13. kafli
Friðarstjórn Guðs
1. Hvað hefur stjórnum mannanna mistekist að gera?
HEFUR ÞÚ veitt því eftirtekt að stjórnum mannanna, jafnvel þeim sem vilja vel, hefur mistekist að fullnægja raunverulegum þörfum fólks? Engri hefur tekist að leysa vandamál svo sem glæpi og kynþáttahatur, né getað séð öllum þegnum sínum fyrir mannsæmandi viðurværi og húsnæði. Þær hafa ekki losað þá algerlega við sjúkdóma. Og engri stjórn hefur tekist að stöðva ellihrörnun og dauða né lífga látna á ný. Engin þeirra hefur einu sinni fært þegnum sínum varanlegan frið og öryggi. Stjórnir mannanna eru hreinlega ekki færar um að leysa þau stóru vandamál sem blasa við fólki.
2. Hver er aðalboðskapur Biblíunnar?
2 Skapari okkar veit hversu mjög við þörfnumst réttlátrar stjórnar sem mun gefa öllum kost á óskertri hamingju og lífi. Þess vegna segir Biblían frá stjórn sem Guð leiðir. Reyndar er fyrirheitið um stjórn Guðs aðalinntak Biblíunnar.
3. Hvað segir Jesaja 9:6, 7 um ríkisstjórn Guðs?
3 Þú spyrð ef til vill hvar Biblían tali um stjórn Guðs. Hún gerir það til dæmis í Jesajabók 9:6, 7. Þar stendur: „Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn [stjórnin, King James Version] hvíla. Nafn hans skal kallað Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi. Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka á hásæti Davíðs og í ríki hans.“
4. Hvert er barnið sem verður konungur í ríkisstjórn Guðs?
4 Biblían segir hér frá því er barn, höfðingi, fæðist. Með tíð og tíma á þessi ‚konungssonur‘ að verða mikill höfðingi, „Friðarhöfðingi.“ Hann á að vera forystumaður stórfenglegrar stjórnar. Þessi stjórn mun koma á friði um alla jörðina og sá friður mun standa að eilífu. Barnið, sem boðað var í Jesaja 9:6, 7 að myndi fæðast, var Jesús. Þegar engillinn Gabríel boðaði meynni Maríu fæðingu hans sagði hann um Jesú: „Hann mun ríkja . . . og á ríki hans mun enginn endir verða.“ — Lúkas 1:30-33.
LÖGÐ ÁHERSLA Á MIKILVÆGI GUÐSRÍKIS
5. (a) Hvernig kemur mikilvægi Guðsríkis fram í Biblíunni? (b) Hvað er ríki Guðs og hvað mun það gera?
5 Meðan Jesús og stuðningsmenn hans voru á jörðinni var helsta starf þeirra það að prédika og kenna um hið komandi Guðsríki. (Lúkas 4:43; 8:1) Minnst er á þetta ríki um 140 sinnum í Biblíunni. Jesús kenndi jafnvel fylgjendum sínum að biðja til Guðs: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:10) Er þetta ríki, sem kristnir menn biðja um, í raun og veru stjórn, ríkisstjórn? Vera kann að þú hafir ekki álitið það, en þannig er það samt. Sonur Guðs, Jesús Kristur, er konungur þessa ríkis og öll jörðin verður yfirráðasvæði hans. Mikill verður sá munur þegar mönnum verður ekki skipt niður í margar stríðandi þjóðir, heldur allir menn sameinaðir í friði undir ríkisstjórn Guðs!
