‚Bardaginn tilheyrir Jehóva‘
„Ég kem á móti þér í nafni [Jehóva] allsherjar, Guðs herfylkinga Ísraels, sem þú hefir smánað.“ — 1. SAMÚELSBÓK 17:45.
1, 2. (a) Frammi fyrir hvaða áskorun stendur her Ísraels undir forystu Sáls konungs? (b) Hvernig bregðast hermenn Sáls við áskorun Golíats og hver gengur nú fram á sjónarsviðið?
TVEIR öflugir herir standa hvor gegn öðrum sitt hvoru megin við Eikidal, suðvestur af Jerúsalem. Öðrum megin er her Ísraels undir forystu hins nýkrýnda Sáls konungs. Hinum megin stendur her Filista sem hefur á að skipa risanum Golíat. Nafnið Golíat merkir líklega „áberandi.“ Hann er um 2,7 metrar á hæð og er búinn til bardaga frá hvirfli til ilja. Golíat hrópar yfir til Ísraelsmanna, ögrar þeim og svívirðir. — 1. Samúelsbók 17:1-11.
2 Hver skyldi taka áskorun Golíats? „Er Ísraelsmenn sáu manninn, hörfuðu þeir allir undan honum og voru mjög hræddir.“ En sjá — unglingspiltur gengur fram á sjónarsviðið! Hann heitir Davíð sem merkir „elskaður.“ Hann reyndist einnig „elskaður“ Jehóva vegna hugrakkrar hollustu sinnar við réttlætið. Samúel hefur þá þegar smurt Davíð sem framtíðarkonung Ísraels og andi Jehóva hefur kröftug áhrif á hann. — 1. Samúelsbók 16:12, 13, 18-21; 17:24; Sálmur 11:7; 108:6.
3. Hvernig býr Davíð sig til bardaga en hvernig er Golíat búinn?
3 Þegar Davíð heyrir Golíat „smána herfylkingar lifanda Guðs“ býður hann sig fram til að berjast við risann. Sál fellst á það og Davíð skundar fram, þó ekki með hefðbundnum vopnum og verjum sem Sál hefur boðið honum. Hann er aðeins búinn staf, slöngvivað og fimm hálum steinum — býsna ólíkt Golíat sem ber spjót með sjö kílógramma oddi og er klæddur spangarbrynju úr eiri sem vegur 57 kílógrömm. Þegar hinn mikli Golíat og skjaldsveinn hans ganga fram ‚formælir Filistinn Davíð við guð sinn.‘ — 1. Samúelsbók 17:12-44.
4. Hverju svarar Davíð frýjunarorðum risans?
4 Hverju svarar Davíð? Hann svarar frýjunarorðum risans um hæl og hrópar: „Þú kemur á móti mér með sverð og lensu og spjót, en ég kem á móti þér í nafni [Jehóva] allsherjar, Guðs herfylkinga Ísraels, sem þú hefir smánað. Í dag mun [Jehóva] gefa þig í mínar hendur, og ég mun leggja þig að velli og höggva af þér höfuðið, og hræ þitt og hræin af her Filista mun ég í dag gefa fuglum loftsins og dýrum merkurinnar, svo að öll jörðin viðurkenni, að Guð er í Ísrael, og að til þess að allur þessi mannsafnaður komist að raun um, að [Jehóva] veitir ekki sigur með sverði og spjóti, því að BARDAGINN ER [JEHÓVA], og hann mun gefa yður í vorar hendur.“ — 1. Samúelsbók 17:45-47.
5. Hvernig fer bardaginn og hver fær heiðurinn af því?
5 Djarfur í bragði hleypur Davíð fram á vígvöllinn. Steinninn flýgur úr slöngvivaðnum, hittir beint í mark, og Golíat steypist til jarðar. Já, Jehóva hefur umbunað trú og hugrekki Davíðs með því að stýra steininum beint í mark, í enni risans! Davíð hleypur fram, dregur sverð Golíats úr slíðrum og heggur af höfuð risans. Filistar flýja hver um annan þveran. Svo sannarlega mátti segja með réttu að ‚BARDAGINN TILHEYRÐI JEHÓVA‘! — 1. Samúelsbók 17:47-51.
6. (a) Hvers vegna hefur Jehóva látið geyma ítarlega frásögu af þessum bardaga sem háður var fyrir löngu? (b) Um hvað þurfa þjónar Guðs að fá fullvissu þegar óvinir, sem líkja má við Golíat, ofsækja þá?
