Jehóva kennir okkur að telja daga okkar
„Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“ — SÁLMUR 90:12.
1. Hvers vegna er viðeigandi að biðja Jehóva að kenna okkur „að telja daga vora“?
JEHÓVA GUÐ er skapari okkar og lífgjafi. (Sálmur 36:10; Opinberunarbókin 4:11) Enginn er í betri aðstöðu en hann til að kenna okkur hvernig við eigum að nota ævina viturlega. Það var því viðeigandi að sálmaritarinn skyldi biðja Guð: „Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“ (Sálmur 90:12) Þessa bón er að finna í 90. sálminum sem er sannarlega verður þess að við skoðum hann vandlega. En fyrst skulum við fá stutt yfirlit yfir þennan guðinnblásna sálm.
2. (a) Hver er nefndur sem ritari 90. sálmsins og hvenær gæti hann hafa verið ortur? (b) Hvaða áhrif ætti Sálmur 90 að hafa á lífsviðhorf okkar?
2 Yfirskrift 90. sálmsins er: „Bæn guðsmannsins Móse.“ Þessi sálmur undirstrikar hvað mannslífið er hverfult og var því sennilega ortur eftir að Ísraelsmenn losnuðu úr ánauðinni í Egyptalandi og á meðan þeir voru á 40 ára eyðimerkurgöngunni þegar þúsundir manna dóu og ótrú kynslóð leið undir lok. (4. Mósebók 32:9-13) En hvað sem því líður bendir 90. sálmurinn á að líf ófullkominna manna er stutt. Við ættum því augljóslega að nota viturlega hina verðmætu daga okkar.
3. Hvert er megininntak 90. sálmsins?
3 Í Sálmi 90, versi 1 til 6, er bent á að Jehóva sé eilíft athvarf okkar. Vers 7 til 12 tilgreina hvað þarf til svo að við getum notað hverfult líf okkar á þann hátt sem er honum þóknanlegur. Og eins og fram kemur í versi 13 til 17 þráum við að njóta miskunnar og blessunar Jehóva. Þessi sálmur spáir auðvitað engu um persónulega reynslu okkar í þjónustu Jehóva en við ættum samt að hugleiða þau viðhorf sem fram koma í bæn sálmaritarans og tileinka okkur þau. Við skulum því skoða Sálm 90 vandlega með augum þeirra sem vígðir eru Guði.
Jehóva er „athvarf“ okkar
4-6. Hvernig er Jehóva okkur „athvarf“?
4 Sálmurinn hefst með þessum orðum: „[Jehóva], þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.“ — Sálmur 90:1, 2.
5 Jehóva, ‚hinn eilífi Guð,‘ er „athvarf“ okkar eða andlegt skjól. (Rómverjabréfið 16:26) Við erum örugg því að hann er sá „sem heyrir bænir“ og er alltaf reiðubúinn að hjálpa okkur. (Sálmur 65:3) Ef við vörpum áhyggjunum á himneskan föður okkar fyrir milligöngu ástkærs sonar hans mun ‚friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, varðveita hjörtu okkar og hugsanir í Kristi Jesú.‘ — Filippíbréfið 4:6, 7; Matteus 6:9; Jóhannes 14:6, 14.
6 Við njótum andlegs öryggis því að í táknrænum skilningi er Jehóva „athvarf“ okkar. Hann sér okkur einnig fyrir „herbergjum“ sem eru líklega nátengd söfnuðum þjóna hans, andlegu athvarfi þar sem kærleiksríkir hirðar stuðla mjög að því að við finnum til öryggis. (Jesaja 26:20; 32:1, 2; Postulasagan 20:28, 29) Þar að auki tilheyrum við sum hver fjölskyldum sem eiga sér langa sögu í þjónustu Guðs og höfum persónulega komist að raun um að hann er „athvarf frá kyni til kyns.“
7. Í hvaða skilningi er hægt að segja að fjöllin hafi ‚fæðst‘?
7 Jehóva var til áður en fjöllin „fæddust“ og jörðin „varð til.“ Frá mannlegum sjónarhóli hefur það kostað gríðarlegt erfiði að mynda jörðina með öllum sérkennum sínum, efnafræðilegum samsetningum og flóknum gangverkum. Með því að líkja tilurð jarðar við fæðingu lætur sálmaritarinn í ljós djúpa virðingu fyrir þeirri vinnu sem fólst í því að skapa allt þetta. Ættum við ekki að vera þakklát fyrir það sem Jehóva hefur gert og láta í ljós svipaða virðingu og sálmaritarinn?
