Jehóva svarar innilegri bæn
„Að fólk megi vita að þú, sem heitir Jehóva, þú einn ert hinn hæsti yfir allri jörðinni.“ — SÁLM. 83:18a, NW.
1, 2. Hver er reynsla margra og hvaða spurninga mætt spyrja?
KONA nokkur var miður sín vegna harmleiks sem hafði átt sér stað í hverfinu hennar. Þar sem hún var alin upp í rómversk-kaþólskri trú ætlaði hún að leita ásjár hjá prestinum sínum en hann vildi ekki einu sinni tala við hana. Hún bað því til Guðs: „Ég veit ekki hver þú ert . . . en ég veit að þú ert til. Leyfðu mér að kynnast þér!“ Skömmu síðar fékk hún heimsókn frá Vottum Jehóva og þá fékk hún þá hughreystingu og fræðslu sem hún þráði. Meðal annars kenndu vottarnir henni að Guð eigi sér nafn og heiti Jehóva. Það snerti hana djúpt. „Hugsa sér — þetta var sá Guð sem ég hafði þráð að kynnast frá því að ég var barn!“ segir hún.
2 Margir hafa svipaða sögu að segja. Þeir sáu nafnið Jehóva í fyrsta sinn í Biblíunni þegar þeir lásu þessi orð: „Til að fólk megi vita að þú, sem heitir Jehóva, þú einn ert hinn hæsti yfir allri jörðinni.“ (Sálm. 83:18, NW ) En hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér af hverju Sálmur 83 var ortur? Hvaða atburðir áttu að verða til þess að allir neyddust til að játa að Jehóva væri hinn eini sanni Guð? Hvaða lærdóm getum við dregið af þessum sálmi? Fjallað verður um það í greininni.b
Bandalag gegn þjóð Jehóva
3, 4. Hver orti Sálm 83 og hvaða ógnun lýsir hann?
3 Sálmur 83 er „Asafssálmur“ að því er fram kemur í yfirskriftinni. Sá sem orti sálminn var sennilega afkomandi Asafs en hann var levíti og þekktur tónlistarmaður í valdatíð Davíðs konungs. Sálmaskáldið sárbænir Jehóva um að ganga fram til að verja drottinvald sitt og gera nafn sitt kunnugt. Sálmurinn hlýtur að hafa verið ortur einhvern tíma eftir dauða Salómons. Af hverju? Af því að konungar Týrusar voru hliðhollir Ísrael í valdatíð Davíðs og Salómons. Þegar Sálmur 83 var ortur höfðu Týrusbúar hins vegar snúist gegn Ísraelsmönnum og gert bandalag við óvini þeirra.
4 Í sálminum eru nafngreindar tíu þjóðir sem höfðu gert bandalag um að útrýma þjóð Guðs. Þessar óvinaþjóðir bjuggu umhverfis Ísrael. Þær voru „Edómítar og Ísmaelítar, Móabítar og Hagrítar, Gebal og Ammón og Amalek, Filistear ásamt Týrusbúum. Assúr sameinast þeim einnig.“ (Sálm. 83:7-9) Um hvaða atburð sögunnar er talað hér? Sumir telja að átt sé við það þegar Ammonítar, Móabítar og Seírfjallabúar bundust samtökum um að ráðast á Ísrael á dögum Jósafats. (2. Kron. 20:1-26) Aðrir álíta að átt sé við fjandskap grannþjóðanna almennt við Ísrael í tímans rás.
5. Af hverju er Sálmur 83 verðmætur fyrir kristna menn nú á tímum?
5 En hvað sem því líður er ljóst að Jehóva Guð innblés þessa ljóðrænu bæn á hættutímum í sögu þjóðarinnar. Sálmurinn er sömuleiðis hvetjandi fyrir þjóna Guðs nú á dögum en þeir hafa alla tíð mátt þola linnulausar árásir óvina sem hafa einsett sér að útrýma þeim. Og hann á örugglega eftir að styrkja okkur í náinni framtíð þegar Góg frá Magóg safnar liði og gerir lokatilraun til að útrýma öllum sem tilbiðja Guð í anda og sannleika. — Lestu Esekíel 38:2, 8, 9, 16.
Helsta hugðarefni sálmaskáldsins
6, 7. (a) Um hvað biður sálmaskáldið í fyrstu versum 83. sálmsins? (b) Hvað var sálmaskáldinu efst í huga?