6 Hvers vegna hefur Jehóva látið geyma þessa ítarlegu bardagasögu í orði sínu, enda þótt bardaginn hafi verið háður fyrir um það bil 3000 árum? Páll postuli segir okkur: „Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri.“ (Rómverjabréfið 15:4) Margir trúfastir þjónar Guðs nú á dögum mega þola átölur og beinar ofsóknir fjandmanna sinna sem líkja má við Golíat. Um leið og þrýstingur óvinarins eykst höfum við öll þörf fyrir þá hughreystingu að ‚bardaginn tilheyri Jehóva.‘
Deilan um drottinvald
7. Hvaða deilumál snertir alla þjóna Guðs meðal allra þjóða og hvers vegna?
7 Golíat skundaði fram og ögraði Guði Ísraels. Núna á 20. öldinni hafa alræðisstjórnkerfi komið fram á sjónarsviðið, ögrað drottinvaldi Jehóva með líkum hætti og reynt að kúga þjóna hans til lotningarfullrar undirgefni við ríkið. Þetta deilumál varðar þjóna Guðs meðal allra þjóða. Hvers vegna? Vegna þess að heiðingjatímarnir eða ‚tilteknar tíðir þjóðanna,‘ sem spáð hafði verið um, tóku enda árið 1914 og boðuðu komu hinna núverandi ‚angistartíma ráðalausra þjóða.‘ (Lúkas 21:24-26) Heiðingjatímarnir hófust þegar þjóðirnar byrjuðu að fótum troða jarðneska Jerúsalem árið 607 f.o.t. og stóðu næstu 2520 árin fram til ársins 1914 þegar Jehóva krýndi Jesú sem Messíasarkonung í Jerúsalem á himnum. — Hebreabréfið 12:22, 28; Opinberunarbókin 11:15, 17.a
8. (a) Hvernig brugðust konungar jarðar við hinu spádómlega boði um að ‚þjóna Jehóva með ótta‘? (b) Hvaða veraldlegir nútímakappar hæða Jehóva og kúga votta hans?
8 Árið 1914 átti sér stað mikil breyting. Nú gátu heiðingjaþjóðirnar ekki lengur stjórnað óháðar íhlutun Guðs. En hlýddu „konungar jarðarinnar,“ sem þá voru við völd, hinu spádómlega boði um að ‚þjóna Jehóva með ótta‘ og viðurkenna nýkrýndan konung hans? Nei! Þess í stað ‚gengu þeir fram gegn Jehóva og hans smurða,‘ Jesú. Þeir kepptu að sínum eigin metnaðartakmörkum og ‚geisuðu‘ í stríðinu mikla á árunum 1914-18. (Sálmur 2:1-6, 10-12) Enn þann dag í dag eru heimsyfirráðin það deilumál sem brennur á mannkyninu. Heimur Satans heldur áfram að geta af sér stjórnmálakappa, sambærilega við ættmenn Golíats, Refaítana. Þessar einræðisstjórnir smána Jehóva og reyna að neyða votta hans til undirgefni með ofbeldi og hótunum, en eins og fyrr tilheyrir bardaginn og sigurinn Jehóva. — 2. Samúelsbók 21:15-22.
„Sál“ nútímans
9. Hvaða nútímamenn hegða sér líkt og Sál og á hvaða vegu?
9 Hvar fellur Sál konungur inn í þessa mynd? Vegna uppreisnargirni Sáls hafði Jehóva áður ákveðið að ‚rífa frá honum konungdóminn yfir Ísrael.‘ (1. Samúelsbók 15:22, 28) Nú hafði Sál brugðist í því að halda á lofti drottinvaldi Jehóva andspænis ögrunum Golíats. Til að bæta gráu ofan á svart tók hann síðan að ofsækja Davíð, hann sem hafði sigrað Golíat og Jehóva hafði smurt til að taka við konungdóminum af ætt Sáls. Klerkar kristna heimsins hafa með mjög áberandi hætti líkt eftir þessu háttarlagi! Þeir hafa gert uppreisn gegn sannindum Biblíunnar og gert sig hluta af fráhvarfinu mikla sem lýsir sér í því að þeir „hlýða ekki fagnaðarerindinu“ um Drottin Jesú og hið komandi ríki hans. Þeir hafa algerlega brugðist þeirri skyldu sinni að styðja drottinvald Jehóva yfir alheiminum og ofsótt hatrammlega smurða votta Jehóva og félaga þeirra, múginn mikla. Jehóva mun svipta þessum fráhvarfsmönnum burt ‚í reiði sinni.‘ — 2. Þessaloníkubréf 1:6-9; 2:3; Hósea 13:11.
