NÁMSGREIN 1
Þeir er leita Jehóva fara einskis góðs á mis
ÁRSTEXTINN 2022 ER: ,Þeir er leita Jehóva fara einskis góðs á mis.‘ – SÁLM. 34:11.
SÖNGUR 4 Jehóva er minn hirðir
YFIRLITa
1. Í hvaða erfiðu aðstæðum var Davíð?
DAVÍÐ var á flótta og óttaðist um líf sitt. Sál, voldugur konungur Ísraels, var staðráðinn í að drepa hann. Davíð þurfti vistir og bað hæversklega um fimm brauð þegar hann hafði viðkomu í borginni Nób. (1. Sam. 21:2, 4) Hann og menn hans leituðu seinna skjóls í helli. (1. Sam. 22:1) Hvað varð til þess að Davíð lenti í þessum erfiðu aðstæðum?
2. Hvernig stofnaði Sál sjálfum sér í hættu? (1. Samúelsbók 23:16, 17)
2 Sál var ákaflega öfundsjúkur út í Davíð vegna vinsælda hans og sigra í hernaði. Sál vissi líka að óhlýðni hans sjálfs hafði þær afleiðingar að Jehóva hafnaði honum sem konungi Ísraels og að Jehóva hafði valið Davíð til að vera konungur. (Lestu 1. Samúelsbók 23:16, 17.) En Sál var enn konungur Ísraels. Hann réð yfir miklum her og átti sér marga stuðningsmenn þannig að Davíð þurfti að flýja til að bjarga lífi sínu. Hélt Sál virkilega að hann gæti hindrað Guð í að gera Davíð að konungi? (Jes. 55:11) Biblían segir ekkert um það en eitt getum við verið viss um: Sál stofnaði sjálfum sér í hættu. Þeir tapa alltaf sem berjast gegn Guði.
3. Hvernig leið Davíð þrátt fyrir aðstæður sínar?
3 Davíð var ekki metnaðargjarn. Hann kaus ekki að verða konungur Ísraels heldur valdi Jehóva hann til þess. (1. Sam. 16:1, 12, 13) Sál varð svarinn óvinur Davíðs. En Davíð sakaði ekki Jehóva um hættuna sem hann var í. Hann kvartaði ekki heldur yfir því að matur væri af skornum skammti og að hann þyrfti að fela sig í helli. Það má jafnvel vera að það hafi verið í hellinum að hann samdi fallegan söng sem stefið á þessari grein er sótt í: ,Þeir er leita Jehóva fara einskis góðs á mis.‘ – Sálm. 34:10.
4. Hvaða spurningar skoðum við og hvers vegna eru þær mikilvægar?
4 Marga þjóna Guðs nú á dögum vantar stundum mat og aðrar nauðsynjar.b Það hefur ekki síst verið tilfellið í faraldrinum sem hefur geisað. Og eftir því sem nær dregur þrengingunni miklu má búast við meiri erfiðleikum. (Matt. 24:21) Með það í huga skulum við skoða svörin við fjórum spurningum: Að hvaða leyti fór Davíð „einskis góðs á mis“? Hvers vegna þurfum við að læra að vera nægjusöm? Hvers vegna getum við treyst því að Jehóva annist okkur? Og hvernig getum við búið okkur undir það sem er fram undan?
„MIG MUN EKKERT BRESTA“
5, 6. Hvernig hjálpar Sálmur 23:1–6 okkur að skilja hvað Davíð átti við þegar hann sagði að þjónar Guðs ,færu einskis góðs á mis‘?
5 Hvað átti Davíð við þegar hann sagði að þjónar Guðs ,færu einskis góðs á mis‘? Við fáum vísbendingu með því að skoða svipaða hugmynd í Sálmi 23. (Lestu Sálm 23:1–6.) Davíð byrjar sálminn á orðunum: „Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.“ Eftir það tíundar hann nokkuð sem hefur varanlegt gildi – ríkulega andlega blessun sem hann nýtur vegna þess að hann viðurkennir Jehóva sem hirði sinn. Jehóva leiðir hann „um rétta vegu“ og styður hann trúfastlega á góðum tímum sem vondum. Davíð skilur að líf hans á „grænum grundum“ Jehóva er ekki laust við vandamál. Stundum getur hann orðið kjarklítill eins og hann fari „um dimman dal“ og hann mun eiga sér óvini. En hann ,óttast ekkert illt‘ vegna þess að Jehóva er hirðir hans.
