Sköpunin segir frá dýrð Guðs
„Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.“ — SÁLMUR 19:2.
1, 2. (a) Hvers vegna geta mennirnir ekki séð dýrð Guðs bókstaflega? (b) Hvernig lofa öldungarnir 24 Jehóva?
„ÞÚ GETUR eigi séð auglit mitt, því að enginn maður fær séð mig og lífi haldið,“ sagði Jehóva við Móse. (2. Mósebók 33:20) Mennirnir eru svo veikbyggðir að þeir myndu ekki lifa það af að sjá dýrð Guðs bókstaflega. Jóhannes postuli fékk hins vegar að sjá tilkomumikla sýn af Jehóva í hásæti hans. — Opinberunarbókin 4:1-3.
2 Ólíkt mönnunum geta trúfastar andaverur séð auglit Jehóva. Þeirra á meðal eru ‚tuttugu og fjórir öldungar‘ í sýn Jóhannesar en þeir tákna hinar 144.000. (Opinberunarbókin 4:4; 14:1-3) Hver eru viðbrögð þeirra við dýrð Guðs? Að sögn Opinberunarbókarinnar 4:11 lýsa þeir yfir: „Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“
Hvers vegna eru þeir „án afsökunar“?
3, 4. (a) Hvers vegna er ekki óvísindalegt að trúa á Guð? (b) Hvað býr stundum að baki hjá þeim sem segjast ekki trúa á Guð?
3 Finnur þú hjá þér löngun til að gefa Guði dýrðina? Svo er ekki um mannkynið í heild og sumir afneita því jafnvel að Guð sé til. Stjörnufræðingur skrifaði til dæmis: „Var það Guð sem lét til sín taka og smíðaði alheiminn svona haganlega fyrir okkur? . . . Það er heillandi tilhugsun en ég tel hana, því miður, vera villandi. . . . Guð er ekki skýringin.“
4 Vísindalegum rannsóknum eru takmörk sett því að þær einskorðast við það sem mennirnir geta beinlínis fylgst með eða rannsakað. Allt annað eru hreinar kenningar eða getgátur. Þar sem „Guð er andi“ er ekki hægt að rannsaka hann með aðferðum vísindanna. (Jóhannes 4:24) Það er því hroki að halda því fram að það sé óvísindalegt að trúa á Guð. Vincent Wigglesworth, sem er vísindamaður við Cambridge-háskóla, segir að rannsóknaraðferð vísindanna sé í reynd „trúarleg aðferð“. Hvernig þá? „Hún byggist á gagnrýnislausri trú á að náttúrufyrirbæri fylgi ‚náttúrulögmálunum‘.“ Er það þá ekki eins og hver önnur trú að afneita því að Guð sé til? Þegar menn lýsa vantrú sinni á að Guð sé til virðist það stundum sprottið af því að þeir vilja ekki horfast í augu við sannleikann. Sálmaskáldið orti: „Hinn óguðlegi segir í drambsemi sinni: . . . ‚Guð er ekki til‘ — svo hugsar hann í öllu.“ — Sálmur 10:4.
5. Hvers vegna eru þeir sem trúa ekki á Guð án afsökunar?
5 Að trúa á Guð er ekki blind trúgirni því að það eru yfirgnæfandi rök fyrir því að hann sé til. (Hebreabréfið 11:1) Stjörnufræðingurinn Allan Sandage segir: „Mér finnst harla ósennilegt að slík regla [í alheiminum] eigi upptök sín í óreiðu. Regla og skipulag hlýtur að eiga sér einhverja frumorsök. Guð er mér leyndardómur en hann er skýringin á kraftaverki tilverunnar, á því að það er til eitthvað í stað einskis.“ Páll postuli sagði kristnum mönnum í Róm að ‚hið ósýnilega eðli Guðs, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, væri sýnilegt frá sköpun heimsins með því að það yrði skilið af verkum hans. Mennirnir [sem trúa ekki] væru því án afsökunar.‘ (Rómverjabréfið 1:20) Allt frá „sköpun heimsins“, einkum frá sköpun vitiborinna manna, hefur verið ljóst að það er til feikilega máttugur skapari sem er verður þess að hann sé tilbeðinn. Þeir sem viðurkenna ekki dýrð hans eru því án afsökunar. En hvaða sannanir eru fólgnar í sköpunarverkinu?
Alheimurinn segir frá dýrð Guðs
6, 7. Hvernig segir himinninn frá dýrð Guðs?
6 Sálmur 19:2 svarar því og segir: „Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.“ Davíð gerði sér grein fyrir því að stjörnurnar og reikistjörnurnar, sem skinu gegnum ‚festingu‘ himins eða andrúmsloftið, voru ótvíræð sönnun fyrir því að til væri mikill Guð. „Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki,“ heldur hann áfram. (Sálmur 19:3) Dag eftir dag og nótt eftir nótt vitnar himinninn um visku og sköpunarmátt Guðs. Það er rétt eins og himinninn ‚boði okkur speki‘ og lofi Guð.
