Óttist Jehóva og njótið þess að lifa
„Óttist Drottin, þér hans heilögu, því að þeir er óttast hann líða engan skort.“ — SÁLMUR 34:10.
1, 2. (a) Hvaða ólíku sjónarmið eru uppi innan kristna heimsins varðandi guðsótta? (b) Við hvaða spurningum ætlum við að leita svara?
PRESTAR og prédikarar kristna heimsins hvetja oft til guðsótta á þeim grundvelli að Guð refsi syndurum með eilífum kvölum í helvíti. Þessi kenning stangast á við kenningu Biblíunnar sem er á þá lund að Jehóva sé kærleiksríkur og réttlátur. (1. Mósebók 3:19; 5. Mósebók 32:4; Rómverjabréfið 6:23; 1. Jóhannesarbréf 4:8) Aðrir kennimenn kristna heimsins taka andstæðan pól í hæðina. Þeir minnast aldrei á guðsótta heldur kenna að Guð sé svo eftirlátur að hann taki við nánast hverjum sem er, óháð líferni. Það samræmist ekki heldur kenningu Biblíunnar. — Galatabréfið 5:19-21.
2 Sannleikurinn er sá að Biblían hvetur okkur til að óttast Guð. (Opinberunarbókin 14:7) Það vekur ýmsar spurningar. Af hverju vill kærleiksríkur Guð að við óttumst sig? Hvers konar ótta vill hann að við sýnum? Hvernig getur það verið okkur til góðs að óttast Guð? Við leitum svara við þessum spurningum um leið og við höldum áfram að fara yfir Sálm 34.
Af hverju eigum við að óttast Guð?
3. (a) Hvernig líturðu á fyrirmælin um að óttast Guð? (b) Af hverju eru þeir sem óttast Guð hamingjusamir?
3 Jehóva er skapari og alvaldur Drottinn alheims og verðskuldar því að við óttumst sig. (1. Pétursbréf 2:17) En guðsótti er ekki fólginn í því að standa ógn af grimmum guði. Guðsótti er lotning fyrir Jehóva sökum stöðu hans. Hann felur í sér ótta við að vanþóknast honum. Guðsótti er göfgandi og hvetjandi en ekki þjakandi og ógnvekjandi. Jehóva er kallaður ‚hinn sæli Guð‘ og hann vill að mennirnir njóti þess að lifa. (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912) En til að vera hamingjusöm þurfum við að lifa í samræmi við kröfur Guðs. Þar af leiðandi þurfa margir að breyta líferni sínu. Allir sem gera nauðsynlegar breytingar kynnast af eigin raun því sem sálmaskáldið Davíð sagði: „Finnið og sjáið, að Drottinn er góður, sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum. Óttist Drottin, þér hans heilögu, því að þeir er óttast hann líða engan skort.“ (Sálmur 34:9, 10) Þeir sem óttast Jehóva eiga gott samband við hann og þá skortir ekkert sem hefur varanlegt gildi.
4. Hvaða fyrirheit gáfu bæði Davíð og Jesús?
4 Davíð heiðraði menn sína með því að kalla þá ‚heilaga‘. Þeir tilheyrðu heilagri þjóð Guðs. Þeir settu sig einnig í lífshættu með því að fylgja Davíð. Enda þótt þeir væru á flótta undan Sál konungi treysti Davíð að Jehóva myndi halda áfram að sjá þeim fyrir nauðþurftum. Hann orti: „Ung ljón eiga við skort að búa og svelta, en þeir er leita Drottins fara einskis góðs á mis.“ (Sálmur 34:11) Jesús gaf fylgjendum sínum áþekkt fyrirheit. — Matteus 6:33.
5. (a) Af hvaða hópi voru margir af fylgjendum Jesú? (b) Hvað ráðlagði Jesús þeim varðandi ótta?
5 Margir af áheyrendum Jesú voru bágstatt almúgafólk af þjóð Gyðinga. Jesús „kenndi . . . í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa“. (Matteus 9:36) Hafði þetta almúgafólk kjark til að fylgja Jesú? Það þurfti að læra að óttast Jehóva en ekki menn. Jesús sagði: „Það segi ég yður, vinir mínir: Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða og fá að því búnu ekki meira að gjört. Ég skal sýna yður, hvern þér eigið að hræðast. Hræðist þann, er hefur vald að deyða og að því búnu varpa í helvíti [Gehenna á grísku]. Já, ég segi yður, hræðist hann. Eru ekki fimm spörvar seldir fyrir tvo smápeninga? Og þó er ekki einn þeirra gleymdur Guði. Hárin á höfði yðar eru jafnvel öll talin. Verið óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.“ — Lúkas 12:4-7.