6 Hér höfum við svarið við spurningunni: Að hvaða leyti fór Davíð „einskis góðs á mis“? Hann hafði allt sem þurfti til að viðhalda nánu sambandi við Jehóva. Hamingja Davíðs var ekki háð efnislegum hlutum. Hann var ánægður með það sem Jehóva sá honum fyrir. Það sem skipti hann mestu máli var að hafa blessun og vernd Jehóva.
7. Í hvaða erfiðu aðstæðum voru kristnir menn í Júdeu á fyrstu öld samkvæmt Lúkasi 21:20–24?
7 Af orðum Davíðs má sjá hversu mikilvægt er að hafa rétt viðhorf til efnislegra hluta. Við megum auðvitað hafa ánægju af því sem við eigum en líf okkar ætti ekki að snúast um það. Kristnir menn í Júdeu á fyrstu öld skildu þessi mikilvægu sannindi. (Lestu Lúkas 21:20–24.) Jesús hafði varað þá við því að hersveitir myndu umkringja Jerúsalem og sagði þeim að þeir þyrftu að flýja til fjalla þegar það gerðist. Flótti þeirra myndi bjarga lífi þeirra en þeir þyrftu að færa miklar fórnir. Fyrir nokkrum árum var sagt í Varðturninum: „Þeir yfirgáfu akra og heimili og tíndu ekki einu sinni saman eigur sínar heima fyrir. Þeir treystu á vernd og stuðning Jehóva og tóku tilbeiðsluna á honum fram yfir allt annað sem virst gat mikilvægt.“
8. Hvaða mikilvæga lærdóm getum við dregið af því sem kristnir menn í Júdeu á fyrstu öld upplifðu?
8 Hvaða mikilvæga lærdóm getum við dregið af því sem kristnir menn í Júdeu á fyrstu öld upplifðu? Í Varðturninum sem áður er vitnað í sagði: „Það gæti því reynt á viðhorf okkar til efnislegra hluta í framtíðinni. Eru þeir okkur mikilvægari en allt annað eða er það hjálpræði allra, sem standa Guðs megin, sem skiptir mestu máli? Flóttinn getur haft í för með sér einhverjar þrengingar og skort. Við verðum að vera tilbúin að gera hvaðeina sem þarf eins og trúbræður okkar á fyrstu öld sem flúðu frá Júdeu til Pereu handan Jórdanar.“c
9. Hvað finnst þér hvetjandi við leiðbeiningar Páls til Hebreanna?
9 Geturðu gert þér í hugarlund hversu erfitt hefur verið fyrir þessa kristnu menn að yfirgefa nánast allt sem þeir áttu og byrja alveg upp á nýtt? Það útheimti trú að reiða sig á að Jehóva sæi þeim fyrir nauðsynjum. En þeir fengu hjálp til þess. Fimm árum áður en Rómverjar umkringdu Jerúsalem gaf Páll postuli Hebreunum dýrmætar leiðbeiningar: „Látið ekki ást á peningum stjórna lífi ykkar heldur látið ykkur nægja það sem þið hafið. Hann hefur sagt: ,Ég mun aldrei snúa baki við ykkur og aldrei yfirgefa ykkur.‘ Við getum því verið hugrökk og sagt: ,Jehóva hjálpar mér, ég óttast ekki neitt. Hvað geta mennirnir gert mér?‘“ (Hebr. 13:5, 6) Þeir sem tóku til sín leiðbeiningar Páls fyrir innrás Rómverja áttu eflaust auðveldara með að aðlagast einföldu lífi á nýjum stað. Þeir voru sannfærðir um að Jehóva sæi þeim fyrir því sem þeir þurftu. Við getum verið það líka.