Jehóva er alltaf nálægur
8. Við hvað er átt þegar sagt er að Jehóva sé Guð „frá eilífð til eilífðar“?
8 „Frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð,“ söng sálmaritarinn. Frummálsorðið, sem hér er þýtt „eilífð,“ getur líka táknað endanlega en ótilgreinda tímalengd. (2. Mósebók 31:16, 17; Hebreabréfið 9:15) En í Sálmi 90:2 og víða annars staðar í Hebresku ritningunum er það réttilega þýtt „eilífð.“ (Prédikarinn 1:4) Hugur okkar getur ekki skilið hvernig Guð hefur alltaf getað verið til. En Jehóva átti sér ekkert upphaf og mun ekki eiga sér neinn endi. (Habakkuk 1:12) Hann verður alltaf lifandi og reiðubúinn að hjálpa okkur.
9. Við hvað líkir sálmaritarinn þúsund árum af mannlegri tilveru?
9 Sálmaritaranum var innblásið að líkja þúsund árum af mannlegri tilveru við mjög stuttan tíma frá sjónarhóli hins eilífa skapara. Hann ávarpar Guð og segir: „Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: ‚Hverfið aftur, þér mannanna börn!‘ Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka.“ — Sálmur 90:3, 4.
10. Í hvaða skilningi lætur Guð manninn „hverfa aftur til duftsins“?
10 Maðurinn er dauðlegur og Guð lætur hann „hverfa aftur til duftsins.“ Jehóva er í rauninni að segja að maðurinn ‚hverfi aftur til moldarinnar sem hann var gerður úr.‘ (1. Mósebók 2:7; 3:19) Þetta á við um alla — sterka og veika, ríka og fátæka — því að enginn ófullkominn maður ‚fær keypt bróður sinn lausan né greitt Guði lausnargjald fyrir hann svo að hann lifi ævinlega.‘ (Sálmur 49:7-10) En við erum innilega þakklát fyrir að ‚Guð skuli hafa gefið son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.‘ — Jóhannes 3:16; Rómverjabréfið 6:23.
11. Hvers vegna getum við sagt að það sem okkur finnst vera langur tími sé mjög stuttur tími í augum Guðs?
11 Metúsala varð 969 ára gamall en lifði þó ekki heilan dag frá sjónarhóli Jehóva. (1. Mósebók 5:27) Í augum Guðs eru þúsund ár eins og gærdagurinn — einn sólarhringur — þegar hann er liðinn. Sálmaritarinn nefnir líka að fyrir Guði séu þúsund ár eins og fjögurra stunda næturvaka varðmanns í herbúðum. (Dómarabókin 7:19) Það sem okkur finnst vera langur tími er því greinilega mjög stuttur tími í augum hins eilífa Jehóva Guðs.
12. Hvernig hrífur Guð menn burt?
12 Mannslífið er vissulega stutt núna í samanburði við eilífa tilveru Guðs. Sálmaritarinn segir: „Þú hrífur þá burt, sem í svefni, þá er að morgni voru sem gróandi gras. Að morgni blómgast það og grær, að kveldi fölnar það og visnar.“ (Sálmur 90:5, 6) Móse horfði upp á þúsundir Ísraelsmanna deyja í eyðimörkinni; Guð ‚hreif þá burt‘ eins og í flóði. Þessi hluti sálmsins hefur verið þýddur: „Þú hrífur menn burt í svefni dauðans.“ (New International Version) En æviskeið ófullkominna manna er líka eins og stuttur ‚svefn‘ — eins og blundur að nóttu.
13. Hvernig erum við „sem gróandi gras“ og hvaða áhrif ætti það að hafa á hugsunarhátt okkar?
13 Við erum „sem gróandi gras“ er blómgast að morgni en hefur að kvöldi visnað í brennheitri sólinni. Já, lífið er jafnhverfult og gras sem visnar á einum degi. Við skulum því ekki sóa þessu dýrmæta lífi heldur leita leiðsagnar Guðs um það hvernig við eigum að nota þau ár sem við eigum ólifuð í þessu heimskerfi.
Jehóva hjálpar okkur „að telja daga vora“
14, 15. Hvernig uppfylltist Sálmur 90:7-9 á Ísraelsmönnum?
14 Sálmaritarinn heldur áfram: „Vér hverfum fyrir reiði þinni, skelfumst fyrir bræði þinni. Þú hefir sett misgjörðir vorar fyrir augu þér, vorar huldu syndir fyrir ljós auglitis þíns. Allir dagar vorir hverfa fyrir reiði þinni, ár vor líða sem andvarp.“ — Sálmur 90:7-9.