7 En það þarf ákveðin hyggindi til að heyra þessa speki. „Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra,“ segir sálmurinn. Hljóður vitnisburður himnanna er sterkur engu að síður. „Þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims,“ eins og segir í Sálmi 19:4, 5.
8, 9. Nefndu nokkrar athyglisverðar staðreyndir um sólina.
8 Þessu næst lýsir Davíð öðru sköpunarundri Jehóva: „Þar [á himnum] reisti hann röðlinum [sólinni] tjald. Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt. Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans.“ — Sálmur 19:5-7.
9 Sólin er ekki nema meðalstór stjarna. Hún er engu að síður sérstæð og ógnarstór miðað við reikistjörnurnar sem ganga um hana. Samkvæmt einni heimild er massi hennar „2000 milljón milljón milljón milljón tonn“ sem er 99,9 prósent af massa sólkerfisins. Aðdráttarafl sólar heldur jörðinni á sporbraut í 150 milljón kílómetra fjarlægð og tryggir að hún svífi hvorki burt né dragist að henni. Aðeins um hálfur milljarðasti hluti af orkuútgeislun sólar nær til jarðar en það nægir til að viðhalda lífi hér.
10. (a) Hvernig fer sólin inn í „tjald“ sitt og út úr því? (b) Hvernig hleypur hún eins og „hetja“?
10 Sálmaskáldið talar um sólina með táknmáli og líkir henni við ‚hetju‘ sem hleypur frá einum sjóndeildarhring til annars yfir daginn en hverfur inn í „tjald“ að nóttu. Þegar þessi mikla stjarna sígur undir sjóndeildarhring frá jörðu séð er engu líkara en hún gangi inn í „tjald“ til að hvílast. Að morgni virðist hún stökkva geislandi fram „sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu“. Fjárhirðirinn Davíð þekkti nístandi næturkuldann mætavel. (1. Mósebók 31:40) Hann minntist þess hve fljótt sólargeislarnir yljuðu honum og landinu umhverfis. Sólin var greinilega ekki uppgefin eftir „ferðalagið“ frá austri til vesturs heldur var hún eins og „hetja“, reiðubúin í aðra ferð.
Mikilfenglegar stjörnur og vetrarbrautir
11, 12. (a) Af hverju er athyglisvert að Biblían skuli setja stjörnurnar í samhengi við sand á sjávarströnd? (b) Lýstu stærð alheimsins.
11 Davíð sá ekki nema nokkur þúsund stjörnur með berum augum. Samkvæmt nýlegri rannsókn er sagt að með nýjustu stjörnusjónaukum sé hægt að sjá 70 þúsund milljón milljón milljón stjörnur — 7 með 22 núllum á eftir. Jehóva gaf til kynna að stjörnurnar væru óhemjumargar þegar hann setti fjölda þeirra í samhengi við „sand á sjávarströnd“. — 1. Mósebók 22:17.
12 Stjörnufræðingar höfðu lengi getað séð „litla, þokukennda ljósbletti“ úti í geimnum. Vísindamenn gerðu ráð fyrir að þessar „þyrilþokur“ tilheyrðu Vetrarbrautinni. Árið 1924 kom hins vegar í ljós að Andrómeda, nálægasta stjörnuþokan af þessari gerð, var í raun réttri heil vetrarbraut — í hér um bil tveggja milljón ljósára fjarlægð! Nú telja vísindamenn að vetrarbrautirnar skipti milljörðum, og að í hverri vetrarbraut séu þúsundir stjarna og stundum milljarðar. En Jehóva „telur stjörnurnar, og nefnir þær allar með nafni“. — Sálmur 147:4, Biblían 1859.
13. (a) Hvað er sérstakt við stjörnumerkin? (b) Af hverju er ljóst að vísindamenn þekkja ekki „lög himinsins“?
13 Jehóva spurði Job: „Getur þú þrengt sjöstirnis-böndin eða fær þú leyst fjötra Óríons?“ (Jobsbók 38:31) Þarna eru nefnd tvö stjörnumerki en þau eru hópar fastastjarna sem virðast mynda sérstaka samstæðu eða mynd. Viðkomandi stjörnur geta verið í órafjarlægð hver frá annarri en innbyrðis afstaða þeirra breytist þó ekki frá jörðu séð. Þar sem staða fastastjarnanna er svona nákvæm eru þær „gagnlegir vegvísar í siglingum og geimferðum og auðvelda okkur að bera kennsl á stjörnur“. (The Encyclopedia Americana) Enginn skilur þó að fullu þau ‚bönd‘ sem halda stjörnumerkjunum saman. Vísindamenn geta enn ekki svarað spurningunni: „Þekkir þú lög himinsins?“ sem varpað er fram í Jobsbók 38:33.