6. (a) Hvaða orð Jesú hafa verið kristnum mönnum til styrktar? (b) Af hverju er Jesús besta dæmið um guðsótta?
6 Þegar óvinir reyna að þvinga þá sem óttast Jehóva til að hætta að þjóna honum rifjast kannski upp fyrir þeim eftirfarandi orð Jesú: „Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum, mun og Mannssonurinn kannast við fyrir englum Guðs. En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum, mun afneitað verða fyrir englum Guðs.“ (Lúkas 12:8, 9) Þessi orð hafa verið kristnum mönnum til styrktar, einkum í löndum þar sem sönn tilbeiðsla er bönnuð. Þeir halda áfram að lofa Jehóva í kyrrþey á safnaðarsamkomum og með því að boða öðrum trúna. (Postulasagan 5:29) Jesús er besta fyrirmyndin um að sýna „guðhræðslu“. (Hebreabréfið 5:7) Í spádómsorði Guðs segir um hann: „Yfir honum mun hvíla andi Drottins: Andi . . . ótta Drottins. Unun hans mun vera að óttast Drottin.“ (Jesaja 11:2, 3) Jesús er því einstaklega hæfur til að kenna okkur hvaða kosti það hefur að óttast Guð.
7. (a) Hvað bauð Davíð mönnum sínum og hvernig má segja að kristnir menn þiggi áþekkt boð? (b) Hvernig geta foreldrar fylgt góðu fordæmi Davíðs?
7 Allir sem fylgja fordæmi Jesú og hlýða kenningum hans þiggja í rauninni boð sem er áþekkt boði Davíðs: „Komið, börn, hlýðið á mig, ég vil kenna yður ótta Drottins.“ (Sálmur 34:12) Það var eðlilegt fyrir Davíð að kalla menn sína „börn“ því að þeir litu á hann sem leiðtoga. Davíð hjálpaði þeim að óttast Guð þannig að þeir gætu verið sameinaðir og notið velvildar Guðs. Þetta er gott dæmi fyrir kristna foreldra til að líkja eftir. Jehóva hefur gefið þeim forræði yfir börnum sínum og falið þeim að ala þau upp „með aga og umvöndun Drottins“. (Efesusbréfið 6:4) Með því að ræða daglega við börnin um andleg mál og fræða þau reglulega um Biblíuna hjálpa þeir börnunum að óttast Jehóva og njóta þess að lifa. — 5. Mósebók 6:6, 7.
Að sýna guðsótta
8, 9. (a) Af hverju er eftirsóknarvert að vera guðhræddur? (b) Hvað er fólgið í því að varðveita tungu sína?
8 Eins og fram hefur komið rænir það okkur ekki gleði að óttast Jehóva. Davíð talar um þann mann sem „óskar lífs, þráir lífdaga til þess að njóta hamingjunnar“. (Sálmur 34:13) Ljóst er að langir lífdagar og hamingja er háð því að við óttumst Jehóva. En það er eitt að segjast óttast Guð en annað að sýna það með hegðun sinni. Davíð skýrir þess vegna í framhaldinu hvernig við getum sýnt guðsótta.
9 „Varðveit tungu þína frá illu og varir þínar frá svikatali.“ (Sálmur 34:14) Pétri postula var innblásið að vitna í þennan hluta 34. sálmsins eftir að hann hafði ráðlagt kristnum mönnum að sýna hver öðrum bróðurelsku. (1. Pétursbréf 3:8-12) Að varðveita tungu sína frá illu merkir að útbreiða ekki skaðlegt slúður heldur leggja sig alltaf fram um að vera uppbyggileg í tali við aðra. Og við reynum að vera hugrökk og tala sannleika. — Efesusbréfið 4:25, 29, 31; Jakobsbréfið 5:16.
10. (a) Hvað merkir það að forðast illt? (b) Hvað er fólgið í því að gera gott?
