-
Jehóva er hirðir okkarVarðturninn – 2006 | 1. janúar
-
-
‚Ég óttast ekkert illt, því að þú ert hjá mér‘
13. Hvernig verða orð Davíðs innilegri í Sálmi 23:4 og hvers vegna kemur það ekki á óvart?
13 Davíð nefnir aðra ástæðu fyrir trausti sínu en hún er sú að Jehóva verndar sauði sína. Við lesum: „Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.“ (Sálmur 23:4) Orð Davíðs verða núna innilegri og hann ávarpar Jehóva með persónufornafninu „þú“. Þetta kemur ekki á óvart því að Davíð er að tala um það hvernig Guð hjálpaði honum að þola mótlæti. Davíð hafði farið um marga dimma dali — upplifað tímabil þegar líf hans var í hættu. En hann leyfði óttanum ekki að ná tökum á sér því hann skynjaði að Guð var með honum og var tilbúinn að nota sprota sinn og staf til að hjálpa honum. Davíð gerði sér grein fyrir því að hann naut verndar Jehóva og það veitti honum huggun og styrkti án efa samband hans við hann.b
14. Um hvað fullvissar Biblían okkur og hvað þýðir það ekki?
14 Hvernig verndar Jehóva sauði sína nú á dögum? Biblían fullvissar okkur um að engir andstæðingar, hvorki illir andar né menn, geti útrýmt sauðum hans af jörðinni. Jehóva myndi aldrei leyfa það. (Jesaja 54:17; 2. Pétursbréf 2:9) En það þýðir ekki að hirðir okkar verndi okkur gegn allri ógæfu. Við upplifum sömu erfiðleika og fólk almennt og mætum andstöðunni sem allir sannkristnir menn verða fyrir. (2. Tímóteusarbréf 3:12; Jakobsbréfið 1:2) Það koma tímar í lífi okkar þegar við förum um dimma dali. Við gætum til dæmis lent í lífsháska vegna ofsókna eða veikinda. Einhver sem er okkur kær gæti einnig verið í lífshættu eða jafnvel dáið. En hirðir okkar er með okkur og hann mun vernda okkur á myrkustu tímum. Hvernig?
15, 16. (a) Hvernig hjálpar Jehóva okkur að yfirstíga hindranir sem kunna að verða á vegi okkar? (b) Endursegðu frásögu sem sýnir að Jehóva hjálpar okkur á erfiðum tímum.
15 Jehóva lofar ekki að vinna kraftaverk í okkar þágu en við getum verið viss um að hann hjálpar okkur að yfirstíga allar þær hindranir sem verða á vegi okkar.c Hann getur veitt okkur visku til að takast á við „ýmiss konar raunir“. (Jakobsbréfið 1:2-5) Hirðir notar sprota sinn og staf ekki aðeins til að fæla rándýr frá heldur líka til að stugga við sauðunum svo að þeir fari í rétta átt. Jehóva getur líka „stuggað við“ okkur, kannski fyrir milligöngu trúbræðra og systra. Þau gætu hvatt okkur til að fara eftir biblíulegum ráðum sem skipta sköpum fyrir okkur. Auk þess getur Jehóva gefið okkur styrk til að standa stöðug. (Filippíbréfið 4:13) Hann getur veitt okkur „ofurmagn kraftarins“ fyrir milligöngu heilags anda. (2. Korintubréf 4:7) Andi Guðs gerir okkur kleift að standast allar þær prófraunir sem Satan kann að leggja á okkur. (1. Korintubréf 10:13) Er ekki hughreystandi að vita að Jehóva er alltaf fús til að hjálpa okkur?
16 Já, þótt við förum um dimma dali þurfum við ekki að gera það ein. Hirðir okkar er með okkur og hjálpar okkur á ýmsa vegu sem við skiljum kannski ekki alveg í fyrstu. Tökum sem dæmi reynslu safnaðaröldungs sem greindist með illkynja heilaæxli. „Ég verð að viðurkenna að í fyrstu fór ég að hugsa hvort Jehóva væri reiður út í mig eða hvort hann elskaði mig yfirhöfuð. En ég var staðráðinn í að fjarlægjast hann ekki. Þess í stað tjáði ég honum áhyggjur mínar og hann hjálpaði mér. Hann huggaði mig oft fyrir milligöngu trúsystkina. Mörg þeirra höfðu reynslu af því að glíma við alvarleg veikindi og gáfu mér ýmis gagnleg ráð. Öfgalausar leiðbeiningar þeirra minntu mig á að það sem ég var að ganga í gegnum var ekkert óvenjulegt. Margir buðust til að hjálpa mér og það snerti mig mjög og fullvissaði mig um að Jehóva var ekki óánægður með mig. Ég verð auðvitað að halda áfram að berjast við veikindi mín og ég veit ekki hver útkoman verður. En ég veit að Jehóva er með mér og heldur áfram að hjálpa mér í gegnum þessa erfiðleika.“
-