10. (a) Hvaða yfirlýsingu lét hópur kunnra klerka frá sér fara í Lundúnum árið 1918? (b) Hvaða stefnu hefur klerkastéttin tekið í stað þess að fylgja eftir yfirlýsingunni frá 1918?
10 Tilslökunarsemi klerkastéttar kristna heimsins kom berlega í ljós í fyrri heimsstyrjöldinni. Augljóst var að spádómur Jesú í Matteusi kafla 24 og 25 og í Lúkasi kafla 21 var að uppfyllast. Meira að segja gaf hópur kunnra presta í Lundúnum, fulltrúar baptista, safnaðarkirkjumanna, öldungakirkjumanna, biskupakirkjumanna og meþódista, út yfirlýsingu árið 1918. Í henni sagði: „Núverandi heimskreppa bendir til að heiðingjatímunum sé að ljúka.“ En þeir fylgdu ekki þessari yfirlýsingu eftir. Klerkar kristna heimsins höfðu þá þegar ljáð stríðsaðilum beggja vegna víglínunnar eindreginn stuðning sinn. Í stað þess að viðurkenna nærveru Jesú sem konungur Guðsríkis tileinkuðu þeir sér hugsun veraldlegra þjóða — að hin sundruðu stjórnmálaveldi heiðingjaþjóðanna, jafnvel harðstjórar líkt og Golíat, skyldu drottna áfram yfir mannheimi, í stað þess að sameinast í því að beygja sig undir Guðsríki. — Matteus 25:31-33.
Engin málamiðlun!
11. Hverjir hafa ekki gert tilslökun í deilumálinu um drottinvaldið og fordæmi hvers fylgja þeir?
11 Sættast dyggir þjónar Guðs á málamiðlun í þessari deilu um drottinvaldið? Því fer fjarri eins og biblíusagan sýnir glögglega! (Daníel 3:28; 6:25-27; Hebreabréfið 11:32-38; Opinberunarbókin 2:2, 3, 13, 19) Drottinhollir kristnir nútímamenn styðja drottinvald Jehóva og ríki hans þrátt fyrir grimmilegar ofsóknir og svívirðingar Golíata nútímans sem reyna að hræða þá til hlýðni með ofbeldi og hótunum. Með því feta þeir í fótspor Jesú, ‚sonar Davíðs,‘ sem háði djarfur í lund andlegt stríð í þágu drottinvalds Jehóva, en varðveitti þó strangasta hlutleysi gagnvart deilumálum og stjórnmálum heimsins. Í bæn til föður síns sagði Jesús að fylgjendur hans, sannkristnir menn, væru ekki heldur hluti af heiminum. — Matteus 4:8-10, 17; 21:9; Jóhannes 6:15; 17:14, 16; 18:36, 37; 1. Pétursbréf 2:21.
12. (a) Hverjir hafa slegið Golíat nútímans til jarðar og hvernig? (b) Hvaða áhrif hefur það haft á þjóna Jehóva að þeir skuli líta á „Golíat“ sem dauðan?
12 Leifar smurðra kristinna nútímamanna, sem líkjast Davíð, hafa slegið Golíat nútímans til jarðar. Hvernig? Á þann hátt að þær hafa lýst sig ótvíræðan stuðningsaðila Jehóva í deilunni um heimsyfirráðin. „YFIRLÝSING (samþykkt af Alþjóðasamtökum biblíunemenda á móti í Cedar Point í Ohio sunnudaginn 10. september, 1922)“ gaf fordæmið. Í henni sagði meðal annars:
„10. Við álítum enn fremur og berum því vitni að nú sé runninn upp hefndardagur Guðs gegn sýnilegu og ósýnilegu heimsveldi Satans;
11. Að ógerlegt sé að koma aftur á hinum gamla heimi eða skipan; að runninn sé upp tíminn til að setja á fót ríki Guðs í höndum Krists Jesú, og að öllum þeim veldum og stofnunum, sem beygja sig ekki fúslega undir réttláta stjórn Drottins, verði tortímt.“
„Sonur Davíðs,“ höfuð kristna safnaðarins, stýrði því vafalaust að þessum „steini“ sanninda Guðsríkis var kastað. (Matteus 12:23; Jóhannes 16:33; Kólossubréfið 1:18) Yfirlýsingar, sem samþykktar voru á árlegum mótum á árabilinu 1922 til 1928, undirstrikuðu þessa afstöðu. Frá sjónarhóli þjóna Jehóva lá „Golíat“ dauður, hálshöggvinn. Einræðisstjórnir í höndum manna hafa reynst þess vanmegnugar að þvinga hugrakka stuðningsmenn drottinvalds Jehóva til málamiðlunar. — Samanber Opinberunarbókina 20:4.