15 Ótrúir Ísraelsmenn ‚hurfu fyrir reiði Guðs og skelfdust fyrir bræði hans.‘ Sumir „féllu í eyðimörkinni“ vegna dóma hans. (1. Korintubréf 10:5) Jehóva ‚setti misgjörðir þeirra fyrir augu sér.‘ Hann kallaði þá til ábyrgðar fyrir augljósar syndir sem þeir höfðu drýgt og ‚huldar syndir‘ þeirra voru jafnvel settar ‚fyrir ljós auglitis hans.‘ (Orðskviðirnir 15:3) Hinir iðrunarlausu Ísraelsmenn bökuðu sér reiði Guðs og ‚ár þeirra liðu sem andvarp.‘ Í rauninni má segja að stutt æviskeið okkar sé eins og andvarp sem líður af vörum.
16. Hvað ættu þeir að gera sem iðka synd í laumi?
16 Ef eitthvert okkar færi að syndga í laumi gætum við kannski falið það fyrir öðrum mönnum um tíma. En Jehóva setur huldar misgjörðir okkar ‚fyrir ljós auglitis síns‘ og verk okkar myndu skaða sambandið við hann. Til að öðlast náið samband við Jehóva á ný þyrftum við að biðja um fyrirgefningu hans, láta af rangri breytni, og þiggja þakklát andlega hjálp kristinna öldunga. (Orðskviðirnir 28:13; Jakobsbréfið 5:14, 15) Það væri miklu betra en að láta „ár vor líða sem andvarp“ og stofna von okkar um eilíft líf í hættu.
17. Hver er algeng ævilengd manna og hverju eru ævidagar okkar fullir af?
17 Sálmaritarinn talar um æviskeið ófullkominna manna og segir: „Ævidagar vorir eru sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu ár, og dýrsta hnossið er mæða og hégómi, því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt.“ (Sálmur 90:10) Almennur meðalaldur fólks er 70 ár og þegar Kaleb var orðinn 85 ára sagðist hann vera óvenjuhraustur. Aron (123 ára), Móse (120 ára) og Jósúa (110 ára) eru dæmi um undantekningar frá þessu. (4. Mósebók 33:39; 5. Mósebók 34:7; Jósúabók 14:6, 10, 11; 24:29) En allir sem skráðir höfðu verið tvítugir og eldri af hinni ótrúu kynslóð, sem kom af Egyptalandi, dóu áður en 40 ár voru liðin. (4. Mósebók 14:29-34) Víða um lönd er meðalævilengdin enn innan þeirra marka sem sálmaritarinn tiltók. Ævidagar okkar eru fullir af ‚mæðu og hégóma.‘ Þeir líða fljótt hjá „og vér fljúgum burt.“ — Jobsbók 14:1, 2.
18, 19. (a) Hvað þýðir það ‚að telja daga vora svo að vér megum öðlast viturt hjarta‘? (b) Hvað knýr viskan okkur til að gera?
18 „Hver þekkir styrkleik reiði þinnar og bræði þína, svo sem hana ber að óttast? Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta,“ syngur sálmaritarinn. (Sálmur 90:11, 12) Enginn þekkir til fulls hvað reiði Guðs getur verið öflug eða bræði hans mikil. Sú staðreynd ætti að auka lotningarblandinn ótta okkar við hann og hvetja okkur til að biðja hann: „Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“
19 Orð sálmaritarans eru bæn um að Jehóva kenni fólki sínu að sýna þá visku að meta ævidaga sína mikils og nota þá á þann hátt sem hann hefur velþóknun á. Sjötíu ára lífslíkur gefa fyrirheit um 25.500 ævidaga alls. En hversu gömul sem við erum vitum við samt ‚ekki hvernig líf okkar mun verða á morgun. Því að við erum gufa, sem sést um stutta stund en hverfur síðan.‘ (Jakobsbréfið 4:13-15) Þar sem ‚tími og tilviljun mætir okkur öllum‘ getum við ekki vitað hve miklu lengur við eigum eftir að lifa. Biðjum því strax í dag um visku til að kljást við prófraunir, koma vel fram við aðra og gera okkar besta í þjónustunni við Jehóva. (Prédikarinn 9:11; Jakobsbréfið 1:5-8) Jehóva leiðbeinir okkur fyrir milligöngu Biblíunnar, heilags anda og skipulagsins. (Matteus 24:45-47; 1. Korintubréf 2:10; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Vitur maður ‚leitar fyrst ríkis Guðs og réttlætis‘ og notar ævidaga sína þannig að þeir heiðri Guð og gleðji hjarta hans. (Matteus 6:25-33; Orðskviðirnir 27:11) Vandamálin hverfa auðvitað ekki þótt við tilbiðjum hann af heilum hug en við öðlumst mikla gleði.