10 Davíð heldur áfram: „Forðast illt og gjörðu gott, leita friðar og legg stund á hann.“ (Sálmur 34:15) Við forðumst það sem Guð fordæmir, svo sem kynferðislegt siðleysi, klám, þjófnað, spíritisma, ofbeldi, drykkjuskap og neyslu fíkniefna. Við forðumst sömuleiðis skemmtiefni þar sem slíkum óþverra er haldið á lofti. (Efesusbréfið 5:10-12) Við notum frekar tíma okkar til að gera gott. Það besta, sem við getum gert, er að boða Guðsríki á reglulegum grundvelli og gera menn að lærisveinum til að stuðla að því að aðrir hljóti hjálpræði. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Að gera gott felur einnig í sér að búa sig undir og sækja safnaðarsamkomur, styðja alþjóðastarfið með fjárframlögum, sjá vel um ríkissalinn og láta sér annt um þarfir bágstaddra trúsystkina.
11. (a) Hvernig sýndi Davíð í verki að hann leitaði friðar? (b) Hvernig geturðu stuðlað að friði í söfnuðinum?
11 Davíð lagði sig allan fram um að leggja stund á frið. Tvisvar fékk hann tækifæri til að drepa Sál. Í bæði skiptin forðaðist hann ofbeldi og talaði síðar með virðingu við konung í von um að koma á friði milli þeirra. (1. Samúelsbók 24:8-11; 26:17-20) Hvað er til ráða þegar eitthvað ógnar friði safnaðarins? Þá ættum við að ‚leita friðar og leggja stund á hann‘. Ef við finnum fyrir spennu milli okkar og einhvers annars í söfnuðinum hlýðum við ráðum Jesú sem sagði að við ættum að fara og sættast við bróður okkar. Síðan getum við haldið áfram þjónustu okkar við Guð. — Matteus 5:23, 24; Efesusbréfið 4:26.
Guðsótti hefur mikla umbun í för með sér
12, 13. (a) Hvernig blessar Guð þá sem óttast hann? (b) Hvaða stórkostlegu umbun hljóta allir trúfastir tilbiðjendur Guðs innan skamms?
12 „Augu Drottins hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.“ (Sálmur 34:16) Frásagan af samskiptum Guðs við Davíð staðfestir þessi orð. Við finnum til mikillar gleði og innri friðar vegna þess að við vitum að Jehóva vakir yfir okkur. Við treystum að hann láti okkur alltaf í té það sem við þurfum, jafnvel þegar við erum undir miklu álagi. Við vitum að þess er skammt að bíða að allir sannir guðsdýrkendur verða fyrir árás Gógs frá Magóg og að síðan kemur hinn „ógurlegi dagur Drottins“. (Jóel 2:11; 3:4; Esekíel 38:14-18, 21-23) Hvað sem kann að henda okkur þegar þar að kemur megum við treysta að orð Davíðs rætast á okkur: „Ef réttlátir hrópa, þá heyrir Drottinn, úr öllum nauðum þeirra frelsar hann þá.“ — Sálmur 34:18.
13 Það verður stórkostlegt að sjá Jehóva mikla nafn sitt þegar þessi stund rennur upp. Þá munu hjörtu okkar fyllast dýpri lotningu en nokkru sinni fyrr og allir andstæðingar hljóta niðurlægjandi endalok. „Auglit Drottins horfir á þá er illa breyta, til þess að afmá minningu þeirra af jörðunni.“ (Sálmur 34:17) Það verður mikil umbun að hljóta hjálpræði og fá að ganga inn í réttlátan nýjan heim Guðs!
Fyrirheit sem styrkja þolgæði okkar
14. Hvað hjálpar okkur að vera þolgóð þrátt fyrir raunir?
14 Við þurfum að vera þolgóð meðan við bíðum þessa í spilltum og fjandsamlegum heimi. Guðsótti er okkur mikil hjálp til að vera hlýðin. Við lifum á erfiðum tímum og það hefur í för með sér að sumir af þjónum Jehóva þurfa að þola gríðarlega erfiðleika sem valda þeim miklum sorgum og hugarkvöl. Þeir geta hins vegar verið fullvissir um að Jehóva mun hjálpa þeim að vera þolgóðir ef þeir treysta á hann. Orð Davíðs eru ákaflega hughreystandi: „Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.“ (Sálmur 34:19) Og Davíð hélt áfram á hvetjandi nótum: „Margar eru raunir réttláts manns, en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.“ (Sálmur 34:20) Jehóva er nógu máttugur til að frelsa okkur, óháð því hve margar raunir verða á vegi okkar.
15, 16. (a) Af hvaða ógæfu frétti Davíð skömmu eftir að hann orti Sálm 34? (b) Hvað auðveldar okkur að vera þolgóð í prófraunum?