6 Taktu eftir hvernig sálmaskáldið tjáir tilfinningar sínar í bæn: „Guð, ver eigi hljóður, ver eigi þögull, ó Guð, né aðgerðalaus. Því sjá, óvinir þínir gera hark og hatursmenn þínir reigja sig. Þeir sitja á svikráðum við lýð þinn . . . Þeir voru einhuga um ráðagerð sína og gerðu bandalag gegn þér.“ — Sálm. 83:2-4, 6.
7 Hvað var sálmaskáldinu efst í huga? Hann hlýtur auðvitað að hafa haft þungar áhyggjur af öryggi sínu og fjölskyldu sinnar. Í bæn sinni nefnir hann hins vegar þá háðung sem nafn Jehóva mátti sæta og ógnunina við þjóðina sem bar nafn hans. Við ættum öll að hafa sams konar hugarfar og sjá hlutina í réttu ljósi í þeim erfiðleikum sem við er að glíma á síðustu dögum þessa gamla heims. — Lestu Matteus 6:9, 10.
8. Af hvaða ástæðu gerðu þjóðirnar bandalag gegn Ísrael?
8 Sálmaskáldið hefur eftir óvinum Ísraels: „Komið. Vér skulum afmá þá sem þjóð svo að nafns Ísraels verði ekki framar minnst.“ (Sálm. 83:5) Þessar þjóðir hötuðu greinilega kjörþjóð Guðs. En það var önnur ástæða fyrir því að þær gerðu með sér bandalalag. Þær ágirntust Ísraelsland og sögðu digurbarkalega: „Vér skulum vinna haglendi Guðs.“ (Sálm. 83:13) Hefur eitthvað ámóta gerst nú á dögum? Vissulega.
‚Heilagur bústaður þinn‘
9, 10. (a) Hver var heilagur bústaður Guðs til forna? (b) Við hvaða blessun búa ‚aðrir sauðir‘ og þeir sem eru eftir af hinum andasmurðu?
9 Forðum daga var talað um fyrirheitna landið sem heilagan bústað Guðs. Manstu eftir sigursöngnum sem Ísraelsmenn sungu eftir frelsunina frá Egyptalandi? Þar segir meðal annars: „Þú leiðbeindir af gæsku þjóðinni sem þú frelsaðir, leiddir hana með mætti þínum til heilags bústaðar þíns.“ (2. Mós. 15:13) Síðar var reist musteri í ‚heilögum bústað‘ Guðs og þar þjónaði prestastétt. Þar var höfuðborgin Jerúsalem og þar sátu konungar af ætt Davíðs í hásæti Jehóva. (1. Kron. 29:23) Það var ekki að ástæðulausu að Jesús kallaði Jerúsalem „borg hins mikla konungs“. — Matt. 5:35.
10 Hvað um okkar tíma? Árið 33 varð til ný þjóð sem er nefnd „Ísrael Guðs“. (Gal. 6:16) Andasmurðir bræður Jesú Krists mynda þessa þjóð og þeir eru vottar um nafn Guðs. Ísraelsþjóðin átti að fara með það hlutverk en brást skyldu sinni. (Jes. 43:10; 1. Pét. 2:9) Jehóva gaf þeim sama loforð og hann hafði gefið Ísraelsmönnum forðum daga: „Ég mun vera Guð þeirra og þeir munu vera lýður minn.“ (2. Kor. 6:16; 3. Mós. 26:12) Árið 1919 eignuðust þeir sem eftir voru af „Ísrael Guðs“ sérstakt samband við Jehóva og þá settust þeir að í ‚landi‘ sem táknar andlegan starfsvettvang þeirra. Þar búa þeir í andlegri paradís. (Jes. 66:8) Síðan á fjórða áratug síðustu aldar hafa ‚aðrir sauðir‘ hópast til þeirra í milljónatali. (Jóh. 10:16) Með því að blessa og vernda þessa kristnu menn eins og raun ber vitni sýnir Jehóva og sannar að hann er réttmætur Drottinn alheims. (Lestu Sálm 91:1, 2.) Og Satan er ævareiður yfir því!
11. Hvert er og verður meginmarkmið óvina Guðs?
11 Allan endalokatímann hefur Satan látið handbendi sín á jörð berjast gegn þeim sem eftir eru af hinum andasmurðu og félögum þeirra af hópi annarra sauða. Það gerðist í Vestur-Evrópu í valdatíð nasista og í Austur-Evrópu undir kommúnistastjórn Sovétríkjanna. Það gerðist líka víða annars staðar í heiminum og á eftir að endurtaka sig, ekki síst í lokaárás Gógs frá Magóg. Þá gætu andstæðingar hrifsað til sín með áfergju eignir þjóna Jehóva eins og gerst hefur fyrr í sögunni. Meginmarkmið Satans hefur hins vegar alltaf verið það að sundra okkur þannig að nafnið, sem Guð hefur gefið okkur, falli í gleymsku. Hvernig bregst Jehóva við þegar drottinvaldi hans er ögrað með þessum hætti? Lítum aftur á orð sálmaskáldsins.
