Hvernig geturðu orðið náinn Guði?
Svar Biblíunnar
Þú getur kynnst Guði með því að fræðast um hann og síðan leitast við að þóknast honum. Þá mun Guð ‚nálgast þig‘. (Jakobsbréfið 4:8) Biblían fullvissar okkur um að hann sé „ekki langt frá neinum okkar“. – Postulasagan 17:27.
Hvernig kynnumst við Guði?
Lestu Biblíuna
Hvað segir Biblían? „Öll Ritningin er innblásin af Guði.“ – 2. Tímóteusarbréf 3:16.
Hvað þýðir það? Guð er höfundur Biblíunnar. Hann kom hugmyndum sínum til biblíuritaranna. Guð notaði þessa einstöku bók til að opinbera vilja sinn með okkur. Hann hefur líka opinberað ýmsar hliðar á persónuleika sínum eins og kærleika, réttlæti og miskunnsemi. – 2. Mósebók 34:6; 5. Mósebók 32:4.
Hvað getur þú gert? Lestu Biblíuna daglega. (Jósúabók 1:8) Hugleiddu það sem þú lest og veltu fyrir þér: Hvað kennir þetta mér um persónuleika Guðs? – Sálmur 77:12.
Lestu til dæmis Jeremía 29:11 og hugleiddu þessar spurningar: Hvað hefur Guð í hyggju fyrir mig – frið eða óhamingju? Er hann refsiglaður eða vill hann að ég eigi góða framtíð?
Skoðaðu náttúruna
Hvað segir Biblían? ‚Ósýnilegt eðli Guðs, hefur verið auðséð allt frá sköpun heimsins því að það má skynja af verkum hans.‘ – Rómverjabréfið 1:20.
Hvað þýðir það? Hið sýnilega sköpunarverk opinberar ýmsa þætti í persónuleika Guðs rétt eins og listaverk getur sagt okkur margt um listamanninn eða flókin vél um uppfinningamanninn. Til dæmis endurspeglar hæfni mannsheilans og margslungin hönnun hans visku Guðs. Orka sólarinnar og annarra stjarna, sem lúta lögmálum, sýna mátt hans. – Sálmur 104:24; Jesaja 40:26.
Hvað getur þú gert? Taktu þér tíma til að fræðast um náttúruna og veltu jafnframt fyrir þér: Hvað opinberar þessi stórkostlega hönnun í náttúrunni um Guð?a Auðvitað er margt sem náttúran getur ekki sagt okkur um skaparann. Þess vegna gaf hann okkur Biblíuna.
Notaðu nafn Guðs
Hvað segir Biblían? „Ég vernda hann því að hann þekkir nafn mitt. Hann kallar á mig og ég svara honum.“ – Sálmur 91:14, 15.
Hvað þýðir það? Guð heitir Jehóva og hann veitir þeim sérstaka athygli sem nota nafn hans af virðingu.b (Sálmur 83:18; Malakí 3:16) Guð hefur kynnt sig fyrir okkur með því að segja okkur frá persónulegu nafni sínu: „Ég er Jehóva, það er nafn mitt.“ – Jesaja 42:8.
Hvað getur þú gert? Notaðu nafn Jehóva þegar hann á í hlut.
Talaðu við Jehóva í bæn
Hvað segir Biblían? „Jehóva er nálægur öllum sem ákalla hann.“ – Sálmur 145:18.
Hvað þýðir það? Jehóva nálægir sig þeim sem biðja til hans í trú. Bæn er þáttur í tilbeiðslu sem sýnir djúpa virðingu fyrir Guði.
Hvað getur þú gert? Biddu oft til Guðs. (1. Þessaloníkubréf 5:17) Segðu honum frá áhyggjum þínum og tilfinningum. – Sálmur 62:8.c
Byggðu upp trú á Guð
Hvað segir Biblían?: „Án trúar er ekki hægt að þóknast Guði.“ – Hebreabréfið 11:6.
