Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir þriðju og fjórðu bókar Sálmanna
SÁLMASKÁLDIÐ spyr í bæn til Guðs: „Er sagt frá miskunn þinni í gröfinni, frá trúfesti þinni í undirdjúpunum?“ (Sálmur 88:12) Svarið er auðvitað nei. Við getum ekki lofað Jehóva nema við séum lifandi. Að lofa Jehóva er góð ástæða til að lifa og lífið er góð ástæða til að lofa hann.
Í þriðju og fjórðu bók Sálmanna, það er að segja Sálmi 73 til 106, er bent á fjölmargar ástæður til þess að lofa skaparann og vegsama nafn hans. Með því að skoða og hugleiða þessa sálma getum við lært að meta „orð Guðs“ enn meir og það getur vakið löngun með okkur til að lofa hann í enn ríkari mæli. (Hebreabréfið 4:12) Við skulum byrja á því að skoða þriðju bók Sálmanna.
„MÍN GÆÐI ERU ÞAÐ AÐ VERA NÁLÆGT GUÐI“
Fyrstu 11 sálmarnir í þriðju bókinni eru ortir af Asaf eða ættingjum hans. Í fyrsta sálminum í þessari syrpu má sjá hvað kom í veg fyrir að Asaf léti rangan hugsunarhátt leiða sig á villigötur. Hann hefur komist að réttri niðurstöðu. „Mín gæði eru það að vera nálægt Guði,“ syngur hann. (Sálmur 73:28) Í Sálmi 74 harmar hann eyðingu Jerúsalem en í Sálmi 75, 76 og 77 er Jehóva lýst sem réttlátum dómara og bjargvætti hinna hrjáðu og sagt að hann heyri bænir. Í Sálmi 78 er farið yfir sögu Ísraels frá Móse til Davíðs. Í 79. sálminum harmar skáldið eyðingu musterisins. Þessu næst kemur bæn um að Guð frelsi þjóð sína. Í Sálmi 81 er hvatt til þess að hlýða honum og í Sálmi 82 og 83 er að finna bænir þess efnis að Jehóva fullnægi dómi sínum yfir spilltum dómurum og yfir óvinum sínum.
„Sálu mína langaði til, já, hún þráði forgarða Drottins,“ segir í Kóraítasálmi. (Sálmur 84:3) Í Sálmi 85 er beðið um blessun Guðs yfir þjóð hans þegar hún kemur heim úr útlegð. Í sálminum kemur skýrt fram að andleg blessun er margfalt verðmætari en efnisleg. Í Sálmi 86 biður Davíð Guð um að vernda sig og vísa sér veginn. Sálmur 87 er ljóð um Síon og þá sem eru fæddir þar. Síðan fylgir bæn til Jehóva í Sálmi 88. Sálmur 89 fjallar um náð Jehóva eins og hún birtist í sáttmálanum við Davíð. Þessi sálmur er ortur af Etan en hugsanlegt er að hann hafi verið einn fjögurra vitringa á dögum Salómons. — 1. Konungabók 4:31.
Biblíuspurningar og svör:
73:9 — Hvernig hafa óguðlegir ‚snert himininn með munni sínum‘ og hvernig er ‚tunga þeirra tíðförul um jörðina‘? Óguðlegir menn bera enga virðingu fyrir nokkrum, hvorki á himni né jörð, svo að þeir hika ekki við að lastmæla Guði með munni sínum. Þeir rægja sömuleiðis mennina með tungunni.
74:13, 14 — Hvenær ‚braut Jehóva sundur höfuð drekans í vatninu og molaði sundur hausa Levjatans‘? „Faraó, Egyptalandskonungur,“ er kallaður hinn „mikli krókódíll, sem liggur milli árkvíslanna“. (Esekíel 29:3) Hugsanlegt er að Levjatan tákni kappa faraós. Þegar sagt er að Jehóva brjóti sundur höfuð þeirra er trúlega átt við hrakför faraós og hers hans þegar Jehóva frelsaði Ísraelsmenn úr ánauðinni í Egyptalandi.