13. (a) Hvernig lét klerkastétt kristna heimsins undan á Hitlerstímanum í Þýskalandi? (b) Frá hverju segir bókin Mothers in the Fatherland í sambandi við óhagganlega afstöðu vottanna?
13 Áberandi nútímadæmi um kúgun stjórnvalda, er líkjast Golíat, átti sér stað í Þýskalandi á tímum Hitlers. Hinar stóru kirkjudeildir, bæði kaþólskra og mótmælenda, létu gersamlega undan með því að sýna nasismanum lotningu, dýrka foringjann eins og skurðgoð, heilsa hakakrossfánanum og blessa hersveitir foringjans er þær skunduðu fram til að brytja niður trúbræður sína af grannþjóðunum. Svonefndir kristnir menn úr öllum kirkjudeildum — en ekki vottar Jehóva — létu þjóðernishitann hrífa sig með sér. Bókin Mothers in the Fatherland segir: „[Vottar Jehóva] voru sendir í fangabúðir, þúsund þeirra voru teknir af lífi og annað þúsund dó á árabilinu 1933 til 1945. . . . Kaþólskir og mótmælendur heyrðu presta sína hvetja sig til að vera samvinnuþýðir við Hitler. Ef þeir spornuðu gegn því gengu þeir í berhögg við fyrirmæli bæði kirkju og ríkis.“ Sannarlega bökuðu bæði kirkja og ríki sér mikla blóðsekt! — Jeremía 2:34.b
14. Hvers vegna eru vottar Jehóva oft ofsóttir?
14 Enn þann dag í dag sæta vottar Jehóva grimmilegri kúgun víða um lönd, alveg eins og Jesús sagði fyrir. En undir öllum kringumstæðum halda þessir kristnu menn áfram að prédika „þetta fagnaðarerindi um ríkið“ kostgæfilega. (Matteus 24:9, 13, 14) Það er kaldhæðnislegt að vottarnir skuli í flestum löndum vera viðurkenndir sem heiðarlegir, hreinlífir borgarar og til fyrirmyndar í því að halda uppi lögum og reglu. (Rómverjabréfið 13:1-7) Samt eru þeir oft ofsóttir. Hvers vegna? Vegna þess að tilbeiðsla tilheyrir Jehóva einum og þar af leiðandi vilja þeir ekki lúta táknmyndum ríkisins, heilsa þeim eða lofa með öðrum hætti. (5. Mósebók 4:23, 24; 5:8-10; 6:13-15) Án nokkurrar tilslökunar tilbiðja þeir Jehóva og þjóna „honum einum.“ Þeir eiga sér Jehóva sem alvaldan Drottin lífs síns. (Matteus 4:8-10; Sálmur 71:5; 73:28) Þar eð þeir tilheyra ekki heiminum varðveita þeir kristið hlutleysi gagnvart stjórnmálum og styrjöldum heimsins. — Jóhannes 15:18-21; 16:33.
15, 16. (a) Fordæmi hvers geta vottar á öllum aldri fylgt þegar Golíat nútímans ógnar þeim og hvernig birtist það hjá sex ára kristinni stúlku? (b) Hverjum vilja kristnir foreldrar að börn þeirra líkist?
15 Golíat nútímans ógnar oft þessum ráðvöndu mönnum sem taka tilbeiðsluna á Jehóva fram yfir skurðgoðadýrkun. (Samanber Opinberunarbókin 13:16, 17.) En vottar, bæði ungir sem aldnir, geta fylgt fordæmi Davíðs með því að svara ögrun hans óttalaust. Sex ára kristin stúlka í landi í Rómönsku-Ameríku hafði fengið gott uppeldi og kennslu heima fyrir allt frá frumbernsku. (Samanber Efesusbréfið 6:4; 2. Tímóteusarbréf 3:14, 15.) Það hafði átt sinn þátt í því að hún var besti nemandinn í sínum bekk í skólanum. En samviska hennar, sem var uppfrædd af Biblíunni, fékk hana til að forðast þátttöku í skurðgoðaathöfnum í bekknum. Þegar hún gerði grein fyrir afstöðu sinni svaraði kennarinn að stúlka á hennar aldri væri of ung til að hafa samvisku! En stúlkan sannaði að kennarinn hafði rangt fyrir sér með því að gefa áhrifaríkan vitnisburð.