Hvað þýðir það? Til að nálægja okkur Guði þurfum við að trúa á hann. Samkvæmt Biblíunni merkir trú meira en að trúa á tilvist Guðs. Það merkir líka að treysta honum algerlega, þar með talið loforðum hans og siðgæðismælikvarða. Traust er grundvallaratriði í góðum samskiptum.
Hvað getur þú gert? Sönn trú er byggð á þekkingu. (Rómverjabréfið 10:17) Þess vegna skaltu kynna þér Biblíuna og fullvissa þig um að þú getir treyst Guði og leiðsögn hans. Vottar Jehóva eru meira en fúsir til að hjálpa þér að kynna þér hana.d
Gerðu það sem gleður Guð
Hvað segir Biblían?: „Að elska Guð felur í sér að halda boðorð hans.“ – 1. Jóhannesarbréf 5:3.
Hvað þýðir það? Jehóva er nálægur þeim sem sýna kærleika sinn til hans með því að leggja sig fram um að hlýða boðorðum hans.
Hvað getur þú gert? Þegar þú kynnir þér Biblíuna skaltu veita því athygli hvað Guði líkar og hvað honum mislíkar. Veltu fyrir þér hvaða breytingar þú getir gert til að þóknast skapara þínum. – 1. Þessaloníkubréf 4:1.
Upplifðu umhyggju Guðs með því að fara eftir leiðsögn hans
Hvað segir Biblían?: „Finnið og sjáið að Jehóva er góður.“ – Sálmur 34:8.
Hvað þýðir það? Guð býður þér að upplifa sjálfur góðvild sína. Þegar þú upplifir kærleika hans og góðvild langar þig að nálgast hann.
Hvað getur þú gert? Þegar þú lest Biblíuna skaltu fara eftir ráðum Guðs og upplifa hvernig það er þér til góðs. (Jesaja 48:17, 18) Skoðaðu líka raunsönn dæmi af fólki sem gat sigrast á mótlæti, fundið hamingju og bætt líf sitt og fjölskyldna sinna með hjálp Guðs.e
Ranghugmyndir varðandi það að þekkja Guð
Ranghugmynd: Guð er of voldugur og mikilvægur til að vilja vera nálægur okkur.
Staðreynd: Þrátt fyrir að vera voldugasta og mikilvægasta persónan í allri tilverunni býður hann okkur að nálgast sig. Biblían segir okkur frá konum og körlum sem urðu nánir vinir hans. – Postulasagan 13:22; Jakobsbréfið 2:23.
Ranghugmynd: Við getum ekki þekkt Guð af því að hann er leyndardómur.
Staðreynd: Það er erfitt fyrir okkur að skilja sumt sem varðar Guð, eins og að hann er ósýnileg andavera. En við getum samt kynnst Guði. Biblían segir reyndar að við þurfum að kynnast honum til að öðlast eilíft líf. (Jóhannes 17:3) Biblían notar hugtök sem við getum skilið þegar hún segir okkur frá skapara okkar, persónuleika hans , tilgangi hans með mannkynið og jörðina og siðgæðiskröfum hans. (Jesaja 45:18, 19; 1. Tímóteusarbréf 2:4) Eins og þegar hefur komið fram opinberar Biblían nafn Guðs. (Sálmur 83:18) Þannig getum við bæði þekkt Guð og nálgast hann. – Jakobsbréfið 4:8.
a Til að sjá dæmi um það hvernig viska Guðs birtist í náttúrunni sjáðu greinaröðina „Býr hönnun að baki?“
b Margir telja nafnið Jehóva merkja „hann lætur verða“. Með því að opinbera nafn sitt fyrir okkur er Guð í raun að segja: Ég mun láta tilgang minn rætast. Ég stend alltaf við orð mín.
c Sjá greinina „Hvers vegna ætti ég að biðja? Heyrir Guð bænir mínar?“
d Til að fá frekari upplýsingar horfðu að myndbandið Hvernig fer biblíunámskeið fram?
e Sjá greinaröðina: „Biblían breytir lífi fólks“.