75:5, 6, 11 — Hvað tákna „hornin“? Horn á dýri eru öflug vopn. Orðið er notað til að tákna styrk eða mátt. Jehóva lyftir upp hornum þjóðar sinnar og upphefur hana en ‚heggur af horn óguðlegra‘. Þegar sagt er að við ættum ekki að ‚hefja hornin‘ merkir það að við ættum ekki að vera dramblát eða hrokafull. Það er Jehóva sem upphefur, þannig að okkur ber að líta svo á að ábyrgðarstörf í söfnuðinum séu gjöf frá honum. — Sálmur 75:8.
76:11 — Hvernig getur „reiði mannsins“ lofað Jehóva? Það getur orðið til góðs þegar Guð leyfir mönnum að snúast gegn okkur í reiði fyrir þá sök að við erum þjónar hans. Allir erfiðleikar, sem við verðum fyrir, geta bætt okkur á einhvern hátt. Jehóva leyfir einungis þær þjáningar sem geta orðið okkur til góðs. (1. Pétursbréf 5:10) Guð gyrðir sig „leifum reiðinnar“. Hvað þá ef þjáningarnar eru slíkar að við hljótum bana af? Það getur líka orðið Jehóva til lofs vegna þess að þeir sem sjá að við erum trúföst fara ef til vill að lofa Guð líka.
78:24, 25 — Af hverju er manna kallað „himnakorn“ og „englabrauð“? Hvorugt orðið merkir að englarnir hafi borðað manna. Það var „himnakorn“ af því að það kom af himni. (Sálmur 105:40) Þar sem englarnir búa á himnum þarf „englabrauð“ ekki að merkja annað en að Guð, sem býr á himnum, hafi látið það í té. (Sálmur 11:4) Þá er einnig hugsanlegt að Jehóva hafi notað engla til að koma því til Ísraelsmanna.
82:1, 6 — Hverjir eru kallaðir „guðir“ og „synir Hins hæsta“ í þessum versum? Bæði heitin eiga við mennska dómara í Ísrael og eru viðeigandi vegna þess að þeir áttu að vera fulltrúar Guðs og talsmenn. — Jóhannes 10:33-36.
83:3 — Hvað merkir það að „hefja höfuðið“? Það merkir að vera tilbúinn til að beita afli sínu eða grípa til aðgerða, yfirleitt til að veita mótspyrnu, berjast eða kúga.
Lærdómur:
73:2-5, 18-20, 25, 28. Við ættum aldrei að öfunda óguðlega þótt þeim virðist vegna vel eða taka upp óguðlegt hátterni þeirra. Þeir standa á sleipri jörð og „falla í rústir“. Og það er ekki hægt að útrýma illskunni á meðan óguðlegir menn fara með stjórnina svo að það er tilgangslaust að reyna það. Við ættum að bregðast við illskunni líkt og Asaf með því að „vera nálægt Guði“ og hafa unun af því að eiga náið samband við hann.
73:3, 6, 8, 27. Við megum ekki vera hrokafull, spotta aðra eða vera ótrú, jafnvel þótt við virðumst geta haft hag af því.
73:15-17. Við ættum ekki að bera hugsanir okkar á torg þegar við erum ráðvillt. Við myndum aðeins telja hug úr öðrum með því að „tala þannig“. Við ættum að hugleiða málin með stillingu og ráða fram úr þeim með stuðningi trúsystkina okkar. — Orðskviðirnir 18:1.
73:21-24. Við værum eins og skynlausar skepnur ef við værum ‚beisk í hjarta‘ út af því hve vel hinum óguðlegu virðist vegna. Það væru hvatvísleg viðbrögð sprottin af tilfinningu augnabliksins. Við ættum frekar að láta Jehóva leiða okkur og treysta að hann ‚haldi í hægri hönd okkar‘ og styðji okkur. Auk þess mun hann ‚taka við okkur í dýrð‘, það er að segja veita okkur náið samband við sig.
