orð hans leiðbeina okkur í lífinu. Sálmaskáldið taldi sig hafa ótal ástæður til að lofa Jehóva og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama. Er þér ekki eins innanbrjósts?
a Biblían 1841: „Mikill og voldugur er vor Drottinn, hans skilningur er ómælanlegur.“