Fyrri sigrar Jehóva
12-14. Hvaða tvo sögufræga sigra í grennd við Megiddóborg rifjar sálmaskáldið upp?
12 Við tökum eftir að sálmaskáldið hefur óbilandi trú á því að Jehóva geti ónýtt áform óvinaþjóða. Hann fléttar inn í sálminn tveim merkum sigrum sem Ísraelsmenn unnu á óvinum sínum í grennd við borgina Megiddó en hún stóð á hæð við samnefnda sléttu. Að sumri má sjá þurran farveg Kísonlækjar bugðast um sléttuna. Eftir úrfelli að vetri flæðir lækurinn yfir sléttuna. Það kann að vera ástæðan fyrir því að hann er einnig kallaður ‚Megiddóvötn‘. — Dóm. 4:13; 5:19.
13 Handan sléttunnar, um það bil 15 kílómetra frá Megiddó, stendur Mórehæð. Þar höfðu hersveitir Midíaníta, Amalekíta og austurbyggja safnast saman á dögum Gídeons dómara til að heyja stríð. (Dóm. 7:1, 12) Gídeon var aðeins með 300 manna lið en með hjálp Jehóva gersigruðu þeir fjölmennt herlið óvinanna. Hvernig? Í samræmi við fyrirmæli Guðs umkringdu þeir búðir óvinanna að nóttu og var hver maður með blys falið í leirkrús. Þegar Gídeon gaf merki brutu menn hans krúsirnar og logandi blysin birtust skyndilega. Samtímis blésu þeir í horn og æptu: „Sverð Drottins og Gídeons.“ Allt fór í uppnám í herbúðum óvinanna og þeir tóku að drepa hver annan en sumir lögðu á flótta austur yfir Jórdan. Meðan þessu fór fram bættust fleiri Ísraelsmenn í liðið sem veitti eftirför. Alls voru felldir 120.000 óvinahermenn. — Dóm. 7:19-25; 8:10.
14 Um sex kílómetra frá Mórehæð, handan við Megiddódal, stendur Taborfjall. Þar hafði Barak dómari safnað saman 10.000 manna liði til að berjast við her Kanverjans Jabíns, konungs í Hasór. Sísera hershöfðingi fór fyrir her Kanverja. Hann réð yfir 900 vögnum en á þeim voru járnsverð sem fest voru við hjólin og voru stórhættuleg drápstæki. Þegar her Ísraels, sem var miklu verr búinn, safnaðist saman á Taborfjalli var her Sísera tældur til að fara niður í dalinn. Þar „hrelldi [Jehóva] Sísera og alla vagna hans og allan her hans“ svo að allt fór í upplausn. Líklegt er að orðið hafi skyndilegt úrfelli með þeim afleiðingum að Kísonlækur flæddi yfir bakka sína og vagnarnir sukku í leðjuna. Ísraelsmenn stráfelldu herinn. — Dóm. 4:13-16; 5:19-21.
15. (a) Hvað biður sálmaskáldið Jehóva að gera? (b) Hvað heitir lokastríð Guðs og á hvað minnir það?
15 Sálmaskáldið biður Jehóva að koma Ísraelsmönnum til varnar á svipaðan hátt gegn þeim þjóðum sem ógnuðu tilvist þeirra í hans tíð. Hann biður: „Farðu með þá eins og Midían, eins og Sísera, eins og Jabín við Kísonlæk, þeim var gereytt við Endór, þeir urðu áburður á jörðina.“ (Sálm. 83:10, 11) Það er táknrænt að lokastríð Guðs gegn heimi Satans skuli vera kallað Harmagedón en það merkir „Megiddófjall“. Nafnið minnir á þær úrslitaorustur sem háðar voru í grennd við Megiddó. Sigrar Jehóva forðum daga eru trygging fyrir því að hann vinni sigur í stríðinu við Harmagedón. — Opinb. 16:13-16.