16 Vonandi kenna allir kristnir foreldrar börnum sínum þannig að þau geti fylgt fordæmi hins unga Davíðs og tekið eindregna afstöðu þegar veraldleg yfirvöld, sem líkjast Golíat, ógna þeim. Megi þau líkjast hinum þrem trúföstu Hebreum, Daníel, og mörgum öðrum sem Biblían segir frá, með því að varðveita hugrökk „góða samvisku“ í samræmi við meginreglur Biblíunnar. — 1. Pétursbréf 2:19; 3:16; Daníel 3:16-18.
Séð með augum sagnfræðinga
17. (a) Við hvaða þróun varaði enski sagnfræðingurinn Toynbee? (b) Hvernig reynir Golíathópur nútímans á hollustu þjóna Guðs?
17 Hinn kunni, enski sagnfræðingur Arnold Toynbee varaði einu sinni við vexti hinnar „ljótu ásýndar heiðinnar tilbeiðslu á fullvalda þjóðríkjum“ og lýsti honum einnig sem „súrgerjun hins nýja víns lýðræðisins á belgjum ættflokkasamfélagsins.“ Þeir sem fullyrða að þeirra eigin þjóð sé öllum öðrum fremri og ganga jafnvel svo langt að tilbiðja ríkið, hafa látið valdhafa ráðskast með sig og aga til að framfylgja stefnu sinni, hvort heldur hún er góð eða slæm. Þar af leiðandi hafa Golíathópar komið fram. Þeir hafa prófreynt drottinhollustu þjóna Guðs sem elska fæðingarland sitt en vilja ekki dýrka ríki og þjóðartákn.
18. Hvaða krefjandi spurningum þurfa samviskusamir kristnir menn að svara?
18 Líkt og var í Þýskalandi á tímum nasista, eins eru núna krefjandi spurningar sem samviskusamir kristnir menn þurfa að svara: Ætti ég að trúa að sú þjóð, sem ég bý á meðal, njóti hylli Guðs umfram aðrar þjóðir? Er rökrétt og skynsamlegt núna, á þessum hættulegustu tímum mannkynssögunnar, að líta svo á að einn jarðarskiki sé öllum öðrum ágætari? Er rétt að líta á einn hluta mannkynsins sem öllum öðrum fremri?
19. Hvað segir mesti sagnfræðingurinn, Jehóva, okkur um þá hugsun og hátterni að ein þjóð manna sé öllum öðrum fremri?
19 Við skulum nú íhuga viðhorf mesta sagnfræðings sem til er — Jehóva Guðs, höfundar Biblíunnar. Pétur postuli segir okkur: „Sannlega skil ég nú, að Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, er óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ Og ættum við ekki alltaf að breyta í samræmi við innblásin orð Páls postula þess efnis að Guð hafi ‚skapað af einum allar þjóðir manna og látið þær byggja allt yfirborð jarðar‘? Hvers vegna ætti ein þjóð manna að hugsa og hegða sér eins og væri hún æðri öllum öðrum þjóðum? Páll sagði, og talaði þá um alla menn: ‚Við erum Guðs ættar.‘ — Postulasagan 10:34, 35; 17:26, 29.
20. Hverjir munu ekki lengur ögra þjónum Guðs í nýrri heimsskipan Jehóva og hvað verður rætt í næstu námsgrein?
20 Í nýrri skipan Jehóva munu einræðisleg stjórnkerfi, er líkjast Golíat, ekki lengur ögra þeim sem unna réttlætinu, því að flokkadramb og hatur mun heyra fortíðinni til. (Sálmur 11:5-7) Hvar sem þjónar Guðs búa hafa þeir nú þegar sagt skilið við slíka þjóðernishyggju í hlýðni við boð Jesú um að ‚elska hver annan eins og hann elskaði þá.‘ (Jóhannes 13:34, 35; Jesaja 2:4) Í næstu námsgrein verður sýnt fram á hvers konar kærleikur það er.
[Neðanmáls]
a Gerð er ítarlega grein fyrir þessari tímatalsfræði Biblíunnar í bókinni „Let Your Kingdom Come,“ bls. 129-39, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
b Í Árbók votta Jehóva 1974, bls. 117-21 og 164-9, er að finna hrífandi frásögur af ráðvendni votta Jehóva, bæði ungra sem aldinna, andspænis ögrunum „Golíats“ nasistanna.
Upprifjun
◻ Hvað táknar risinn og ofstopamaðurinn Golíat?
◻ Á hvaða hátt sýna þjónar Guðs enga tilslökun í deilunni um drottinvaldið?
◻ Hvernig geta þjónar Guðs sagt að Golíat nútímans liggi í valnum?
◻ Hverjir líkja eftir Sál konungi og hvernig?
◻ Hvernig hafa þjónar Jehóva líkt eftir Davíð andspænis kúgun Golíats nútímans?