14. Að hvaða leyti er dreifing ljóssins leyndardómur?
14 Vísindamenn geta ekki heldur svarað annarri spurningu sem Job var spurður: „Hvar er vegurinn þangað sem ljósinu er dreift?“ (Jobsbók 38:24, Biblíurit, ný þýðing 2001) Rithöfundur einn kallar þessa spurningu um ljósið „afar nútímalega vísindaspurningu“. Til samanburðar má geta þess að grískir heimspekingar álitu, sumir hverjir, að ljósið ætti upptök sín í mannsauganu. Á síðari tímum hafa vísindamenn ýmist litið á ljósið sem agnarsmáar eindir eða sem bylgjur. Núna telja vísindamenn að ljós hafi bæði bylgjueiginleika og eindaeiginleika. Því fer þó fjarri að menn skilji til hlítar hvernig „ljósinu er dreift“.
15. Hvernig ætti okkur að vera innanbrjósts þegar við hugsum um himininn?
15 Þegar á allt þetta er litið getum við ekki annað en tekið undir með sálmaskáldinu Davíð sem orti: „Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað, hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?“ — Sálmur 8:4, 5.
Jörðin segir frá dýrð Jehóva
16, 17. Hvernig segja lífverur hafdjúpanna frá dýrð Jehóva?
16 Sálmur 148 tíundar nánar hvernig sköpunarverkið segir frá dýrð Guðs. Sjöunda versið segir: „Lofið Drottin frá jörðu, þér stóru sjávardýr og öll djúp hafsins.“ (Biblíurit, ný þýðing 2003) Í ‚djúpum hafsins‘ leynast alls konar undur sem vitna um mátt Guðs og visku. Meðalstór steypireyður vegur um 120 tonn eða á við 30 fíla! Hjartað í henni er um hálft tonn að þyngd og getur dælt um sex og hálfu tonni af blóði um líkama hennar. Eru þessar risaskepnur sjávarins stirðar og hægfara? Síður en svo. Þær „þjóta um höfin“ með ótrúlegum hraða, að því er segir í skýrslu samtaka sem berjast gegn óbeinum hvalveiðum (European Cetacean Bycatch Campaign). Notuð hafa verið gervitungl til að fylgjast með ferðum hvala og „dæmi er um steypireyði sem flutti sig um 16.000 kílómetra veg á 10 mánuðum“.
17 Stökkullin, sem er af höfrungaætt, kafar að jafnaði niður á 45 metra dýpi en metið er 547 metrar! Hvernig getur spendýr kafað niður á þetta dýpi? Það hægir á hjartslættinum meðan á köfuninni stendur og blóð fer til hjartans, lungnanna og heilans. Að auki er efnasamband í vöðvunum sem geymir súrefni. Norræni sæfíllinn og búrhvalurinn geta kafað enn dýpra. Tímaritið Discover segir að þessi dýr „láti lungun falla alveg saman í stað þess að veita viðnám gegn þrýstingnum“. Það súrefni, sem þau þurfa, er að mestu leyti geymt í vöðvunum. Þessi dýr vitna greinilega um visku almáttugs skapara.
18. Hvernig ber sjórinn vitni um visku Jehóva?
18 Sjórinn sjálfur er jafnvel til vitnis um visku Jehóva. „Í hverjum dropa í efstu 100 metrum hafsins er frífljótandi, smásætt plöntusvif í þúsundatali,“ segir í tímaritinu Scientific American. Þessi „ósýnilegi skógur“ hreinsar andrúmsloftið með því að taka til sín milljarða tonna af koldíoxíði. Plöntusvifið myndar meira en helming alls súrefnis sem við öndum að okkur.
19. Hvernig framkvæma eldur og snjór vilja Jehóva?
19 „Eldur og hagl, snjór og reykur, stormbylurinn, sem framkvæmir orð hans,“ segir Sálmur 148:8. Jehóva notar þessi lífvana öfl náttúrunnar til að framkvæma vilja sinn. Tökum eldinn sem dæmi. Hér áður fyrr voru skógareldar taldir skaðvaldar og ekkert annað. Nú telja vísindamenn að eldurinn gegni þýðingarmiklu hlutverki í vistkerfinu þar sem hann eyði gömlum og deyjandi trjám, stuðli að því að fræ spíri, endurvinni næringarefni og dragi raunar úr hættunni á óslökkvandi skógareldum. Snjórinn er líka verðmætur. Hann vökvar og frjóvgar jörðina og myndar forðabúr fyrir árnar og einangrun gegn frosti fyrir jurtir og dýr.
