Nám auðgandi og ánægjulegt
„Ef þú leitar . . . þá munt þú . . . öðlast þekking á Guði.“ — Orðskviðirnir 2:4, 5.
1. Hvernig getur afþreyingarlestur verið mjög ánægjulegur?
MARGIR lesa aðeins til dægrastyttingar. Ef efnið er heilnæmt getur lesturinn verið heilbrigð afþreying. Sumir njóta þess að lesa af handahófi í Sálmunum, Orðskviðunum, guðspjöllunum og annars staðar í Biblíunni, auk þess að lesa hana eftir fastri áætlun. Þeir hafa unun af fegurð málsins og hugsunarinnar. Aðrir lesa sér til ánægju í Árbók votta Jehóva og tímaritinu Vaknið!, ævisögur sem birtast í Varðturninum eða þá annað lesefni um sögu, landafræði og náttúrufræði.
2, 3. (a) Hvernig er hægt að líkja andlegu efni við fasta fæðu? (b) Hvað er fólgið í námi?
2 Lestur af þessu tagi getur verið góð afþreying en nám kostar hins vegar áreynslu. Enski heimspekingurinn Francis Bacon skrifaði: „Sumar bækur á að smakka, sumar á að gleypa og fáeinar á að tyggja og melta.“ Biblían á tvímælalaust heima í síðasta flokknum. Páll postuli skrifaði: „Um þetta [Krist sem Melkísedek konungur og prestur táknaði] höfum vér langt mál að segja og torskilið, af því að þér hafið gjörst heyrnarsljóir. Fasta fæðan er fyrir fullorðna, fyrir þá, sem jafnt og þétt hafa tamið skilningarvitin til að greina gott frá illu.“ (Hebreabréfið 5:11, 14) Það þarf að tyggja fasta fæðu áður en maður kyngir henni og meltir. Það þarf að hugleiða djúptækt andlegt efni til að meðtaka það og geyma með sér.
3 Nám má skilgreina sem beitingu hugans til að afla sér þekkingar og skilnings, svo sem með lestri, rannsókn og fleiru. Það leiðir af sjálfu sér að nám er meira en það að lesa lauslega og strika kannski undir orð og orð. Nám kostar vinnu, hugaráreynslu og beitingu skilningarvitanna. En þó að nám kosti vinnu merkir það ekki að nám geti ekki verið skemmtilegt.
Að gera nám ánægjulegt
4. Hvernig getur nám í orði Guðs verið hressandi og auðgandi að sögn sálmaritarans?
4 Það getur verið hressandi og endurnærandi að lesa og nema orð Guðs. Sálmaritarinn sagði: „Lögmál [Jehóva] er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður [Jehóva] er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran. Fyrirmæli [Jehóva] eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð [Jehóva] eru skír, hýrga augun.“ (Sálmur 19:8, 9) Lögmál Jehóva lífgar sálina, eykur andlega vellíðan og veitir innri gleði, og augun skína þegar maður sér tilgang Jehóva skýrt. Þetta er unaðslegt.
5. Hvernig getur nám verið mjög ánægjulegt?
5 Við höfum yfirleitt ánægju af erfiði okkar þegar við sjáum góðan árangur af því. Við ættum að gera námið ánægjulegt með því að vera fljót að notfæra okkur nýja þekkingu. Jakob skrifaði: „Sá sem skyggnist inn í hið fullkomna lögmál frelsisins og heldur sér við það og gleymir ekki því, sem hann heyrir, heldur framkvæmir það, hann mun sæll verða í verkum sínum.“ (Jakobsbréfið 1:25) Við höfum meiri ánægju en ella af því sem við lærum ef við notum það strax. Það er líka ánægjulegt að leita svara við ákveðinni spurningu sem hefur verið lögð fyrir okkur í boðunarstarfinu.
Að hafa unun af orði Guðs
6. Hvernig lýsti höfundur 119. sálmsins þeirri unun sem hann hafði af orði Jehóva?
6 Hugsanlegt er að það hafi verið Hiskía sem orti 119. sálminn meðan hann var ungur prins, en það er greinilegt að höfundurinn hafði mikla unun af orði Jehóva. Hann sagði á ljóðmáli: „Ég leita unaðar í lögum þínum, gleymi eigi orði þínu. Og reglur þínar eru unun mín . . . og leita unaðar í boðum þínum, þeim er ég elska. Lát miskunn þína koma yfir mig, að ég megi lifa, því að lögmál þitt er unun mín. Ég þrái hjálpræði þitt, [Jehóva], og lögmál þitt er unun mín.“ — Sálmur 119:16, 24, 47, 77, 174.