77:7. Ef við höfum einlægan áhuga á andlegum sannindum og leitum þeirra gefum við okkur tíma til náms og hugleiðingar. Það er mikilvægt að skapa sér ákveðið svigrúm til að vera í einrúmi.
79:9. Jehóva heyrir bænir okkar, ekki síst þegar við biðjum þess að nafn hans helgist.
81:14, 17. Við hljótum mikla blessun ef við hlýðum á rödd Jehóva og göngum á vegum hans. — Orðskviðirnir 10:22.
82:2, 5. Ranglæti veldur því að „undirstöður jarðarinnar riða“. Það raskar stöðugleika mannlegs samfélags.
84:2-5, 11-13. Sálmaskáldunum þótti ákaflega vænt um staðinn þar sem Jehóva var tilbeðinn og þau höfðu yndi af því að þjóna honum. Þau eru okkur góð fyrirmynd.
86:5. Við erum Jehóva innilega þakklát að hann skuli vera „fús til að fyrirgefa“. Hann leitar eftir því hvort hann sjái einhvern grundvöll til að miskunna iðrandi syndara.
87:5, 6. Fá þeir sem hljóta líf í paradís á jörð einhvern tíma að vita nöfn hinna upprisnu á himnum? Það er líklegt, eftir þessum versum að dæma.
88:14, 15. Ef Jehóva verður ekki strax við bæn okkar, þegar við biðjum um hjálp varðandi eitthvert vandamál, getur það þýtt að hann vilji gefa okkur tækifæri til að sýna hve djúpt hollusta okkar ristir.
„LOFIÐ HANN, VEGSAMIÐ NAFN HANS“
Í fjórðu bók Sálmanna er bent á margar ástæður fyrir því að lofsyngja Jehóva. Í Sálmi 90 ber Móse saman eilífð Jehóva og stutta ævi mannsins. (1. Tímóteusarbréf 1:17) Í Sálmi 91:2 talar Móse um að Jehóva sé ‚hæli sitt og háborg‘, það er að segja öruggt skjól. Í nokkrum næstu sálmum er minnst á frábæra eiginleika hans, háleitar hugsanir og dásemdarverk. Þrír sálmar hefjast með orðunum „Drottinn er konungur orðinn!“ (Sálmur 93:1; 97:1; 99:1) Sálmaskáldið talar um Jehóva sem skapara og hvetur okkur til að ‚lofa hann og vegsama nafn hans‘. — Sálmur 100:4.
Hvernig ætti valdhafi, sem óttast Jehóva, að bera sig að? Svarið er að finna í Sálmi 101 en hann er ortur af Davíð. Í sálminum á eftir segir að Jehóva ‚snúi sér að bæn hinna nöktu og fyrirlíti eigi bæn þeirra‘. (Sálmur 102:18) Í 103. sálminum er vakin athygli á umhyggju Jehóva og miskunn. „Hversu mörg eru verk þín, Drottinn, þú gjörðir þau öll með speki,“ syngur sálmaskáldið um verk Jehóva hér á jörð. (Sálmur 104:24) Síðustu tveir sálmarnir í fjórðu bók lofa Jehóva fyrir dásemdarverk hans. — Sálmur 105:2, 5; 106:7, 22.
Biblíuspurningar og svör:
91:1, 2 — Hvað er ‚skjól hins hæsta‘ og hvernig getum við ‚setið‘ þar? Um er að ræða táknrænan stað þar sem við erum óhult og engin hætta er á að við verðum fyrir andlegu tjóni. Og staðurinn er öruggt skjól vegna þess að þeir sem treysta ekki Guði vita ekki af honum. Við eigum „athvarf“ hjá Jehóva með því að gera hann að hæli okkar og háborg, með því að lofa hann sem Drottin alheims og með því að boða fagnaðarerindið um ríkið. Við finnum til andlegs öryggis af því að við vitum að Jehóva er alltaf tiltækur til að hjálpa okkur. — Sálmur 90:1.
