Réttlæti einkennir alla vegu Guðs
„Bjargið — fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann.“ — 5. MÓSEBÓK 32:4.
1. Á hvaða eiginleikum Jehóva vakti Móse sérstaka athygli í ljóði til Ísraelssona skömmu fyrir dauða sinn, og hvers vegna gat hann talað eins og hann gerði?
JEHÓVA, hinn æðsti dómari, löggjafi og konungur, „hefir mætur á réttlæti og rétti.“ (Sálmur 33:5; Jesaja 33:22) Móse, meðalgangari lagasáttmálans og eini spámaðurinn „er [Jehóva] umgekkst augliti til auglitis,“ kynntist mjög náið réttlátum vegum Jehóva. (5. Mósebók 34:10; Jóhannes 1:12) Skömmu fyrir dauða sinn vakti Móse sérstaka athygli á hversu framúrskarandi réttlæti Jehóva væri. Í áheyrn alls safnaðar Ísraels mælti hann háum rómi orð þessa kvæðis: „Hlustið, þér himnar, því nú mun ég mæla, og jörðin hlýði á mál munns míns! . . . Ég vil kunngjöra nafn [Jehóva]: Gefið Guði vorum dýrðina! Bjargið — fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann.“ — 5. Mósebók 32:1, 3, 4.
2. Hvernig hefur réttlæti alltaf einkennt allar athafnir Guðs og hvers vegna er það mikilvægt?
2 Allar athafnir Jehóva bera merki réttlætis, og því er alltaf framfylgt í fullkomnu samræmi við visku hans, kærleika og mátt. Elíhú, þjónn Guðs, minnti Job á þessi sannindi í Jobsbók 37:23: „Vér náum eigi til hins Almáttka, til hans, sem er mikill að mætti. En réttinn og hið fullkomna réttlæti vanrækir hann ekki.“ Og Davíð konungur ritaði: „[Jehóva] hefir mætur á réttlæti og yfirgefur ekki sína trúuðu.“ (Sálmur 37:28) Það veitir okkur sannarlega hughreystandi fullvissu að á öllum vegum sínum muni Guð ekki eitt andartak yfirgefa þá sem sýna honum trú og hollustu. Réttlæti Guðs tryggir það.
Hvers vegna skortur er á réttlæti
3. Hvað skortir svo mjög meðal manna nú á dögum og hvernig hefur það haft áhrif á samband þeirra við Guð?
3 Þar sem Jehóva er Guð réttlætisins, sá sem hefur mætur á og elskar réttlæti, og sá „Guð, er skapað hefir endimörk jarðarinnar,“ hvers vegna skortir þá svo mjög á réttlæti meðal manna nú á dögum? (Jesaja 40:28) Móse svarar því í 5. Mósebók 32:5 (NW): „Þeir hafa sjálfir hegðað sér skaðvænlega, þeir eru ekki börn hans, gallinn er þeirra eigin. Svikul og rangsnúin kynslóð!“ Skaðlegar athafnir mannsins hafa skilið hann svo frá skapara sínum að Guð lýsir því yfir að hans eigin hugsanir og vegir séu eins ólíkir vegum og hugsunum mannsins „sem himinninn er hærri en jörðin.“ — Jesaja 55:8, 9.
4. Hvaða stefnu hefur maðurinn kosið að taka og hvert hefur hún leitt hann?
4 Gleymum því ekki að maðurinn var ekki til þess gerður af skaparanum að hegða sér óháð honum. Jeremía metur ástandið rétt fyrir okkur þar sem segir: „Ég veit, [Jehóva], að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ (Jeremía 10:23) Höfnun mannsins á réttlátum vegum Guðs og stjórn hefur lagt hann undir gjörólíka og volduga stjórn, sem er ósýnileg, stjórn Satans djöfulsins og hinna illu anda sem fylgja honum að málum. Jóhannes postuli segir ákveðið: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ Þessi djöfullegu öfl hafa ekki nokkurn áhuga á að halda uppi réttlæti meðal mannkynsins. — 1. Jóhannesarbréf 5:19.