„LÁTUM OKKUR ÞAÐ NÆGJA“
10. Hvaða ,leyndardómi‘ segir Páll okkur frá?
10 Páll gaf Tímóteusi svipaðar leiðbeiningar sem eru líka til okkar. Hann skrifaði: „Ef við höfum fæði og klæði þá látum okkur það nægja.“ (1. Tím. 6:8) Þýðir þetta að við megum ekki njóta ljúffengrar máltíðar, eiga fallegt heimili eða kaupa ný föt af og til? Það er ekki það sem Páll er að segja. Hann er að segja okkur að láta okkur nægja það sem við höfum. (Fil. 4:12) Þetta var ,leyndardómurinn‘ sem Páll bjó yfir. Verðmætasta eign okkar er samband okkar við Guð en ekki efnislegar eigur. – Hab. 3:17, 18.
11. Hvaða lærum við um nægjusemi af því sem Móse sagði við Ísraelsmenn?
11 Það sem við teljum vera nauðsynjar er það ekki endilega í augum Jehóva. Hugsum um það sem Móse sagði Ísraelsmönnum eftir að þeir höfðu verið í eyðimörkinni í 40 ár: „Drottinn, Guð þinn, hefur blessað þig í öllu sem þú hefur tekið þér fyrir hendur. Hann vakti yfir för þinni yfir þessa miklu eyðimörk. Þessi fjörutíu ár hefur Drottinn, Guð þinn, verið með þér og þig ekki skort neitt.“ (5. Mós. 2:7) Jehóva gaf Ísraelsmönnum manna að borða þessi 40 ár. Fötin sem þeir voru í þegar þeir yfirgáfu Egyptaland slitnuðu ekki. (5. Mós. 8:3, 4) Sumir álitu þetta kannski ekki nægja en Móse minnti Ísraelsmenn á að þeir hefðu allt sem þeir þurftu. Jehóva hefur velþóknun á því þegar við lærum að vera nægjusöm og metum jafnvel einföldustu gjafir sem hann gefur okkur og lítum þakklát á þær sem blessun frá honum.
TREYSTUM AÐ JEHÓVA ANNIST OKKUR
12. Hvað sýnir að Davíð treysti á Jehóva en ekki sjálfan sig?
12 Davíð vissi að Jehóva er trúr og ber mikla umhyggju fyrir þeim sem elska hann. Þótt líf hans hafi verið í hættu þegar hann skrifaði Sálm 34 gat hann með augum trúarinnar séð ,engil Drottins setja vörð‘ kringum hann. (Sálm. 34:8) Davíð sá kannski engil Jehóva fyrir sér eins og hermann úti á bersvæði sem var alltaf á varðbergi gagnvart óvinum. Þótt hann hefði sjálfur verið mikill stríðsmaður og Jehóva lofað að hann yrði konungur, reiddi hann sig ekki á færni sína í að nota slöngvu og sverð til að sigra óvini. (1. Sam. 16:13; 24:13) Davíð treysti á Jehóva og var sannfærður um að engill hans „setur vörð kringum þá sem óttast hann“. Við búumst auðvitað ekki við að fá vernd fyrir kraftaverk eins og er. En við vitum að enginn sem setur traust sitt á Jehóva verður fyrir varanlegum skaða.
13. Hvers vegna lítur út fyrir að við séum berskjölduð þegar Góg í Magóg gerir árás en hvers vegna þurfum við ekki að óttast? (Sjá forsíðumynd.)
13 Í náinni framtíð mun reyna á traust okkar á getu Jehóva til að vernda okkur. Líta mun út fyrir að líf okkar sé í hættu þegar Góg í Magóg, bandalag þjóða, gerir árás á fólk Guðs. Við þurfum að vera sannfærð um að Jehóva geti og muni bjarga okkur. Í augum þjóðanna verðum við eins og varnar- og verndarlausir sauðir. (Esek. 38:10–12) Við erum óvopnuð og ekki þjálfuð til stríðs – auðveld bráð í augum þeirra. Þær sjá ekki það sem við sjáum með augum trúarinnar – fjöldamarga engla sem standa vörð um fólk Guðs og eru reiðubúnir að verja okkur. Hvernig ættu þjóðirnar að geta séð þá? Þær hafa enga andlega sjón. Það kemur þeim í opna skjöldu þegar himneskar hersveitir koma okkur til varnar. – Opinb. 19:11, 14, 15.