20. Hvernig eru fjöllin og trén til góðs fyrir mannkynið?
20 „Fjöllin og allar hæðir, ávaxtartrén og öll sedrustrén,“ er haldið áfram í Sálmi 148:9. Tignarleg fjöllin eru vitnisburður um hinn mikla mátt Jehóva. (Sálmur 65:7) En fjöllin þjóna líka hagnýtum tilgangi. Í skýrslu Landfræðistofnunarinnar í Bern í Sviss segir: „Allar helstu ár í heimi eiga upptök sín til fjalla. Meira en helmingur mannkyns á allt sitt undir ferskvatni sem safnast fyrir uppi til fjalla. . . . Þessir ‚vatnsturnar‘ skipta sköpum fyrir velferð mannkyns.“ Ósköp venjuleg tré lofa meira að segja skapara sinn. Í skýrslu frá Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna segir að tré séu „þýðingarmikil fyrir velferð fólks í öllum löndum heims. . . . Margar trjátegundir hafa mikla efnahagslega þýðingu því að þau gefa af sér timbur, ávexti, hnetur, trjákvoðu og gúmmíkvoðu. Tveir milljarðar manna nota timbur sem eldsneyti og við matargerð.“
21. Hvernig vitnar venjulegt laufblað um að það sé hannað?
21 Gerð trjánna ber vitni um vitran skapara. Tökum laufblað sem dæmi. Yfirborðið er með vaxhúð sem kemur í veg fyrir að laufblaðið þorni. Rétt undir vaxhúðinni á efra borði blaðsins er fjöldi frumna sem innihalda grænukorn. Í grænukornunum er blaðgræna en hún drekkur í sig sólarorku sem er notuð við svonefnda ljóstillífun. Laufblöðin virka eins og nokkurs konar „matvælaverksmiðjur“. Rætur trésins draga vatn úr jarðveginum sem er dælt út í laufblöðin eftir flókinni „pípulögn“. Neðan á laufblöðunum eru agnarsmá loftaugu í þúsundatali en þau virka eins og „ventlar“ sem hleypa inn koldíoxíði eftir þörfum. Ljósið sér fyrir orku til að binda vatn og koldíoxíð saman í kolvetni. Plantan nærist síðan á fæðunni sem hún býr til. „Verksmiðjan“ er hljóðlát og falleg. Og hún mengar ekki heldur framleiðir súrefni sem aukaafurð.
22, 23. (a) Nefndu dæmi um einstæða hæfni sumra fugla og landdýra. (b) Hvaða spurningar eigum við eftir að skoða?
22 „Villidýrin og allur fénaður, skriðkvikindin og fleygir fuglar,“ segir Sálmur 148:10. Mörg landdýr og fuglar hafa einstaka hæfileika. Hvintrosinn getur flogið ótrúlegar vegalengdir, svo dæmi sé tekið. Vitað er um fugl sem flaug nálægt 40.000 kílómetrum á aðeins 90 dögum. Rákaskríkjan flýgur farflug milli Norður- og Suður-Ameríku í einni lotu og er þá meira en 80 klukkustundir á flugi. Úlfaldinn getur þolað vatnsleysi dögum saman. Vatnið geymir hann í meltingarveginum en ekki í hnúðnum eins og margir halda. Það er ekkert undarlegt að verkfræðingar skuli leita fyrirmynda í dýraríkinu þegar þeir hanna nýjar vélar og ný efni. „Vilji maður smíða eitthvað sem virkar vel . . . og fellur óaðfinnanlega að umhverfinu eru góðar líkur á að maður finni gott dæmi einhvers staðar í náttúrunni,“ segir rithöfundurinn Gail Cleere.
23 Já, sköpunarverkið segir frá dýrð Guðs. Allt er skapara sínum til lofs, hvort sem horft er til himins eða litið til jurtanna og dýranna. En hvað um okkur mennina? Hvernig getum við tekið undir með náttúrunni og sungið Guði lof?
Manstu?
• Hvers vegna eru þeir sem afneita tilvist Guðs án afsökunar?
• Hvernig segja stjörnur og reikistjörnur frá dýrð Guðs?
• Hvernig vitna sjávardýr og landdýr um að til sé elskuríkur skapari?
• Hvernig framkvæma lífvana náttúruöflin vilja Jehóva?
[Mynd á blaðsíðu 9]
Vísindamenn áætla að hægt sé að sjá 70 þúsund milljón milljón milljón stjörnur.
[Rétthafi]
Frank Zullo
[Mynd á blaðsíðu 11]
Stökkull.
[Mynd á blaðsíðu 12]
Snjókorn.
[Rétthafi]
snowcrystals.net
[Mynd á blaðsíðu 12]
Ungur hvintrosi.