92:13 — Í hvaða merkingu ‚gróa hinir réttlátu sem pálminn‘? Pálmatréð ber ávöxt ár eftir ár. Réttlátum manni er líkt við pálmatré af því að hann er heiðvirður í augum Jehóva og ber staðfastlega „góðan ávöxt“ sem er meðal annars fólginn í góðum verkum. — Matteus 7:17-20.
Lærdómur:
90:7, 8, 13, 14. Ef við gerum eitthvað rangt er það alltaf skaðlegt fyrir samband okkar við hinn sanna Guð. Og ekki er hægt að dylja syndir sínar fyrir honum. En ef við iðrumst í einlægni og hættum að gera rangt veitir Jehóva okkur hylli sína á ný og ‚mettar okkur með miskunn sinni‘.
90:10, 12. Mannsævin er ósköp stutt. Við ættum því að „telja daga vora“ með því að „öðlast viturt hjarta“, það er að segja sýna visku svo að við sólundum ekki þeim dögum sem við eigum eftir, heldur notum þá til að gleðja Jehóva. Til þess þurfum við að láta andlegu málin ganga fyrir og nota tímann viturlega. — Efesusbréfið 5:15, 16; Filippíbréfið 1:10.
90:17. Það er rétt að biðja Jehóva að ‚styrkja verk handa okkar‘ og blessa það sem við gerum í þjónustu hans.
92:15, 16. Aldraðir geta haldið áfram að ‚bera ávöxt‘. Þeir geta verið þróttmiklir í trúnni og verið söfnuðinum til styrktar með því að vera iðnir biblíunemendur og sækja safnaðarsamkomur reglulega.
94:19. Það er hughreystandi að lesa og hugleiða þá „huggun“ sem er að finna í Biblíunni, hverjar svo sem „áhyggjur“ okkar eru.
95:7, 8. Ef við gefum gaum að ráðleggingum Biblíunnar og hlýðum þeim fúslega er síður hætta á að hjörtu okkar forherðist. — Hebreabréfið 3:7, 8.
106:36, 37. Í þessum versum er skurðgoðadýrkun sett í samband við að færa illum öndum fórnir. Samkvæmt þessu getur maður, sem notar skurðgoð, komist undir áhrif illra anda. „Gætið yðar fyrir skurðgoðunum,“ hvetur Biblían. — 1. Jóhannesarbréf 5:21.
Lofið Jehóva
Síðustu þrem sálmum fjórðu bókar lýkur með hvatningunni „hallelúja“ sem merkir „lofið Jah“. Sá síðasti hefst á sömu leið. (Sálmur 104:35; 105:45; 106:1, 48) Og orðið kemur oft fyrir í fjórðu bók Sálmanna.
Við höfum ríka ástæðu til að lofa Jehóva. Í Sálmi 73 til 106 fáum við margt um að hugsa sem fyllir hjörtu okkar þakklæti. Þegar við hugsum um allt sem faðirinn á himnum hefur gert fyrir okkur og á eftir að gera í framtíðinni getum við ekki annað en fundið sterka löngun til að lofa hann af öllum mætti.
[Mynd á blaðsíðu 8]
Við getum brugðist við illskunni umhverfis með því að líkja eftir Asaf og „vera nálægt Guði“.
[Mynd á blaðsíðu 9]
Faraó bíður ósigur við Rauðahafið.
[Mynd á blaðsíðu 9]
Veistu af hverju manna er kallað „englabrauð“?
[Mynd á blaðsíðu 11]
Hvað hjálpar okkur að draga úr áhyggjum?