7, 8. (a) Hvað merkir það að „leita unaðar“ í orði Guðs, að sögn orðabókar? (b) Hvernig getum við sýnt ást okkar á orði Jehóva? (c) Hvernig bjó Esra sig undir að lesa lögmál Jehóva?
7 Hebresk biblíuorðabók segir um orðið sem þýtt er „leita unaðar“ í Sálmi 119: „Notkun þess í v. 16 er hliðstæð [sögnunum] að fagna . . . og hugleiða . . . Stígandinn er: fagna, hugleiða, hafa yndi af . . . Þessi samsetning gefur hugsanlega í skyn að markviss hugleiðing sé leiðin til að hafa yndi af orði Jahve. . . . Merkingin er tilfinningaþrungin.“a
8 Já, ástin á orði Jehóva á að koma frá hjartanu, setri tilfinninganna. Við ættum að njóta þess að staldra við ákveðnar ritningargreinar sem við erum nýbúin að lesa. Við ættum að velta fyrir okkur djúpstæðum andlegum hugmyndum, sökkva okkur niður í þær og íhuga. Þetta kallar á hljóða hugleiðingu og bæn. Líkt og Esra þurfum við að snúa huga okkar að því að lesa og nema orð Guðs. Um hann er sagt: „Esra hafði snúið huga sínum að því að rannsaka lögmál [Jehóva] og breyta eftir því og að kenna lög og rétt í Ísrael.“ (Esrabók 7:10) Við tökum eftir því að Esra var með þrennt í huga. Hann vildi rannsaka, breyta eftir og kenna. Við ættum að fylgja dæmi hans.
Nám er tilbeiðsla
9, 10. (a) Hvað merkir það að sálmaritarinn skuli hafa ‚íhugað‘ orð Jehóva? (b) Hvað merkir hebreska sögnin sem þýdd er „íhuga“? (c) Af hverju er mikilvægt að líta á biblíunám sem „tilbeiðsluathöfn“?
9 Sálmaritarinn segist láta sér annt um boð Jehóva, lög og reglur. Hann syngur: „Fyrirmæli þín vil ég íhuga og skoða vegu þína . . . rétta út hendurnar eftir boðum þínum, þeim er ég elska, og íhuga lög þín. Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það. Ég er hyggnari en allir kennarar mínir, því að ég íhuga reglur þínar.“ (Sálmur 119:15, 48, 97, 99) Hvað merkir það að „íhuga“ orð Jehóva?
10 Hebreska orðið, sem þýtt er „íhuga,“ merkir að „hugleiða, velta fyrir sér,“ „fara yfir eitthvað í huganum.“ „Það er notað um hljóða hugleiðingu á verkum Guðs . . . og orði Guðs.“ (Theological Wordbook of the Old Testament) Samstofna nafnorð (íhugun) vísar til „hugleiðinga sálmaritarans“ og lýsir því hvernig hann „kynnir sér [lögmál Guðs] ástúðlega“ og lítur á það sem „tilbeiðsluathöfn.“ Nám í orði Guðs er vissulega alvarlegra mál ef við lítum á það sem þátt í tilbeiðslu okkar. Við ættum því að vera samviskusamir og bænræknir biblíunemendur. Nám er þáttur í tilbeiðslu okkar og hefur það markmið að bæta hana.
Að kafa dýpra niður í orð Guðs
11. Hvernig opinberar Jehóva djúp andleg sannindi?
11 „Hversu mikil eru verk þín, [Jehóva], harla djúpar hugsanir þínar,“ segir sálmaritarinn með lotningarblandinni aðdáun. (Sálmur 92:6) Páll postuli talar líka um „djúp Guðs“ og á þar við hinar djúpu hugsanir sem Jehóva opinberar fólki sínu „fyrir andann“ sem verkar á trúa og hyggna þjónshópinn. (1. Korintubréf 2:10; Matteus 24:45) Þjónshópurinn sér öllum fyrir andlegri næringu — nýir fá „mjólk“ en ‚fullorðnir‘ fá ‚fasta fæðu.‘ — Hebreabréfið 5:11-14.