6. Hvers vegna var ríki Guðs sagt vera „í nánd“ og „á meðal yðar“ þegar Jesús var á jörðinni?
6 Jóhannes skírari fór að prédika um þessa stjórn og segja fólki: „Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd.“ (Matteus 3:1, 2) Hvernig gat Jóhannes sagt það? Vegna þess að Jesús, hann sem skyldi verða konungurinn í himneskri ríkisstjórn Guðs, var rétt ókominn til hans til að láta skírast og hljóta smurningu heilags anda Guðs. Þú getur því skilið hvers vegna Jesús sagði faríseunum síðar: „Guðs ríki er meðal yðar.“ (Lúkas 17:21, neðanmáls) Jesús gat sagt það vegna þess að hann, sem Guð hafði skipað konung, var á meðal þeirra. Þau þrjú og hálft ár, sem Jesús prédikaði og kenndi, sannaði hann með trúfesti sinni við Guð allt til dauða rétt sinn til að vera konungur.
7. Hvað sýnir að Guðsríki var mál málanna þegar Jesús var á jörðinni?
7 Til að sýna fram á að ríki Guðs hafi verið mál málanna á meðan þjónusta Krists stóð yfir, skulum við íhuga atvik sem átti sér stað daginn fyrir dauða hans. Biblían segir okkur að menn hafi ásakað Jesú: „Vér höfum komist að raun um, að þessi maður leiðir þjóð vora afvega, hann bannar að gjalda keisaranum skatt og segist sjálfur vera Kristur, konungur.“ Þegar rómverski landsstjórinn Pontíus Pílatus heyrði þetta spurði hann Jesú: „Ert þú konungur Gyðinga?“ — Lúkas 23:1-3.
8. (a) Hverju svaraði Jesús þegar hann var spurður hvort hann væri konungur? (b) Hvað átti Jesús við þegar hann sagði að ríki hans væri „ekki þaðan“?
8 Jesús svaraði ekki spurningu Pílatusar beint heldur sagði: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan.“ Jesús tók þannig til orða vegna þess að ríki hans átti ekki að vera jarðneskt. Hann átti að ríkja frá himnum, ekki sem maður í einhverju hásæti á jörðinni. Með því að um það var deilt hvort Jesús hefði rétt til að ríkja sem konungur eða ekki spurði Pílatus Jesú aftur: „Þú ert þá konungur?“
9. (a) Hvaða stórfengleg sannindi kunngerði Jesús? (b) Hvaða spurningar skipta miklu máli nú?
9 Bersýnilega var líf Jesú í húfi því að hann hafði prédikað og kennt að koma myndi ný stjórn. Hann svaraði því Pílatusi: „Þú segir að ég sé konungur. Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni.“ (Jóhannes 18:36, 37, neðanmáls) Jesús hafði varið lífi sínu á jörðinni til að segja fólki hin dásamlegu sannindi um ríkisstjórn Guðs. Það var aðalatriðið í boðskap hans. Og Guðsríki er enn þá mál málanna nú. Þeirri spurningu er þó enn ósvarað hvaða stjórn sé mikilvægust í lífi einstaklingsins. Er það stjórn manna eða ríki Guðs með Krist sem stjórnanda?
LÖGÐ DRÖG AÐ NÝRRI STJÓRN JARÐAR
10. (a) Hvenær sá Guð þörfina á nýrri stjórn? (b) Hvar er fyrst minnst á þessa ríkisstjórn í Biblíunni? (c) Hvern táknar höggormurinn?
10 Þegar Satan fékk Adam og Evu með sér í uppreisn sinni sá Jehóva þörfina á nýrri stjórn yfir mannkyninu. Hann sagði því strax frá þeim tilgangi sínum að koma á fót slíkri stjórn. Hann lét þessarar stjórnar getið þegar hann lýsti yfir dómi yfir höggorminum sem í rauninni var Satan djöfullinn: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ — 1. Mósebók 3:14, 15.
11. Milli hverra átti að vera hatur?
11 Þú spyrð kannski hvar minnst sé á stjórn hér. Við sjáum það ef við skoðum þessi orð gaumgæfilega. Ritningin segir að fjandskapur eða hatur myndi vera milli Satans og „konunnar.“ Enn fremur skyldi vera hatur milli „sæðis“ eða barna Satans, og „sæðis“ eða barna konunnar. Fyrst þurfum við að komast að því hver ‚konan‘ er.