BÚUM OKKUR UNDIR FRAMTÍÐINA NÚNA
14. Hvað getum við gert til að búa okkur undir það sem er fram undan?
14 Hvernig getum við búið okkur undir það sem er fram undan? Í fyrsta lagi þurfum við að hafa rétt viðhorf til efnislegra hluta og gera okkur grein fyrir að við þurfum kannski að yfirgefa það sem við eigum einn daginn. Við þurfum líka að vera nægjusöm og byggja hamingju okkar á sambandinu við Jehóva. Því betur sem við kynnumst Guði okkar því sannfærðari verðum við um getu hans til að vernda okkur þegar Góg í Magóg ræðst á okkur.
15. Hvað upplifði Davíð þegar hann var ungur sem hjálpaði honum að skilja að Jehóva myndi aldrei svíkja hann?
15 Skoðum annað sem hjálpaði Davíð og getur hjálpað okkur að búa okkur undir prófraunir. Hann sagði: „Finnið og sjáið að Drottinn er góður, sæll er sá maður sem leitar hælis hjá honum.“ (Sálm. 34:9) Þarna sjáum við hvers vegna Davíð var viss um að hann gat reitt sig á stuðning Jehóva. Hann hafði oft gert það og Jehóva brást honum aldrei. Þegar Davíð var ungur og stóð andspænis filistearisanum Golíat sagði hann við þennan ógurlega stríðsmann: „Í dag mun Drottinn framselja þig í hendur mér.“ (1. Sam. 17:46) Seinna reyndi Sál konungur oftsinnis að drepa Davíð meðan hann var í þjónustu konungs. En Jehóva var með Davíð. (1. Sam. 18:12) Hann hafði fengið hjálp Jehóva áður og vissi þess vegna að hann gat reitt sig á hann í erfiðleikum sínum.
16. Hvernig getum við ,fundið‘ að Jehóva er góður?
16 Því oftar sem við leitum leiðsagnar Jehóva núna þeim mun sannfærðari verðum við um getu hans til að koma okkur til hjálpar í framtíðinni. Við þurfum að hafa trú og vera tilbúin að reiða okkur á Jehóva til að biðja vinnuveitanda um frí til að sækja mót eða um annan vinnutíma til að við getum sótt allar samkomur og farið oftar í boðunina. Segjum að vinnuveitandi hafni beiðni okkar og við missum vinnuna. Treystum við þá að Jehóva yfirgefi okkur ekki og að hann sjái okkur alltaf fyrir því sem við þurfum? (Hebr. 13:5) Margir sem þjóna Jehóva í fullu starfi geta sagt reynslusögur af því hvernig Jehóva kom þeim til hjálpar þegar þeir þurftu mest á því að halda. Jehóva er trúr.
17. Hver er árstextinn 2022 og hvers vegna á hann vel við?
17 Þegar Jehóva er með okkur höfum við enga ástæðu til að óttast það sem er fram undan. Hann yfirgefur okkur aldrei svo framarlega sem við höfum vilja hans í fyrsta sæti. Til að minna okkur á mikilvægi þess að búa okkur núna undir erfiðleikana sem eru fram undan og treysta að Jehóva yfirgefi okkur aldrei hefur stjórnandi ráð valið Sálm 34:11 sem árstexta 2022: Þeir er leita Jehóva fara einskis góðs á mis.
SÖNGUR 38 Hann mun styrkja þig
a Árstextinn 2022 er: Þeir er leita Jehóva fara einskis góðs á mis. Hann er sóttur í Sálm 34:11. Margir þjónar Jehóva eiga ekki margt og hafa lítið milli handanna. Að hvaða leyti má þá segja að þeir ,fari einskis góðs á mis‘? Og hvernig getur það að skilja þetta vers hjálpað okkur að búa okkur undir erfiðleika fram undan?
b Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum 15. september 2014.
d MYND: Davíð var þakklátur fyrir það sem Jehóva sá honum fyrir, jafnvel þegar hann faldi sig í helli á flótta undan Sál konungi.
e MYND: Eftir að Ísraelsmenn yfirgáfu Egyptaland gaf Jehóva þeim manna og sá til þess að föt þeirra slitnuðu ekki.