5. Nefndu dæmi um skort á réttlæti í heiminum núna.
5 Dæmi um skort á réttlæti á lokadögum þessa heimskerfis kom skýrt fram árið 1984 í orðum Williams French Smiths, yfirmanns dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna. Smith sagði um könnun á fangelsisdómum í tólf fylkjum Bandaríkjanna á árunum 1977 til 1983: „Almenningur hefur gengið að því sem vísu að verstu glæpamennirnir — morðingjar, nauðgarar, eiturlyfjamangarar — afpláni þunga fangelsisdóma. Athugun stofnunarinnar . . . leiðir í ljós hversu auðvelt það er fyrir forherta glæpamenn að komast aftur út á strætin til að fremja nýja glæpi.“ Ekki er að furða að Paul Kamenar við lögfræðistofnun í Washington skuli hafa sagt: „Dómskerfið sýnir of oft linkind.“
6. (a) Hvert var siðferðisástand Júdamanna fyrir hernámið? (b) Hvaða spurninga spurði Habakkuk og eiga þær við nú á dögum?
6 Réttlætinu var slakur gaumur gefinn um gjörvalla Júdaþjóðina áður en hún féll fyrir herjum Babýlonar árið 607 f.o.t. Þess vegna blés Guð Habakkuk, spámanni sínum, í brjóst að segja: „Fyrir því verður lögmálið magnlaust og fyrir því kemur rétturinn aldrei fram. Hinir óguðlegu umkringja hina réttlátu, fyrir því kemur rétturinn fram rangsnúinn.“ (Habakkuk 1:4) Þetta óréttlæti fékk spámanninn til að spyrja Jehóva: „Hví horfir þú á svikarana, hví þegir þú, þegar hinn óguðlegi uppsvelgir þann, sem honum er réttlátari?“ (Habakkuk 1:13) Nútímamenn, sem finna fyrir því að óréttlætið ríkir á öllum sviðum mannlegra athafna, gætu einnig hæglega spurt: Hvers vegna heldur Guð réttlætisins áfram að horfa aðgerðalaus á óréttlætið sem fram fer á jörðinni? Hvers vegna lætur hann ‚réttinn koma fram rangsnúinn‘? Hvers vegna ‚þegir hann‘? Þetta eru mikilvægar spurningar og aðeins hið dýrmæta orð Guðs, Biblían, gefur sönn og fullnægjandi svör.
Hvers vegna Guð hefur leyft ranglæti
7. (a) Hvers vegna missti maðurinn þá paradís sem Guð gaf honum? (b) Hvaða deilumál var vakið í Eden og hvernig svaraði réttlæti Guðs því?
7 Verk Guðs eru fullkomin eins og Móse bar vitni um. Svo var um hin fullkomnu mannhjón sem Guð skapaði og setti í paradísina Eden. (1. Mósebók 1:26, 27; 2:7) Það fyrirkomulag og umhverfi var fullkomið fyrir vellíðan mannsins og hamingju. Frásögnin, sem komin er frá Guði, segir okkur: „Og Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott.“ (1. Mósebók 1:31) En friðsæld Edengarðsins stóð ekki lengi. Undir áhrifum uppreisnargjarnrar andaveru var Adam og Evu att út í deilu við Jehóva um hvernig hann færi að því að ríkja yfir þeim. Dregið var í efa réttmæti þeirra fyrirmæla sem Guð gaf þeim. (1. Mósebók 3:1-6) Vakið var upp mjög mikilvægt siðferðilegt deilumál þar sem bornar voru brigður á réttmæti stjórnar Guðs. Sannsöguleg frásögn um hinn trúfasta mann Job gefur til kynna að hollusta allra sköpunarvera Guðs hafi verið dregin í efa. Réttlætið krafðist þess að tími væri gefinn til að útkljá þessi deiluefni sem höfðu þýðingu fyrir allan alheiminn. — Jobsbók 1:6-11; 2:1-5; sjá einnig Lúkas 22:31.