12. Nefndu dæmi um „djúp Guðs“ sem þjónshópurinn hefur fjallað um.
12 Til að skilja „djúp Guðs“ er nauðsynlegt að ígrunda það og nema í bænarhug. Til dæmis hefur komið út prýðisefni sem sýnir fram á að Jehóva getur verið bæði réttvís og miskunnsamur í sömu andránni. Miskunnin útvatnar ekki réttvísi hans heldur tjáir hann bæði réttvísina og kærleikann með miskunninni. Þegar Jehóva dæmir syndara gengur hann fyrst úr skugga um að það sé hægt að miskunna honum á grundvelli lausnarfórnar sonar síns. Ef syndarinn er uppreisnargjarn eða iðrast ekki lætur Guð réttvísina hafa sinn gang án ástæðulausrar miskunnar. Hann er trúr háleitum meginreglum sínum, hvort heldur er.b (Rómverjabréfið 3:21-26) ‚Hvílíkt djúp speki Guðs!‘ — Rómverjabréfið 11:33.
13. Hvernig ættum við að sýna að við kunnum að meta öll hin andlegu sannindi sem okkur hafa verið opinberuð?
13 Okkur finnst það hrífandi, líkt og sálmaritaranum, að Jehóva skuli opinbera okkur margar hugsanir sínar. Davíð skrifaði: „Hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar. Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin.“ (Sálmur 139:17, 18) Þó svo að við þekkjum aðeins smábrot af öllu því, sem Jehóva á eftir að opinbera í eilífðinni, metum við mikils hin andlegu sannindi ‚samanlögð‘ sem hann hefur sýnt okkur nú þegar. Og við köfum æ dýpra í allt það sem orð Guðs hefur að geyma. — Sálmur 119:160.
Viðleitni og rétt verkfæri
14. Hvernig leggja Orðskviðirnir 2:1-6 áherslu á vinnuna sem það kostar að nema orð Guðs?
14 Djúptækt biblíunám kostar vinnu. Það er augljóst af Orðskviðunum 2:1-6. Taktu eftir sagnorðunum sem spekingurinn Salómon notar til að leggja áherslu á fyrirhöfnina við að afla sér þekkingar, visku og hygginda Guðs. Hann skrifaði: „Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku og geymir boðorð mín hjá þér, svo að þú ljáir spekinni athygli þína, hneigir hjarta þitt að hyggindum, já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin, ef þú leitar að þeim sem að silfri og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum, þá munt þú skilja, hvað ótti [Jehóva] er, og öðlast þekking á Guði. Því að [Jehóva] veitir speki, af munni hans kemur þekking og hyggindi.“ Auðgandi nám útheimtir að við rannsökum og gröfum eins og við séum að leita fólginna fjársjóða.
15. Hvaða líking er notuð í Biblíunni til að benda á nauðsyn góðrar námstækni?
15 Góð námstækni er líka nauðsynleg til að nám sé andlega auðgandi. Salómon skrifaði: „Ef öxin er orðin sljó og eggin er ekki brýnd, þá verður maðurinn að neyta því meiri orku.“ (Prédikarinn 10:10) Ef eggjárn bítur ekki eða verkamaðurinn kann ekki að nota það fara miklir kraftar til spillis og hann skilar lélegu verki. Það getur verið mjög breytilegt eftir námsaðferðum hve mikið gagn við höfum af námstímanum. Í 7. kafla bókarinnar Theocratic Ministry School Guidebook (Handbók Guðveldisskólans) er að finna ágætar tillögur að góðum námsaðferðum.c
16. Hvað getur hjálpað okkur við rækilegt nám?
16 Iðnaðarmaður byrjar á því að taka til nauðsynleg verkfæri áður en hann snýr sér að verki. Í upphafi námsstundar ættum við að taka fram þau námsgögn í einkabókasafni okkar sem við þurfum á að halda. Minnug þess að nám er vinna og kallar á hugaráreynslu er gott að vera í réttri stellingu. Það getur verið auðveldara að halda huganum vel vakandi með því að sitja við borð eða skrifborð heldur en að liggja út af eða sitja í þægilegum hægindastól. Eftir stundarlanga einbeitingu getur verið gott að teygja úr sér eða fara út og anda að sér fersku lofti.
