-
Jehóva hefur talið á þér höfuðhárinVarðturninn – 2005 | 1. september
-
-
„Tárum mínum er safnað í sjóð þinn“
12. Hvernig vitum við að Jehóva er fullkunnugt um það mótlæti sem fólk hans verður fyrir?
12 Jehóva þekkir ekki aðeins þjóna sína persónulega heldur er honum líka fullkunnugt um það mótlæti sem hver og einn þarf að þola. Þegar Ísraelsmenn voru kúgaðir og þrælkaðir sagði hann við Móse: „Ég hefi sannlega séð ánauð þjóðar minnar í Egyptalandi og heyrt hversu hún kveinar undan þeim, sem þrælka hana; ég veit, hversu bágt hún á.“ (2. Mósebók 3:7) Það er hughreystandi til að vita að Jehóva skuli sjá hvað er að gerast og heyra áköll okkar þegar við eigum í prófraunum. Honum stendur alls ekki á sama um þjáningar okkar.
13. Hvað sýnir að Jehóva finnur til með þjónum sínum?
13 Að Jehóva skyldi finna til með Ísraelsmönnum sýnir einnig að honum er annt um þá sem eiga samband við hann. Enda þótt þeir gætu oft kennt eigin þrjósku um þjáningar sínar skrifaði Jesaja um Jehóva: „Ávallt þegar þeir voru í nauðum staddir, kenndi hann nauða.“ (Jesaja 63:9) Sem trúfastur þjónn Jehóva geturðu verið viss um að hann finnur til með þér þegar þú þjáist. Finnst þér það ekki vera hvatning til að taka mótlæti óttalaust og halda áfram að gera þitt besta til að þjóna honum? — 1. Pétursbréf 5:6, 7.
14. Við hvaða aðstæður orti Davíð Sálm 56?
14 Davíð konungur var sannfærður um að Jehóva léti sér annt um hann og fyndi til með honum. Þetta má sjá af Sálmi 56 sem Davíð orti þegar hann var á flótta undan Sál konungi en Sál vildi hann feigan. Davíð komst undan til Gat en óttaðist að Filistar myndu handtaka hann þegar þeir báru kennsl á hann. Hann orti: „Fjandmenn mínir kremja mig liðlangan daginn, því að margir eru þeir, sem berjast gegn mér.“ Davíð leitaði til Jehóva sökum þeirrar hættu sem hann var í. „Þeir spilla málefnum mínum án afláts, allt það er þeir hafa hugsað í gegn mér, er til ills,“ kvað hann. — Sálmur 56:3, 6.
15. (a) Hvað átti Davíð við þegar hann bað Jehóva að safna tárum sínum í sjóð eða rita þau í bók? (b) Hverju getum við treyst þegar reynir verulega á trú okkar?
15 Síðan segir Davíð þessi forvitnilegu orð í Sálmi 56:9: „Þú hefir talið hrakninga mína, tárum mínum er safnað í sjóð þinn, já, rituð í bók þína.“ Er þetta ekki hrífandi lýsing á umhyggju Jehóva? Við áköllum kannski Jehóva með tárum þegar við erum undir álagi. Jesús gerði það þótt fullkominn væri. (Hebreabréfið 5:7) Davíð var sannfærður um að Jehóva hefði auga með honum og minntist þjáninga hans. Það var rétt eins og Jehóva safnaði tárum hans í sjóð eða ritað þau í bók. Þér finnst ef til vill að tár þín myndu duga í gildan sjóð eða fylla margar síður í slíkri bók. Ef svo er geturðu látið huggast vegna þess að Biblían segir: „Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.“ — Sálmur 34:19.
-