Blessun Jehóva veitir okkur gleði
20. (a) Hvernig ‚aumkast‘ Guð yfir menn? (b) Hvað gerir Jehóva ef okkur verður alvarlega á en við sýnum sanna iðrun?
20 Það væri stórkostlegt ef við gætum glaðst alla ævidaga okkar. Því biður Móse: „Snú þú aftur, [Jehóva]. Hversu lengi er þess að bíða, að þú aumkist yfir þjóna þína? Metta oss að morgni með miskunn þinni, að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.“ (Sálmur 90:13, 14) Guð gerir ekki mistök. En hann ‚aumkast yfir‘ óguðlega menn og ‚snýr aftur‘ frá reiði sinni og áformum um að refsa þeim þegar þeir hlusta á viðvörun hans, iðrast og breyta um viðhorf og hátterni. (5. Mósebók 13:17) Ef okkur yrði alvarlega á en við sýndum sanna iðrun myndi Jehóva ‚metta okkur með miskunn sinni‘ og þá hefðum við ástæðu til að „fagna.“ (Sálmur 32:1-5) Þegar við göngum á vegi réttlætisins skynjum við miskunn Guðs og getum ‚glaðst alla daga vora‘ — já, það sem eftir er ævinnar.
21. Hvað var Móse ef til vill að biðja um í Sálmi 90:15, 16?
21 Sálmaritarinn biður í einlægni: „Veit oss gleði í stað daga þeirra, er þú hefir lægt oss, ára þeirra, er vér höfum illt reynt. Lát dáðir þínar birtast þjónum þínum og dýrð þína börnum þeirra.“ (Sálmur 90:15, 16) Móse var ef til vill að biðja Guð að blessa Ísrael með gleði í stað þeirra daga sem þeir voru lægðir eða til jafns við árin sem þeir þoldu illt. Hann bað þess að þjónar Guðs fengju að sjá „dáðir“ hans og blessun og að dýrð hans birtist börnum þeirra eða afkomendum. Það er viðeigandi fyrir okkur að biðja þess að hlýðið mannkyn hljóti blessun í hinum fyrirheitna nýja heimi Guðs. — 2. Pétursbréf 3:13.
22. Um hvað getum við réttilega beðið samkvæmt Sálmi 90:17?
22 Nítugasta sálminum lýkur með þessari bón: „Hylli [Jehóva], Guðs vors, sé yfir oss, styrk þú verk handa vorra.“ (Sálmur 90:17) Þessi orð sýna að við getum réttilega beðið Guð að blessa viðleitni okkar í þjónustu hans. Hvort sem við tilheyrum smurðum kristnum mönnum eða erum í hópi félaga þeirra, ‚annarra sauða,‘ gleðjumst við yfir því að „hylli [Jehóva]“ hvílir yfir okkur. (Jóhannes 10:16) Það veitir okkur sannarlega gleði að Guð skuli ‚styrkja verk handa vorra‘ sem boðbera Guðsríkis og á öðrum sviðum.
Höldum áfram að telja daga okkar
23, 24. Hvaða gagn höfum við af því að hugleiða Sálm 90?
23 Að hugleiða 90. sálminn ætti að auka traust okkar til Jehóva sem er „athvarf“ okkar. Hverfulleiki lífsins ætti að gera okkur meðvitaðri um nauðsyn þess að Guð hjálpi okkur að telja daga okkar. Og ef við höldum áfram að leita eftir visku frá Guði og sýna hana í verki hljótum við örugglega miskunn hans og blessun.
24 Jehóva heldur áfram að kenna okkur að telja daga okkar. Og ef við förum eftir leiðsögn hans getum við haldið áfram að telja daga okkar að eilífu. (Jóhannes 17:3) En ef við ætlum að hafa eilíft líf fyrir augum verður Jehóva að vera athvarf okkar. (Júdasarbréfið 20, 21) Þetta kemur mjög skýrt fram í uppörvandi orðum 91. sálmsins eins og við munum sjá í næstu grein.
Hvert er svarið?
• Hvernig er Jehóva okkur „athvarf“?
• Hvers vegna getum við sagt að Jehóva sé alltaf reiðubúinn að hjálpa okkur?
• Hvernig hjálpar Jehóva okkur að „telja daga vora“?
• Hvað gerir okkur kleift að „gleðjast alla daga vora“?
[Mynd á blaðsíðu 9]
Jehóva var Guð „áður en fjöllin fæddust.“
[Mynd á blaðsíðu 10]
Metúsala varð 969 ára gamall en lifði þó ekki heilan dag frá sjónarhóli Jehóva.
[Mynd á blaðsíðu 12]
Jehóva ‚styrkir verk handa vorra.‘