12. Hvað er sagt um ‚konuna‘ í Opinberunarbókinni 12. kafla?
12 Kona þessi er ekki jarðnesk. Satan hefur ekkert sérstakt hatur borið til neinnar ákveðinnar, mennskrar konu. Kona þessi er táknræn, en það þýðir að hún táknar eitthvað annað. Það má sjá í síðustu bók Biblíunnar, Opinberunarbókinni, þar sem frekari upplýsingar er um hana að finna. Þar er ‚konunni‘ lýst svo að hún sé „klædd sólinni og tunglið . . . undir fótum hennar, og á höfði hennar . . . kóróna af tólf stjörnum.“ Til að komast að því hvað þessi „kona“ táknar skulum við athuga hvað Opinberunarbókin segir um barn hennar: „Hún fæddi son, sveinbarn, sem stjórna mun öllum þjóðum með járnsprota. Og barn hennar var hrifið til Guðs, til hásætis hans.“ — Opinberunarbókin 12:1-5.
13. Hver eða hvað er ‚sveinbarnið‘ og „konan“?
13 Ef við komumst að niðurstöðu um hver eða hvað ‚sveinbarnið‘ er munum við geta skilið hvern eða hvað „konan“ táknar. Barnið er ekki bókstafleg persóna frekar en konan er raunveruleg mennsk kona. Ritningargreinin sýnir að þetta „sveinbarn“ á að „stjórna . . . öllum þjóðum.“ ‚Barnið‘ er því tákn um ríkisstjórn Guðs með Jesú Krist sem konung. „Konan“ táknar þess vegna skipulag Guðs sem er myndað af trúföstum, himneskum verum. Eins og ‚sveinbarnið‘ kom frá ‚konunni,‘ eins kom konungurinn, Jesús Kristur, frá hinu himneska skipulagi, hópi drottinhollra andavera á himnum sem vinna saman að því að tilgangur Guðs nái fram að ganga. Galatabréfið 4:26 kallar þetta skipulag „Jerúsalem, sem í hæðum er.“ Þegar Adam og Eva gerðu uppreisn gegn drottinvaldi Guðs gerði Jehóva því ráðstafanir til að setja á laggirnar ríkisstjórn sem myndi veita unnendum réttlætisins von.
JEHÓVA MAN EFTIR FYRIRHEITI SÍNU
14. (a) Hvernig sýndi Jehóva að hann mundi eftir fyrirheiti sínu um ‚sæði‘ sem myndi kremja Satan? (b) Hver er fyrirheitna ‚sæðið‘?
14 Jehóva gleymdi ekki fyrirheiti sínu um að senda ‚sæðið‘ sem myndi fara með völd í ríkisstjórn Guðs. Þessi valdhafi skyldi tortíma Satan með því að merja höfuð hans. (Rómverjabréfið 16:20; Hebreabréfið 2:14) Síðar sagði Jehóva að hið fyrirheitna sæði myndi koma í ættlegg hins trúfasta Abrahams. Jehóva sagði Abraham: „Af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta.“ (1. Mósebók 22:18) Hvert er þetta „afkvæmi“ sem heitið var að skyldi koma í ættlegg Abrahams? Biblían svarar því síðar: „Nú voru fyrirheitin gefin Abraham og afkvæmi hans, — þar stendur ekki ‚og afkvæmum‘, eins og margir ættu í hlut, heldur ‚og afkvæmi þínu‘, eins og þegar um einn er að ræða, og það er Kristur.“ (Galatabréfið 3:16) Jehóva sagði einnig Ísak, syni Abrahams, og Jakob, sonarsyni hans, að ‚sæði‘ ‚konu‘ Guðs myndi koma í þeirra ættlegg. — 1. Mósebók 26:1-5; 28:10-14.