8. (a) Í hvers konar skelfilega aðstöðu var maðurinn nú kominn? (b) Hvaða vonargeisla má sjá í ljóði Móse?
8 Í Rómverjabréfinu 8:22 dregur Páll saman hve skelfilegar afleiðingar það hafði fyrir líf mannsins og aðstæður að varpa þannig til hliðar réttlátum vegum Guðs. Postulinn skrifaði: „Öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa.“ Mikið af þessum ‚stunum‘ og kvöl hefur mátt rekja til skorts á réttlæti meðal manna þegar „einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ (Prédikarinn 8:9) En þökk sé alvöldum Guði að hann ætlar ekki að leyfa slíkri afskræmingu réttlætisins að halda áfram að eilífu! Í tengslum við þetta skaltu veita athygli því sem Móse segir áfram í kvæði sínu í 5. Mósebók 32:40, 41: „Svo sannarlega sem ég lifi eilíflega, — þegar ég [Jehóva] hefi hvesst mitt blikandi sverð, og ég legg hönd á dóminn, þá mun ég efna hefnd við mótstöðumenn mína og endurgjalda þeim, er hata mig!“
9. Útskýrðu hvernig Jehóva lagði „hönd á dóminn“ þegar maðurinn gerði uppreisn.
9 Jehóva lagði „hönd á dóminn“ þar í Eden til forna. Án tafar kvað Guð í réttlæti upp dauðadóm yfir manninum fyrir vísvitandi óhlýðni við boð hans. Hann sagði Adam: „Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!“ (1. Mósebók 3:19) Öldum síðar lýsti Páll í hnotskurn hinum skelfilegu afleiðingum þess fyrir allt mannkynið. Hann skrifaði: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“ — Rómverjabréfið 5:12.
10. Hvaða tvö sæði hafa þroskast frá uppreisn Adams, og hver hafa viðbrögð Jehóva verið?
10 Guð sagði einnig eftir uppreisn mannsins: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ (1. Mósebók 3:15, 17-19) Þessi tvö sæði hafa verið að dafna í sex þúsund ár og ‚fjandskapur‘ hefur alltaf ríkt á milli þeirra. En þrátt fyrir hið síbreytilega sögusvið á jörðinni hafa réttlátir vegir Guðs ekki breyst. Fyrir munn spámannsins Malakís segir hann: „Ég, [Jehóva], hefi ekki breytt mér.“ (Malakí 3:6) Þetta hefur tryggt að samskipti Guðs við ófullkomið og uppreisnargjarnt mannkyn hafa alltaf einkennst af réttlæti. Aldrei nokkru sinni hefur Jehóva vikið frá sínum háleitu, réttlátu meginreglum, en hann hefur alltaf samstillt þær visku, kærleika og mætti, þessum dásamlegu eiginleikum sínum.
Guð kemur manninum til bjargar
11, 12. Hvernig lýsir Sálmur 49 vel neyð mannsins?
11 Ill áhrif Satans hafa teygt sig út til alls mannkyns líkt og armar risakolkrabba. Mannkynið þarfnast sárlega björgunar, ekki aðeins frá dauðadóminum sem á því hvílir heldur einnig undan óréttlátri mannastjórn!
12 Hinu ömurlega ástandi, sem maðurinn hefur búið við síðan dauðadómurinn var kveðinn upp yfir honum, er vel lýst í eftirfarandi Kóraítasálmi þar sem við lesum: „Heyrið þetta, allar þjóðir, hlustið á, allir heimsbúar, bæði lágir og háir, jafnt ríkir sem fátækir! Enginn maður fær keypt bróður sinn lausan né greitt Guði lausnargjald fyrir hann. Lausnargjaldið fyrir líf þeirra mundi verða of hátt, svo að hann yrði að hætta við það að fullu, ætti hann að halda áfram að lifa ævinlega og líta ekki í gröfina.“ (Sálmur 49:2, 3, 8-10) Allt þetta er komið til vegna þess að Guð hefur haldið á lofti yfirlýstu réttlæti sínu.