Biðjum þess að Jehóva verji drottinvald sitt
16. Hvernig hafa andstæðingar þjóna Guðs nú á tímum ‚roðnað af skömm‘?
16 Allt frá upphafi hinna ‚síðustu daga‘ hefur Jehóva ónýtt allar tilraunir sem hafa verið gerðar til að útrýma þjónum hans. (2. Tím. 3:1) Andstæðingarnir hafa orðið sér til skammar. Þessu er spáð í Sálmi 83:17 þar sem segir: „Lát andlit þeirra roðna af skömm svo að þeir leiti nafns þíns, Drottinn“. Í einu landi af öðru hefur andstæðingum mistekist með öllu að þagga niður í vottum Jehóva. Staðfesta og þolgæði tilbiðjenda hins eina sanna Guðs hefur verið hjartahreinu fólki til vitnisburðar og margir hafa ‚leitað nafns Jehóva‘. Í mörgum löndum, þar sem vottar Jehóva voru ofsóttir grimmilega, lofa menn nú Jehóva tugum eða jafnvel hundruð þúsundum saman. Þetta er mikill sigur fyrir Jehóva og að sama skapi mikil skömm fyrir óvini hans. — Lestu Jeremía 1:19.
17. Hvað blasir við mannkyni og hvaða orð munum við hafa í huga?
17 Við vitum auðvitað að stríðið er ekki unnið. Og við höldum áfram að boða fagnaðarerindið, jafnvel andstæðingum. (Matt. 24:14, 21) En tækifærið er brátt á enda fyrir andstæðingana til að iðrast og bjargast. Það er margfalt mikilvægara að nafn Jehóva helgist en að menn bjargist. (Lestu Esekíel 38:23.) Þegar allar þjóðir heims taka höndum saman um að útrýma þjónum Guðs, eins og spáð hefur verið, munum við hafa bæn sálmaskáldsins í huga: „Lát þá verða til skammar og skelfast um aldur, lát þá tortímast með skömm.“ — Sálm. 83:18.
18, 19. (a) Hvað bíður þeirra sem berjast einbeittir gegn drottinvaldi Jehóva? (b) Hvaða áhrif hefur það á þig að Jehóva skuli ætla að verja drottinvald sitt í náinni framtíð?
18 Auðmýkjandi endir bíður harðra andstæðinga sem berjast gegn drottinvaldi Jehóva. Í orði hans kemur fram að þeir sem „hlýða ekki fagnaðarerindinu“, og verða þar af leiðandi teknir af lífi í stríðinu við Harmagedón, muni sæta „eilífri glötun“. (2. Þess. 1:7-9) Eyðing þeirra og björgun hinna, sem tilbiðja Jehóva í sannleika, verður óyggjandi sönnun fyrir því að Jehóva sé hinn eini sanni Guð. Þessi mikli sigur mun aldrei falla í gleymsku í nýja heiminum. Þeir sem rísa upp í upprisu ‚réttlátra og ranglátra‘ verða fræddir um hið mikla máttarverk Jehóva. (Post. 24:15) Í nýja heiminum fá þeir að sjá sannfærandi rök fyrir því að það sé skynsamlegt að lúta drottinvaldi Jehóva. Og auðmjúkt fólk á meðal þeirra sannfærist fljótt um að Jehóva sé hinn eini sanni Guð.
19 Það er stórfengleg framtíð sem faðirinn á himnum hefur búið dyggum dýrkendum sínum. Langar þig ekki til að biðja Jehóva um að verða við bæninni sem sálmaskáldið bar fram: „Lát [óvini þína] tortímast með skömm svo að þeir játi að þú, sem berð nafnið Drottinn [„Jehóva“, NW ], þú einn ert Hinn hæsti yfir allri jörðinni“? — Sálm. 83:18, 19.
[Neðanmáls]
a Vers 19 samkvæmt íslensku Biblíunni.
Geturðu svarað?
• Í hvaða aðstöðu voru Ísraelsmenn þegar Sálmur 83 var ortur?
• Hvað var sálmaskáldinu efst í huga þegar það orti Sálm 83?
• Gegn hverjum hefur Satan beint reiði sinni á okkar tímum?
• Hvernig mun Jehóva að lokum verða við bæninni í Sálmi 83:19?
[Kort á blaðsíðu 15]
(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)
Hvernig snerta orustur við Megiddó til forna framtíð okkar?
Kísonlækur
Haróset
Karmelfjall
Jesreeldalur
Megiddó
Taanak
Gilbóafjall
Haródlind
Mórehæð
Endór
Taborfjall
Galíleuvatn
Jórdan
[Mynd á blaðsíðu 12]
Hver var kveikjan að því að sálmaskáld bar fram innilega bæn?