15, 16. Hvað sannar að ‚sæðið‘ átti að vera ríkjandi konungur?
15 Skýrt kom í ljós að þetta ‚sæði‘ yrði ríkjandi konungur þegar Jakob sagði við Júda, son sinn: „Ekki mun veldissprotinn [eða valdið til að ríkja] víkja frá Júda, né ríkisvöndurinn frá fótum hans, uns sá kemur, er valdið hefur, og þjóðirnar ganga honum á hönd.“ (1. Mósebók 49:10) Jesús Kristur fæddist í ættkvísl Júda. Hann reyndist vera sá „er valdið hefur“ og ‚þjóðirnar skyldu ganga á hönd.‘ — Hebreabréfið 7:14.
16 Nær 700 árum eftir að þessi orð voru sögð við Júda sagði Jehóva um Davíð af ættkvísl Júda: „Ég hefi fundið Davíð þjón minn . . . Ég læt niðja hans haldast við um aldur og hásæti hans meðan himinninn er til.“ (Sálmur 89:21, 30) Hvað er átt við þegar Guð segir að ‚niðji‘ Davíðs skuli haldast við „um aldur“ og að „hásæti hans“ muni standa jafnlengi og „himinninn er til“? Jehóva Guð er hér að tala um að stjórn Guðsríkis í höndum hins skipaða valdhafa, Jesú Krists, muni standa að eilífu. Hvernig vitum við það?
17. Hvernig vitum við að hinn fyrirheitni valdhafi er Jesús Kristur?
17 Þú manst hvað engill Jehóva, Gabríel, sagði Maríu um barnið sem hún átti að eignast. Hann sagði: „Þú skalt láta hann heita JESÚ.“ En Jesús átti ekki alltaf að vera barn né heldur maður á jörðinni. Gabríel hélt áfram: „Hann mun verða mikill og kallaður sonur hins hæsta. [Jehóva] Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans, og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu, og á ríki hans mun enginn endir verða.“ (Lúkas 1:31-33) Er ekki dásamlegt til að vita að Jehóva skuli hafa lagt á ráðin um að koma á fót réttlátri stjórn til eilífs hagnaðar þeim sem elska og treysta honum?
18. (a) Hvernig lýsir Biblían endalokum jarðneskra stjórna? (b) Hvað mun stjórn Guðs gera fyrir menn?
18 Nú er sá tími í nánd að ríkisstjórn Guðs muni láta til skarar skríða og tortíma öllum stjórnum veraldar. Jesús Kristur mun þá ganga fram sem sigursæll konungur. Biblían lýsir þeirri baráttu svo: „Á dögum þessara konunga mun Guð himnanna hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga, . . . Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.“ (Daníel 2:44; Opinberunarbókin 19:11-16) Þegar öllum öðrum stjórnum hefur verið rutt úr vegi mun stjórn Guðs fullnægja raunverulegum þörfum manna. Konungur hennar, Jesús Kristur, mun sjá til þess að enginn trúfastur þegn hans veikist, hrörni eða deyi. Vandamál svo sem glæpir, lélegt húsnæði, hungur og öll önnur slík vandamál verða leyst. Þá mun verða sannur friður og öryggi um allan heiminn. (2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 21:3-5) En við þurfum að læra meira um þá sem munu fara með völd í þessari ríkisstjórn Guðs.
[Mynd á blaðsíðu 112, 113]
Jesús sendi fylgjendur sína út til að vinna það mikilvæga starf að prédika um ríki Guðs.
[Mynd á blaðsíðu 114]
Þegar Jesús var fyrir rétti og átti dauðadóm yfir höfði sér hélt hann áfram að prédika ríki Guðs.
[Mynd á blaðsíðu 119]
Hvernig hugsar þú um Jesú — sem sigursælan konung eða hjálparvana hvítvoðung?