13, 14. (a) Hver einn var fær um að bjarga manninum og hvers vegna var sá sem Guð valdi svo vel til þess fallinn? (b) Hvernig varð Jesús játun allra fyrirheita Guðs?
13 Hvaðan gæti hjálpin þá komið? Hver gæti bjargað manninum frá valdi dauðans? Sálmaritarinn svarar því: „En mína sál mun Guð endurleysa, því að hann mun hrífa mig úr greipum Heljar.“ (Sálmur 49:16) Aðeins hinn mikli kærleikur Guðs, er starfar í samræmi við réttlæti hans, gat bjargað manninum „úr greipum Heljar.“ Spurningum okkar er enn ítarlegar svarað í samræðum sem áttu sér stað að næturlagi milli Jesú og hins varfærna Farísea Níkódemusar. Jesús sagði við hann: „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Áður en sonur Guðs kom til jarðar hafði hann verið hjá föður sínum á himni. Sagt er að hann hafi þá þegar haft ‚yndi af mannanna börnum.‘ (Orðskviðirnir 8:31) Jehóva gat því ekki valið neinn betri en þessa andaveru — eingetinn son sinn — til þess að endurleysa mannkynið!
14 Páll sagði um Jesú: „Því að svo mörg sem fyrirheit Guðs eru, þá er játun þeirra í honum.“ (2. Korintubréf 1:20) Í Matteusi 12:18, 21 er vísað í eitt af þessum innblásnu fyrirheitum sem Jesaja spámaður skráði, en þar lesum við um Jesú: „Sjá þjón minn, sem ég hef útvalið, minn elskaða, sem sál mín hefur þóknun á. Ég mun láta anda minn koma yfir hann, og hann mun boða þjóðunum rétt. Á nafn hans munu þjóðirnar vona.“ — Sjá Jesaja 42:1-4.
15, 16. Hvernig gat Jesús orðið „Eilífðarfaðir“ afkomenda Adams?
15 Meðan Jesús þjónaði hér á jörð sýndi hann fram á hvernig menn af öllum þjóðum gætu fyrr eða síðar vonað á nafn hans og þannig notið góðs af réttlæti Guðs. Jesús sagði: „Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“ (Matteus 20:28) Í fullkomnu lögmáli Guðs, sem hann gaf Ísraelsþjóðinni, stóð: „Líf fyrir líf.“ (5. Mósebók 19:21) Eftir að Jesús hafði fórnað fullkomnu lífi sínu og verið reistur upp frá dauðum með mætti Guðs og stigið aftur upp til himna, var hann í aðstöðu til að bera fram fyrir Jehóva verðmæti síns fullkomna mannslífs í skiptum fyrir lífsrétt Adams. Á þennan hátt varð Jesús „hinn síðari [eða annar] Adam,“ og hann er núna fær um að verða „Eilífðarfaðir“ allra trúaðra afkomenda Adams. — 1. Korintubréf 15:45; Jesaja 9:6.
16 Hjálpræðisleið Guðs, sú að hann greip til þeirrar kærleiksríku ráðstöfunar að nota son sinn Jesú Krist sem lausnarfórn, hefur verið gerð þjóðunum kunnug og ber svo sannarlega öll merki réttlætis Guðs. Við megum vera mjög þakklát fyrir að Guð skuli hafa opnað leið til að ‚hrífa megi sálir okkar úr greipum Heljar‘!
Lausnarfórninni haldið á lofti
17, 18. Hvaða félagsskap gekk C. T. Russell á hönd eftir 1870 og hvernig kom Barbour honum á óvart árið 1878?