15 Skömmu eftir að Davíð orti Sálm 34 frétti hann af þeirri ógæfu sem hafði riðið yfir Nób þegar Sál myrti íbúana og flesta prestana. Þetta hlýtur að hafa fengið mjög á hann því að hann vissi að það var stutt viðkoma hans í Nób sem vakti heift Sáls. (1. Samúelsbók 22:13, 18-21) Davíð hefur eflaust snúið sér til Jehóva og leitað hughreystingar í voninni um upprisu réttlátra síðar meir. — Postulasagan 24:15.
16 Upprisuvonin styrkir okkur líka. Við vitum að óvinir okkar geta ekki unnið okkur varanlegt tjón. (Matteus 10:28) Orð Davíðs lýsa sömu sannfæringu: „Hann gætir allra beina hans [hins réttláta], ekki eitt af þeim skal brotið.“ (Sálmur 34:21) Þetta vers rættist bókstaflega á Jesú. Hann var líflátinn með grimmilegum hætti en ekkert beina hans var „brotið“. (Jóhannes 19:36) Í víðari skilningi á Sálmur 34:21 líka við hina andasmurðu og félaga þeirra, ‚aðra sauði‘, og fullvissar þá um að þeir bíði aldrei varanlegt tjón. Gildir þá einu hvaða erfiðleikar verða á vegi þeirra. Í táknrænum skilningi verða bein þeirra aldrei brotin. — Jóhannes 10:16.
17. Hvaða ógæfa bíður þeirra sem halda áfram að hata fólk Jehóva?
17 Hinir óguðlegu eru í allt annarri aðstöðu. Bráðlega munu þeir uppskera hið illa sem þeir hafa sáð. „Ógæfa drepur óguðlegan mann, þeir er hata hinn réttláta, skulu sekir dæmdir.“ (Sálmur 34:22) Allir sem halda áfram andstöðu sinni gegn fólki Guðs eiga verstu ógæfu í vændum. Við opinberun Jesú Krists munu þeir „sæta hegningu, eilífri glötun“. — 2. Þessaloníkubréf 1:9.
18. Í hvaða skilningi er ‚múgurinn mikli‘ frelsaður nú þegar og hvað bíður hans?
18 Sálmi Davíðs lýkur með þessum hughreystandi orðum: „Drottinn frelsar líf þjóna sinna, enginn sá er leitar hælis hjá honum, mun sekur dæmdur.“ (Sálmur 34:23) Davíð sagði undir lok 40 ára stjórnartíðar sinnar að Guð hefði frelsað líf sitt „úr öllum nauðum“. (1. Konungabók 1:29) Líkt og Davíð geta þeir sem óttast Jehóva bráðlega horft um öxl og glaðst yfir því að þeir eru ekki dæmdir sekir vegna syndar heldur hefur Jehóva frelsað þá úr öllum nauðum. Flestir hinna andasmurðu hafa nú þegar hlotið himnesk laun sín. „Mikill múgur“ af öllum þjóðum gengur nú til liðs við þá sem eftir eru af bræðrum Jesú. Þeir þjóna Guði í sameiningu og standa hreinir frammi fyrir honum vegna þess að þeir trúa að úthellt blóð Jesú frelsi þá. Í þúsundáraríki Jesú, sem er fram undan, munu þeir hafa fullt gagn af lausnarfórninni og hljóta mannlegan fullkomleika. — Opinberunarbókin 7:9, 14, 17; 21:3-5.
19. Hvað eru þeir sem tilheyra hinum mikla múgi staðráðnir í að gera?
19 Af hverju hlýtur „hinn mikli múgur“ allar þessar blessanir? Af því að þessir tilbiðjendur Jehóva eru ákveðnir í að halda áfram að óttast hann, þjóna honum með lotningu og fara að vilja hans. Guðsótti gerir lífið nú þegar ánægjulegt og hjálpar okkur að „geta höndlað hið sanna líf“ — eilíft líf í nýjum heimi Guðs. — 1. Tímóteusarbréf 6:12, 18, 19; Opinberunarbókin 15:3, 4.
Hvert er svarið?
• Hvers vegna ættum við að óttast Guð og hvað er átt við með því?
• Hvaða áhrif ætti guðsóttinn að hafa á hegðun okkar?
• Hvaða umbun hefur það í för með sér að óttast Guð?
• Hvaða fyrirheit styrkja þolgæði okkar?
[Mynd á blaðsíðu 28]
Þeir sem óttast Jehóva sýna gætni þegar yfirvöld banna boðunarstarf þeirra.
[Mynd á blaðsíðu 30]
Það besta sem við getum gert fyrir aðra er að segja þeim frá fagnaðarboðskapnum um Guðsríki.