17, 18. Nefndu dæmi um hvernig hægt er að nota þau biblíunámstæki sem þú hefur aðgang að.
17 Við höfum aðgang að mörgum óviðjafnanlegum námstækjum. Eitt það helsta er Nýheimsþýðing Biblíunnar sem komin er út í heild eða að hluta á 37 tungumálum. Hin venjulega útgáfa Nýheimsþýðingarinnar er með millivísunum og yfirliti yfir biblíubækurnar með upplýsingum um það hver ritaði hverja bók, hvar hún var rituð og hvaða tímabil hún fjallar um. Hún er einnig með atriðisorðaskrá, viðauka og kortum. Á sumum tungumálum er hún prentuð í stóru broti. Sú útgáfa inniheldur allt sem að ofan greinir, auk yfirgripsmikilla neðanmálsathugasemda sem eru einnig með í atriðisorðaskránni. Notarðu þér til fulls þau gögn sem til eru á móðurmáli þínu til að kafa dýpra í orð Guðs?
18 Biblíualfræðibókin Insight on the Scriptures er afbragðsgott námstæki. Þú ættir alltaf að hafa hana við höndina í námi þínu, svo framarlega sem þú átt hana á máli sem þú skilur. Hún veitir ítarlegar upplýsingar um flest það sem Biblían fjallar um. Bókin „All Scripture Is Inspired of God and Beneficial“ er önnur gagnleg handbók. Þegar þú byrjar að lesa nýja biblíubók er gott að fara yfir samsvarandi námskafla í henni til að fá upplýsingar um landafræði og sögu og yfirlit yfir efni biblíubókarinnar. Og til viðbótar við hinar mörgu handbækur má svo nefna Watchtower Library á geisladiski sem er fáanlegt núna á níu tungumálum.
19. (a) Af hverju hefur Jehóva látið okkur í té góð biblíunámsgögn? (b) Hvað er nauðsynlegt til að stunda biblíulestur og nám?
19 Jehóva hefur látið hinn ‚trúa og hyggna þjón‘ koma öllum þessum námstækjum á framfæri til að gera þjónum sínum á jörðinni kleift að ‚leita og öðlast þekkingu á Guði.‘ (Orðskviðirnir 2:4, 5) Góðar námsvenjur byggja upp þekkinguna á Jehóva og styrkja sambandið við hann. (Sálmur 63:2-9) Já, nám er vinna en þetta er ánægjuleg vinna og auðgandi. Hún tekur auðvitað sinn tíma og þú spyrð þig sennilega hvernig þú getir fundið þér tíma til biblíulestrar og einkanáms. Við ræðum það í síðustu greininni í þessari syrpu.
[Neðanmáls]
a New International Dictionary of Old Testament Theology & Exegesis, 4. bindi, bls. 205-7.
b Sjá Varðturninn 1. september 1998, bls. 13, gr. 7. Sem námsverkefni gætirðu skoðað báðar námsgreinarnar í blaðinu ásamt greinunum „Justice“ (réttvísi), „Mercy“ (miskunn) og „Righteousness“ (réttlæti) í biblíualfræðibókinni Insight on the Scriptures sem gefin er út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
c Gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc. Einnig er að finna ágætar tillögur um námsaðferðir í Varðturninum 1. febrúar 1994, bls. 20-24 og 1. september 1986, bls. 30-2.
Upprifjun
• Hvernig getum við gert einkanám okkar hressandi og auðgandi?
• Hvernig getum við „leitað unaðar“ í orði Jehóva og ‚íhugað‘ það?
• Hvernig sýna Orðskviðirnir 2:1-6 að við þurfum að leggja eitthvað á okkur til að nema orð Guðs?
• Hvaða námsgögn hefur Jehóva látið okkur í té?
[Mynd á blaðsíðu 24]
Hljóð hugleiðing og bæn þroskar með okkur ást á orði Guðs.
[Myndir á blaðsíðu 26]
Notarðu þér öll fáanleg biblíunámsgögn til að kafa dýpra ofan í orð Guðs?