17 Líkt og kristnir menn á fyrstu öld halda vottar Jehóva nú á dögum hátt á lofti kenningunni um lausnarfórn Jesú Krists. Það er athyglisvert að rifja upp að fyrsti forseti Varðturnsfélagsins, Charles Taze Russell, var eitt sinn annar af tveim ritstjórum trúmálatímarits sem nefndist The Herald of the Morning (Morgunboðinn) og veitti því fjárstuðning. Þetta tímarit var upphaflega gefið út af aðventista sem nefndist N. H. Barbour og var frá Rochester í New Yorkfylki í Bandaríkjunum. Russell var þá á milli tvítugs og þrítugs en Barbour miklu eldri.
18 Samstarf þeirra virtist ganga vel fram til ársins 1878 þegar Barbour birti skyndilega og fyrirvaralaust grein þar sem kenningunni um lausnargjaldið var hafnað. Russell lýsir þannig því sem þá gerðist: „Herra Barbour . . . skrifaði grein fyrir The Herald þar sem hann afneitaði friðþægingarkenningunni — hann afneitaði því að dauði Krists væri lausnargjaldið fyrir Adam og ætt hans, og sagði að dauði Drottins okkar dygði ekkert frekar sem gjald fyrir synd mannsins en jarðneskir foreldrar gætu litið svo á að friðþægja mætti fyrir óþekkt barns með því að stinga prjóni í gegnum flugu og láta hana þjást og deyja.“
19. (a) Hver urðu viðbrögð Russells við skoðunum Barbours á lausnargjaldinu? (b) Hafa óskir Russells hvað Varðturninn varða ræst?
19 Russell hefði getað látið eldri félaga sinn hafa áhrif á sig en gerði það ekki. Í nokkra mánuði var háð ritdeila á síðum tímaritsins þar sem Barbour hafnaði kenningunni um lausnargjaldið en Russell varði hana. Að lokum sleit Russell samstarfi við Barbour og hóf útgáfu þessa tímarits sem þá var kallað Zion’s Watch Tower and Herald of Christ’s Presence (Varðturn Síonar og boðberi nærveru Krists). C. T. Russell sagði um þetta nýja tímarit: „Frá byrjun hefur það verið sérstakur málsvari lausnargjaldsins; og við vonum að með Guðs náð muni það vera það til enda.“ Hafa vonir bróður Russells ræst? Svo sannarlega! Undir fyrirsögninni „Tilgangur ‚Varðturnsins‘“ á blaðsíðu 2 í þessu blaði segir að tímaritið ‚hvetji til trúar á Jesú Krist sem opnaði mönnum, með úthelltu blóði sínu, leiðina til eilífs lífs.‘
20. Hvaða spurningum er enn ósvarað?
20 Við höfum fram til þessa rakið í umræðu okkar það sem Guð hefur gert í réttlæti sínu til að leysa mannkynið undan fordæmingu syndar og dauða. Þessi ráðstöfun bar vitni um kærleika Guðs til manna. Ýmsum spurningum er þó ósvarað: Hvernig er hægt að nálgast ávinninginn af lausnarfórn Krists? Hvernig getur þú notfært þér hana og hversu fljótt? Í greininni á eftir er að finna svör við þessum spurningum sem áreiðanlega auka traust þitt á því að réttlæti einkenni alla vegu Guðs.
Hvernig svarar þú?
◻ Hvaða áherslu leggur Guð á réttlæti?
◻ Hví er svo mikið ranglæti meðal manna?
◻ Hvað kom Guð fram með til að bjarga manninum undan valdi dauðans?
◻ Hversu langt hefur Varðturninn gengið í því að halda fram kenningunni um lausnargjaldið?
[Mynd á blaðsíðu 19]
Móse mælir fram ljóð sitt á Móabsvöllum.
[Mynd á blaðsíðu 22]
Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn.